Hvað er í boði?

Stóra prófkjörshelgin er nú algleymingi og listar framboðanna taka óðum á sig mynd. En um hvað verður kosið?Samkvæmt könnunum er vinstri stjórn líklegust. Það er því nærtækast að fá skýr svör frá þeim flokkum sem nú eru í samstarfi og stefna að óbreyttu að því að halda því áfram að kjósendur fái að vita hvað vinstri stjórnin ætlar að gera. Og ekki síst hvernig hún ætlar sér að ná jafnvægi í ríksrekstrinum.

Margt bendir til þess að í farvatninu séu stórfelldar skattahækkanir þrátt fyrir aðvörunarorð reyndra hagfræðinga um neikvæð áhrif skattahækkana í kreppu. Niðurskurður á óþarfa og yfirbyggingu hlýtur að vera forgangsmál til að ná endum saman í stað þess að freistast í skattahækkanir.

Hlutfall ríkisútgjalda af þjóðarframleiðslu á Íslandi er með því hæsta í heiminum í dag. Á sama tíma og þjóðarframleiðsla dregst nú saman um meira en 10% vaxa útgjöld ríkisins verulega. Spáð er halla upp á 150 milljarða af fjárlögum og þá verða framboðin að svara stóru spurningunum um skatta eða sparnað.  

Barack Obama hefur beitt sér fyrir ákveðnum skattalækkunum til að létta byrðunum hjá launafólki. Veruleg hækkun launaskatts myndi  á hinn bóginn hafa letjandi áhrif á atvinnusköpun og þar af leiðandi fjölgun starfa. Atvinnuleysið er höfuðmein Íslands í dag og mér skylst að við séum í þann mund að slá heimsmet í hröðu atvinnuleysi.

Allt bendir til að kosið verði um atvinnumál og vonandi keppast allir flokkar um að bjóða leiðir til atvinnu-uppbyggingar í stað þess að falla í gryfju óhóflegrar skattheimtu sem á endanum bugar klárinn og skilar litlu í ríkiskassann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elinóra Inga Sigurðardóttir

Ég býð mig fram í 1. -4. sæti í prófkjöri xD í Reykjavík. Ég hef reynslu af því að búa til verðmæti úr vannýttu hráefni og ég veit að á Íslandi eru gríðarleg tækifæri í þeim efnum. Við þurfum bara að hafa augun opin og hugsa aðeins út fyrir kassann! www.elinorainga.com

Elinóra Inga Sigurðardóttir, 14.3.2009 kl. 12:07

2 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Vandinn hérlendis Eyþór er að skattar á launafólk með lág og meðaltekjur hafa verið allt of háir of lengi. Þetta gerðist því miður í tíð Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn sem bar ábyrgð á fjármálaráðuneytinu. Það er fyrst á allra síðustu árum sem þessari þróun var snúið við. Vegna þessa er lítið svigrúm til þess að hækka skatta núna en eins og við vitum þá er mikil hætta á að það gerist með vinstri stjórn eftir kosningar.

Jón Baldur Lorange, 14.3.2009 kl. 17:16

3 Smámynd: Gerður Pálma

Umræðan um skattamál á Íslandi er eins og allar umræður um allt sem máli skiptir, kaffibollaspjall og Gróu á Leiti stæll.  Það þarf að koma FLOKKA-LAUS umræða um hvað landið þarf og hvernig er hægt að ná því takmarki, það ætti að verða stolt hvers og eins að leggja til í þjóðarbúið samkvæmt tekjum.  Með því að gera fólki grein fyrir ábyrgð sinni þjóðinni til farsældar mun skapast málefnaleg umræða, þú Eyþór hefur sem persóna og dugmikill athafnamaður tækifæri til þess að koma eðlilegri umræðu í gang.

Þar sem stjórnvöld fara vel með skattapeninga þjóðar vex virðing fyrir sameiginlegum hagsmunum ´fyrirtækisins´sem er þjóðin. Ég bið þig að verða það stórmenni að sjá sameignlega hagsmuni þjóðarinnar vera takmarkið.

Gerður Pálma, 14.3.2009 kl. 19:49

4 Smámynd: Gerður Pálma

Mig langar að vita hvar þú ert staddur í framtíðarsýninni, hvort viltu grátt eða grænt? 

Gerður Pálma, 14.3.2009 kl. 19:51

5 Smámynd: Eyþór Laxdal Arnalds

Sæl Gerður. Allt er vænt sem vel er grænt og það á við um iðnaðinn líka.

Eyþór Laxdal Arnalds, 14.3.2009 kl. 20:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband