27.1.2008 | 08:49
Snjór á Þorra
Snjómokstursmenn á Selfossi, Eyrarbakka og á Stokkseyri hafa staðið sig frábærlega vel og unnið meira en myrkranna á milli við erfiðar aðstæður. Full ástæða er til að bæta tækjakost þeirra og veita þeim þann stuðning sem þörf er á. Þá hafa hjálparsveitir unnið mikið starf og nágrannar hjálpast að við að ná snjónum af þökum. Ég fékk sjálfur góða hjálp við að losa bílinn minn í Tjarnabyggð og kom sér þá vel að fleiri voru í búgarðabyggðinni þann morguninn.
Síðast en ekki síst hefur reynt á samgöngurnar við Reykjavík. Ég fer eins og svo fjölmargir aðrir á milli nær daglega og það var dapurlegt að finna hvernig Hellisheiðin lokaðist um langan tíma. Hér er enn ein ástæðan fyrir tvöföldun Suðurlandsvegar þegar einn illa búinn bíll getur teppt þúsundir manna. Það er vert fyrir okkur öll að læra af reynslunni nú á Þorra og huga betur að fannfergismálum. - Snjór á Íslandi heyrir ekki sögunni til.
![]() |
Hellisheiði lokuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.1.2008 | 20:52
Ítalskur tónn í sveitarstjórn
Ég var á ferð með bandarískum og ítölskum mönnum í Þorlákshöfn í gær og kveikti á útvarpinu. Þar hljómuðu öskur og óp úr Ráðhúsi Reykjavíkur. Mennirnir spurðu hvað væri í gangi. Ég velti fyrir mér hvort ég gæti sagt þeim sannleikann. Ég var nýbúinn að dásama Ísland og hér ríkti stöðugleiki, samningar væru virtir og orð héldu. Var að spá í að segja þeim að þetta væri kappleikur, en sagði þeim loks hvað væri að gerast. Þeir voru vægast sagt hissa, en Ítalirnir sögðu þetta vera eins og hjá sér, en þar hafa ríkisstjórnar oft ekki lifað árið. Táknrænt að Prodi og BIngi sögðu af sér sama dag. Ítalirnir sögðu okkar að venjast þessu því það væri erfitt að komast út úr svona lágkúru. Líklegt væri að persónupólítík muni ráða ríkjum og fjölmiðlum.
Lætin í borgastjórn Reykjavíkur hafa verið með miklum eindæmum:
Fyrst var stofnað til vinstri meirihluta um REI. Þá var haldinn eigendafundur REI og honum frestað í margar vikur. (Mér vitanlega er honum enn ekki lokið). Þá var rifist um 2 hús á Laugavegi. Ekkert var ákveðið. Þá gafst Ólafur F Magnússon upp og tók að sér að vera borgarstjóri með stuðningi Sjálfstæðismanna. Var þá smalað á pallana í Ráðhúsinu og baulað. Að mínu mati hafa allir sett niður og pólítíkin í heild. Traust á stjórnmálum hlýtur að hafa minnkað til muna.
Þeir stjórnmálamenn sem telja þetta heppilega atburðarrás eða fagna baulurunum sérstaklega ætti að hugsa sinn gang. Sveitarstjórnmönnum er sett sú skylda að sitja án kosninga í fjögur ár. Þetta vita menn og verða að sætta sig við.
Samstarf margra flokka gerir þetta alltaf erfiðara, en atburðarrásin í Reykjavík minnir á valdaskiptin í Árborg 2006 þegar þrír bæjarstjórar voru á launum og sá flokkur sem mestu tapaði í kosningunum(Samfylkingin) tók sér bæjarstjóraembættið. Var það lýðræðislegt?. Reyndar er það ansi sérstakt að Samfylkingingarfólk á borð við Dag og Ingibjörgu skuli gagnrýna borgarstjóraskiptin miðað við það að hafa sjálf stundað það í Árborg og farið beinlínis gegn vilja kjósenda og niðurstöðu kosninga.
Kannski við sjáum þetta smita yfir í landsmálin?
Svandís boðar að minnsta kosti "óvæntan ávöxt"
Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.1.2008 kl. 01:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
23.1.2008 | 23:10
Sammála Ingibjörgu...
Þeir sömu sem segja að málefnum hafi verið fórnað í nýjum meirihluta í Reykjavík fannst samt allt í lagi að hafa ENGAN málefnasamning í fjögurra-flokka samstarfi "Tjarnarkvartettsins".
Margir þeirra sem tala um baktjaldamakk nú töldu það eðlilegt að stofna REI lista með Birni Inga í mótmælaskyni við REI mál (unnin af Birni Inga)
Reyndin er sú að lítið lifir eftir af kosningaloforðum víða og virðast völdin skipta mestu í dag.
Nærtækt dæmi er í Árborg þar sem vinstri meirihluti þriggja flokka tók við fyrir ári. Þar komu VG inn til að styðja Framsókn og Samfylkingu. Kjósendur höfðu hafnað þessum flokkum og Sjálfstæðisflokkurinn fékk 4 bæjarfulltrúa í stað 2ja áður og fyrri meirihluti tapaði mjög stórt.
VG fengu forseta bæjarstjórnar og hafa á einu ári gengið á svig við flest kosningaloforð sín.
Samfylkingin fékk bæjarstjórastólinn og voru 3 bæjarstjórar á launum um tíma í Árborg.
Framsókn náði að halda áfram að vera í meirihluta sem var þeirra helsta markmið.
Reynslan í Árborg er svipuð og reynslan af öðrum fjölflokka meirihlutastjórnum: Lítið gerist og fátt er ákveðið nema hvað bæjarstjórarnir hafa verið 1 á ári, eða 3 á þremur árum.
Ég er sammála Ingibjörgu Sólrúnu um að svona hringl setji pólítíkina niður.
Það getum við verið sammála um.
(Man samt ekki eftir því að hún hafi sagt þetta um vinstri meirihlutann í Árborg
- eða upphlaupið hjá Degi og félögum á Tjarnarbakkanum)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
23.1.2008 | 20:57
Krónan á krossgötum?
Vaxtamunur við útlönd er í sögulegu hámarki, ekki síst eftir 0,75% lækkun bandaríska seðlabankans í gær. Þar með er vaxtamunur krónu og bandaríkjadals nú meiri en 10% þar sem "FED" er með 3,5% vexti en "SED" er enn með 13,75%. Má segja að ríki ógnarjafnvægi í gengismálum þar sem gengið helst hátt vegna hárra vaxta. Seðlabankinn hefur þurft að glíma við verðbólgu um nokkuð skeið, fyrst vegna þenslu á Íslandi og svo að undanförnu vegna hækkana á hrávöru, matvöru og eldsneyti. Í dag er ástandið afar viðkvæmt þegar lánakrísa skekur bankakerfi heimsins. Hættan við hratt lækkandi vexti í þessu ástandi er gengisfall krónunnar og verðbólga vegna hækkunar á gjaldeyri.
Eftir að frelsi var gefið í gjaldeyrisviðskiptum fyrir rúmum tuttugu árum hafa Íslendingar notið mikils hagvaxtar en jafnframt aukið skuldir sínar í erlendum gjaldeyri. Miklar fjárfestingar vegna "útrásarinnar" hafa verið fjármagnaðar með erlendum lánum. Þá hafa heimilin og fyrirtækin aukið skuldsetningu sína í erlendri mynt. Flótti úr hávaxtalánum vegna húsnæðis yfir í erlend lán er eitt stærsta skrefið - svo ekki sé minnst á bílalánin. Laun eru enn í krónum og svo blessaður yfirdrátturinn ;)
Að mörgu leyti var stigið það skref með frjálsum gjaldeyrisviðskiptum að fólk gæti valið. Á margan hátt má segja að Seðlabankinn hafi verið í erfiðri stöðu með stíft verðbólgumarkmið. Útkoman er þröng staða fyrir krónuna þar sem hún er hátt verðlögð vegna hárra stýrivaxta.
Spyrja má hvers vegna 13.75% stýrivextir skuli ekki bíta betur á verðbólguna. Svarið liggur að hluta í því að húsnæðislán eru flest með föstum vöxtum. Í seinni tíð vegur svo þungt hvað mikill hluti almennra lána eru í erlendri mynt. Stýrivextirnir bíta þá fastast í yfirdráttalán og óverðtryggð lán. Sumir hafa gengið svo langt að segja okkur búa við "þrjá gjaldmiðla"; íslensku krónuna, verðtryggðu krónuna og svo erlenda mynt.
Að síðustu hafa svo bankastofnanir sóst eftir því að skrá sig í erlendri mynt. Þar með væri búið að kippa miklu undan krónunni.
Á þessum tímamótum er rétt að vega og meta kosti krónunnar við þessar aðstæður.
Ef við viljum halda krónunni verðum við að styðja betur við verðbólgumarkmið Seðlabankans.
Krónan verður að vera góður valkostur fyrir lánþega og launþega - ef við viljum halda henni.
23.1.2008 | 00:01
Lækkun fasteignaskatta
Nýr meirihluti í Reykjavík hefur boðað lækkun fasteignaskatta á eldri borgara. Vonandi mun nýr meirihluti F og D lista lækka fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði almennt. Nú er það svo að fasteignamat á Íslandi hefur hækkað nálægt 18% á síðasta ári. Það er því allsvakaleg skattahækkun framundan hjá húsnæðiseigendum.
Sjálfstæðismenn í Árborg hafa ítrekað lagt fram tillögur um lækkun fasteignaskatta, ekki síst með 100% afslætti á eldri borgara með ákveðnum reglum og svo ekki síður með almennri lækkun fasteignaskatts nú síðast í Desember þar sem við lögðum til að fasteignaskattshlutfall yrði lækkað um 10% úr 0,3% í 0,27%.
Í dag er verðbólgan há og verðbætur á lánum bíta fast í. Framundan eru kjaraviðræður verkalýðsfélaganna og viðsemjenda þeirra. ASÍ hefur bent á það sem ríki og sveitarfélög geta gert og hér er það lækkun fasteignaskatta sem skiptir mestu.
Vonandi sjá menn að sér og varast þá freistingu sem felst í hækkandi fasteignamati og sjálfkrafa skattahækkunum.
22.1.2008 | 13:05
Menn uppskera eins og þeir sá
Vinstri meirihlutinn í Reykjavík var við völd í rúma 100 daga og tókst ekki að koma frá sér málefnasamningi. Meira að segja REI málið sem var upphaf meirihlutans var ekki klárað á einn eða annan hátt. Mér skylst að fundi hafi verið frestað fyrir mánuðum síðan og ekkert hafi verið klárað á þessum 100 dögum.
Nú síðast var það svo deila um hús á Laugavegi þar sem Dagur borgarstjóri vildi færa húsin, en F og V lista fulltrúar vildu vernda.
Í gær voru fulltrúar V, F og S lista hissa á vinnubrögðum Ólafs. En voru þetta ekki sömu aðilar og tóku við Birni Inga sem lét Sjálfstæðismenn bíða eftir sér í Höfða?
"what goes around comes around!"
Ástæða er til að óska Vilhjálmi og öðrum borgarfulltrúum til hamingju með nýjan meirihluta. Nú verður fróðlegt að fylgjast með verkum meirihlutans. Ólafur er fyrrum liðsmaður Sjálfstæðisflokksins og nú er að sjá hvernig samstarfið gengur.
Eitt er víst að tveir flokkar eru alltaf betri kostur en þrír eða jafnvel fjórir þegar kemur að samstarfi. Það hefur sagan enn og aftur sannað.
19.1.2008 | 22:05
Framsókn í Reykjavík
Saga Framsóknarflokksins í Reykjavík hefur verið þyrnum stráð. Sigur Björns Inga í síðustu kosningum fleytti honum í lykilstöðu og tveggja flokka samstarf í meirihluta með Sjálfstæðisflokki. Hann ákvað síðan að slíta því samstarfi og stofna til fjögurra flokka samstarfs. Sá meirihluti hefur enn ekki sent frá sér málefnasamning og hefur ekki tekið endanlegar ákvarðanir í REI málinu.
Nú er Björn Ingi kominn á ný að krossgötum og gefur í skyn að hann íhugi að hætta í Framsókn.
Ef Björn Ingi hættir er Framsókn komin í undarlega stöðu.
Ef Björn Ingi heldur áfram er Framsókn í nýjum vanda.
Hvað segir Guðni um Framsókn í Reykjavík?
![]() |
Björn Ingi úr Framsóknarflokki? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.1.2008 | 23:32
Obama hrósar Reagan
http://www.breitbart.com/article.php?id=D8U8I9PO0&show_article=1
![]() |
Clinton og McCain líklegust samkvæmt skoðanakönnun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.1.2008 | 12:21
Margs að minnast
![]() |
Bobby Fischer látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.1.2008 | 08:49
Til hamingju með daginn
Davíð Oddsson á afmæli í dag 17. janúar. Það var gaman að sjá myndir af ferli Davíðs í þætti Egils Helgasonar í gær og í 24 stundum í morgun. Óhætt að segja að á þeim öllum er Davíð hrókur alls fagnaðar. Davíð var þáttakandi og forgöngumaður í miklum þjóðfélagsbreytingum og svo var viðeigandi að sjá mynd af Davíð með Ronald Reagan í Höfða þar sem upphafið að endalokum kalda stríðsins hófst.
Til hamingju með daginn Davíð.
7.1.2008 | 22:13
Huckabee stærri en Giuliani?
Ný könnun Gallup USA á landsvísu sýnir snögg umskipti. Hillary er nú jöfn Obama. En í stað Giuliani er Mike Huckabee efstur af Repúblíkönum; predikari, ríkisstjóri og bassaleikari sem að öllum líkindum mun tapa í New Hampshire, en vann í Iowa. Meira að segja McCain fellur. Það er því ekki öll sagan sögð eftir í New Hampshire hjá Repúblíkönum, þótt öll vötn hjá Demókrötum falli nú til Obama-fjarðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.1.2008 | 20:39
President Barack Hussein Obama?
Sigur Obama í forkosningum Demókrata í Iowa var meiri en flestir bjuggust við. Hillary Clinton lenti í 3. sæti sem var í sjálfu sér stærsta fréttin, en nú er rétt að rifja upp hver maðurinn er.
Segja má að Obama hafi komist á sjónarsviðið í síðustu forsetakosningum árið 2004 þegar John Kerry (D) tókst á við George W. Bush. Þá var Obama enn ekki orðinn öldungardeildarþingmaður en var samt boðið að halda lykilræðu á landsþingi Demókrata. Skemst er frá að segja að Obama sló rækilega í gegn og man ég eftir því að ég hlóð niður ræðunni af netinu og hreifst af ræðustílnum. Að sumu leyti er þetta söguleg stuðningsræða lítið þekkts manns sem varð stærri en sjálfur forsetaframbjóðandinn. Hitt dæmið sem kemur í hugann er stuðningsræða Ronald Reagans við Barry Goldwater (R) 1964 en þá sló Reagan í gegn - sextán árum fyrir forsetakjörið. Þó þessir frambjóðendur séu fjarska ólíkir náðu þeir sjálfir í gegn þegar þeir mæltu með öðrum...sem reyndar töpuðu báðir (Kerry og Goldwater)
Hér er bútur úr ræðunni þar sem Obama hafnar klofningi Bandaríkjanna í "rauð" og "blá" fylki sem má segja að hafi einkennt kosningabaráttuna bæði árin 2000 og 2004:
"The pundits like to slice-and-dice our country into "Red states" and "Blue states"; Red States for Republicans, Blue States for Democrats. But I've got news for them too. We worship an awesome God in the Blue States, and we don't like federal agents poking around in our libraries in the Red States. We coach Little League in the Blue States and yes, we got some gay friends in the Red States. There are patriots who opposed the war in Iraq and patriots who supported the war in Iraq. We are one people, all of us pledging allegiance to the stars and stripes, all of us defending the United States of America."
Þessi nálgun er lykilatriði í kosningabaráttu Obama, en er hann að ná óháðum kjósendum í milljónatali á sitt band. Þáttaka í kosningum í BNA er frekar lítil og getur þessi fjölgun áhugasamra og óflokksbundinna ráðið úrslitum. Obama er vel menntaður og frábær ræðumaður. Hann hefur náð meiri stemningu meðal kjósenda en aðrir frambjóðendur og má segja að myndin sé mun skýrari Demókratamegin en Rebúblíkanamegin í forkosningunum. Þar er Huckabee sigurvegari í Iowa en fast á hæla hans er Mitt Romney og svo má ekki afskrifa McCain og Giuliani á landsvísu.
Það er sögulegt að nú sé vel mögulegt að blökkumaður geti verið forseti Bandaríkjanna. Ekki er síður merkilegt ef næsti forseti BNA skyldi heita Hussein, en það er millinafn Barack Obama og verður það sjálfsagt notað gegn honum í baráttunni bæði af Demókrötum og Repúblikönum.
Eitt er víst að kjósendur í BNA þyrstir í breytingar og enginn af helstu frambjóðendum Demókrata né Repúblíkana er jafn sterkt tákn um breytingar og Barack Hussein Obama. Það verður fróðlegt að fylgjast með forkosningunum á næstu dögum, því ef Obama sigrar í NH er næsta víst að hann verði frambjóðandi Demókrata. - Hafi Clinton sigur í NH verður þetta þó tvísýnna.
Hér er svo mynd af kjósendum í New Hampshire bíðandi í kuldanum í dag eftir að sjá Obama á kosningafundi - segir meira en mörg orð:
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.1.2008 | 18:27
Hann var í bláu...
Sumir hafa spurt mig hvort nýfætt barn okkar Dagmar Unu hafi verið drengur eða stúlka og þá hvort að barnið hafi verið klætt í lit á fæðingardeildinni. - Aðalatriðið að allt gekk vel og móður og barni heilsast vel. - Hér er samt rétt að svara því sem um er spurt:
Svarið er: Barnið var drengur og var hann var klæddur í blátt.
Ég held að stráknum verði ekki meint af bláa litnum.
31.12.2007 | 13:19
Sex krossar - nýtt líf - nýtt ár
Hannes Kristmundsson stóð að uppsetningu sex krossa við Kögunarhól á föstudag. Þar voru björgunarmenn heiðraðir fyrir ómetanlegt starf við björgunarstörf við Suðurlandsveg af Samstöðu og Vinum Hellisheiðar. Vonandi verða þetta síðustu krossarnir sem þarf að reisa við Kögunarhól.
Hannes hefur ásamt frumherjanum Sigurði Jónssyni verið í flokki þeirra sem harðast hafa barist fyrir tvöföldun Suðurlandsvegar. Fyrir ári síðan fórum við saman með 25 þúsund undirskriftir til Alþingis. Síðan þá hefur ríkisstjórnin heitið tvöföldun.
Ég komst því miður ekki á þessa athöfn enda var ég var að sinna konu og nýfæddu barni sem fæddist á annan í jólum. Mér var hugsað til Hannesar og Sigurðar þar sem þeir héldu áfram fórnfúsu starfi sínu í hríð og byl. Þeirra verður minnst alla tíð fyrir sitt góða og árangursríka starf.
Vonandi verður hafist handa við veginn á nýju ári.
Gleðilegt ár!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
23.12.2007 | 20:18
Boðskapur Palla - boðskapur jólanna
Vinsælasta lagið fyrir jólin 2007 er sennilega "Betra líf" eftir Pál Óskar Hjálmtýsson. Textinn vakti hjá mér sterkar tilfinningar enda er ég viss um að hann er einlægur.
Mér finnst boðskapurinn í þessu lagi eiga vel við rétt fyrir jólin þegar efnishyggjan og boðskapur frelsarans takast á um athyglina. - Leyfi mér að birta textabrot hér á Þorláksmessu:
Svo lít ég bara í kringum mig og sé
alla þessa fegurð nærri mér
Ég tók því sem gefnu
en staldraði aðeins við
Ég er á réttum tíma á réttum stað
Hverjum get ég þakkað fyrir það ?
Ég opnaði augun
og hjartað
Fann á ný betra líf
af því ég fór loks að trúa því
að það væri eitthvað annað
eitthvað meir og miklu stærra
en allt sem er
Hvort sem það er stórt eða agnarsmátt
ég skynja einhvern meiriháttar mátt
Ég þarf enga sönnun
ég finn og veit og sé
Með allri sinni þekkingu og fé
aldrei gæti maður skapað tré
ég opnaði augun og hjartað
Fann á ný...
...betra líf
23.12.2007 | 13:46
Um skipan héraðsdómara
Umræða um að breyta lögum og reglum um skipan dómara hefur blossað upp eftir að Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra skipaði Þorstein Davíðsson héraðsdómara á dögunum. Menn eru almennt sammála um að Árni hafi farið að lögum og reglum. Þá eru álitsgjafar úr lögmannastétt sammála því að sú ákvörðun Björns Bjarnasonar að víkja hafi einnig verið rétt.
Af hverju er þá verið að fetta fingur út í skipun Þorsteins Davíðssonar?
Það er vegna þess að dómnefnd sú sem metur hæfi umsækjenda taldi aðra enn hæfari en Þorstein Davíðsson töldu þeir þó hæfan.
Samkvæmt lögum nr. 15 frá 1998 um dómstóla segir svo um skipan héraðsdómara:
III. kafli. Héraðsdómstólar.12. gr. Dómarar í héraði eru 38 að tölu og skipaðir ótímabundið í embætti héraðsdómara af dómsmálaráðherra.
Þann einn má skipa í embætti héraðsdómara sem fullnægir þessum skilyrðum:
1. Hefur náð 30 ára aldri.
2. Hefur íslenskan ríkisborgararétt.
3. Er svo á sig kominn andlega og líkamlega að hann geti gegnt embættinu.
4. Er lögráða og hefur aldrei misst forræði á búi sínu.
5. Hefur hvorki gerst sekur um refsivert athæfi sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti né sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta.
6. Hefur lokið embættisprófi í lögfræði eða háskólaprófi í þeirri grein sem metið verður því jafngilt.
7. Hefur í minnst þrjú ár verið alþingismaður eða stundað málflutningsstörf að staðaldri eða gegnt lögfræðistörfum að aðalstarfi hjá ríkinu eða sveitarfélagi, en leggja má saman starfstíma í hverri af þessum greinum.Dómsmálaráðherra skipar þrjá menn í dómnefnd til þriggja ára í senn til að fjalla um hæfni umsækjenda um embætti héraðsdómara. Skal einn nefndarmanna tilnefndur af Hæstarétti og er hann formaður nefndarinnar. Tilnefnir Dómarafélag Íslands annan mann í nefndina úr röðum héraðsdómara en Lögmannafélag Íslands þann þriðja úr hópi starfandi lögmanna. Varamenn skulu tilnefndir og skipaðir á sama hátt. Skipunartími í nefndina er þrjú ár, en þó þannig að skipunartími eins manns rennur út hvert ár. Sami maður verður ekki skipaður í sæti aðalmanns í nefndinni oftar en tvisvar samfleytt.
Dómnefnd skv. 3. mgr. skal láta dómsmálaráðherra í té skriflega og rökstudda umsögn um umsækjendur um embætti héraðsdómara. Ráðherra setur að öðru leyti nánari reglur1) um störf nefndarinnar.
1)Rgl. 693/1999.
Þorsteinn Davíðsson uppfyllir öll skilyrði þess að vera dómari samkvæmt ofangreindu. Um það eru allir sammála sem tjáð sig hafa um þetta mál.
Hvað er þá málið?
Hann er sonur Davíðs Oddssonar.
![]() |
Árni segist munu skila ítarlegum rökstuðningi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
18.12.2007 | 11:31
Hvað er sólarkísill?
17.12.2007 | 16:51
Betur má ef duga skal
Meðtöl segja aðeins litla sögu, en benda þó til þess hvar skóinn kreppir. Samræmd próf eru heldur ekki alvitur mælikvarði á nemendur eða skóla en eru þó eina mælistikan sem við höfum í dag.
Það að nemendur í Suðurkjördæmi skuli koma svona ítrekað illa út úr samræmdum prófum hlýtur að kalla á nokkra naflaskoðun. Ýmsar kenningar eru uppi um að kennarar annars staðar skekkji niðurstöður með því að halda slökum nemum frá prófum. Þetta er ósannað með öllu. Þá eru sumir sem telja að sumstaðar sé námið miðað við samræmd próf en ekki við þekkingu. Þetta er líka hæpin kenning.
Öll viljum við bæta grunnskólana sem eru þungamiðjan í rekstri sveitarfélaga og undirstaða allrar menntunar á Íslandi. Grunnurinn skipir miklu hvort sem hús er byggt að nám grundvallað.
Sú staðreynd að meðaltalið sé lægst í öllum greinum í Suðurkjördæmi á að hvetja sveitarstjórnarmenn, kennara, nemendur og foreldra til að taka nú höndum saman. Notum þetta gula spjald til að efla skólana okkar.
Betur má ef duga skal.
![]() |
Einkunnir hæstar í SV-kjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |