Tillaga um að taka yfir rekstur HSu

Á síðasta bæjarstjórnarfundi lögðum við bæjarfulltrúar D-listans til að skoðað yrði hvort Árborg gæti tekið yfir rekstur Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Ástæðurnar eru fyrst og fremst þær að þá sé hægt að samþætta þjónustuna betur, en auk þess er vilji til þess að heimamenn fái forræði yfir þessari mikilvægu þjónustu og geti þá forgangsraðað betur. Því miður var ekki vilji V, S og B lista til að skoða þetta frekar þó ljóst sé að hætta sé á enn frekari niðurskurði hjá ríkinu. Yfirfærsla grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga hefur í aðalatriðum gengið vel og er eðlilegt að skoðað sé hvernig heilbrigðismálin geti verið í auknum mæli heima í héraði. Þetta eru mörg sveitarfélög að skoða og hefur verið samstaða um það.

Hér er svo tillagan sem verður ekki að veruleika fyrsta kastið:

"Bæjarstjórn samþykkir að kanna möguleika á yfirtöku reksturs Heilbrigðisstofnunnar Suðurlands og verði bæjarstjóra og bæjarritara falið að óska eftir viðræðum við heilbrigðisráðuneytið, forsvarsmenn Heilbrigðisstofnunar og aðra hagsmunaaðila."  

Greinargerð:

"Mikilvægi Heilbrigðisstofnunnar Suðurlands fyrir íbúa sveitarfélagsins og nærsveita er mjög mikið. Á tímum niðurskurðar og óvissu er rétt að skoða þann kost að sveitarfélagið taki yfir rekstur stofnunarinnar frá ríkinu sem jafnframt myndi tryggja framlög til rekstursins. Um væri að ræða sjálfseignastofnun en sambærilegar hugmyndir hafa nú verið ræddar hjá öðrum sveitarfélögum. Fjögur sveitarfélög hafa nú þegar óskað eftir viðræðum við heilbrigðisráðuneytið um að taka við verkefnum í heilbrigðisgeiranum. Þetta eru Reykjanesbær, Hafnarfjörður, Mosfellsbær og Skagafjörður. Reykjanesbær hefur óskað eftir viðræðum við að taka yfir rekstur Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og auk þess hefur Vestmannaeyjabær leitast eftir sambærilegri yfirfærslu. Af viðbrögðum ríkisins að dæma er nú tækifæri til þess að sveitarfélög taki yfir þennan rekstur og geti þannig betur samþætt þjónustu varðandi hjúkrun og aðhlynningu en nú er; þegar tveir rekstraraðilar sinna oft sama einstaklingnum."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband