Grein Anne Sibert

Ég las grein Anne Sibert sem birtist á vefnum Vox en Anne er prófessor í hagfræði, sérfræðingur hjá Evrópuþinginu og fulltrúi forsætisráðherra í peningamálanefnd Seðlabankans. Greinin gengur út á tölfræðilega skoðun á litlum hagkerfum og færir greinarhöfundur rök fyrir því að Ísland eigi ekki að vera sjálfstætt. Nokkur hætta sé fyrir Grænland að feta braut í átt til sjálfstæðis.

Mér finnst nánast ósmekklegt að lesa þessa grein þegar horft er til þess að hér er fulltrúi í peningamálastefnunefnd Íslands tilnefnd af núverandi forsætisráðherra. Hér er greinilegur vilji til þess að fá erlenda stjórnendur í vaxandi mæli og innlima Ísland í ESB. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi söngur heyrist en á 19. öld voru margir Danir á þeirri skoðun að best væri að flytja Íslendinga af eyjunni alfarið.

Anne talar niður til Íslendinga og því miður eru sumir landa okkar tilbúnir að taka undir þann boðskap. Staðreyndin er sú Íslendingar sækja framhaldsmenntun meira til útlanda en flestar aðrar þjóðir og stunda meiri utanríkisviðskipti en velflestar þjóðir. Ég þekki það sjálfur á eigin skinni þar sem ég hef búið og starfað í London og San Francisco með íslenskum og alþjóðlegum fyrirtækjum. Fjölgun erlendra stjórnenda hér á landi og innganga í ESB gerir okkur ekki sterkari í þeim efnum nema síður sé.

Anne lætur ógert að nefna hve sterkt lítil hagkerfi standa víða. Nærtakt er að nefna stöðu Noregs og Luxembourg sem standa upp úr í Evrópu. Einu tölfræðilegu rökin sem Anne heldur frammi eru þau að meiri sveiflur séu á tekjum og neyslu smáríkja en eins og flestir sjá í hendi sér eru alltaf meiri frávik litlu mengi en stóru.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Hef ekki lesið þessa grein og vísa því bara í þína umsögn.

Sú spurning sem vaknaði er hvort Anne Sibert, fulltrúi í peningamálastefnunefnd Íslands, hafi ekki nefnt nein önnur rök til sögunnar en efnahagsleg rök.
Nefnir hún ekkert um t.d. önnur gildi sem fólkið í landinu eða þjóðin öll kann að hafa, eins og t.d. sjálfsákvörðunarrétt yfir högum sínum (svo langt sem það nær) og fleira í þeim dúr?
Ef svo er ekki þá hljómar þetta nú sem fremur grunnhyggin greining hjá sérfræðingnum og lítt til þess fallin að vera ráðgefandi fyrir það hvernig íslenska þjóðin ætti að haga sínum málum í heild, efnahagslega og félagslega svo nokkuð sé nefnt.

Kristinn Snævar Jónsson, 9.8.2009 kl. 19:48

2 Smámynd: Eyþór Laxdal Arnalds

Mæli með því að þú lesir greinina en mér finnst hún grunnhyggin eins og þú segir og ansi hrokafull líka:

http://www.voxeu.org/index.php?q=node/106

Eyþór Laxdal Arnalds, 9.8.2009 kl. 19:54

3 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Eyþór,

Ég get ekki lesið þetta út úr þessari grein.  Hvergi finn ég hana víka að því að Ísland, eða Grænland, eigi ekki að vera sjálfstæð ríki.  Hún sýnir hinsvegar fram á ýmsa ókosti sem fylgja smáríkjum, eitthvað sem smáþjóðir þekkja mjög vel.  Ég get heldur ómögulega sé að hún tali á nokkurn hátt niður til íslendinga. 

Mér fannst þetta nokkuð skilmerkileg grein fræðimanns, þó hún væri nokkuð stutt. Hún segir orðrétt "In this column, I argue that there is little economic justification for preferring small size and that there can be significant costs. I also argue that Iceland’s small size was probably a key factor in Iceland’s failure to stop its financial crisis."

Þetta hefur Ísland verið að ganga í gegnum með sameiningu sveitarfélaga undanfarin 20 ár eða svo.  Stærri einingar eru yfirleitt einfaldlega hagkvæmari heldur en smáar. 

Kannski sé ég þetta bara öðruvísi eftir að hafa búið erlendis síðustu 14 ár.

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 9.8.2009 kl. 20:00

4 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Noregur er ekki örríki heldur smáríki með olíu. Lúx er land í hjarta Evrópu, innan ESB með evru og þar tala menn öll helstu tungumál Evrópu og því hefur landið auðveldan aðgang að sérfræðingum og  starfsfólki í helstu nágrannalöndum.  Þetta eru því ekki góðar samlíkingar við Ísland sem er einangrað hvað varðar landfræði, tungumál og gjaldmiðil.

Þetta er góð grein og gott innlegg inn í umræðuna hér.  Við verðum að geta tekið erlendir gagnrýni á málefnalegum forsendum án þess að fara í þennan sífellda minnimáttarlás og grípa sí og æ í hvað Danir voru vondir við okkur og sendu okkur maðkað mjöl.  Er ekki kominn tími til að við gerum upp við Dani og hættum þessum sífellda barlómi.

Andri Geir Arinbjarnarson, 9.8.2009 kl. 20:31

5 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Þessi skrif Anne Sibert minntu mig á skrif annars Breta sem starfað hefur lengi á vettvangi Evrópusambandsþingsins þingmannsins Daniel Hannan. Skrifin eru úr grein sem birtist í Morgunblaðinu í desember sl.:

"Ég get upplýst ykkur um þá sorglegu staðreynd að afstaðan til ykkar er ömurleg í Brussel. Það er litið niður á ykkur. Daginn sem það lá fyrir að allir bankarnir ykkar höfðu lent í erfiðleikum komu þrír Evrópusinnaðir þingmenn á Evrópuþinginu til mín glottandi hver í sínu lagi: "Jæja Hannan, Íslendingarnir þínir eru ekki beinlínis að gera það gott þessa dagana, ha? Þeir sem hafa viljað standa utan við ESB. Þeir hafa alltof lengi fengið að hafa hlutina eftir eigin höfði, þeir áttu þetta skilið!"

Tilvist ykkar ein og sér sem sjálfstæð og velmegandi þjóð hefur skapað öfund í Brussel. Ef 300 þúsund manna þjóðfélag norður við heimskautsbaug getur náð betri árangri en ESB þá er allur Evrópusamruninn í hættu að áliti ráðamanna sambandsins. Árangur ykkar gæti jafnvel orðið ríkjum sem þegar eru aðilar að ESB hvatning til þess að líta til ykkar sem fyrirmyndar. Það er fátt sem ráðamenn í Brussel vildu frekar en gleypa ykkur með húð og hári.

Þið hafið valið. Þið getið orðið útkjálki evrópsks stórríkis, minnsta héraðið innan þess, aðeins 0,002% af heildaríbúafjölda þess. Eða þið getið látið ykkar eigin drauma rætast, fylgt ykkar eigin markmiðum, skráð ykkar eigin sögu. Þið getið verið lifandi dæmi um þann árangur sem frjálst og dugandi fólk getur náð. Þið getið sýnt heiminum hvað það er að vera sjálfstæð þjóð, sjálfstæð í hugsun og athöfnum sem er það sem gerði ykkur kleift að ná þeim árangri sem þið hafið náð á undanförnum áratugum. Hugsið ykkur vandlega um áður en þið gefið það frá ykkur."

Hjörtur J. Guðmundsson, 9.8.2009 kl. 20:48

6 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Það má annars ekki gleyma að margir og miklir kostir fylgja líka smæðinni (sem reyndar hefur minnkað mikið á liðnum árum og áratugum samhliða auknum mannfjölda) eins og stuttar boðleiðir bæði í stjórnkerfinu og þjóðfélaginu almennt, mikill sveigjanleiki í efnahagslífinu, o.fl. Þess utan, eins og nefnt hefur verið hér að ofan, verður verðmæti þess seint mælt að stjórna eigin málum sjálf.

Hjörtur J. Guðmundsson, 9.8.2009 kl. 20:52

7 Smámynd: Eyþór Laxdal Arnalds

Sæl Arnór,

stór ríki hafa líka fórnarkostnað og er það þekkt sérstaklega þar sem þau innihalda mjög ólík svæði eða hópa. Sovétríkin voru stór en það dugði skammt. Varðandi sameiningu sveitarfélaga þá tel ég reyndar að þar hafi ekki náðst sú hagræðing sem hefði átt að nást. Nefni sem dæmi að stjórnunarkostnaður Árborgar hefur vaxið um 50% á 2 árum en hefði átt samkvæmt teóríunni að minnka.

Andri: Ég var einmitt að reyna að vera málefnalegur og benda á að engin rök voru í greininni fyrir því að smáríki væru verri, bara að þau væru með meiri sveiflur en stór. Það er ekki minnimáttarlás að muna eftir sögunni heldur er það oft þannig að hún endurtekur sig. En heldur þú að það efli metnað ungs fólks að setja erlenda embættismenn í ráðuneytin og bankana? Er það ekki uppgjafastefna?

Eyþór Laxdal Arnalds, 9.8.2009 kl. 20:53

8 Smámynd: Eyþór Laxdal Arnalds

Arnór: Þú segir "Hvergi finn ég hana víka að því að Ísland, eða Grænland, eigi ekki að vera sjálfstæð ríki"

Í upphafi segir Anne: "As Greenland moves away from Denmark and acquires more autonomy, this column asks whether it might be too small."

og spyr svo varðandi Ísland: "– does the recent experience of Iceland suggest that a country can be too small to be a nation state,

Sem sagt er Ísland of lítið til að vera þjóðríki? - Rökin eru hins vegar lítil sem engin þrátt fyrir tölfræðileg frávik í neyslu og tekjum.

Eyþór Laxdal Arnalds, 9.8.2009 kl. 21:06

9 Smámynd: Þorsteinn Helgi Steinarsson

Þessi grein dæmir sig sjálf. Hún er full af bulli um smáríki, en kjarninn er væntanlega umræðan um DO og starfsmenn Seðlabankans sem hún gefur í skin að séu heimskir (í upprunalegri merkingu þess orðs). Samkvæmt hennar mati virka væntanlega opinberar stofnanir betur í stórum löndum eins og Kína, Indlandi og jafnvel Bretlandi og þessar þjóðir búa væntanlega því þegnum sínum betri kjör en t.d. Norðurlandaþjóðirnar.

Það sem mér þykir athyglivert er að þessi kona er fulltrúi forsætisráðherra í peningamálanefnd Seðlabankans. Þetta er þá væntanlega sú manneskja sem hvíslar í eyra Jóhönnu hvað henni eigi að finnast um sjálfstæði Íslands, krónuna og ESB.

Þar sem þessi kona hefur með þessari grein opinberað fáfræði sína og fordóma um Ísland þá þykir mér þessi staða hennar alvarlegt mál.

Þorsteinn Helgi Steinarsson, 10.8.2009 kl. 00:05

10 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Er þessi grein bara ekki skrifuð að beiðni yfirboðara hennar væri ekki ólíklegt að nafnlausi flokkurinn hafi beðið um svona greiningu

Jón Aðalsteinn Jónsson, 10.8.2009 kl. 00:12

11 Smámynd: Björn Birgisson

Vangaveltur Önnu Sibert um smæð ríkja skipta okkur Íslendinga engu máli. Við erum smáríki, höfum alltaf verið það og verðum alltaf. En við verðum að kunna fótum okkar forráð. Ráða í lykilstöður hæft fólk. Anna gefur greinilega lítið fyrir síðasta ellismellinn á elliheimili íslenskra stjórnmála, Seðlabankanum. Þú minnist ekkert á það Eyþór.

Björn Birgisson, 10.8.2009 kl. 02:54

12 identicon

Sæll Eyþór.

Við þurfum að fara að læra að taka ábendingum .

Mér fannst þetta ekki að tala niður til okkar. Frekar leiðbeiningar hvernig betur mætti fara ,nema að ég sé orðinn það sem er so vinsælt í dag

að kalla menn:Landráðamaður. Þá það. En svona leit ég á þetta við fyrstu sýn.

Kveðja.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 10.8.2009 kl. 03:09

13 Smámynd: Júlíus Björnsson

Danir voru vondir við okkur og sendu okkur maðkað mjöl.

 Þessi mistök gerðust einu sinni og komust í annála því til sönnunar. Jótar sem voru nær miðstýringunni fengu hinsvegar lítið sem ekkert mjöl.

Ég veit að þetta fær SamFo fram í sig þegar hún er komin á hausinn.  Þegar ég var erlendis komast ég að því að að menn geta einangrast í einni götu alla ævi. Ísland það að á reka á okkar míní EUefnahagsgrunni hráefna, orku og 1.stigs úrvinnslu hráefna á sömu verðum fyrir fullvinnslur allstaðar á  2000 þús manna stöðum þar dregið er úr vægi fjarlægða. Skera niður fjármálakerfið hérna hafa kostnaðinn hlutfallslega minnstan í heimi. Seðlabanki, Kauphöll, eignahaldfélög, keðjur og einokunar samtök þetta á allt að leysa upp í stað þúsunda lítilla einkaekina rekstra eininga í samkeppnigeirum 100 minnst eða helst. 

Fjármálaeftirlitið gegndi sannanlega ekki skyldum sínum. Hér fór vaxtamunur minnkandi og verðbólga var lítil sem enginn.

Júlíus Björnsson, 10.8.2009 kl. 03:57

14 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Eyþór,

Við eigum engra kosta völ en að fá erlenda aðila í bankana og stjórnsýslu landsins, tímabundið,  til að taka til og kenna næstu kynslóð fagleg og óháð vinnubrögð.  Að næsta kynslóð eigi engar aðrar fyrirmyndir en þá sem stóðu vaktin í hruninu og sömdu Icesave er ekki boðlegt.

Andri Geir Arinbjarnarson, 10.8.2009 kl. 06:58

15 Smámynd: Guðbjörg  Hrafnsdóttir

Anne talar niður til Íslendinga.

Af hverju ætli að það sé!

http://morgunn.blog.is/blog/morgunn/entry/928543/

Kveðja Guðbjörg

Guðbjörg Hrafnsdóttir, 10.8.2009 kl. 19:00

16 Smámynd: Ísleifur Gíslason

Styðjum Samtök Fullveldissinna og berjumst fyrir þjóðina.
http://l-listinn.blog.is/blog/l-listinn/

ÁFRAM ÍSLAND

Nei við Icesave  -  Nei við ESB

Ísleifur Gíslason, 10.8.2009 kl. 21:03

17 Smámynd: Júlíus Björnsson

Afstaða ráðandi fjölskyldna á meginlandi EU sér í lagi í gömlu nýlenduveldunum hefur alltaf verið sú sama og ósamræmaleg íbúum fámennrar eyju í Atlandshafi. Þið gerið það sem kemur ykkur best og látið okkur um stjórnsýsluna sem við erum best í. Ávinningurinn er að verða hluti af stóru efnahagsstjórnarkerfi samhlutfalslegra minni samleitinna efnahagsstjórnarkerfa með miðstýringu. Commission það er þóknunin kostar sitt.

EU ætlast ekki til að Íslenska yfirbyggingin sé eins eða jafn stór og t.d. Danmörku. Hún gerir kröfu til samhlutfallslegra samleitni á þroskaferli aðildar og leiðarinnar í evru. Nokkuð sem SAmFo virðist ekki hafa greind til skilja. Það þýðir hlutfallslega sami kostnaður og umfang stjórnsýslu.  Hér er innifalið löggæsla, heilbrigðiskerfi, menntunarkerfi, dómskerfi,... allt sem er á fjárlögum. Líka samningar við gervi einkafyrirtæki. 

Keðjur og dótturfyrirtæki m.a. draga úr öllum samkeppni möguleikum þjóðarinnar á heimamarkaði.  Halda stórum hluta þjóðarinnar í gervinámi þangað til það er komið úr barneign er eitt af úrræðum meginlandsins gegn atvinnuleysi í kjölfar hagræðingar.    Það er líka kostnaður sem verður að vera í hlutfalli inn í EU. Því minni sem Meðlimaríkin er m.t.t. heildarþjóðartekna því minni möguleikarg eru á að komast upp með að svindla á Miðstýringunni. Það er litið niður á höfðingjasleikjur og uppskafninga. Öll veikleikamerki eru í andstæðu við þann heraga sem gildir í ábyrgri stjórnun meiriháttar stórvelda.     

Júlíus Björnsson, 10.8.2009 kl. 23:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband