Krónan, tungan og sjálfstæðið

Það er í tísku að kenna íslensku krónunni um margt sem mönnum finnst aflaga í viðskiptalífinu. Og víst er það svo að stýrivextir eru háir. Reyndar afar háir. Skuldarar þurfa því að borga háa vexti og sparfjáreigendur fá á sama tíma ríkulega vexti. Rétt er að mælt í evrum eru hamborgarar og bjór frámunalega dýr munaður fyrir ferðamenn og yfirdráttarlán er með því hæsta sem þekkjast.

En hvað með aðra hagþætti?

Hvernig eru stóru mælistikurnar fimm; atvinnleysi, fjölgun starfa, verðbólga, hagvöxtur og kaupmáttur?

  1. Atvinnuleysi var 0,9% í ágúst sem er það minnsta í Evrópu
  2. Störfum fjölgar hratt sem sést vel á því að 832 ný atvinnuleyfi útlendinga í ágúst einum
  3. Verðbólga er 0,5% án húsnæðis eins og sést á þessu línuriti
  4. Hagvöxtur var 4,2% á síðasta ári sem er um tvöfalt á við fjölgun (sem þó var gríðarleg)
  5. Laun eru heilum 30% hærri hér en á Evrusvæðinu

Eru þetta ekki atriði sem skipta máli?
Er þetta tilviljun?

Það sem einkennir íslenskt þjóðfélag er frelsi umfram flestar aðrar þjóðir og hér mega menn nota erlendar myntir eins og Evru, Jen og Dal til að kaupa og selja fasteignir, fyrirtæki og taka lán. Þáttaka okkar í myntbandalagi Evrópu (eins og Björgvin G. Sigurðsson vill) eða tenging við Bandaríkjadal (eins og Guðni Ágústsson ýjar að) þarf að skoða vel áður við köstum krónunni.

--------

Annað atriði sem tengist sjálfstæði okkar og hefur verið í umræðunni og það er notkun íslenskunnar. Á sama tíma og við viljum að innflytjendur aðlagist íslensku samfélagi og læri íslensku færist það í vöxt að fyrirtæki noti ensku sem aðalmál. Vonandi verður þessi þróun til þess að fólk á Íslandi varðveiti tungu forfeðranna á sama tíma og við tileinkum okkur ensku í æ ríkara mæli. Svisslendingar eru dæmi um banka- og vatnsaflsþjóð sem hafa getað lifað með fleiri en eina tungu. En gleymum því ekki hvað íslenska tungan hefur gefið okkur. Ekki bara menningararf; heldur sameinað okkur sem þjóð. Þjóðarvitund Íslendinga er sterk og ég er alveg viss um það að það er styrkur okkar í alþjóðlegri samkeppni hvort sem um er að ræða í viðskiptum eða í samskiptum ríkja. Við eigum að bæta enskunám og enskunotkun, en kostum ekki íslenskunni.

Krónan og tungan, landhelgin og fjárræði íslenska ríkisins (og þá skattalegt sjálfstæði) eru allt atriði sem skiptu mjög miklu máli á síðustu öld þegar Íslendingar brutust út úr því að vera fátæk nýlenduþjóð yfir í að vera fyrirmynd í fjölmörgum málum.

Við ættum að huga að því sem gott er áður en við köstum því góða fyrir róða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Theódór Norðkvist

Verðbólga án húsnæðis er vægast sagt villandi þegar 30-40% af ráðstöfunarfé flests fólks fer í afborganir af húsnæðislánum. Enda sést á línuritinu sem þú vísar til að það er allt að fimmfaldur munur á vísitölu með og án húsnæðis.

Það er mikill munur á launum og launakostnaði. Launakostnaður hlýtur að vera heildarkostnaður við laun, þ.m.t. opinber gjöld af launum, tryggingagjald, mótframlag í lífeyrissjóð o.fl. Auk þess segja meðaltöl lítið, sérstaklega þegar talin eru með fátækustu löndin í Evrópu, eins og Portúgal og austantjaldslöndin.

Jafnvel þó laun hér væru 30% hærri en hjá Evrópubandalaginu þá er verðlag hér eflaust 70-80% hærra en þar.

Ég tek hinsvegar undir hugleiðingar þínar um íslenska tungu. 

Theódór Norðkvist, 29.9.2007 kl. 01:26

2 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Við eigum ekki að halda krónunni af þjóðerniskennd.

Velgengni í efnahagsmálum okkar hefur ekkert með tilvist krónunnar að gera, fremur þrátt fyrir hana.

Helstu rökin fyrir krónunni voru að miklar sveiflur í tekjum í verðmæti sjávarafurða voru okkur erfiðar. Landslagið í efnahagsmálunum hefur hins vegar breyst.  Við borgum tugi milljarða í fórnarkostnað árlega að halda uppi mynt sem nánast enginn vill hafa lengur.

Sá sem gæti helst tapað með tilkomu Evrunnar er Jón Guðmundsson í BYKO. Hvað gerir hann með Krónuverslanirnar?

Sigurður Þorsteinsson, 29.9.2007 kl. 09:04

3 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Sæll Eyþór

Las Morgunblaðið með kaffinu í morgun.

Þar er grein sem heitir "Efnahagsundur Glitnis eru efnahagshamfarir heimilanna", eftir Andrés Magnússon. Talið er að heimilin í landin borgi um 500.000 í viðbótarvexti árlega vegna krónunnar.

Í þessu ljósi er erfitt að raula bessuð sértu sveitin mín og  sjá krónuna í einhverjum hillingum.

Sigurður Þorsteinsson, 29.9.2007 kl. 10:45

4 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Ég er fylgjandi miklu frelsi í viðskiptum, þar á meðal í gjaldeyrismálum. Við höfum reynt fastbindingu við Dollara og myntkörfu, en hvorugt gafst vel. Evra verðu ekki tekin upp án inngöngu í EB og það er ekki vænlegt að bindast Evrópu, sem er siðferðilega og efnahagslega hnignandi.

Sigurður segir:

Við borgum tugi milljarða í fórnarkostnað árlega að halda uppi mynt sem nánast enginn vill hafa lengur.

Þessi fullyrðing er mikil fjarstæða. Þegar allt er talið, greiðum við líklega engan "fórnarkostnað" og allir vilja eiga Krónur, enda er gengi hennar stöðugt og í sögulegu samhengi hátt. Óskir um inngöngu í EB verða menn að styðja öðrum rökum, en með níði um Krónuna.

Loftur Altice Þorsteinsson, 29.9.2007 kl. 11:35

5 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Það er nú full seint að vilja ekki bindast Evrópu Loftur, þegar við erum nú þegar partur af innri markaði ESB! Það er fjarstæða að segja að gengi krónunar sé stöðugt, það er 42% munur á hæstu og lægstu stöðu raungengis krónunnar ef litið er til síðustu 6 ára, sem er óþolandi fyrir útflutnings-, sprota- og nýsköpunarfyrirtæki.

.

Fórnarkostnaður minn við að vera með krónu var 6% auknin lána minna í fyrra vegna verðtryggingar. Þessi kostnaður var áætlaður hálf miljón á hverja fjölskyldu á síðasta ári, þannig að öll þjóðin borgar fornarkostnað.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 29.9.2007 kl. 18:25

6 Smámynd: Björn Heiðdal

Í alþjóðlegum ólgusjó er best að gera eins og aðrir.  Því það er vitað mál að þeir sem tala hæst vita mest.  Það er alveg á hreinu meira að segja á kristaltæru að íslenskir alþjóðabankar með nöfnum sem engin útlendingur getur borið fram án þess að missa nokkur ár af ævi sinni vilja íslenskum almenningi vel.

Landsbank, Glitnir og Kjauptingbanki hugsa fyrst og fremt um hag almennings í landinu.  Þessir bankar vilja að ég og þú græðum og græðum.  Aldrei hefur mér dottið í hug að bankarnir hugsi fyrst um sjálfa sig og síðan kannski mig.  Aldrei.  Svo þegar einhver bankakall vill að Íslendingar tali íslensku bara heima hjá sér veit maður að þeir eru að hugsa um hag Íslands og Íslendinga.  

Við þurfum ekki að líta lengri en til Írlands eða Portúgals til að sjá hvað Evran getur gert manni gott og hvað íslenska tungan, ulla bara á þig, skilst illa eða bara alls ekki.  Shakespír væri ekki helsta skáld Breta ef hann hefði bara talað íslensku!  Bara með þessum litlu dæmum sjáum við hvaða fullnægingasæla bíður okkur ef við tökum upp Evru og ensku.

Björn Heiðdal, 29.9.2007 kl. 19:30

7 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Eins og sjá má á meðfylgjandi línuriti, hefur vísitala Krónunnar sveiflast innan marka 100% og 150%, síðustu 8 ár. Miðtalan er um 122%, sem merkir að á tímabilinu hefur vísitalan sveiflast innan 23% markanna (+/-23%). Mig grunar, að þetta sé ekki meiri sveifla en hjá öðrum gjaldmiðlum, þótt stærri séu.

Ég vísa ennfremur á eftirfarandi umfjöllun: Stöðugleiki er dauði !

Loftur Altice Þorsteinsson, 30.9.2007 kl. 11:54

8 Smámynd: Kjartan Pálmarsson

Ég á ekki krónu!

Já velkominn aftur, og takk fyrir snilldar takta á tónleikunum á Laugardalsvelli þann 17.ágúst.

Kjartan Pálmarsson, 2.10.2007 kl. 21:50

9 Smámynd: Jón Lárusson

Ef Euro (samkvæmt reglum ESB er bannað að kalla myntina eitthvað annað og þar sem menn vilja taka þetta upp, þá verða þeir að kyngja því) væri svona frábær mynt, afhverju eru þá Ítalir að tala um að taka aftur upp Líruna og Frakkar að bölsóttast út í Euro. Málið er að þessi ríki hafa áttað sig á því að með tilkomu Euro hafa þau misst valdið til eigin ákvörðunar í efnahagsmálum. Krónan er ekki algóð og fullkomin, frekar en við mennirnir, en hún er ekki alslæm og vond, frekar en við mennirnir.

Við upptöku Euro yrðum við fyrir almennum hækkunum, nokkuð sem Euro þjóðirnar hafa allar orðið fyrir. En ef þetta er spurning um viðskipti, þá er kannski best að taka þann fórnarkostnað. Hins vegar velti ég fyrir mér viðskiptum við Breta (pund), Dani (dönsk Króna) og Svía (sænsk Króna). Ég geri ráð fyrir að þessar þjóðir verði bara að vera utan okkar viðskiptasvæðis í framtíðinni. Svo veltir maður fyrir sér mögulegum alþjóðaviðskiptum utan Euro svæðisins. Dollarinn, sem nú er rendar í frjálsu falli gagnvart Euro, Yenið og Juanið. Fyrir utan allar hinar mynntirnar, eða ætla þessi ríki líka að taka upp Euro? Fyrir tuttugu árum hefðum við tekið upp Dollara, hefði Krónunni verið kastað fyrir róða þá. Í dag tala menn um Euro, en hvað verður rætt eftir 20 ár?

Við hljótum alltaf að vilja hafa vald yfir aðstæðum okkar og möguleikum. ESB aðild og Euro upptaka veita ekki það vald.

Varðandi verðbólgu án húsnæðisverðs, þá er það þannig að þetta er sú verðbólgutala sem lang flestar aðrar þjóðir nota, þannig að ef bera á sama epli og epli, þá þarf að gera það hér líka.

Jón Lárusson, 4.10.2007 kl. 21:27

10 Smámynd: Sigurjón

Gaman að sjá þig aftur á blogginu Eyþór.  Þetta eru góðar pælingar hjá þér, sérstaklega með íslenzkuna.

Sigurjón, 6.10.2007 kl. 21:36

11 Smámynd: Auðbergur Daníel Gíslason

Ég er alveg sammála þessu hjá Eyþóri, auðvitað verðum við að bæta málnotkun Íslendinga til muna. Ég er farinn að vera orðinn heldur leiður á því hversu óvandaða íslensku Íslendingar eru farnir að nota.

Sama gildir um krónuna ég er ákaflega hlyntur því að halda í hana þar sem að fyrr í dag(8. okt) var greint frá því að Íslendingar gætu ekki tekið upp Evruna nema með aðild að Evrópusambandinu sem ég vil meina að henti Íslandi ekki eins og staðan er í dag.

 Auðbergur D. Gíslason

14 ára áhugamaður um pólitík

Auðbergur Daníel Gíslason, 8.10.2007 kl. 22:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband