Klofið kaffibandalag í Kastljósi

Kastljósið í gær var fróðlegt, en það var í beinni frá FSu á Selfossi. Fulltrúar stjórnar og stjórnarandstöðu tókust á um landbúnaðar og utanríkismálin. Kastljósið beindist frekar að stjórnarandstöðunni, enda eru ólíkust sjónarmið þar og morgunljóst að kaffibandalagið býður fram margklofið í stórum málum. Samfylkingin og Frjálslyndir hafa einangrast og var sláandi að finna hvernig Samfylkingin er ein eftir í landbúnaðarmálum og var í raun upp við vegg gagnvart öllum öðrum framboðum. Almennt er sátt um landbúnaðarmálin, enda hafa þau þróast neytendum í hag. Árni M. Mathiesen orðaði það vel þegar hann benti á að nú væri markaður fyrir allar framleiðsluvörur bænda. Það er vert að minnast smjörfjallsins og kindakjötsgarðanna sem hlóðust upp á árum áður.

Utanríkismálin voru tekin fyrir á hlaupum og skautað yfir tvö atriði: Innflytjendamál og ESB.

Frjálslyndir virðast alveg einir í innflytjendamálum. Það mun skila þeim einhverjum atkvæðum, en virðist munu halda þeim úr ríkisstjórn sama hvernig kosningar fara. Geir H. Haarde afgreiddi innflytendaumræðuna í fyrradag með því að minna á að faðir hans er norskur að uppruna. Valgerður Sverrisdóttir minnti á að hún á erlendan mann. Vandi Frjálslyndra í þessari umræðu er að það eru engin veruleg vandamál sem hægt er að tengja við innflytendur í dag. Atvinnuleysið sem er helsta uppspretta óánægju með innflytjendur er ekki til á Íslandi.

Enginn flokkur er með ESB aðild á stefnuskránni. Þeir sem lengst ganga vilja skoða og mögulega kanna og þá fá þjóðina til að ákveða, en enginn vill taka beina afstöðu með ESB inngöngu. Ekki einu sinni Samfylkingin. En hvernig getur framboð sem kallar sig Íslandshreyfinguna vilja ganga lengt í átt til inngöngu í ESB? Íslandshreyfingin vill fara í ESB viðræður og kanna aðild strax og unnt er. Það skýtur skökku við af hálfu flokks sem vill tryggja náttúruauðlindir og kennir sig við Ísland, enda væri forræði okkar yfir náttúruauðlindum stórlega skert ef við færum í ESB. Árni Þór Sigurðsson frambjóðandi VG benti á að fullveldið væri verðmætt og blés á væntingar um varanlegar undanþágur okkur í vil. Þorgerður Katrín súmmeraði málið upp þegar hún benti á að enginn ábati er að aðild.

Til hvers þá að afsala sér sjálfstæði og ganga í samband sem enginn veit hvert er að fara?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Athygglisverðast fannst mér þó að sjá ósamstöðuna hjá Þorgerði og Valgerði í evrópumálum. Sjálfstæðisflokkur komin í hræðslubandalag með Frjálslyndum, en Framsóknarflokkurinn búinn að taka ábyrga og yfirvegaða ákvörðun. Glundroðinn hjá stjórnarflokkunum algjör og þegar til baka er hugsað var það sennilega ekki upphlaup hjá framsókn, þegar Sif vildi slíta stjórnarsamstarfinu fyrir mánuði síðan.

Tómas Þóroddsson, 11.4.2007 kl. 09:45

2 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Tómas:
Hvaða hræðslubandalag er það?

Hjörtur J. Guðmundsson, 11.4.2007 kl. 12:30

3 Smámynd: Þórir Kjartansson

,,Geir H. Haarde afgreiddi innflytendaumræðuna í fyrradag með því að minna á að faðir hans er norskur að uppruna. Valgerður Sverrisdóttir minnti á að hún á erlendan mann."

Heyrðu, hvað eru Frjálslyndir eiginlega að vandræðast.  Málið leyst í eitt skipti fyrir öll

Þórir Kjartansson, 11.4.2007 kl. 14:58

4 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Hræðslubandalag sjálf. og frjáls. sem þora ekki með nokkru móti að kanna aðild að E.S.B hræðslan við hið óþekkta.

Tómas Þóroddsson, 12.4.2007 kl. 02:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband