Veggjöld eru þegar lögð á bensínið

Hugmyndir um vegtolla hafa verið rökstuddar með því að þeir greiði fyrir þjónustuna sem nota hana. Án vegtolla sé ríkið að greiða fyrir vegaframkvæmdir án sérstakra tekna.  Þessi rökstuðningur stenst þó ekki skoðun þegar haft er í huga að ríkið innheimtir nú þegar bensín- og olíuskatt af öllu því eldsneyti sem notað er á almennar bifreiðar. Reyndar má segja að út frá umhverfissjónarmiðum sé bensínskatturinn heppilegur þar sem þeir sem mest nota af eldsneyti borga eðli málsins samkvæmt meira en hinir. Vegtollur gerir þetta síður. 

Framkomnar hugmyndir um vegtolla virðast mér vera nýr aukaskattur sem eigi að bætast við fyrri skatta sem eru lagðir á bifreiðanotkun. Nær væri að eyrnarmerkja ákveðinn hluta eldsneytisskattsins til nýframkvæmda. Á Íslandi hefur sá skattur verið í gildi lengi og því varasamt að setja nýjan til viðbótar. Ef menn vilja tryggja að notkun sé rétt mæld er sjálfsagt mál að setja upp mælingar og skuggagjöld. Slíkar mælingar geta þá verið grunnur að verkefnafjármögnun vegna einstakra vegabóta.

Sveitarstjórnarmenn eiga að fara varlega í að gleypa nýjar hugmyndir um nýja skatta á samgöngur. Sú leið að leggja þá vegtolla sem víðast og "jafna" þannig aðstöðumuninn er ekki góð jafnaðarmennska. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er vinstri stjórn og því eðlilegt að lagðir séu skattar á sem flest. Auðvitað er þetta bara aukinn skattur, það er getur enginn haldið öðru fram. Sjálfsagt verður svo lögð einhver gjöld á gjaldið og að sjálfsögðu kemur 25,5% söluskattur ofan á allt saman.

Það er bráðnauðsynlegt að koma þessari stjórn frá áður en það er um seinan.

Gunnar Heiðarsson, 6.4.2010 kl. 12:04

2 Smámynd: Þórarinn Baldursson

Það er tómhiggjan sem ræður,þaðgerir enginn neitt í því að koma þessari glötuðu stjórn frá.Menn blogga bara um það og rífast frammi í eldhúsi,en það gerist ekkert með því.

Þórarinn Baldursson, 6.4.2010 kl. 13:32

3 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Eins og þú bendir á Eyþór þá hefur verið hér um langt skeið skattar sem skattleggja notkun bifreiða eftir því sem þeir eru notaðir. Þetta eru skattar sem lagðir eru á bensín og olíu.

Því meira sem þú notar bílinn og því stærri bíl sem þú ekur um á, því meira borgar þú í skatt.

Ef menn vilja skattleggja þá sem nota vegakerfið þá er ekki hægt að finna sanngjarnari leið en þetta bensín- og olíugjald.

Vandamálið í dag er að þetta bensín- og olíugjald er ekki að fara í það sem það á að fara í. Stjórnvöld eru að "stela" þessu fé og eru að nota það til annarra hluta en setja það í vegagerð. Þess vegna er verið að finna nýjar leiðir til að skattleggja enn frekar notkunina á vegakerfinu af því að það er búið að taka peningana sem áttu að fara í vegakerfið í annað.

Nú á að tvískatta notkunina á vegunum með því að setja á vegtolla.

Vegtolla sem lenda fyrst og fremst á landsbyggðinni. Leggja á aukagjald upp á 200 kr fyrir hvern sendibíl sem ekur með matvörur frá vöruhöfnunum í Reykjavík út á land, svo dæmi sé tekið.

Vilji menn leggja enn frekari skatt á notkun vegakerfisins þá er miklu sanngjarnara gagnvart landsbyggðinni að hækka bensín- og olíugjaldið. 

Að leggja skatt á allar akstursleiðirnar út úr Reykjavík er þó skref í átt í ákveðins réttlætis þar sem slíkur skattur hefur verið lagður að Vestur- og Norðurlandi í rúman átatug á meðan aðrir landshlutar hafa hingað til sloppið við slíka tvísköttun og fengið allar sínar vegabætur greiddar úr sameiginlegum sjóðum landsmanna.

Enda flestir sammála því í dag að gjaldið um Hvalfjarðargöngin er ein mesta félagslega mismunun sem nokkrum landshluta hefur nokkurn tíma verið boðið upp á og ótrúlegt að það gjald skuli enn vara við líði nú þegar hin félagslegu öfl í samfélaginu eru við stjórnvölin.

Það að skattleggja allar akstursleiðir út frá Reykjavík jafnar vissulega þessa stöðu gagnvaart Vestur- og Norðurlandi. Þá sitja allir landshlutar jafnt í súpunni.

Ef sjónarmiðið er það að íbúar Höfuðborgarsvæðisins eiga að greiða minna í vegagerð á landsbyggðinni þá er þetta leiðin að landsbyggðin verði skattlögð sérstaklega með vegatollum.

Mér hugnast þessi leið ekki. Það á hér eftir sem hingað til að vera þannig að allir, hvar sem þeir búa, þeir leggja fé til að byggja upp vegakerfið í kringum um landið. Þetta vegakerfi þjónar hagsmunum okkar allra hvað varðar atvinnurekstur eins og flutninga á fiski, ferðaþjónustunni o.s.frv. Það er allra hagur að á landsbyggðinni sé gott vegakerfi og við eigum ekki að leggja það aðallega á fólkið á landsbyggðinni að borga þessar framkvæmdir.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 6.4.2010 kl. 14:00

4 Smámynd: Magnús Þór Friðriksson

Ég vil ekki trúa því að þessar hugmyndir verði að veruleika fyrr en ég tek á því.. Ég er einn þeirra fjölmörgu sem býr fyrir austan fjall og sæki vinnu á höfuðborgarsvæðið. Þessar hugmyndir myndi einfaldlega leggja á mig og aðra í sambærilegri stöðu 100.000 viðbótarkostnað á ári, og hefur sá kostnaður þegar tvöfaldast á tveimur árum.

Ef fram fer sem horfir, þá fer að borga sig að láta segja sér upp í vinnunni og sitja heima á atvinnuleysisbótum. Það er ekki vænleg leið út úr kreppunni.

Varðandi "skattlagningu" Vest- og Norðlendinga , þá er gamli vegurinn ennþá í boði án vegtolla, fólk á kost á því að sleppa því að fara um Hvalfjarðargöng.

Magnús Þór Friðriksson, 6.4.2010 kl. 21:14

5 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég held að það sé misskilningur að gjöld á eldsneyti og vörugjöld af bílum séu ekki notuð til samgöngumála að öllu leyti.

Útgjöld til samgöngumála eru um 33 milljarðar skv. fjárlögum 2010 (áætlun.) Tekjur af notkun samgöngutækja eru um 29 milljarðar.

Ríkið er því að borga umfram tekjur til samgöngumála.

Theódór Norðkvist, 7.4.2010 kl. 00:21

6 Smámynd: Halldór Jónsson

Í Bandaríkjunum kostar besínið 100 kall lítrinn. Þar leggja menn mikið af vegum og láta umferðina borga fyrir veginn. Þar dettur mönnum ekki í hug að setja gps í hvern mann til að stjórnvöld geti staðsett hann. Þar eru tollhlið þar sem þú borgar. Þú getur líka keypt E-pass þar sem tölva les notkunina um leið og þú brunar í gegnum tollhlið. Hinsvegar standa þér alltaf aðrar akstursleiðir opnar milli staða ef þú vilt ekki borga fyrir notkunina á fína veginum.

Hér dettur ráðamönnum eins og Siglufjarðarstrumpinum aldrei í hug að horfa neitt annað en til föðurlanda sósíalismans í Evrópu. Þrefalda bensínverðið með sköttum fyrst og tvöfalda bílverðið með tollum og setja svo girðingar á akstursleiðir til að skattleggja alla sem eiga erindi á milli A og B. Engin hjáleið heldur byssa ræningjans.

Þetta er liðið og sá hugsunarháttur sem er að keyra okkur inní Evrópusambandið með góðu eða illu. Það er ólíft í landinu við þetta lið í ríkisstjórn.Engin von, ekkert !

Halldór Jónsson, 8.4.2010 kl. 08:06

7 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Magnús

Það eru ekki boðleg rök að benda Vest- og Norðlendingum að aka fyrir Hvalfjörðinn vilji þeir ekki borga í göngin á sama tíma og men aka "frítt" um göngin fyrir vestan, austan og norðan ásamt því að aka "frítt" upplýsta Reykjanesbrautina til Keflavíkur.

Það er álíka mikil rökleysa og setja vegatolla á Hellisheiðina og benda Sunnlendingum að aka Mosfellsdalinn og Grafninginn vilji þeir ekki borga vegtoll á heiðinni.

Þetta mál snýst um jafnrétti og að íbúum þessa lands sé ekki mismunað í skattheimtu eftir því hvar þeir búa. Ekki með hvaða krókaleiðum þeir hugsanlega geta komist heim til sín.

Sæll Theódór

Axel Jóhann Axelsson heldur því fram á síðunni sinni sjá hér, að einungis 20% af því sem innheimt er af bíleigendum fer til vegaframkvæmda en 80% er "stolið" til annarra verkefna ríkisins. Svipuðu hefur FÍB haldið fram í mörg ár. Þar fyrir utan þá eru engir 30 milljarðar að fara í vegaframkvæmdir á þessu ári. Samgönguráðuneytið fær í allt 39 milljarða á þessu ári. Þar af fara í Vegamál 19 milljarðar. Sjá hér. Í þessum nítján milljörðum er rekstur á öllu batteríinu, viðhald, snjómokstur og ferjur.

Á bls 138 í fjárlagafrumvarpinu sjálfu sjá hér, þá á að setja í framkvæmdir 8.976 milljónir. Lítið sem ekkert af því fé hefur enn skilið sér í útboðum á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Allar líkur eru á að núverandi stjórnvöld ætli sér ekki að standa við þessi fjárframlög til vegagerðar. Þess vegna vilja þau leggja á nýja skatta til að geta framkvæmt eitthvað.

Theódór, ekki grípa á lofti einhverjar tölur sem stjórnvöld eða fulltrúar þeirra láta frá sér. Þetta fólk gerir því miður í því að segja "rangt" til um hlutina. Talar t.d. um að í ár sé verð að vinna að framkvæmdum við Suðurstrandarveg fyrir svo og svo marga milljarða þó svo upphæðin eigi við allt verkefnið sem hefur verið í gangi síðustu þrjú ár og verður í gangi næstu tvö árin. Ekkert er nefnt hvað akkúrat á að setja í verkefnið á þessu ári.

Oft hefur verið reynt að slá ryki í augu fólks með gáleysislegri meðferð á tölum en aldrei sem nú. Vegagerðin virðist t.d. hætt að tala um hve mikið fer til vegagerðar í ár. Þar á bæ er bara talað um hvað framkvæmdir sem taka mörg ár kosta og reynt að láta almenning halda að miklu meira sé í gangi en er í raun.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 8.4.2010 kl. 12:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband