Fundir og mannfagnaðir

Karlakvöld U.M.F. Selfoss er orðinn fastur liður hjá mörgum. Kvöldið er í senn menningarhátið og fjáröflun fyrir knattspyrnudeildina sem nú er að uppskera vel. Í ár voru þeir Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra og Guðmundur Steingrímsson aðstoðarmaður borgarstjórans í Reykjavík ræðumenn og fjöldi gallvaskra pilta hlýddi á. Uppboðið á völdum munum og óvæntum var þó hápunkturinn enda boðnir upp hinir merkustu hlutir undir strangri stjórn Sigurðar Fannars Guðmundssonar sem beitti uppboðshamrinum með eftirtektarverðum limaburði. Keppnistreyjur afreksmanna seldust á háum prís, en svo voru málverk og t.d. hönnun á heilu einbýlishúsi sem VÁ verkfræðistofan gaf. Greinilegt að margir vilja styðja okkar menn.

Mikil umræða hefur verið um mætingar á annars konar fundi að undanförnu, en þess hefur gætt að slök mæting sé á fundi í nefndum hjá Árborg. Til bókanna hefur komið á fundum í bæjarstjórn og í bæjarráði, enda eru þess dæmi að heilu nefndirnar hafa ekki komið saman svo mánuðum skiptir. Rétt er að huga því hvort slíkar nefndir séu óþarfar.

Þá er framundan hátíðarkvöldverður í tengslum við aðalfund Óðins á Selfossi föstudaginn 9. nóvember. Verður hann á hótelinu og er tilefnið það að halda upp á 60 ára afmæli Selfoss jafnframt því sem aðalfundur félagsins er haldinn. Búast má við góðum gestum sem uppruna eiga frá Selfossi og munu heiðra fundinn. Meira af því síðar.

Það er því talsvert um fundi og aðra mannfagnaði sem lýsa upp í vetrardimmunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband