Þegar Steingrímur var á móti Leifsstöð...

Þegar Leifsstöð var áformuð óttaðist Steingrímur J. Sigfússon að flugstöðin yrði allt of stór, en í umræðunum var gert ráð fyrir 12 þús m2. Í dag er stöðin yfir 55 þús m2 ef ég man rétt og er verið að stækka hana sífellt. Hér að neðan má sjá flutningsræðu hans þar sem Steingrímur J. leggur til að hún verði skorin niður all verulega.
Reyndar segir Steingrímur fullum fetum að flugstöðin sé svo hlægilega stór að litið verði á Íslendinga sem kotunga fyrir bragðið....hvað hefði hann sagt ef áformin hefðu verið eitthvað nálægt þörfinni sem hefur komið fram?

Ýmislegt er týnt til svo sem hætta á að millilandaflug milli Evrópu og USA færi fram hjá Íslandi og svo miklar áhyggjur af því að glerið í byggingunni verði ekki þétt og svo sé betra að fljúga til útlanda frá innanlandsflugvöllunum. Þá sér Steingrímur fyrir sér vaxandi ferðalög með farþegaskipum þar sem landinn tæki með sér bílinn í fríið.

  1. Hvar væri ferðamannaiðnaðurinn í dag ef þessi sjónarmið hefðu ráðið för?
  2. Hvernig gætu íslensk fyrirtæki stundað öfluga útrás sem byggist upp frá Íslandi ef ekki væru daglegar flugsamgöngur um Leifsstöð? 

Hér er svo gullmoli dagsins:

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

"Herra forseti. Mætti ég spyrja, herra forseti, áður en ég hef að mæla fyrir till., hvort hæstv. utanrrh. sé af landi brott eða er hér í salnum einhver sem gegnir þá því virðulega embætti fyrir hans hönd ef svo er. (Forseti: Ég veit ekki betur en hæstv. utanrrh. sé í landinu. Það mun verða athugað.)

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. sem ég flyt ásamt hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni og Skúta Alexanderssyni og er þetta 145. mál Sþ. Till. er um að hanna minni og hagkvæmari flugstöðvarbyggingu á Keflavíkurflugvelli í stað þeirrar sem nú er áformað að reisa. Sjálf tillgr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að í stað þess að halda áfram framkvæmdum við fyrirhugaða flugstöðvarbyggingu á Keflavíkurflugvelli verði þegar í stað hafin hönnun minni og hagkvæmari flugstöðvar sem Íslendingar reisi sjálfir. Skal að því stefnt að fyrsti áfangi slíkrar byggingar komist í notkun fyrr en núgildandi áform ríkisstj. um fyrirhugaða flugstöðvarbyggingu gera ráð fyrir.

Því fé sem skv. fjárlögum er áformað að nota til byggingarframkvæmda á næsta ári verði varið á eftirfarandi hátt:

Til að hanna minni og hagkvæmari byggingu sem hægt er að reisa í áföngum.

Til kaupa á öryggistækjum og búnaði fyrir flugsamgöngur.

Til uppbyggingar flugvalla fyrir innanlandsflug.

Til annarra forgangsverkefna í samgöngu- eða félagsog menningarmálum.

Á fjárlögum þeim sem afgreidd hafa verið fyrir árið 1984 er áformað að verja 88 millj. 770 þús. kr. til áðurnefndrar flugstöðvarbyggingar á Keflavíkurflugvelli á þessu ári. Þess má geta til fróðleiks að á sama tíma er allt framkvæmdafé til flugmála innanlands áættað 51 millj. 300 þús. kr. Nú liggur fyrir að verulegur hluti þess fjármagns rennur til að greiða upp skuldir vegna framkvæmda á fyrri árum. Því verður um næsta lítið framkvæmdafé til flugmála innanlands að ræða á þessu ári.

Nýjustu áform gera ráð fyrir að 616 millj. kr. renni úr íslenska ríkiskassanum á næstu árum til þessarar flugstöðvarbyggingar. Það er skoðun flm. að með því að reisa minni og hagkvæmari byggingu í áföngum megi bæði draga úr þessum kostnaði og dreifa honum yfir lengra tímabil auk þess sem slík bygging yrði hagkvæmari í rekstri. Því gerum við það að till. okkar að þessi áform verði endurskoðuð eins og ég hef hér rakið.

Gagnrýni okkar á þá byggingu og þann framkvæmdamáta, sem hæstv. ríkisstj. hefur hugsað sér að fylgja, beinist ekki síst að þeirri tegund flugstöðvarbyggingar sem nú eru áform um að reisa. Eins og menn vita er þar um að ræða mikinn kassa á tveimur hæðum, um 6000 fermetrar hvor, og inni í þeirri byggingu er mikið gróðurhús sem, eins og fram hefur komið nýlega í blöðum, mun vera tvöfalt stærra en stærsta gróðurhús á Íslandi, 38 þús. rúmmetrar að stærð.

Í staðinn fyrir slíka flugstöðvarbyggingu teljum við eðlilegra að taka til fyrirmyndar byggingar eins og reistar hafa verið á undanförnum árum og áratugum í mörgum nágrannatöndum. Má þar nefna flugstöðvarnar í Kaupmannahöfn, Osló, Stokkhólmi, London, Glasgow og Luxemburg. Þær fela í sér möguleika á áfangaskiptingu og hægt er þar að bæta við nýjum álmum eftir þörfum á hverjum tíma. Sú bygging sem nú er gerð tillaga um býður ekki upp á slíka möguleika. Hana verður að reisa alla í einu og gera fokhelda alla í einu án tillits til þess hver þörfin er fyrir bygginguna þegar í upphafi.

Þá má einnig benda á að væri tekinn sá kostur að reisa fyrsta áfanga af öðruvísi hannaðri byggingu væri mjög auðveldlega hægt að koma slíkum áfanga, fyrsta áfanga, í notkun mun fyrr en ætla má að sú bygging sem nú er áformað að reisa, komist til nota. Stefán Benediktsson, hv. þm. Bandalags jafnaðarmanna, hefur gert og látið frá sér fara nokkra athugun á þeirri byggingu sem hér um ræðir. Gerir hann því skóna að þar megi að ósekju spara 300--400 millj. kr. með öðruvísi hönnun.

Í raun og veru sjást engin skynsamleg rök fyrir því að byggja þetta gróðurhús þarna suður á Keflavíkurflugvelli á einhverjum veðrasamasta stað landsins. Því munu óhjákvæmilega fylgja ýmsir tæknilegir erfiðleikar að byggja það gróðurhús, gera það þétt og síðan að reka það. Þeirri starfsemi sem þar á að koma fyrir, sem er loftræsting flugstöðvarinnar fyrst og fremst, má koma fyrir í húsnæði sem er brot af þeirri stærð og haga því þannig að það verði mun ódýrara í rekstri og byggingu. Reyndar vilja menn nú ekki-kannast við það hvaða tilgangi þessi glerskáli utan á og inni í byggingunni eigi eiginlega að þjóna. Helst er falað um að þar séu á ferðinni fornir stórveldisdraumar um glæsta framtíð Íslands sem leiðandi afls í millilandaflugi á Norður-Atlantshafi.

Þá komum við að öðrum þætti þessa máls sem eru breyttar forsendur í flugsamgöngum okkar Íslendinga. Eins og allir menn vita hafa þar gengið yfir miklir erfiðleikatímar. Í flugi yfir Norður-Atlantshafið hefur ríkt hörð samkeppni sem hefur komið illa við flugfélög okkar Íslendinga og þar hefur orðið um verulega fækkun farþega að ræða þó nokkuð rofi nú til. En það er fleira sem hefur breytt þessari mynd. Þar koma einnig til ýmsar tæknilegar ástæður, breytingar á flugvélum og breyttar ferðavenjur, vaxandi eldsneytiskostnaður í millilandaflugi sem gerir millilendingar og stuttar dvalir, eins og hér tíðkuðust, mjög óhagkvæmar í raun fyrir flugfélögin. Reiknað er með að 10--15% viðbótarkostnaður bætist við á Norður-Atlantshafsflugleiðinni vegna millilendingar á Íslandi. Langdrægi flugvéla hefur einnig farið vaxandi og breiðþotur nútímans geta flogið 10--11 klukkustundir án lendingar, eða, svo dæmi séu tekin, getur ein og sama breiðþotan flogið frá sunnanverðri vesturströnd Bandaríkjanna, Los Angeles eða San Fransisco norður yfir Norður-Íshafssvæðin og niður yfir Grænland og Ísland og lent í London án þess að taka eldsneyti.

Flugleiðir hafa farið í nokkrum mæli út í það að fljúga yfir Norður-Atlantshafið án millilendingar á Íslandi og það kann að fara svo að þær neyðist til að fara út í að gera það í vaxandi mæli til að halda samkeppnisstöðu sinni á þeirri flugleið.

Það er fleira sem má nefna þó smátt sé sem kann að breyta þeirri mynd sem ríkti þegar sú flugstöð sem nú stendur til að reisa var hönnuð. Á síðasta sumri gerðu Flugleiðir tilraunir með beint millilandaflug til útlanda frá Norðurlandi. Farnar voru nokkrar ferðir milli Akureyrar og Norðurlanda og þó að sú tilraun gæfi ekki jafngóða raun og menn höfðu vænst er nú sagt að mjór sé mikils vísir og aldrei er að vita nema þessi ferðamáti fari vaxandi í framtíðinni. Á það hefur verið bent að staðir á Norður- og Austurlandi, svo sem Egilsstaðir, liggi vel við flugumferð til Evrópu og í framtíðinni kynni það að reynast hagkvæmt að byggja þar upp flugvöll sem að einhverju leyti þjónaði millilandaflugi. Þá má og benda á að framboð á sætum með skipum milli Íslands og nágrannalandanna hefur farið vaxandi og í vaxandi mæli kjósa menn nú þann ferðamáta að ferðast með farþegaskipum og taka jafnvel bifreið sína með. Á þeim vettvangi verða flugsamgöngurnar naumast samkeppnishæfar á næstunni.

Ýmislegt fleira mætti tína til sem gerir það að ég tel aldeilis nauðsynlegt að þau áform sem réðu ákvörðun manna á sínum tíma um þessa flugstöð og hönnun hennar, verði tekin til endurskoðunar. Í raun og veru er þrjóska þeirra aðila, sem ráðið hafa ferðinni í þessu máli á því að viðurkenna þessar staðreyndir, óskiljanleg.

Við gerum það að tillögu okkar að flugstöðvarbygging á Keflavíkurflugvelli verði, eins og aðrar framkvæmdir í flugsamgöngum þjóðarinnar, teknar inn til heildarendurskoðunar og felldar inn í þá forgangsröð í flugsamgöngumálum sem eðlileg má teljast. Það hefur oft áður í umr. hér á hv. Alþingi komið fram hversu bágar ástæður eru víða á flugvöllum og flugstöðvum úti á landi og reyndar má nefna Reykjavíkurflugvöll og flugstöðina þar einnig.

Til fróðleiks má geta þess að farþegar í innanlandsflugi á vegum Flugleiða voru á síðasta ári skv. upplýsingum frá blaðafulltrúa félagsins á þriðja hundrað þúsund. Yfirgnæfandi meiri hluti þeirra fer um þá flugstöðvarbyggingu sem nú er notuð á Reykjavíkurflugvelli. En stærð hennar er eins og allir vita einungis brot, eða kannske er rétt að segja brotabrot, af því stórhýsi sem hæstv. ríkisstj. áætlar nú að láta reisa á Keflavíkurflugvelli. Þar er farþegafjöldi þó ekki nema 20--30% meiri en fer um Reykjavíkurflugvöll á ári hverju eða eitthvað á fjórða hundrað þúsund. Þess vegna er í fljótu bragði óskiljanlegt hvers vegna nauðsynlegt er að taka í einu lagi svo stórt stökk upp á við í stækkun húsnæðisins. Auk þess hefur verið á það bent að það húsnæði, sem þar hefur verið hannað, nýtist mjög illa og ekki hefur verið kannað hvort einhverjir möguleikar felast í því að dreifa meira en nú er gert í áætlunum flugfélaganna þannig að húsrýmið nýtist betur af þeim sökum.

Það er nokkuð sérkennilegt til þess að hugsa hversu margar bónfarir oddvitar núverandi stjórnarstefnu hafa lagt á sig til að gráta út fé í þennan minnisvarða sjálfstæðisvitundar forustumanna flokka sinna sem þeir vilja nú reisa á Keflavíkurflugvelli. Það er svo sem skiljanlegt í ljósi þeirra erfiðu fara vestur um haf að þeim gangi erfiðlega að kyngja því að í ofanálag við þá reisn, sem yfir þeim þætti málsins er, bætist nú það að um veruleg axarsköft og afglöp sé að ræða í hönnun þessarar byggingar.

Við Íslendingar höfum gjarnan talið okkur gestrisna þjóð. Við viljum taka vel á móti gestum okkar og ógjarnan láta saka okkur um kotungshátt í samskiptum þjóðanna. Ég veit svo sem ekki hvernig orðið kotungsháttur er skilgreint norður í Fljótum eða inni í Laugarási en ég þekki engan kotungshátt aumlegri en þann að slá um sig og ætta að vera stór í sniðum á kostnað annarra. Ég er hræddur um og það er mín sannfæring --- að flugstöð sem byggð verður fyrir þessa tegund fjármagns verði aldrei annað en kofi í augum þeirra manna sem vita hver aðdragandinn að byggingu hennar er. Í slíkum kofum verður aldrei tekið vel á móti gestum. En það mætti gjarnan gera og í mínum hug með fullri reisn í flugskýli eða flugstöð af hóflegri stærð sem við Íslendingar hefðum reist sjálfir, hvort sem það yrði látið standa á Keflavíkurflugvelli eða einhvers staðar annars staðar."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

VG sama og stöðnun.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 25.4.2007 kl. 02:23

2 Smámynd: Jón Sigurður

Voðalega eruð þið stjórnarsinnar með Steingrím J. Þið látið eins samfylkingarmenn létu verst gagnvart Davíð Oddssyni. Það kannski lýsir vel þeirri stöðu sem Steingrímur hefur náð í íslenskri pólitík.

En fyrst verið er að benda á meinta vonda framtíðarsýn hjá Steingrími J. þá ættirðu líka að pósta hérna athugasemdum í umræðum um fjárframlög varðandi Þjóðmenningarhús og sendiráð í Tokyo.

Þú finnur örugglega góð rök fyrir þeim gríðarlegu fjármunum úr vösum skattgreiðenda sem hefur verið sóað í þær byggingar. Er það ekki annars?

Jón Sigurður, 25.4.2007 kl. 02:51

3 Smámynd: Jón Sigurður

Vantaði þarna inni í setningu. Á að vera "Voðalega eruð þið stjórnarsinnar með Steingrím J. á heilanum..."

Jón Sigurður, 25.4.2007 kl. 02:52

4 Smámynd: Rögnvaldur Hreiðarsson

Ég er nokkuð viss um það að hægt er að komast að því með smá vinnu að Steingrímur hefur verið á móti nánast öllum meiriháttar framkvæmdum frá því hann hóf stjórnmálaþátttöku. Og gott ef ekki öllum minniháttar líka. Skora á Jón Sigurð að benda okkur á eitthvað sem Steingrímur hefur lagt til málanna sem hefur skipt þjóðina máli.

Hann til að mynda reið á þing forðum og mótmælti símanum. Óháð því hvort hann var fæddur eða ekki.

Rögnvaldur Hreiðarsson, 25.4.2007 kl. 09:21

5 Smámynd: Örvar Þór Kristjánsson

Mistökin á sínum tíma voru sú að gera ekki Leifsstöð stærri.  Annars sannar þetta enn og aftur hvað bíður okkar ef VG komast til valda.  Algjört stopp á framförum og hagvexti.  Svo er það ekki Steingrími J að þakka að maður getur nú svalað sér á einum ísköldum öl fyrir flug í Leifsstöð  

Örvar Þór Kristjánsson, 25.4.2007 kl. 10:10

6 identicon

Þetta er gullmoli sem þarf að halda til haga. Það er nú reyndar þannig að við þurfum á manni eins og Steingrími að halda svo við getum varað okkur á því að kjósa slíka menn.

Glanni (IP-tala skráð) 25.4.2007 kl. 10:22

7 Smámynd: Einar Þ. Eyjólfsson

Það er nákvæmlega þetta sem þarf að sýna kjósendum. Eins og bent er á hér að ofan þá væri mjög sniðugt grafa upp það sem Steingrímur J og VG hefur staðið fyrir hér á undanförnum árum. Setja það á plagg þannig að það blasi við kjósendum hvað þeir kjósi yfir sig með því að kjósa VG. Held að fólk geri sér ekki almennilega grein fyrir í hvaða sporum við værum hefði VG komist hér til valda eftir síðustu tvær kosningar. 

Einar Þ. Eyjólfsson, 25.4.2007 kl. 11:13

8 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Man greinilega eftir því þegar Geir Hallgrímsson var látinn minnka Leifsstöð frá upphaflegri áætlun. Þetta sýnir svart á hvítu hve gersneiddir VG eru allri framtíðarsýn.   Þeir eru alltaf út eftir því sem þeir geta gert tortryggileggt í augum kjósenda. Það orkar ekki trúverðugt á mig.

Vilborg Traustadóttir, 25.4.2007 kl. 11:59

9 Smámynd: Leifur Þorsteinsson

Ég veit ekki betur en að menn sem hugsa, hafi fyrir löngu

gert sér grein fyrir því að vinstri menn og þá meina ég,

þá vinstrimenn sem kalla sjálfa sig félagshyggjumenn hafi

frá upphafi verið örgustu íhaldsmenn sem vildu engar fram-

farir því þær grófu undan ríkis lénsherrunum sem stjórnuðu.

Þetta skín á milli lína í komúnista ávarpinu marg fræga þar

sem talað er um alræði öreigana sem í eðli sínu er fullkomin

Tautólógia ( meiningslaus ) því öreigi hefur ekkert og getur

ekki haft neina möguleiga á öðru en að lúta valdi stjórnar

herrana. Sem sagt algjölega andstætt lýðræði, að ekki sé talað

beint (íbúa) lýðræði. Frjálsir menn í frjálsu landi, sem hafa

framþróunina á valdi sínu eru þeir sem vinstrimenn óttast

mest.

Leifur Þorsteinsson, 25.4.2007 kl. 13:44

10 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Flugstöðin hefur verið kapítuli út af fyrir sig og sennilega allt of lítil frá upphafi. Þegar fyrst var verið að taka mannvirkið í notkun þá vantaði landgangana og fjölda mannvirkja sem hafa verið byggð síðan. Maður veit varla hvers vegna ekki var gengið strax frá því að byggja allt mannvirkið í stað þess að vera að mjatla þetta í áratugi með miklu hærri tilkosnaði frekar en að gera þetta allt srax í einum stórum verksamningi sem hefði orðið miklu ódýrari. Og enn er verið að byggja þarna.  Annað hvort eru hönnuðir eða ákvörðunaraðilar svona vitlausir eða stjórnmálamenn vildu hafa þarna sín gæludýr á launum í nokkra áratugi á kostnað flugstöðvarinnar og fjármuna sem samþykktir voru til að framkvæma á vegum Utanríkisráðuneytisins. Það ráðuneyti virðist hafa halt all góðan pening og ég legg til að það sjái framvegis um byggingu allra sjúkrahúsa í landinu auk elliheimila samhliða byggingu flugstöðvarinnar og mín vegna mega þessi aukaverkefni (elliheimili og sjúkrahús) vera byggð á leiðinni til Keflavíkur til hagræðingar fyrir gæludýr Utannrikisráðuneytisins ef það gæti flýtt eitthvað byggingu þessara stofnanna.

Sigurður Sigurðsson, 25.4.2007 kl. 16:11

11 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Góðir lesendur:

Mér sýnist á öllu að margir eru nokkuð þröngsýnir og setja sig ekki almennilega inn í þá tíma þegar þessi mál voru til umræðu.

Fyrir meira en 2 áratugum var enn kalda stríðið. Steingrímur og fleiri voru ekki á móti flugstöð heldur þeirri tegund flugstöðvar sem Bandaríkjamenn höfðu hug á að byggja. Þeir vildu borga brúsann en þeir vildu fá e-ð fyrir sinn snúð, þ.e. að byggja með þarfir bandaríska hersins í huga. Það var auðvitað forsenda upprunalegu byggingarinnar sem Steingrími fannst ekki rétt en vildi hanna og byggja flugstöð með borgaralegar þarfir í huga, ekki hernaðarlegar.

Því er mjög tæpt að draga upp einhliða neikvæða mynd af ummælum Steingríms á þingi í þessu sambandi og reyna að krýna sig til riddara með þessu móti. 

Mér finnst að menn ættu að skoða betur áður en þeir geysast fram í vandlætingu sinni og láti frá sér fara e-a vitleysu sem stenst ekki tönn tímans.  

Mosi alias

Guðjón Sigþór Jensson, 25.4.2007 kl. 17:43

12 Smámynd: Andri Heiðar Kristinsson

Þessi Leifsstöðvamótmæli Steingríms eru enn eitt dæmið um mikilvægt framfaraspor í íslensku þjóðfélagi sem Steingrímur hefur verið á móti í gegnum tíðina. Þau eru alveg ótrúlega mörg þessi mál s.s. aflétting bjórbannsins, innganga Íslands í EES, einkavæðing bankanna og svo mætti áfram telja.

Ég vil helst ekki hugsa þá hugsun til enda ef Steingrími hefði tekist að stoppa þessi fjögur tilteknu mál og hvað þá síður ef hann kemst í þá stöðu að stoppa framfaraskref framtíðarinnar.

Andri Heiðar Kristinsson, 25.4.2007 kl. 22:51

13 Smámynd: Ólafur Valgeirsson

Eins og venjulega nokkuð lipur texti hjá Steingrími en sannar það sem menn veltu fyrir sér hérna um árið þegar spurt var: "Hvernig veistu að vinstrimenn eru að bulla? Þeir opna munninn og tala."

En að öðru. Hér fyrir ofan var verið að auglýsa eftir einhverju sem SJS hefði gert eða komið að eða verið samþykkur, sem til framfara horfði á sínum langa pólitíska ferli. Fljótt á litið er það ekki margt en þó er hann í þeirri afar slæmu stöðu að vilja ekki hampa því sem mætti að sjálfsögðu halda nafni hans á lofti um ókomna tíð.

Hann var nefnilega ráðherra samgöngumála í tveimur ríkisstjórnum Steingríms Hermannssonar á árunum 1988 til 1991. Sem slíkur var hann ráðherra fjarskiptamála og sá um að undirrita og koma af stað lagningu ljósleiðara hringinn umhverfis landið en hann minntist ekki á þetta einu orði í kosningabaráttunni '91 og hefði þó að sönnu mátt nota þetta til að slá um sig.

En nú kunna menn að spyrja afhverju hann þagði þunnu hljóði um þetta brautryðjenda starf og framfarskref; það stærsta í hans ráðherratíð? Svarið er einfalt. Verkið var nefnilega unnið í þágu Bandaríkjamanna sem þurftu á þessum ljósleiðara að halda til að koma merkjum til Keflavíkur frá nýrri syrpu af radarstöðvum sem þá var búið að reisa vítt um land. Verkið var semsagt kostað með fyrirfram greiddri leigu og unnið af miklum hraða. Nato og bandaríski herinn borguðu.

Auðvitað hefði þetta aldrei komið til ef Steingrímur og skoðanabræður hans hefðu getað komið í veg fyrir byggingu þessarra stöðva á sínum tíma. Þá er það nokkuð ljóst að ef SJS hefði ráðið sjálfur hefði þessi ljósleiðari eldrei verið lagður en hann komst að sjálfsögðu ekki upp með annað en segja já og amen og standa að þessari aðgerð sem er eins sólarklárt dæmi um "hermang" eins og hægt er að hugsa sér.

En um þetta ríkir grafarþögn.

Vildi bara koma þessu á framfæri svo menn héldu ekki að kallinn væri gjörsamlega ónýtur.

Ólafur Valgeirsson, 25.4.2007 kl. 23:41

14 identicon

Ef ræða steingríms er lesin kemur í ljós að hún yfir 20 ára gömul, en það er á svipuðum tíma sem Eyþór syngur um ísskápa og frystikistur og Ronald Reagan er að tala um "star wars" projektið sitt.

Í öðru lagi er Steini Stopp (er það ekki það sem "þið" kallið hann) að mótmæla rándýrri framkvæmd á óhagkvæmri flugstöðvarbyggingu og mælast til þess að byggð væri flugstöð í samræmi við aðrar flugstöðvar í heiminum. Eitthvað sem er hægt að stækka í einingum án mikils aukakostnaðar. Það var auðvitað ekki gert.

Í staðinn var byggð þessi unaðslega flugstöð Leifs Eiríkssonar úr gleri og rörum sem ekkert var hægt að gera við eftir byggingu. Fyrst nú, eftir mikinn grátur, verið að opna stærri flugstöð eftir margra ára truflun vegna framkvæmda. Ef hönnun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hefði tekið mið af því að hún yrði einhvern tímann stækkuð, á þeim tíma sem Steini Stopp heldur ræðuna, þá væri hún ekki það hönnunarslys sem hún er í dag.

Það virðist sem sjallar og frammarar séu í því þessa dagana að liggja yfir gömlum ræðum og fréttum til að ata auri á SS. En það er kannski allt í lagi að lesa alla ræðuna áður en stokkið er upp með skítinn í skóflunni og honum fleygt í allar áttir.

Baldvin Esra Einarsson (IP-tala skráð) 26.4.2007 kl. 00:03

15 Smámynd: Ingólfur

Rangfærslur Eyþórs:

Í fyrirsögn þessa pistils skrifar Eyþór: Þegar Steingrímur var á móti Leifsstöð... Mér fannst þetta nú vera fréttir og því las ég vel og lengi pistilinn og tilvitnun í ræðu Steingríms til þess að finna rökstuðninginn fyrir þessari fyrirsögn, en hann var hvergi að finna.

Var Steingrímur á móti því byggð væri flugstöð við Keflavíkurflugvöll? Nei
Var Steingrímur á því að minni flugstöð mundi nægja til frambúðar? Nei

Það sem Steingrímur var að mæla fyrir þarna er að bygð væri ódýrari flugstöð, og minni til að byrja með, en sem væri ódýrari í rekstri og væri hönnuð með því markmiði að ódýrt væri að stækka hana seinna.

Það er því ekkert sem segir að Steingrímur hafi verið á móti flugstöðinni annað en röng fyrirsögn Eyþórs. Verst er að margir hérna virðast ekki hafa lesið neitt annað en fyrirsögnina.

Sjálfstæðismenn eru greinilega að missa sig yfir fylgisaukningu VG og því hrista þeir í örvæntingu fram "á móti" grýluna þótt þeir þurfi að laga til staðreyndir til þess að styðja hana

Ingólfur, 26.4.2007 kl. 00:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband