Einar Oddur bráðkvaddur

Það eru mikil sorgartíðindi að Einar Oddur Kristjánsson skuli vera bráðkvaddur langt fyrir aldur fram. Einar Oddur var alla tíð sá stjórnmálamaður sem hlustað var á og þurfti engar sérstakar vegtyllur til þess. Hann var tilbúinn að hafa sjálfstæðar skoðanir og standa við þau gildi sem hann trúði á. Í mínum huga var Einar Oddur foringi sem vildi ná árangri fyrir þjóðfélagið Ísland. Þjóðarsátt er orð sem flestir tengja við persónu Einars Odds. Ábyrg ríkisfjármál eru annað hugtak sem kemur upp í hugann.

Heiðarleiki, stefnufesta og hugrekki einkenndu Einar Odd og þeir voru heppnir sem fengu að kynnast honum. Ég man vel þegar ég hitti Einar Odd fyrst, en það var á Sólbakka þegar ég kom þar 1986. Mér er ógleymanlegt hvernig miðpunktur Einar Oddur var. Menn voru sífellt að koma til hans og hlusta á hann, spyrja hann og rökræða. Styrkur hans var staða hans sem manns og það dró aðra að honum alla tíð. Það er mikið skarð fyrir skildi með skyndilegu brotthvarfi Einars Odds bæði fyrir stjórnmálin, aðstandendur og þá sem þekktu Einar Odd. - Hans er minnst um land allt.

Ég votta fjölskyldu og aðstandendum samúð mína.

Blessuð sé minning Einars Odds.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Mér varð mjög brugðið þegar ég heyrði að Einar Oddur væri fallinn frá. Ég minnist hans með þakklæti m.a. hversu hlýlegur hann var við mig þegar ég settist á þing í fyrra. Hann kíkti einnig til mín á skrifstofuna til að spjalla. Einar Oddur var góður drengur og afar duglegur þingmaður. Ég votta konu hans, dóttur og Illuga tengdasyni hans sem og allri fjölskyldu samúð mína.

Kolbrún Baldursdóttir, 16.7.2007 kl. 19:19

2 Smámynd: Sigurjón

Verður er hann að fá vísu sá karl í krapinu.  Skál fyrir minningu Einars Odds!

Sigurjón, 18.7.2007 kl. 21:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband