Leiðirnar út úr vandanum

Fyrsta skrefið hlýtur að vera það að viðurkenna vandann.

Næst er að gera ekki illt verra. Í því sambandi verður að gæta þess að þjóðin sé ekki skuldsett frekar en þörf er á. Icesave "lausnin" er eitt stórt spurningarmerki og veit ég ekki hvað við verðum skuldsett vegna þess til lengri tíma. Kannski veit það enginn?

Næsta mál er svo gjaldmiðillinn en þar er nú stefnt að því að setja krónuna á flot og að því manni heyrist að verja gengið með einhverjum hætti og nota í það lán IMF og co. Þetta er örugglega hættuleg aðgerð enda eru háir vextir á láninu og auk þess er hætta á að krónukaupin verði ekki arðbær! Af þessum sökum er brýnt að aðrir kostir séu skoðaðir í kjölin og er upptaka annars gjaldmiðils þar ofarlega á blaði. Í raun þarf að spyrja sig í dag hvort við viljum taka upp krónuna sem gjaldmiðil því í dag er hún innanlandsmynt og ekki gjaldgeng á föstu gengi milli markaða.

Loks þarf að tryggja að útflutningsverðmæti Íslands vaxi en það er ekki nema ca 3 milljarðar USD í dag. Vextir af lánunum fara langt með þá tölu. Lánin þarf að greiða (en það eru víst ný sannindi fyrir marga) og svo geta orðið frekari töp. Sóknarfærin verður því að nýta af krafti.

Þetta eru ekki auðveldar leiðir og er fyrsta skrefið sjálfsagt erfiðast. Eitt er víst að þjóðir sem hafa orðið fyrir miklum skaða eins og eftir stríð hafa iðulega geta náð sér á strik ef skýr stefna er fyrir hendi og stjórnmálamenn einbeita sér að henni en fara ekki í skotgrafirnar. Þá er ég líka viss um að almenningur er tilbúinn að leggja sig fram. En annars ekki.


mbl.is Hið fullkomna fárviðri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Ég held að fyrsta skrefið hafi ekki verið stigið.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 27.11.2008 kl. 00:12

2 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Ef maður gluggar í Haglýsingu Íslands þá má sjá ágrip af ævisögu krónunnar sem hefur vægast sagt alltaf verið frekar óstöðug.  Við fastgengisstefnu voru gengisfellingar árviss viðburður svo að segja.  Þegar gengið var fljótandi þurfti að grípa inní til að bjarga sjávarútveginum.  Á þenslutímum hefur stjórn efnahagsmála verið slök en gripið til stórkallalegra aðgerða í kröppum niðursveiflum.  Oftast komu þessar aðgerðir of seint, því víðtæk upplýsingaöflun er forsenda virkrar efnahagsstefnu. 

Oft er fortíðin góð vísbending um framtíðina.  Þessi fortíð er ekki góð.  Iðulega brugðist seint við og þjóðin fallið í djúpa dali.  En ástandið hefur þó aldrei verið eins slæmt og nú.  Sjaldnast hafa langtímaáætlanir með krónu náð markmiði sínu.  Og nú er verið að hugsa um að bregðast við, of seint, með því að leggja allt undir - einu sinni enn.  Að mínu mati er þetta svo hættuleg aðgerð einmitt vegna þess að við höfum tæpast fleiri sénsa.  Þess vegna er einmitt nú komið að því að líta til baka og sjá að endurtekning á gömlum mistökum er ekki við hæfi.  Við þurfum stöðugri gjaldmiðil, gjaldmiðil sem styður við bakið á útflutningsgreinum okkar.  Og við megum engan tíma missa.  Við getum ekki beðið eftir Evru því strax uppúr áramótum fer almenningur að róa lífróður.  Litlu fyrirtækin líka.  Því í raun er kreppan ekki byrjuð af neinu viti, en það styttist í það. 

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 27.11.2008 kl. 02:25

3 identicon

Dollar Strax mun kynna aðgerðir sínar á næstu dögum. Við erum að smíða aðgerðaáætlun sem er til þess hönnuð að hafa djúp öflug áhrif á gang mála.

Eftir að við Loftur, Eyþór, María og ég funduðum með sérfræðingum í dag þá er ég mjög bjartsýnn á að hægt sé að koma vitinu fyrir stjórnvöld með mjög hnitmiðuðum aðgerðum. Það er hægt að hlífa fólkinu í landinu við að missa heimilin sín. Það er hægt að gangsetja björgunaráætlun strax.

Ekkert meira verður gefið út um málið að svo stöddu en fréttir verða af málinu vonandi á morgun eða hinn.

Stay tuned,,,,

sandkassi (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 02:49

4 Smámynd: Jón Ólafur Vilhjálmsson

Það er fullreynt að nota krónur sem gjaldmiðil og við getum útilokað það Dollari er alveg önuglega fær leið þá er spurning um hvernig stjórnum við okkar hagsveiplum þá er ekki hægt að fella gengið lengur heldur erum við með  Dollar sem er Dollar. fáum við stuðning við hagkerfið eimhverstaðar frá. Við sjáum að gengið hefur fallið jafnt og þétt á íslenskukrónunni í gegnum tíðina en það hefur verið til að jafna kostnað innanlands við útlönd ef hækkanir á okkar landi hafa verið meiri en útflutningstekjur hafa verið þá lækkar krónan. Hvernig sjáum við þetta gerast í framtíðinni með annan gjaldmiðil?

Þessar spurningar brenna svolítið á almenum borgurum sem ekki eru nóg inn í málum. Verður verðbólgu haldið niðri með atvinnuleysi? maður sér það fyrir sér  það er kannski það sem þetta kostar.

Jón Ólafur Vilhjálmsson, 27.11.2008 kl. 09:41

5 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Ég hef aldrei heyrt um að verðbólgu sé haldið niðri með atvinnuleysi.  Atvinnuleysi er hinsvegar fylgifiskur lækkandi verðbólgu við eðlilegar aðstæður - sumsé afleyða lækkandi verðbólgu sem stýrt er á annan hátt.  Við erum ekki með þessar eðlilegu aðstæður í dag, því við búum við verðbólgu og atvinnuleysi.

Hagsveiflum verður ekki stjórnað.  Þær skapast af t.d. aflabrest (þegar síldin hvarf kom kröpp niðursveifla), lækkandi markaðsverði útflutningsgreina og öðru í þeim dúr.  Í því tilfelli þarf að styðja við atvinnuvegina til að ná upp hagvexti.  Til að mynda var það Álverið í Straumsvík sem kom okkur á réttan kjöl eftir niðursveiflu þá sem varð þegar síldin hvarf.  Gjaldmiðilinn kom ekki þar við sögu sem slíkur.

Önnur stjórntæki en gengisfelling og stýrivextir eru skattlagning á t.d. innflutning.  Þetta er ekki vinsælt stjórntæki en við erum því alls ekki ókunnug.  Það eru því til leiðir til að hafa áhrif á gang mála án þess að fella gengi og hækka stýrivexti.

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 27.11.2008 kl. 10:45

6 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Eina raunhæfa leiðin er innganga í Evrópusambandið og upptaka evru.

Árið 2007 voru utanríkisviðskipti okkar í evrum og dönskum krónum (danska krónan er tengd við evru) um 52% af innflutningi og 28% af útflutningi. Hlutur evrunnar í útflutningi hefur mest farið upp í 34% á undanförnum árum.

Upptaka dollars er engin framtíðarlausn og hugmyndir um slíkt virðast helst vera örvæntingarfull leit ESB fælinna að einhverju öðru en því sem blasir við sem augljós lausn, þ.e. að ganga í ESB.

Svala Jónsdóttir, 27.11.2008 kl. 11:21

7 Smámynd: Magnús Guðjónsson

Sammála Eyþóri um margt. En fyrsta skrefið hefur ekki enn verið stigið og á meðan það er ekki gert er erfitt að ná þeim næstu. En númer eitt er að ráðamenn segi satt það sem sagt er, þar hefur mér fundist því miður mikið vanta uppá. 

Kveðja

Magnús

Magnús Guðjónsson, 27.11.2008 kl. 11:25

8 Smámynd: Eyþór Laxdal Arnalds

Sæl Svala. Innflutningur árið 2007 var óvenjumikill og því vart sá samanburður (á t.d. jeppum) sem við viljum horfa til. Úflutningurinn er í raun grunnurinn enda á tekjuhlið þjóðarbússins. 28% hlutur evrunnar er ansi rýr en gott væri að vita hvar þú fékkst tölurnar.

Upptaka dollars, evru, NOK eða CHF er ekki örvæntingarfyllri leið en sú að fleyta ISK á alþjóðlegan gjaldeyrismarkað. Innganga í ESB mun taka mörg ár og mun biðtíminn eftir evrunni valda mörgum örvæntingu. Það sem ég vil að við gerum fordómalaust er að skoða lausnir sem færar eru til skemmri tíma því langtímaáhrif skammtíma hörmunga eru mikil. Þegar skipskaði er skipta skammtímalausnir (eins og björgunarbátar) miklu máli til lengri tíma. Langtímalausnir geta verið mikilvægar en þær geta ekki bjargað málum í stöðu sem kölluð hefur verið - réttilega - "strand" af Jóni Baldvini Hannibalssyni.

Eyþór Laxdal Arnalds, 27.11.2008 kl. 11:50

9 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Margir eru haldnir þeirri ranghugsun, að gengisfelling Krónunnar sé lækning fyrir hagkerfið. Þetta er eins og að bæta bíl-slöngu með hefti-plástri. Þar sem Íslendskt hagkerfi er efnahagslega vanþróað, er ekki hægt að lækna það með gengisfellingu.

Forsendur til innlendrar framleiðni-aukningar eru ekki fyrir hendi og áhrif gengis-fellinga eru étin strax upp af verðbólgunni. Við eigum enga kosti aðra en að taka upp erlenda mynt og ef við viljum ekki tjalda til einnar nætur verðum við að taka upp einu alþjóðlegu myntina sem er í boði, það er að segja Dollar.

Dollar Strax !

Loftur Altice Þorsteinsson, 27.11.2008 kl. 12:45

10 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Að mati okkar í Dollar Strax, er tími umþóttunar um val á milli erlendra gjaldmiðla liðinn. Við erum að berjast fyrir upptöku Dollars, vegna þess að aðrir kostir hafa verið útilokaðir !

  • Evran skerðir stjórnmálalegt sjálfstæði þjóðarinnar.
  • Krónan skerðir efnahagslegt sjálfstæði okkar.

Við erum núna á fullu að útfæra framkvæmd á upptöku Dollars. Tími vanga-veltna er liðinn. Nú er kominn tími framkvæmda.

Dollar Strax !

Loftur Altice Þorsteinsson, 27.11.2008 kl. 12:57

11 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Jón Ólafur. Í grófum dráttum felst hagstjórn í því að halda heildar-launum (kostnaði) lægri en heildar framleiðslu-verðmæti. Framleiðni-aukning er bezt, en til þess kemur oft að heildar-launin verða of há. Eins og þú getur um, er hægt að lækka þau með atvinnuleysi, gengisfellingu eða launalækkun.

Atvinnuleysi og launalækkun virka fyrir öll þjóðfélög, en gengisfelling virkar einungis í efnahagslega þróuðum hagkerfum og sannanlega ekki hér á landi. Við getum ekki unnið okkur út úr halarófunni: skuldasöfnun - gengisfelling - verðbólga - launahækkanir - skuldasöfnun.

Loftur Altice Þorsteinsson, 27.11.2008 kl. 13:17

12 Smámynd: Eyþór Laxdal Arnalds

Sæll Hermundur. Eitt er að skoða viðskiptalöndin annað er að skoða viðskiptamyntin.  Það er mikilvægt að rugla þessu tvennu ekki saman. Svo er um 70% af raforkusölu í USD.

Eyþór Laxdal Arnalds, 27.11.2008 kl. 20:22

13 identicon

Sæll Hermundur,

"Seðlabanki" tilheyrir myntsvæði. Mörg ríki geta talist til myntsvæðis

Öll ríki þurfa að hafa "þrautavarasjóð"

sandkassi (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 22:45

14 identicon

Að viðskiptum við Evrusvæðið, þá getum við mjög þægilega látið þau fara fram í dollar.

sandkassi (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 22:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband