Fleiri vilja áfram sömu ríkisstjórn

Þorsteinn Pálsson skrifar góðan leiðara í Fréttablaðið í morgun þar sem hann bendir á að sennilega hafi úrslitin í íbúakosningunum í Hafnarfirði breytt umræðunni fyrir þingkosningarnar. Margir fengu útrás fyrir stopp-vilja sinn og enn fleiri fengu nóg af einhliða umræðu um umhverfismál. Allir eru sammála um að við þurfum að ganga betur um umhverfið og náttúruna, en sú nálgun þarf að vera yfirveguð og skynsamleg. Eitt af því sem ég hef tekið eftir er að núverandi ríkisstjórnarflokkar eru að sækja í sig veðrið í könnunum og umhverfisframboðin tvö hafa dalað hægri og vinstri. Hversu marktækt þetta er kemur í ljós 12. maí, en oft er það svo að Páskarnir móta skoðanir fólks þegar kosningar eru í maí. Þá hittist fólk og spjallar áður en kosningabaráttan hefst.

Hér á síðunni eru óformlegar og óvísindalegar kannanir. Ein þeirra er um stjórnarmynstur en ég hef tekið eftir því að jafnt og þétt fjölgar þeim sem velja DB umfram aðrar samsetningar og má segja að þar vilji fleiri sömu ríkisstjórn.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur líka sýnt enn frekari áherslu á umhverfismál og minnkar þannig sérstaða þeirra framboða sem hafa helst sótt styrk sinn í umhverfisvernd. Ég hef þá trú að þessi þróun hjá Sjálfstæðisflokknum sé komin til að vera, enda þróast flokkurinn rólega en örugglega.

Væntingavísitala Gallup segir talsvert um hug fólks til framtíðarinnar eins og hann mælist hverju sinni. Vísitalan hefur verið milli 140 til 149 stig sem er ótrúlega hátt.

Það er ekki gaman að vera í stjórnarandstöðu þegar landinn er svona bjartsýnn á framtíðina undir stjórn núverandi stjórnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband