10.5.2009 | 19:58
Síðasti dagurinn í MBA náminu - valkostir í peningamálum
Síðustu tvö ár hef ég átt þess kost að stunda MBA með frábærum hópi fólks víða að úr atvinnulífinu. Námið er bæði gagnlegt og skemmtilegt. Úrval alþjóðlegra kennara setur svip sinn á námið og er kennslan í besta gæðaflokki. - Í gær var svo síðasti skóladagurinn minn.
Eitt af því sem hópurinn ræddi mikið var hrunið og endureisn Íslands. Hópurinn hóf nám haustið 2007 og útskrifast nú vorið 2009 og því er ekki óeðlilegt að mörgum steinum hafi verið velt í umræðum. Eitt af því sem kom út úr þessum umræðum er grein sem birtist í Morgunblaðinu 28. apríl síðastliðinn og fylgir hún hér:
Valkostir með mismunandi fórnarkostnaði
Frá hópi nema sem er í MBA- námi í HR
Frá hópi nema sem er í MBA- námi í HR: "VIÐ ERUM 55 manna hópur víðs vegar að úr atvinnulífinu, sem lýkur í vor MBA-námi frá HR. Við viljum við freista þess að útskýra með skýrum hætti valkosti Íslendinga í peningamálum. Megininntak skilaboða okkar er að allir valkostir hafa kosti og galla."
Grundvallarstaðreyndir
Það er ófrávíkjanleg staðreynd að ekkert ríki getur á sama tíma haft frjálsa fjármagnsflutninga, fastgengisstefnu og rekið eigin peningamálastefnu. Það gengur einfaldlega ekki upp og því verður eitthvað eitt af þessu þrennu ávallt að víkja. Ísland verður því að velja á milli eftirfarandi leiða:1) Frjálsa fjármagnsflutninga og fastgengi með upptöku annars gjaldmiðils einhliða. A) Evra B) US$.
2) Frjálsa fjármagnsflutninga og fastgengi með upptöku evru með ESB-aðild.
3) Sjálfstæða peningamálastefnu með ISK og fast gengi, en hefta fjármagnsflutninga til frambúðar.
4) Sjálfstæða peningamálastefnu með ISK og frjálsa fjármagnsflutninga, en fljótandi gengi.
Íslenska krónan er ekki raunhæfur valkostur
Íslenska krónan er því miður ekki framtíðargjaldmiðill í hnattvæddum heimi ef Íslendingar vilja njóta góðra lífskjara og taka þátt á alþjóðlegum vettvangi. Kostir við að halda í krónuna:* Sjálfstæð peningamálstefna og stefna í ríkisfjármálum Fórnarkostnaður miðað við fastgengisstefnu og höft á fjármagnsflutningum:
* Gjaldeyrishöft til framtíðar
* Lítil eða engin erlend fjárfesting
* Háir vextir vegna þess að Ísland verður talið áhættusamt land til fjárfestinga
* Hár viðskiptakostnaður. Fórnarkostnaður miðað við flotgengi og frjálsa fjármagnsflutninga:
* Landið er berskjaldað gagnvart spákaupmennsku
* Mikill óstöðugleiki og miklar gengissveiflur
* Fjármagnsflótti
* Háir vextir vegna þess að Ísland verður talið áhættusamt land til fjárfestinga
* Hár viðskiptakostnaður.
Niðurstaða: Sú leið að halda í íslenska krónu er illframkvæmanleg. Hún leiðir af sér einangrun og fátækt.
Raunhæfar leiðir, en ekki sársaukalausar
Þá standa fyrstu tvær leiðirnar eftir, sem hafa þá kosti að leiða til lægra vaxtastigs og lægri verðbólgu, auk þess sem Seðlabanki Íslands verður í raun óþörf stofnun. Á móti kemur kostnaður við að reyna að tryggja okkur fyrir áföllum. Þá mun skipta miklu á hvaða gengi myntskiptin fara fram, en sú ákvörðun mun hafa ólík áhrif á ólíka þjóðfélagshópa og atvinnugreinar.
Einhliða upptaka evru eða US$
Kostir:* Fljótlegt og tiltölulega einfalt í framkvæmd
* Höldum sjálfstæði í ríkisfjármálum
* Engin hætta á að missa yfirráð yfir náttúruauðlindum
* Þetta hefur verið gert í öðrum smáríkjum með góðum árangri
Fórnarkostnaður
* Engin lánveitandi til þrautar, ekki hægt að aðstoða banka í lausafjárskorti* Engin sjálfstæð peningastefna
* Líkur á að erlendir bankar verði að taka yfir stóran hluta af bankastarfsemi landsins
* Ekki gert í samvinnu við viðkomandi ríki og gæti því skapað óvild í garð Íslands.
Við einhliða upptöku evru bætist við sá kostur að evrusvæðið er stærsti einstaki markaðurinn fyrir útflutningsvörur Íslands og íslenska hagkerfið á meira sameiginlegt með hagkerfi evrusvæðisins en öðrum hagkerfum, sem auðveldar sveiflujöfnun. Á móti kemur eindregin andstaða ESB-ríkja við hugmyndinni, sem gæti skapað verulega óvild í garð Íslands. Við einhliða upptöku US$ er það kostur að mikilvægar innflutningsvörur, eins og t.d. olía, eru verðlagðar í dollurum, eins og mikilvægar útflutningsvörur eins og ál. Þá hafa ýmis ríki tekið upp US$ einhliða án refsiaðgerða. US$ er jafnframt enn útbreiddasti gjaldmiðill heims. Á móti kemur að mikilvægar útflutningsgreinar nota evru fyrst og fremst í viðskiptum.
Upptaka evru með ESB-aðild
Kostir:* Evrópski seðlabankinn er bakhjarl og lánveitandi til þrautar.
* Ísland fær fullan aðgang að ákvarðanatöku ESB og verður fullur þátttakandi í Evrópu.
* Aukinn stöðugleiki og betra rekstrarumhverfi til lengri tíma litið fyrir íslensk fyrirtæki og heimili.
* Líkur á að hagsveiflur landsins verði meira í takt við Evrópu.
Fórnarkostnaður
* Tekur a.m.k. nokkur ár, en yfirlýsingin ein og sér hefði einhver áhrif.* Tíminn sem tekur að fá fulla aðild að evru gæti verið mjög erfiður fyrir íslenskt efnahagslíf.
* Göngumst undir Maastrich-skilyrðin, sem hefta mjög sjálfstæði Íslands í ríkisfjármálum.
* Missum yfirráð yfir auðlindum þjóðarinnar og stjórnun á nýtingu þeirra umdeilt atriði.
Lokaorð
Það er ljóst að íslenska krónan dugar okkur ekki lengur. Þá eru nokkrir kostir í stöðunni. Færa má rök með og á móti þeim öllum, en afstaða manna mun ráðast af því hversu þungt einstakir kostir og gallar vega í huga þeirra. Við tökum ekki afstöðu hér, enda ólíkar skoðanir að finna í okkar hópi. Við hvetjum hins vegar til þess að upplýsingar um þessi mál séu settar fram með skýrum og fordómalausum hætti. Margar erfiðar ákvarðanir eru framundan. Nú eftir kosningar verður að vinna hratt og örugglega að því að koma peningamálum Íslands í öruggan og trúverðugan farveg.Aðgerðaleysi er dýrasti kosturinn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:07 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Eyþór, og til hamingju með námslokin.
Þetta er ágæt greining um valkostina í gjaldeyrismálum. Við höfum séð umræðuna um einhliða upptöku vs. evruvæðingu með aðild að ESB, sem geysaði hvað mest fyrir áramót. Upphafleg hugmynd Ársæls Valfells og Heiðars Guðjónssonar gekk út á að við einhliða upptöku þyrfti aðeins að skipta út seðlum og mynt; aðrar krónur í kerfinu eru "rafrænar" og yrði breytt í "íslenskar evrur" innan bankakerfisins. Nú er hins vegar ljóst að talsverður þrýstingur er til flótta út úr landinu með lausafé, bæði hjá jöklabréfaeigendum og íslenskum sparifjáreigendum og eigendum ríkisbréfa. Þar sem allir vita að ekki eru til "raunverulegar evrur" í nægu magni til að skipta "íslensku evrunum" í, myndast fangaþversögn (prisoner's dilemma) þar sem best væri fyrir alla að sitja á strák sínum en engu að síður myndu þeir sem fyrstir svíkja samstöðuna vera hólpnir. Því er ljóst að fljótlega myndi verða að grípa til hafta til að stöðva umbreytingu "íslenskra evra" yfir í "raunverulegar evrur", og við værum á byrjunarreit eða reyndar verr stödd en áður, þar sem gjaldeyrisforði væri þá sennilega orðinn uppurinn.
Er ekki ljóst að einhliða upptaka annars gjaldmiðils gengur ekki upp, þegar af þessum praktísku ástæðum? Gjaldeyrisforðinn dugir einfaldlega ekki til skiptanna, og langt frá því. Það yrði alltaf að viðhalda höftum og þá snýst málið í reynd bara um nafnbreytingu á gjaldmiðlinum, enga raunverulega nýja stöðu.
Ertu ósammála þessari greiningu?
Með bestu kveðjum.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 10.5.2009 kl. 20:20
Margt til í þessu Vilhjálmur. Það er rétt að krónur þær sem vilja út er aðalástæða gjaldeyrishaftanna og því þarf að finna á þeim lausn. Vandinn er meðal annars sá að hér er um að ræða svo háar fjárhæðir.
Einhliða upptaka er ekki gallalaus en vandinn við ESB er að það er ekki víst að innganga gangi upp vegna annara mála. Af þeim sökum þykir mér full djarft að horfa á ESB sem einu leið okkar í gjaldmiðilsmálum. Hvað gerist ef það gengur ekki upp eins og margt bendir til? Hvað gera bændur þá?
Til að skoða einhliða upptöku í kjölinn þarf að finna farveg fyrir "útrásarkrónur" (uppboð, fjárfesting á Íslandi eða annað) en það sem í boði er í dag eru ríkistryggðar innistæður á ofurvöxtum sem hlýtur að teljast besta leiðin til að viðhalda jöklabréfum og öðrum krónum sem vilja út inni í kerfinu. Ein aðferð við að taka upp nýjan gjaldmiðil er sú að viðhalda ákveðnu magni af gamla gjaldmiðlinum samhliða líkt og gert var í Evrópu þegar evran var tekin upp en þá voru frankinn og markið áfram á sama tíma um skeið.
Eyþór Laxdal Arnalds, 10.5.2009 kl. 20:58
Gekk ekki fínt með krónuna og frjálsum fjármagnsflutningum þangað til allt hrundi og það uppgötvasðist að við höfðum gleymt að ganga frá lausum endum ?
Krónan er ágæt og hún hefur dynamíkina sem við þurfum af því að við stöndum ESB svo langtum framar í vaxtarkrafti. Við getum bara eki notað lélegan gjaldmiðil eins og evru þegar við verðum með þrefaldan hagvöxt á við evrópuslullarana.
Halldór Jónsson, 10.5.2009 kl. 22:09
Það er óþolandi þegar menn eru sífelt að kasta ryki í augu fólks með því að vísa til auðlinda okkar í fleirtölu. Þú veist alveg eins vel og ég að þjóðir hafa ekki þurft að afsala sér auðlindum sínum við inngöngu í ESB. Áhverju ættu þær þá að lifa? Heldur MBA neminn virkilega að þjóðir eins og Bretar og fleiri hafi staðið við dyr ESB og afhent einhverjum öðrum yfirráðarétt yfir olíunni og kolunum? Hvurslags endemis della. Þessir nemar 50 talsins eru greinilega einhverir vinir þínir úr Sjálfstæðisflokknum, heimskan vellur úr hverjum brunni miðað við þetta plagg. Hvers vegna segið þið auðlindIR en ekki eins og satt er að við þyrftum einungis að semja um flökkustofna í sjávarauðlindINNi. Þ.e. loðnu, makríl og kolmunna? Þetta er algjörlega oþolandi þegar verið er vísvitandi verið að reyna blekkja fólk.
Valsól (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 12:50
@Halldór: Það gekk ekki fíntmeð krónuna þar til allt hrundi. Krónan hefur alltaf verið veik og leitt af sér verðbólgu og þar afleiðandi nauðsynlega verðtryggingu. Krónan hefur þjónað hagstjórnarmistökum ágætlega, en verið böðull almennings. Það er engin sanngirni í því að Íslendingur skuli þurfa að greiða 120 milljónir tilbaka af 30 milljóna húsnæðisláni á meðan Evrubúar greiða kannski 60 milljónir. Almenningur á betra skilið en þessa Íslensku krónu sem heldur öllum í skuldafangelsi frá lántöku og svo að segja til æviloka.
@Eyþór: Eyþór, það hlýtur að hafa verið erfitt fyrir þig að fara úr umhverfi afturhalds í xD yfir í MBA nám þar sem flestir eru vel gefnir, framsýnir einstaklingar. Þú hlýtur að hafa lent í því að smám saman mála þig út í horn með þínar xD lausnir í peningamálum þjóðarinnar. Niðurstaða verkefnisins er áhugaverð - Ekki tekin afstaða, en kallað eftir aðgerðum. Voru fleiri en þú sem komu í veg fyrir að tekin var afstaða? Strandaði verkefnið á Sjálfstæðismanninum með rökþreyttu afturhaldsskoðanirnar?
Einar Solheim, 11.5.2009 kl. 13:40
Mér finnst þessi greining ekki ná alla leið. Það sem þarf að stýra eru útlán bankakerfisins undir sambærilegri peningamálastefnu og nú er. Vaxtastjórnun virkar ekki, um leið og vextir eru komnir upp/út fyrir vaxtalandslagið í heiminum almennt þá byrjar ballið. Þá fer að streyma inn fjármagn eingöngu vegna vaxtamunar - sem á sér enga forsendu í framleiðslu eða verðmætasköpun í hagkerfinu. Þarna liggur rótin. Með þessu er verið leggja drög að gengissveiflum, óstöðugleika, tækifærum fyrir spákaupmenn, tækfærum til árása og síðan fjárflótta þegar ballinu lýkur. Háir vextir hafa síðan lítið sem ekkert að gera með verðbólgu innanlands.
Einhverra hluta vegna hafa íslendingar aldrei kosið að horfa á útlán bankakerfisins og tengja útlánaþenslu við verðbólgu eða önnur vandamál. Á óðaverðbólguárunum prentuðu ríkisbankarnir peninga á færibandi til að halda í við launahækkanir og kostnaðarauka í samfélaginu, reglulegar gengisfellingar fylgdu síðan í kjölfarið. Á síðustu árum fóru útlán bankakerfisins úr böndunum, og steininn tók úr eftir einkavæðingu bankanna. Bankakerfið ER hluti af stjórn peninga- og efnahagsmála. Einn sá stærsti í raun og engin vitræn niðurstaða verður úr nema það sé tekið til grein. Mörg erlend ríki sitja nú í merkilega svipaðri súpu og við vegna viðlíka sprengingar í útlánum. Útlánum sem fóðruðu eignabólur, en ekki verðmætasköpun.
Komumst við eitthvað áfram í umræðum um stjórn peningamála án þess að taka þetta til greina?
Kv. og til lukku með námslokin.
Ólafur Eiríksson, 11.5.2009 kl. 14:06
Ég tók 18 miljón króna verðtryggt lán í íslenskum krónum til 40 ára. Ég þarf að borga það 17 falt til baka, þ.e. 300 miljónir þegar upp er staðið. Takk fyrir það Sjálfstæðismenn! Verðtrygging verður aldrei tekin af ef við höngum á krónunni því enginn banki vill lána peninga út á krónu sem flöktir við minnsta tilefni, bankinn lánar ekki nema verðtryggingin sé til staðar. En ef við göngum í ESB, þá getum við losað okkur við verðtrygginguna og lækkað vexti niður í 3%. En nei, af því að Sjálfstæðisflokkurinn vill einkavinavæða auðlindirnar okkar og er hræddur um að útlendingar myndu kaupa ef við værum í ESB. Þeir eru nefnilega ekki búnir að klára allar eigurnar, þeir eiga eftir að koma restinni af auðlindunum í hendurnar á vinum sínum, eftir það verða þeir til í að fara í ESB, en ekki fyrr. Þess vegna vildu þeir ekki að auðlindamálið færi í stjórnarskránna.Með vinstri stjórn verður engin hætta á því að auðlindirnar fari á eitthvert flakk. Þeim verður komið í skjól í stjórnarskránni fyrir vörgum úr Sjálfstæðismafíunni.
Valsól (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 15:37
Taka upp dollar er algjörlega út úr öllu korti, að við förum að herma eftir Argentínu í þeim málum. Hvað er eiginlega verið að kenna ykkur þarna upp í HR?
Valsól (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 15:39
Sæll Eyþór,
Er ekki sammála að krónan dugi okkur ekki lengur. Get ekki skilið að menn einblína á krónuna en geta ekki séð að hagstjórnin seinustu 20 ár hefur verið snar gölluð og beinlínis búið til eignabólur bæði á fasteignamarkaði og á hlutabréfamarkaði. Seinustu 10 árin hafa ríkisstjórn og seðlabanki unnið á móti hvor öðrum þannig að annað eins hefur maður ekki séð í hinum siðmenntaða heimi. Hvaða gagn er í því að seðlabankinn er að reyna að minnka peningamagn í umferð þegar ríkistjórn eykur það. Hvernig var með þessa glórulausu útgaáfu krónubréfa. Ruglið er þó ekki einskorðað við Ísland en mótorinn í alþjóða viðskiftum hefur einfaldlega ekki starfað rétt. Vextir hafa verið allt of lágir sem skapast af skortsölu á jeni og kaupum kínverja á bandarískum skuldabréfum. Þetta hefur ítt vaxtastiginu niður í heiminum og nóg af peningum og kvatt til vitlausrar fjárfestingar. Þegar þetta fór að valda verðbólgu og hækkandi vöxtum kom bara í ljós hversu vitlaus fjárfestingarnar voru. Íslendingar voru svo bara ennþá að staupa sig þegar festið var í hámarki og því fór sem fór. Það er gaman að velta fyrir sér hvernig bankakerfið þar sem ég bý (Danmörk) er gamaldags miðað við ísland. En þegar ég var að segja kunningjum og vinum hvernig það virkaði fór þetta fólk að hlæja. Bankar á norðurlöndum eru almennt miklu varkárari en bankarnir á íslandi þó þett hafi breyst frá því ég sótti um fyrsta yfirdráttin minn hérna (4000 dkr.) sem kostaði arm og leg. Þá kynda verðbætur sennilega undir þessa vitleysu þar sem lánveitandi er alltaf tryggur með sín útlán.
Ég er að vinna við fjárfestinu og las á sínum tíma (2003-2004) alltaf greiningu Deutche bank. Í þeim greiningum kom alltaf fram að það versta í náinni framtíð væri að skulda mikið en á þessum tíma horfði ég upp á landann vera að skuldsetja síg með feikna hraða. Þessi greining deutche bank virðist vera að ganga eftir og fólk í umvörpum að missa húsin sín um allan heim. En við gefumst ekki upp nú á að reyna að örfa hagvöxt með lækkun vaxta um allan heim. Nú eru bara aðstæður öðruvísi en áður nú eru flest heimili í heiminum mikið skuldsett en áður en seinasta hagsveifla hófst höfðu heimilin sparað í langan tíma og voru lítið skuldsett. Menn verða líka að athuga það að ríkisstjórnir um allan heim verða að fjármagna þessa peninga sem hent hefur verið í bankakerfið og það verður ekki gert með öðru en skattahækkunum eða útgáfu ríkisskuldabréfa. Báðar þessar leiðir valda minnkun hagvaxtar og hækkun vaxta. Held að við höfum náð að stoppa algert hrun kerfisins en sé ekki hvernig við komum til með að skapa hagvöxt. Það verður alla vega ekki gert með því að ganga í ESB en þú getur horft á glæsilega stöðu margra ríkja innan þess sambands eða hitt þá heldur. Nei Ísland á að halda krónunni og gerast stór matvælaframleiðandi og nota orku landsins til matvælaframleiðslu í stað þess að framleiða ál. Hlustaðu nú og sannreyndu síðar. Í framtíðinni verður BARIST UM BRAUÐIÐ í fullri merkingu þess orðs. Þess vegna eigum við ekki að taka neina áhættu að missa yfirráð yfir auðlindum landsing en Lissabon samkomulagið leggur upp til slíkra hluta.
Hörður Valdimarsson, 11.5.2009 kl. 16:23
Eins og kveðið var; í hverri stöðu felast ógnir og tækifæri. SB umræðan verður ein skemmtilegasta umræða sem hér hefur átt sér stað og í fyrsta sinn þurfa Íslendingar að leggja fram langtímastefnu sem nær lengra en eitt kjörtímabil. Vandinn þar er að í kjölfar lausfjárkreppu dregur úr neyslugetu neytenda sem samt sem áður vilja ekki draga saman seglin. Nú veit ég ekki hvort hægt sé að negla mynt fasta við körfu, en hver yrði staðan ef ISK yrði samsetning EUR/USD/JPY? Það með væri búið að negla út sveiflur þar sem þessar myntir vinna gegn hvorri annarri. Líklega snælduvitlaus hugmynd en ég er forvitinn að vita hvort þetta myndi ganga upp og ef ekki, hvers vegna.
Snorri Hrafn Guðmundsson, 11.5.2009 kl. 16:33
Sæll Snorri, greining á næmi íslenska hagkerfisins gagnvart mismunandi gjaldmiðlum er nauðsynleg til að við skiljum stöðuna. Það er rétt sem þú vísar til að við erum með mest viðskipti við EU löndin (enda með EES samninginn) en þegar nánar er að gáð kemur í ljós að við erum að notast meira við USD. Má hér nefna innkaup á bauxite, kolum, olíu og flugvélum og svo útflutning á áli (sem er skráð í USD) og svo er hlutfall fisks í USD um 1/2 á móti EUR. Þá er rafmagn selt ca 70% í USD en ekkert í EUR.
Eyþór Laxdal Arnalds, 11.5.2009 kl. 18:08
Ég geri ráð fyrir því Eyþór að þessi blaðagrein sé vangaveltur ykkar nemenda og kennarar hafi ekki farið yfir hana. Þarna eru alvarlegar villur, sem kennari hefði varla sleppt í gegn. Sérstaklega er áberandi að mörg mikilvæg atriði vantar. Eftirfarandi virðist mér mikilvægast:
1. Þríhyrningurinn (fastgengi - frjálst fjárstreymi - sjálfstæð peningastefna) sem þið birtið er of einfaldur til að túlka þá kosti sem eru fyrir hendi. Þannig má nefna að fastgengi er ekki mögulegt nema undir Myntráði. Til lengri tíma litið, er enginn munur á "handstýrðu flotgengi" eða "tylltu gengi" (pegged exchange rate). Hvort tveggja flokkast undir "torgreinda peningastefnu" (discretionary monetary policy) og er ávallt stjórnað af Seðlabanka. Formleg Dollaravæðing er ekki fastgengi, heldur "hreint flotgengi", án stjórnar Seðlabanka eða Myntráðs.
2. Af þessu leiðir að eftirfarandi kostir eru í boði:
Innlendur gjaldmiðill, sem studdur er alþjóðlegum gjaldmiðli (USD, EUR?).
"Reglu-bundin peningastefna" (rule-bound monetary policy).
Innlendur gjaldmiðill, án stoðmyntar (IKR, EUR).
"Torgreind peningastefna" (discretionary monetary policy).
Formleg Dollaravæðing (USD, EUR?)
"Reglu-bundin peningastefna" (rule-bound monetary policy).
3. Við sjáum að kostir a) og c) eru skilgreindir svipað, enda er formleg Dollaravæðing afbrigði af fyrirkomulagi Myntráðs og alltaf að einhverju leyti til staðar undir Myntráði. Ef aðstæður (Samfylkingin) hræða almenning til að skipta úr innlenda gjaldmiðlinum yfir í stoðmyntina, færist peningakerfið úr a) og endar að lokum í c).
4. Evra með Evrópusambands-aðild er undir valkosti b). Eini munurinn á því peningakerfi og því sem við höfum núna, er að myntsvæði Evrunnar er miklu stærra en Krónunnar.
5. Ég tek undir lokaorð ykkar, að "aðgerðaleysi er dýrasti kosturinn". Jafnframt er það eindregið mín skoðun, að "reglu-bundin peningastefna" hafi alla kosti umfram "torgreinda peningastefnu". Af þeim tveimur kostum sem þá standa til boða, er "fastgengi undir stjórn Myntráðs" betra en að fara beint í formlega Dollaravæðingu. Raunar er hvort tveggja, að nokkru leyti til staðar undir Myntráði.
Loftur Altice Þorsteinsson, 12.5.2009 kl. 14:51
Eyþór, á þessari síðu Seðlabankans má finna uppfærða viðskiptavog bankans, þar sem fram kemur hlutdeild hinna ýmsu mynta í inn- og útflutningi landsins. Bandaríkjadalur er með 11% af vegnum inn- og útflutningi, meðan evra er með 45% og DKK með 8% til viðbótar (DKK er í ERM II ramma með evru), samtals 53%. Samtals eru EES lönd með um þrjá fjórðu af utanríkisverslun okkar.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 12.5.2009 kl. 21:51
VARÚÐ!!! MYNTRÁÐSMENGUN!
Einar Solheim, 12.5.2009 kl. 21:54
Ef Valsól veit um einhvern stað í Evrópubandalaginu þar sem hægt er að fá óverðtryggð lán í evrum á 3 % vöxtum, þá þætti mér gaman að vita hvernig hæstu innlánsvextir í Þýzkalandi geta verið 4.99 %. Ég veit hinsvegar að útlánavextir til fyrirtækja í evrum í Þýzkalandi eru um 15 % og uppúr eftir gæðum fyrirtækjanna. Hvernig heldur hann að Þjóðverjar spari ?
Krónan var þrælgóð árum saman í tóð Sjálfstæðismanna, Það var jafnvægi á markaðnum.
Vaxtastefna Seðlabankans var auðvitað röng og kynti undir erlendar lántökur meðan ekki var tekið á útlánagetu bankanna sem byggðist á erlendum lántökum þeirra. Seðlabankinn hafði vopnin til þess en notaði ekki.
Afspyrnuléleg bankastjórn í Kaupþingi til dæmis og glæpsamlegt ábyrgðarleysi þeirra getulausu hálfvita sem þar réðu rikjum, í útlánum og blekkingum krosseignatengsla leiddi til falls þess húss, alveg án tilverknaðar Sjálfstæðisflokksins, því þarna voru framsóknarmenn að verki. Bankafallíttin voru alveg ópólitísk enda eru peningar ópólitískir með öllu. Það er menn hinsvegar ekki.
Verðtryggða krónan okkar er stórkostlegasti gjaldmiðill í heimi. Sterkastur og mestur. Ef við notum hann rétt. Hvar í veröldinni er hægt að varðveita sparifé nema í krónum ?
En Valsól er auðvitað fyrirmunað að hugleiða það öðruvísi en í gegnum kommagleraugun sín..
Ég er algerlega ósammála Eyþóri í því að krónan sé ónýt. Fremur minnkar álit mitt á MBA náminu hans í HR við þessi orð en hitt .
Halldór Jónsson, 12.5.2009 kl. 21:58
Snorri Hrafn Guðmundsson, 13.5.2009 kl. 00:38
Sæll Halldór
Valsól er væntanlega að tala um lán til íbúðareigenda. Hérna í danmörku eru lán til kaupa á íbúðum um 5 prósent en vextirnir eru lægri ef lánið er tekið í evrum. Til gamans má þett geta að þegar ég keypti mitt fyrsta hús hér í danmörku fyrir ca 4 árum var ég með 3 prósent lán. Ég hef ekki heyrt um þessi háu lán til fyrirtækja sem þú talar um í þinni athugasemd.
Að halda því fram að sjálfstæðismenn hafi stuðlað að einhverju jafnaði á markaðnum er einfaldlega rökleysa. Sjálfstæðisflokkur, framsóknarflokkur og samfilking hafa setið í seðlabanka og ríkisstjórn seinustu 20 ár. Á fyrstu árum þessarar aldar Var Davið í ríkisstjórn og Birgir Ísleifur í seðlabanka. Á þessum tíma var jafnan rifist mikið um stýrivexti og fannst Davíð að Birgir geni full rösklega fram. Málið var hins vegar það að Birgir hefði átt að ganga ennþá lengra. Af þessum orsökum lenti seðlabanki á eftir í kúrfunni eins og maður segir á fagmáli. Seinna þegar Davíð var orðinn bankamaður sá hann þetta að sjálfsögðu og viðurkenndi í fyrstu ræðu sinni sem bankamaðu.
Haldór hvar í heiminum hefur þú séð seðlabanka og ríkisstjórn vinna á ´móti hvor öðrum. Hvar í heiminum hefur þú séð að ríkisstjórn lækki skatta í mestu uppsveiflu sem verið hefur. Nei Haldór á Íslandi hefur verið vitlaus hagstjórn í langan tíma. Menn komust bara upp með þetta þar sem það var nægur aðgangur að ókeipis fjármagni í heiminum. Þegar þessi aðgangur var ekki lengur fyrir hendi, hrundi kerfið.
Að lokum. Stjórnmálamenn eiga að sjá um spilareglurnar, það gerðu þeir ekki þess vegna fór sem fór. Þegar kindin fer í kálið þá refsar þú fjárhirðinum en ekki kindinni.
Hörður Valdimarsson, 13.5.2009 kl. 08:41
Augljós og fyrirliggjandi valkostur í peningamálum er að stjórna þeim. Í raun höfum við enga reynslu af fljótandi krónu, réttara er að tala um slys frá því hún var sett á flot.
Ólafur Eiríksson, 13.5.2009 kl. 18:29
Íbúðalán eru alveg eins á Íslandi. Verðtryggð með 4.9 % vöxtum. Verðtrygging líkist danskri krónu eða evru nema að verðbólga kemur líka í verðtrygginguna.
Ríkisstjórnin vann ekki á móti seðlabankanum, það var þenslan vegna Kárahnjúkanna sem keppti við Seðlabankann. Og svo það að hann snerti ekki óbeizlaðan slátt bankanna í útlöndum.
Vextirnir einir og sér keyrðu áfram krónubréfin, sem voru stórkostleg lífskjarabót fyrir almenning, sem fékk ódýra neyzluvöru.
Svo kom bara krassið og þá segirðu eins og fyllibyttan sem vaknar eftir að hafa drukkið sig dauðan, að það hefði verið betra að drekka flöskuna í þremur áföngum, þrjú hæfleg kenderí gefa ekki heilflösku-hangover.
Við kunnum ekki að stjórna okkur í góðæri ÍSlendingar, við eru svoddan indjánar sem drekka sig mígandi svo lengi sem nokkur dropi fæst.
Halldór Jónsson, 13.5.2009 kl. 22:17
Eyþór: Takk fyrir að koma af stað og hýsa þessa málefnalegu og lifandi umræðu um þetta mikilvæga mál!
Ásgeir Rúnar Helgason, 14.5.2009 kl. 11:21
Eftir fréttir dagsins um að sendifulltrúi AGS sé á öndverðum meiði við peningastefnunefnd Seðló um framhald vaxtalækkana, er ég allt í einu farinn að sjá glóru í þýðingarfjólu Lofts Altice Þorsteinssonar: "torgreind peningamálastefna"
Vilhjálmur Þorsteinsson, 14.5.2009 kl. 22:58
Vilhjálmur, ég fagna sérhverjum sem sér ljósið !
Loftur Altice Þorsteinsson, 14.5.2009 kl. 23:33
Já til hamingju Eyþór/sammála um að það er betra seint en aldrei að sjá ljósið,/Halli gamli
Haraldur Haraldsson, 18.5.2009 kl. 21:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.