Að spara eyrinn en henda krónunni

Staða bæjarsjóðs Árborgar er grafalvarleg og er almennt ekki um það deilt þó einstaka frambjóðandi reyni að halda öðru fram. Fyrri umræða um ársreikning 2009 fór fram 14. apríl og þá birtist staðan um áramót. 

Tölurnar tala sínu máli: 

 

  • Tap upp á 606 milljónir af bæjarsjóði
  • Handbært fé minnkar um 571 milljónir og stendur í 374 mi ljjónum í lok árs. Stór hluti þess er þó bótafé vegna jarðskjálftanna og því vafasamt að telja það fyllilega "handbært". 
  • Eigið fé verður neikvætt síðar á þessu ári enda minnkaði það um 600 milljónir á síðasta ári og stóð í 400 milljónum um áramót. Þar með verður bæjarsjóður tæknilega gjaldþrota rétt eftir kosningar. 
  • Skammtímaskuldir eru 1627 milljónir.

 

Til að taka á þessum mikla vanda hefur meirihlutinn farið í ýmsar aðhaldsaðgerðir en sumar þeirra vekja spurningar um hvort um raunverulegan sparnað er að ræða. Má hér nefna þá ráðstöfun að loka leikskólarýmum sem hafa verið í rekstri. Þó þessi ráðstöfun minnki launakostnað eitthvað standa lánin eftir sem hvíla á bæjarsjóði vegna bygginganna og því er heildarsparnaðurinn lítill. Á móti kemur tjón vegna þess að foreldar geta skyndilega ekki sótt vinnu og svo óbeinn kostnaður vegna neikvæðrar ímyndar sem þessi ákvörðun veldur. Við sem sitjum í minnihluta lögðum til að leikskólarnir væru fullmannaðir og þessi mönnun væri fjármögnuð með niðurskurði í yfirstjórn sveitarfélagsins. Þessu var hafnað og enn eru vannýtt rými. Í staðinn eru gefin fyrirheit um að þetta verði lagað næsta haust - en þá verður komin ný bæjarstjórn. 

Þá hefur verið hætt að bjóða gestum í Sundhöll Selfoss upp á kaffi og laugunum lokað á frídögum eins og um Páskana og á sumardaginn fyrsta. Þessi sparnaður er ekki mikill en hefur svo sannarlega neikvæð áhrif á þá sem búa hér og ekki síður gesti. 

Fjölmörg dæmi eru um hve illa hefur verið farið með fé hjá núverandi bæjarstjórn og eru mörg dæmi um það. Dýr mistök hafa verið gerð með samningum sem ekki hafa verið sveitarfélaginu hagfelldir. Margt stendur hálf- eða óklárað. Gæluverkefni hafa verið dýr og misráðin. Frægt varð þegar bæjarsjóður keypti Pizza 67 og ölstofu í Pakkhúsinu til þess eins að geta rifið húsið. Enn er þó höggvið sem knérunn og nú með áformum um að byggja kaffihús í fuglafriðlandinu.

Ekki vissi ég að til væru peningar í það.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

 það er ekki ölll vitleysan eins

Ásdís Sigurðardóttir, 27.4.2010 kl. 12:29

2 Smámynd: Heimir Tómasson

Það er greinilega eintóm grenjandi hamingja í gangi þarna. Ég sé að ég má ekki seinni vera að flytja á Selfoss aftur, svona fyrst ég keypti hús þar í vetur.

Nei annars, ég ætla að hinkra þangað til að það er komin önnur bæjarstjórn. Ég legg ekki í þessa.

Heimir Tómasson, 29.4.2010 kl. 22:58

3 Smámynd: Sigurjón

Sæll Eyþór.

Það er slæmt að bæjarstjórnin geti ekki skorið niður við sig, en sker niður ódýra, en mikilvæga hluti.  Það er ekki seinna vænna en að moka þessu liði út og ég hlakka til að sjá úrslitin í vor.  Ég veit alla vega hvert mitt atkvæði fer...

Kv. Sigurjón

Sigurjón, 30.4.2010 kl. 15:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband