Quo vadis ISK?

Seðlabankar um allan heim eru í vanda. Reyndar milli steins og sleggju þar sem annars vegar er lánakrísa og hins vegar verðbólga. Hveiti, olía, málmar og aðrar hrávörur snarhækka og því er rétt frá þeim sjónarhóli að hækka stýrivexti. Á hinn bóginn er lánakrísa og vaxandi bankakreppa sem kallar á ódýrara fjármagn. Erfið staða. Íslenski Seðlabankinn hefur haldið háum vöxtum, enda er húsnæði enn í vísitölunni og verðbólga á Íslandi með því hæsta innan OECD. Bandaríski Seðlabankinn hefur löngum verið leiðandi og hann hefur farið þá leið að lækka úr 5,25% í 3% í skrefum. Sumir telja hann muni lækka stýrivexti um 0,5% eða jafnvel 0,75% í þessum mánuði. Þá verður vaxtamunur við Ísland gríðarlegur. Spurningin fyrir okkur hér á Fróni er: Hvert stefnir Seðlabanki Íslands við þessar tvísýnu aðstæður?

Matur á Íslandi - tækifæri í þröngri stöðu

Það er ekki auðvelt að framleiða búvörur á Íslandi í samkeppni við mörg önnur gróðursæl lönd. Þrátt fyrir það höfum við hér mjög fjölbreyttan hágæða landbúnað sem framleiðir einhver bestu matvæli sem finnast í heiminum. Um fiskinn þarf ekki að fjölyrða. Margir hafa barist fyrir auknum innflutningi erlendra búvara, enda segir hagfræðin okkur að frelsið lækki vöruverð og markaðurinn leiti bestu og hagkvæmustu leiða. Til skamms tíma er það langbest fyrir neytendur. Samkvæmt hagfræðinni er best að hver og einn framleiði það sem hann gerir best og svo sjái markaðir um hámörkun arðseminnar.

Nú hefur það gerst að matvörur og hrávörur hafa snarhækkað í verði. Reyndar er það svo að ekki sér fyrir endan á þeirri þróun. Mjólk, hveiti, sykur og áburður hafa verið áberandi í fréttum þar sem verulegar hækkanir á þessum vörum hafa komið mörgum á óvart. Þetta kemur á sama tíma og málmar og olía eru að ná nýjum og nýjum hæðum í verði. Hrávörur og vörur sem enga sérstöðu hafa eru að hækka. Slíkt ástand er verðbólguástand.

Orðið "commodity" hefur á undanförnum árum verið notað sem orð yfir það sem ekki þótti sérstakt eða líklegt til að skapa hagnað. Fyrir örfáum árum voru hrávörur taldar skila aðeins lágmarks ávöxtun, en tækni, þjónusta og bankastarfssemi var talin arðvænlegust. Það að selja var verðmætara en að búa til. - Nú er þetta að breytast.

Ástandið í heiminum breytir stöðu landbúnaðar á Íslandi. Aðföngin verða vissulega dýrari, enda hefur áburður hækkað mjög mikið að undanförnu. Á hinn bóginn er það mörgum ljóst hvað það er okkur verðmætt og í raun öryggisatriði að hafa hér matvælaframleiðslu. Hækkun á matvælum er ekki vegna spákaupmennsku, heldur vegna þess að það er minna til en heimurinn þarf. Það er raunveruleg þörf og raunverulegur skortur á hrávörum og matvælum. Þetta er breyting frá því sem áður var.

Þegar landbúnaðarvörur erlendis stórhækka verður íslenskur landbúnaður mikilvægari.
- Hugum að þessu. -


Krónan = eurocent

Í dag fór Evran í 100 kallinn. Þar með er krónan jafnverðmæt og eitt evrusent.

Evran er jafnframt komin yfir 1,5 bandaríska dali.
Í september 2001 dugðu 0,9 dalir fyrir einni Evru.

Hver verður staðan í lok árs?

 


Rækt lögð við íþróttamál í Árborg?

Ný og gagnmerk skýrsla Ræktar ehf. sem gerð var um íþróttamál í Árborg er ánægjuleg fyrir þá sem áhuga hafa á þessum málunum og gagnast okkur bæjarfulltrúum vel.

Þar kemur skýrt fram að Árborg stendur höllum fæti hvað varðar framlög til íþróttamála og er aðeins hálfdrættingur á við þau sveitarfélög sem við viljum miða okkur við. Mannvirki eru ófullnægjandi og stefna hefur verið óskýr. Góðu fréttirnar eru að nú sé horfst í augu við raunveruleikann til að bæta úr.

Fram kemur í úttekt Ræktar að grasrótin, félagsstarfið og áhuginn sé frábær og starf sjálfboðaliða og akademía sé með eindæmum gott. - Það er grundvallar atriði.

Nú þegar skýrslan liggur fyrir er ekki eftir neinu að bíða. ´

Nú þarf að leggja rækt við íþróttafélögin og mannvirkin.


Rise of the robots?

Terminator myndirnar sýndu ófagra framtíðarsýn. Þó ekki séu enn komnir holdteknir vélhermenn á borð við "Tortímandann" eru komnar sjálfvirkar vígvélar sem geta stjórnað sér sjálfar og elt menn uppi til drápa:

http://www.breitbart.tv/html/50644.html

Ef svona vélar verða áberandi í herjum framtíðar vakna ýmsar spurningar um siðferði og ábyrgð.

Er þetta það sem koma skal?


Jákvæð frétt

Samningur um gagnaver á Suðurnesjum er ein jákvæðasta fréttin í íslensku viðskiptalífi það sem af er þessu ári. Hér er verið að skapa ný spennandi störf á nýju alþjóðlegu sviði. Hér er endurnýjanleg raforka nýtt til að skjóta nýjum stoðum undir íslenskt atvinnulíf. Hér er verið að auka íslenska framleiðslu. Gagnaverið á ekki að menga.

Fyrsta verkefnið sem ákveðið var að ráðast í á sviði orkufreks og umhverfisvæns iðnaðar er aflþynnuverksmiðja Becromal á Akureyri. Það verkefni er komið langt, enda er áætlað að starfssemin hefjist á fjórða ársfjórðungi þessa árs. Gagnaverið kemur nú til viðbótar þó það taki einhver ár að koma því í fulla starfssemi.

Þessi verkefni tvö eru með algera sérstöðu þegar litið er til stóriðju almennt, en líkur er á því að þriðja hreina orkufreka verkefnið líti dagsins ljós í Þorlákshöfn. Hér er um að ræða kísilhreinsun fyrir sólarsellur, eða polysilicon. Ef af verður mun það verkefni vera stærst og jafnframt mjög þróað í tækni.

Ef þetta gengur allt eftir má segja að að á hljóðlegan hátt hafi Ísland eignast fjölbreyttan iðnað í erfiðu árferði.

Okkur veitir ekki af jákvæðum fréttum.

 


Stefnumót í Hvíta húsinu: - Viðskiptaráðherra, DV, spil og Framsókn

Í gær fékk ég það hlutverk að aðstoða Elínu Reynisdóttur yfirdómara Stefnumóta, en DV hélt eitt slíkt í sjálfu Hvíta húsinu á Selfossi með liðsinni Hrútavina. Lið Guðna Ágússsonar og Björgvins G. Sigurðssonar kepptu í spennandi spurningakeppni sem endaði með sigri ráðuneyti Björgvins, en hann hafði Unni Brá Konráðsdóttur sveitarstjóra og Guðmund Karl Sigurdórsson ritstjóra Sunnlenska til halds og trausts. - Og svo salinn.

Sigurlaunin - 100.000 krónur - ánafnaði hópur Björgvins til fíkniefnahundarins. Ólafur Helgi sýslumaður var einmitt í liði Guðna og vann því stórt þó liðið hafi beðið lægri hlut.

Guðni steig svo á stokk og vitnaði í Stein Steinarr og sagði sig og Framsókn vinna vel en tapa í könnunum og keppnum þrátt fyrir það (Framsóknarmenn eru samt nokkuð lunknir í póker):

Að sigra heiminn er eins og að spila á spil
með spekingslegum svip og taka í nefið.

(Og allt með glöðu geði
er gjarna sett að veði).

Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til,
því það er nefnilega vitlaust gefið.
Steinn Steinarr


vor@arborg.is

Lista- og menningarnefnd Sveitarfélagsins Árborgar ákvað að menningar- og afmælishátíðin verði haldin dagana 8., - 18. maí nk. enda tilefni til: Sveitarfélagið varð til með sameiningu Eyrarbakkahrepps, Sandvíkurhrepps, Selfossbæjar og Stokkseyrarhrepps eftir almennar kosningar meðal íbúa byggðarlaganna í febrúar 1998. Sameiningin tók formlega gildi í júní sama ár og verður Árborg því 10 ára sem sveitarfélag.

Þórir Erlingsson á Eyrarbakka hefur verið ráðinn í verkefnið og má hafa samband við hann með því að senda hugmyndir og ábendingar á vor@arborg.is

Skemmst er að minnast 60 ára afmælishátið Selfoss sem haldin var í fyrra undir forystu Kjartans Björnssonar.

Nú er tækifæri til að gera góða dagskrá þar sem allir leggjast á eitt.


Jósef Ásmundsson og álögur í Árborg

Í Fréttablaðinu í dag segir Jósef Ásmundsson farir sínar ekki sléttar. Álagning fasteignagjalda í Árborg hefur verið há um árabil og nú í ár keyrir enn um þverbak. Þrátt fyrir 8% lækkun fasteignaskatts sem loks náðist fram í síðasta mánuði hefur álagningin hækkað ár frá ári og er í dag mun hærri en í Reykjavík eða heilum 83% í tilfelli Jósefs og fjölskyldu hans.

"Fréttablaðið 20. febrúar 2008

„Ég er alveg arfavitlaus út af þessum fasteignagjöldum," segir Jósef Ásmundsson.

Jósef og kona hans búa í nýju húsi í Kjarrhólma á Selfossi. Húsið er 210 fermetrar og fasteignamat þess var 29,9 milljónir króna um síðustu áramót. Lóðin er metin á fjórar milljónir. Fasteignagjöld, lóðarleiga, fráveitugjald og sorphirðugjald nema samtals tæplega 270 þúsund krónum á þessu ári. Þetta telur Jósef vera alltof hátt.

Fyrir eign af þessari stærð með jafn háu fasteigna- og lóðarmati þyrfti hins vegar að greiða samtals tæpar 147 þúsund krónur í Reykjavík.

Upphæðin er þannig 83 prósentum hærri í Árborg af eign sem er talin jafn verðmæt hjá Fasteignamati ríkisins. Þá segist Jósef hafa fengið uppgefið dæmi frá Ráðhúsinu í Reykjavík um 240 fermetra hús sem hefði 50 milljóna króna fasteignamat en bæri þó aðeins um 210 þúsund krónur í gjöld.

„Það er óeðlilegt að í sveitarfélagi þar sem verið hefur mikil uppbygging og gatnagerðargjöldin hafa streymt inn séu fasteignagjöld svona miklu hærri en í Reykjavík," segir Jósef.

Eins og víða annars staðar hækkaði fasteignamat í Árborg um 12 prósent um síðustu áramót. Tillaga frá fulltrúum sjálfstæðismanna um að lækka álagningarhlutfall fasteignagjaldanna var felld í bæjarstjórninni fyrir jól. Sagði meirihluti Framsóknarflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna það ekki skynsamlegt að lækka tekjur sveitarfélagsins á tímum mikils vaxtar og uppgangs."


Af þjóðnýtingu banka

Nú berast þau tíðind frá Bretlandi að brátt verði Northern Rock bankinn þjóðnýttur fyrir litlar 3-4 þúsund MILLJARÐA króna. Draumurinn um ríkisbanka kann því að vera nær en okkur grunaði.

Það er ekki langt síðan að ríkisbankar á Íslandi voru nær einráðir. Einkavæðing bankanna hefur verið ævintýraleg.

Sumir stjórnmálamenn á Íslandi hafa harmað einkavæðingu bankanna og hafa saknað stjórnmálabankanna.

Eru þeir enn að vona? 


Heiðdís Gunnarsdóttir í Fréttablaðinu

Heiðdís lét nýverið af störfum eftir áratugastarf við leikskólana á Selfossi. Mér fannst fróðlegt að lesa viðtal við hana í morgun en þar segir Heiðdís:
"Fyrsti leikskólinn á Selfossi á ársgrundvelli var stofnaður 1968 og fyrir tilstuðlan kvenfélagsins sem rak hann með aðstoð hreppsins. Í fundargerðum félagsins frá þessum tíma kemur fram að konurnar töldu að setja þyrfti á stofn leikskóla fyrir börnin. Mér fannst það eftirtektarvert. Þær höfðu ekki foreldrana í fyrirrúmi heldur börnin, þannig að þetta var framsækið hjá þeim."

Og á öðrum stað segir Heiðdís:

"Mér finnst mest um vert hvað viðhorf ráðamanna til leikskóla hafa breyst. Ég man þegar leikskólarnir áttu að fara í Félagsmálaráðuneytið. Það mundi engum detta í hug núna. Það var mikil barátta meðal leikskólakennara að halda honum innan menntamálanna þar sem hann á heima. Það tókst."

Frumherjar eins og Heiðdís Gunnarsdóttir eiga heiður skilinn fyrir störf sín.
Leikskólinn er skóli fyrir börn. - Að sjálfsögðu - segjum við í dag.


Framlag ríkisstjórnarinnar

Þessir samningar hefðu sjálfsagt aldrei náðst á þessum nótum ef ríkisstjórnin hefði ekki lagt sín lóð á vogarskálarnar. Hækkun persónuafsláttar og lækkun tekjuskatts eru sennilega þyngstu lóðin, en jafnframt er komið til móts við ýmsa hópa.

Almennustu og gagnsæjustu aðgerðirnar eru happasælastar og þær bæta Ísland enn frekar í samkeppninni við umheiminn.

Kaupmáttur eykst og fyrirtækjum er refsað minna fyrir hagnað.

Hvoru tveggja á að auka hagvöxt á erfiðum tímum.


mbl.is Taxtar hækka um 18.000 krónur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ögmundur í Silfrinu

Söguskýringar Ögmundar í Silfrinu voru ansi sérstakar, en hann hélt því fram að einkaeign náttúruauðlinda væri tiltölulega nýtt fyrirbæri á Íslandi. Nú er það svo að Ísland byggðist af landnemum sem flúðu háa skattheimtu og byggðu hér Þjóðveldi án ríkisútgjalda. Segja má að það hafi verið ansi langt gengið þar sem hið opinbera var ekki með neinar tekjur og ekkert framkvæmdavald var til að framfylgja lögum. Eignarrétturinn var hins vegar sterkur, enda er Landnáma til marks um það.

Ríkisvaldið varð hins vegar umfangsmikið á nýlendutímanum sem lauk endanlega 17. Júní 1944 þegar við Íslendingar fengum sjálfstæði. Sá ferill hófst nokkru fyrr og eru menn blessunarlega sammála um það hafi verið gæfuspor sem leiddi af sér miklar framfarir.

Þá voru það einkaaðilar sem söfnuðu vatnsréttindum vegna fallvatna með frjáslum viðskiptum við landeigendur - þar til ríkið yfirtók þessi réttindi með lögum og kaupsamningum.

Eignarrétturinn er verndaður í stjórnarskránni og er grunnur þess að hér ríki frelsi, lög og réttur. Ríkiseign á öllum hlutum er enn til á nokkrum stöðum í heiminum, en flestir eru sammála um að tilraunin mikla í Sovétríkjunum hafi gersamlega mistekist, ekki bara hagfræðilega og með tilliti til mannréttinda. Ekki síður þegar litið er til náttúruverndar. Ríkinu er einfaldlega ekkert betur treystandi til að menga minna, eða vernda lífríkið betur en einkaaðilar. Þvert á móti: Mengun í fyrrum ráðstjórnarríkjunum er mikil og nægir að benda á kolamengun og kjarnorkuspjöll.

Íslendingar eru sem betur fer sjálfstæðari en svo að þeir þurfi að láta ríkið eiga öll lönd, vötn og dýr. Reglugerðir og lög eiga að tryggja umgengni og nýtingu. Það á að vera hlutverk hins opinbera.


Barack-mania?

Talsvert hefur borið á því að liðið hefur yfir konur á kosningafundum Obama eins og sjá má hér

Huckabee vinnur Kansas - með yfirburðum

Nokkuð merkileg úrslit í Kansas í kvöld. Huckabee kveikir greinilega í mönnum í Suðurríkjunum sem og víðar þrátt fyrir að búið sé að krýna McCain sem sigurvegara eftir "Super Tuesday". Huckabee fékk 60% en McCain aðeins 24%. Þrátt fyrir þennan yfirburðasigur er litlar líkur á að Huckabee vinni. Reiknimeistarar eru allir sammála um það. Huckabee gerði þetta að umtalsefni þegar hann sagðist "ekki hafa haft stærðfræði sem námsgrein heldur kraftaverk!"

"Big Mac"

Sigur John McCain í Florida er sennilegast trygging fyrir útnefningu sem forsetaefni Repúblíkana. John McCain hefur haft lítinn stuðning meðal íhaldsmanna í flokknum og það staðfestir móðir hans á tíræðisaldri í viðtölum. McCain atti kappi við George W. Bush og má segja að þar hafi South Carolina verið hans Waterloo. Núna vann hann Huckabee þar og Romney og Giuliani í Florida.

Styrkur John McCain er fyrst og fremst persóna hans. Hann er jákvæður gagnvart innflytjendum og studdi Íraksstríðið. Hvoru tveggja eru umdeild sjónarmið í dag. Segja má að endurkoma John McCain sé með miklum ólíkindum, en við þekkjum endurkomu stjórnmálamanna á Íslandi og er forseti Íslands ágætt dæmi um það. John McCain er "comeback kid" og hefur oft heyrst síðustu vikur "the Mac is Back".

Eftir sigurinn í Florida eru menn farnir að tala um Big Mac.


Áherslur meirihlutans í Árborg

Í gær var haldinn fundur í bæjarstjórn og voru nokkrar tillögur okkar í minnihlutanum á dagskrá meðal annars um aukna styrki til íþróttamála, skólaþróunarsjóðs, tryggja framboð á atvinnulóðum og lækka fasteignaskatta. Allt var þetta fellt.

Við kölluðum eftir upplýsingum meðal annars um hvort að sveitarfélagið væri að huga að frekari kaupum á einbýlishúsum, en mikil umræða hefur verið um kaup sveitarfélagsins á Vallholti 38 sem breyta á í bráðabirgðadagvist fyrir Alzheimersjúklinga í aðeins 2 ár. Þá báðum við um skýringar á þessum kaupum sem og leigusamningi á yfir 700m2 aðstöðu í húsi við Austurveg sem ekki er byggt og deilur standa um hvort byggja megi. Leigusamningurinn er til 20 ára og er bindandi fyrir bæjarstjórn - þó húsið verði ekki byggt. Við kölluðum eftir útskýringum - en fengum engar.

Þrálátur orðrómur hefur verið um að sveitarfélagið sé að leita eftir að kaupa fleiri húseignir á næstunni, en skemmst er að minnast þess þegar sveitarstjórnin keypti "Pakkhúsið" ásamt rekstri Pizza 67 á síðasta ári. Ekki hefur verið ákveðið hvað gera á við eignina sem stendur tóm. Nú eru kaupin í Vallholti staðfest og vekja spurningar, auk þess sem frekari kaup hafa verið rædd.

Í stað þess að svara lagði meirihlutinn fram tillögu um frávísun á þessari "erfiðu" spurningu, en um þetta allt má lesa hér:

http://www.arborg.is/news.asp?id=265&news_ID=2784&type=one

Annað sem sýnu jákvæðara var að sátt náðist um skref í átt að lækkun fasteignaskatta í Árborg. Við höfðum lagt til 10% lækkun í tvígang, en meirihlutinn felldi það. Þau lögðu þá fram tillögu um 8% lækkun og við samþykktum það. Enn má lækka meira, ekki síst hjá eldri borgurum.

Vonandi verður það þó síðar verði


Kennedy styður Obama - Huckabee gerir grín að Romney

Forkosningarnar í BNA taka á sig ýmsar myndir. Nú síðast hefur dóttir John F. Kennedy; Caroline Kennedy lýst yfir stuðningi við Obama. Ted Kennedy fylgdi svo í kjölfarið. Þetta hlýtur að vera áfall fyrir Bill og Hillary þar sem þau hafa hingað til sótt mikinn stuðning til blökkumanna og vísað til þess að vera "arftakar" Kennedy. Hvoru tveggja er nú farið.

Fjölmargir fjölmiðlar taka upp matarumræðu Huckabees, sem er einn litríkasti frambjóðandi Rebúblíkana. Þar gerir Huck mikið grín að Romney fyrir að hafa tekið skinnið af djúpsteikta kjúklingnum og telur þetta muni kosta ófá atkvæði í Texas, Alabama og Georgíu.

Það er vandlifað í henni veröld!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband