Óvissuferðir

Langdregið samningaferli evrulandanna við Grikki virðist engan enda taka þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar um að þessu verði að ljúka innan ákveðins frests. Þjóðaratkvæðagreiðslan skilaði engri raunverulegri niðurstöðu þrátt fyrir að yfir 60% segðu nei. Áfram er samið og áfram eru bankar lokaðir. 

Svipaða sögu er að segja af öðru samningaferli þó það snúist um allt annað. Vesturveldin hafa sett viðskiptahindranir á Íran og reynt að fá fram samninga um að Íran fari ekki að framleiða kjarnorkuvopn. Enn er ekki ljóst hvort af samningi verði né hvað hann þýði í raun. Á meðan hafa önnur ríki hugsað sinn gang þeirra á meðal Saudi Arabía sem óttast að Íran muni á endanum fá kjarnorkuvopn; hver sem samningurinn verði eða verði ekki. Líklegt er að þeir séu þegar farnir að viða að sér þekkingu frá Pakistan og það setur svo aftur þrýsting á Írani heima fyrir. 

Bæði þessi samningsferli eiga það sammerkt að enginn botn virðist nást í málin. Það eitt og sér veldur óvissu í báðar áttir. Óvissan ein og sér veldur skaða og mun án efa verða dýrkeypt. Í öðru málinu varðandi framtíð og þróun Evrópu og í hinu málinu liggur hætta á enn skæðari átökum súnnía og síta. 


Kína er þungamiðjan

Hagvöxtur í Kína hefur verið drifin áfram af talsverðri skuldsetningu frá 2008. Fyrst opinberar framkvæmdir, þá húsnæði og loks nú síðast hafa menn fjárfest í pappírum (hlutabréfum).

Verð á félögum hefur farið með himinskautum og var meðalvirði tæknifyrirtækja komið í 220X árshagnað í vor. Tilraunir stjórnvalda til að hægja á bólunni komu of seint og nú eru tilraunir stjórnvalda til að mýkja hrunið að ganga illa. Ein aðgerðin felst í því að stöðva viðskipti með hlutabréf og eru ótrúlegar fjárhæðir nú frosnar á markaðnum. 

Hrun á verðbólunni kann að smita út frá sér. Nú þegar hefur söluþrýstingur á aðrar eignir valdið lækkun á hrávörum og fasteignum. Ef þetta heldur áfram getur Kína farið í Japanska átt til verðhjöðnunar. Það myndi breyta miklu fyrir heiminn í heild. 

Á Grikklandi búa 11 milljónir en í Kína 1.357. - Íbúar Grikklands eru innan við prósent af Kínverjum. Auk þess er Grikkland með um 2% af þjóðarframleiðslu Kína.

Í stóra samhenginu skiptir fátt annað máli nema Kína. 
Gildir þá einu hvort um sé að ræða verð á olíu, málmum, orku, lúxusvarningi, eða lánsvöxtum á heimsvísu. 

Nú er helst að menn treysti á að kommúnistaflokkur Kína bjargi kapítalismanum í Kína enda á hann tilvist sína undir að vöxturinn stöðvist ekki. 
Meðölin þurfa þó að vera sterk sýnist mér.


mbl.is Þriðjungur landsframleiðslu horfinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband