John Perkins, Michael Hudson og ofurvaxtastefnan í Silfrinu

Tveir viðmælendur Egils vöktu talsverða athygli í dag þó ólíkir séu en báðir vörpuðu þeir Perkins og Hudson sprengjum inn í umræðuna. Báðir vöruðu þeir við IMF og töldu að Ísland ætti ekki að standa við skuldbindingar sínar við útlönd.

Nú er það svo að ríkið var nær skuldlaust við útlönd í Október í fyrra en sífellt fleiri ábyrgðir hafa verið að færast í fang ríkisins. Ég hef aldrei sannfærst um rök fyrir því að íslenska ríkið eigi að gangast í ábyrgðir vegna Icesave eða annarra innistæðna umfram það sem lög og reglur segja til um. Nú fer vaxandi sú umræða að ríkið eigi ekki að taka á sig skuldbindingar umfram getu og nauðsyn. Þetta er stórpólítísk umræða sem hefur vikið fyrir umræðu um kosningar, landsfundi, stjórnarskrárbreytingar og smápólítískt skark.

Annað sem nefnt var af Michael Hudson var að lenging og frestun vandans væri skuldaranum í óhag en það eru einmitt slíkar aðgerðir sem helst hefur verið gripið til með greiðsluaðlögun, mildari gjaldþrotalögum einstaklinga og svo frystingu afborganna. Ekkert af þessu tekur á undirliggjandi vanda sem fellst í of háum skuldum og atvinnuleysi. Niðurfelling skulda á að koma til greina og hana á ekki að slá út af borðinu í fljótræði.

Svo eru það vextirnir en um þá var fjallað á vandaðan hátt ekki síst með innleggi Jóns Helga Egilssonar en hann og Kári Sigurðsson hafa skrifað vægast sagt athyglisverðar greinar um málið.  Vaxtastigið á Íslandi er nú orðið með þeim furðum að ekki finnast sambærileg dæmi á byggðu bóli. Verðhjöðnun er í gangi á ýmsum sviðum en samt eru stýrivextir 17% og vextir atvinnulífs og heimilanna yfir 20% á sama tíma og verðbólgan er minna en engin! Ofurháir vextir valda veikara efnahagslífi og því raun-veikari krónu auk þess að þessi stefna öll tryggir í raun fjöldagjaldþrot heimila og fyrirtækja. Ef rétt er sem sagt er að hávaxtastefnan veiki krónuna eru engin rök eftir til að viðhalda skrúfstykkinu nema kannski fyrir jöklabréfaeigendur sem fá vaxtagreiðslurnar útgreiddar í gjaldeyri.  

Vonandi verður þessi umræða til að menn líti upp úr skotgröfunum og horfi á stóru málin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Eyþór, 17% vextir í verðhjöðnun sem ef reiknað væri til eins árs, er rúm 5% þýða um 22% raunstýrivexti. Er það leiðin til þess að hvetja fyrirtæki til þess að auka starfsemi sína. Vaxtastig á síðasta ári jafnast ekkert á við þetta. Þetta er aðför að íslensku efnahagslífi.

Sigurður Þorsteinsson, 5.4.2009 kl. 21:02

2 Smámynd: Eyþór Laxdal Arnalds

Ég algerlega sammála þér Sigurður. Verðlag síðasta mánaðar á ársgrundvelli var um 7% og þannig eru þetta 22% sem er galið.

Eyþór Laxdal Arnalds, 5.4.2009 kl. 21:31

3 Smámynd: Róbert Viðar Bjarnason

Núna þarf pólitískt hugrekki til að taka á þessu.  VG töluðu mjög á móti IMF þegar var verið að ræða þetta í haust en núna þegar þau eru komin með völdin er ekkert rætt um annað en að skera niður og hækka skatta til að geta borga allar þessar erlendu skuldir "óreiðumanna"...  Það er náttúrlega á hreinu að Samfylking getur ekki talað um neitt svona þar sem svona mál gætu tafið okkar tafarlausu inngöngu í ESB.

Róbert Viðar Bjarnason, 5.4.2009 kl. 21:48

4 identicon

Heimska Ráðamanna á sér greinilega enginn takmörk

Dýpra sökkvum við öll saman á hverjum degi

Öskrað er á ráðamenn en þeir heyra vel en skilja ekkert

Ekki er hægt að lifa við þetta til lengdar

Hættið að borga þið sem eruð í þeirri aðstöðu það er ekki til neins

Skjaldborg um heimili er í raun lengjum í hengingarólinni

Andskotans

Kveðja

Æsir (IP-tala skráð) 5.4.2009 kl. 22:04

5 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Eyþór.

Ég sá ekki Silfrið, ætla að horfa á það í kvöld en ég get ekki annað en verið sammála þessum mönnum. Ég heyrði boðskap þeirra í fréttum rúv. 

Sendum Alþjóða gjaldeyrissjóðinn og hrægammana sem fylgja honum til síns heima.

Þessir menn eru án ef að ráðleggja okkur heilt. Þiggjum þeirra ráð eins og við þáðum ráð Evu Joly.

Egill Helgason á miklar þakkir skyldar.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 5.4.2009 kl. 22:19

6 Smámynd: Jón Á Grétarsson

Ég hugsa að ástæðan fyrir að borga icesave reikningana var daður við Evrópusambandið.

Núna í ljósi þess að bresk þingnefnd komst að því að aðgerðir Darling með því að setja á okkur terroristalög hafi verið of harkaleg, þá ættum við að neita að borga.

Færum svo vísitöluna aftur eða leiðréttum lánin um 20-25%.

Jón Á Grétarsson, 5.4.2009 kl. 22:28

7 Smámynd: Þór Saari

Sagan sýnir að s.k. greiðslufall þjóðar, (e. sovereign default) lokar aðgangi að alþjóðlegu fjármagni í um tvö til þrjú ár. Þremur árum eftir greiðslufall Argentínu árið 2001 (í fimmta sinn) voru lánskjör þeirra komin á par við meðaltal sambærilegra ríkja. 

Heimild, Financial Times, 16. mars 2009.

Þór Saari, 5.4.2009 kl. 23:00

8 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Það þarf að setja niður plan til nánustu framtíðar og fara eftir því. Vonandi verður nægilegt hugrekki í næstu ríkisstjórn til að setja hefann í borðið og segja: VIÐ BORGUM EKKI!!!

Aldrei í ESB

Haraldur Rafn Ingvason, 5.4.2009 kl. 23:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband