Spil á hendi

Bent hefur verið á að margar vísitölur hafi hrunið á þessu ári. Fyrst var það þorskvísitalan sem hrundi, þá úrvalsvísitala skráðra fyrirtækja og svo var það Pisamælingin sem sýndi Ísland aftarlega á menntunarmerinni. Allt eru þetta stór mál. - Á sama tíma hefur sú vísitala sem mælir verðbólgu á Íslandi farið hátt. - Ekki er það gott.

Hvaða útspil höfum við til að mæta vondum tíðindum?

Íslenska ríkið stendur sterkt og er skuldlaust við útlönd.
Viðskiptahallinn minnkar þó krónan sé sterk
Lífeyrissjóðirnir eru afar sterkir.
Vextir eru afar háir á Íslandi.

Íslenska ríkið hefur þarna spil upp í erminni þegar í harðbakkann slær.

Ríkissjóður hefur bolmagn til að fara í miklar framkvæmdir.
Ríkissjóður getur eflt menntakerfið og slegið tvær flugur í einu höggi.
Lífeyrissjóðirnir eru bakhjarl bæði lífeyrisþega og fjármagnsmarkaðar á Íslandi.
Bandaríski Seðlabankinn hefur lækkað vexti um 0.75% að undanförnu vegna fjármálakreppu tengdri húsnæðislánum.
Íslenski Seðlabankinn getur lækkað vexti um yfir 10% ef sambærileg kreppa kæmi á Íslandi.

Þetta eru góð spil að hafa þegar illa árar sem aðrar þjóðir hafa ekki í sama mæli.


Chavez kemur á óvart...

Það verður að gefa Hugo Chavez prik fyrir að játa ósigur í þessari atkvæðagreiðslu. Hugo vildi fá breytingar á stjórnarskránni svo hann gæti stjórnað til dauðadags (líkt og fyrirmyndin Fidel Castro). Þjóðin sagði nei. Hugo reyndi ekki að þræta...þótt hann ætli að láta kjósa um þetta aftur....

Þetta fannst mér samt athyglisvert í fréttinni:

"Chavez viðurkenndi ósigur sigur, en það kom bæði stuðningsmönnum hans og andstæðingum á óvart."


mbl.is Bandaríkin fagna ósigri Chavez
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um "kynhlutlausari" liti

Ég var svo heppinn að hafa komið í fatabúðir í austur Evrópu og upplifað skóbúð í austur Berlín fyrir fall múrsins. Það sem einkenndi "úrvalið" var einhæfnin. Allir voru eins. Ekkert val. Sumum fannst þetta vera fyrirheitna landið. Flest var nokkuð sem kalla mætti "kynhlutlaust" að mestu.

Heilbrigð börn fæðast annað hvort sem drengur eða stúlka. Fljótlega koma fram mismunandi hegðunarmynstur og eru margir á því að þær séu eingöngu uppeldislegar. Þekkt hefur verið um aldir að drengir vilja frekar blátt en bleikt öfugt við stúlkur. Þeir sem aðhyllast innrætinguna sem skýringu telja þetta hefjast við fæðingu þegar börn eru færð í lituð föt og hafa nú fengið talsmann á Alþingi eins og menn þekkja.

Jafnrétti er góð hugsjón sem við erum sammála um sem takmark. Menn eiga að fæðast jafnir. Menn eiga að hafa jöfn tækifæri til náms, vinnu, kosninga og skrifa svo eitthvað sé nefnt. Hlutur kvenna á vinnumarkaði hefur aukist mikið og er það talið til marks um aukið jafnrétti.

Talsmaður "kynhlutlausari" lita á fæðingardeildum vill klæða börnin í hvítt eða eitthvað annað sem minnir ekki á kynferðið. Með öðrum orðum fresta eða koma í veg fyrir að þau séu kyngreind. Þetta á að stuðla að auknu jafnrétti.

Ef hér væri fundinn lykillinn að auknu jafnrétti kynjanna væri réttast að gera eftirfarandi breytingar:

(a) Banna bleikan varalit
(b) Banna blá og bleik föt
(c) Breikka rauða krossinn í íslenska fánanum (og hætta í leiðinni að nota kross)
(d) Lita Viðskiptablaðið (það er bleikt) í "kynhlutlausum" lit svo sem ljósgráum

En kannski vilja kynin frekar þessa liti genetískt?

Að minnsta kosti bendir þessi rannsókn breskra vísindamanna til þess. . .

Hér er svo skýrslan:
http://download.current-biology.com/pdfs/0960-9822/PIIS096098220701559X.pdf

...ennfremur:

http://download.current-biology.com/pdfs/0960-9822/PIIS096098220701559X.pdf

 


Til hamingju Margrét Pála - til hamingju með Margréti Pálu

Margrét Pála hefur unnið mikið afrek með uppbyggingu Hjallastefnunnar. Ferskir straumar hafa fylgt henni í þessu mikla starfi.

Til hamingju með verðlaunin Margrét Pála!

Til hamingju með að hafa Margréti Pálu ......


mbl.is Margrét Pála hlaut Barnamenningarverðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Jesú hættulegur börnunum?

Pólítískur réttrúnaður er í tísku um þessar mundir, enda er eitt heitasta málið á Alþingi fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um lit á fötum nýfæddra barna. Nú er svo komið að kristilegur boðskapur er talinn "óheppilegur" fyrir börn! Til að gæta jafnræðis í anda pólítísks réttrúnaðar má ekki mismuna trúarbrögðum og í skjóli þess er hart sótt að kristinni trú. Nú er það svo að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga telur að boðskapur Jesú Krists sé umburðarlyndur og mannbætandi. Um það eru menn sammála. Mér finnst því með nokkrum ólíkindum ef ákveðinn hópur fólks telur það sérstakt forgangsmál að úthýsa kristni úr skólum landsins og hafa stofnað með sér þrýstihóp. Hópur þessi fagnar nú áfangasigri þar sem kristilegt siðgæði er ekki lengur að finna í nýjum lagafrumvarpi um grunnskóla. Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar góða grein um þetta mál í 24 stundum í dag. Það fólk sem nú berst gegn Jesú í skólum landsins vill sjálfsagt hætta með "litlu jólin" og annað sem tengist jólunum svo sem jólaskreytingar, jólalög og jólagjafir. Sennilegast vill þessi hópur ganga skrefið til fulls eins og gert hefur verið í Bretlandi nýverið; að banna jólin. Í sumum breskum bæjum hafa yfirvöld hætt að kalla jólin "Christmas" og nota í staðinn heitið "Winterval" til að gæta "jafnræðis". Á Íslandi má eflaust búast við því að "jól" verði breytt í "Sólstöðuhátið" eða "Vetrarhvörf" til að gæta pólítísks réttrúnaðar. Af hverju að stoppa þarna? Af hverju ekki að banna sagnfræði þar sem þar eru umdeildir hlutir og mismunandi áherslur? Af hverju ekki að banna íslenskukennslu sem skyldufag? Hvar á að stoppa? Ég hefði haldið að önnur mál væru meira aðkallandi en þessi. -------------------------------------------------------------------------------- Hér að neðan er svo fyrirspurnin um fatalitinn: 135. löggjafarþing 2007–2008. Þskj. 318 — 284. mál. Fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um aðgreiningu kynjanna við fæðingu. Frá Kolbrúnu Halldórsdóttur. 1. Hvernig hefur sú hefð mótast á fæðingardeildum opinberra sjúkrastofnana að nýfædd stúlkubörn eru klædd í bleikt en drengir í blátt og þeir auðkenndir með bláum armböndum og stúlkur með bleikum? 2. Telur ráðherra koma til greina að þeirri hefð verði breytt á þann veg að nýfædd börn verði ekki aðgreind eftir kyni með bleikum og bláum armböndum og að þau verði framvegis klædd í hvítt eða aðra kynhlutlausari liti?

Jónas og geitin

Þú stóðst á tindi Heklu hám
og horfðir yfir landið fríða,
þar sem um grænar grundir líða
skínandi ár að ægi blám.
En Loki bundinn beið í gjótum
bjargstuddum undir jökulrótum. -
Þótti þér ekki Ísland þá
yfirbragðsmikið til að sjá?

Svona orti Jónas Hallgrímsson til Paul Gaimard fyrir einni og hálfri öld. Ennþá streyma þær áfram til sjávar Þjórsá og Ölfusá þótt "mikið vatn hafi runnið til sjávar" frá því Gaimard og Jónas riðu um héruð.

En einn ágætur Selfyssingur benti mér á þetta kvæði Jónasar sem ekki telst dæmigert fyrir hann.

Þegar þú kemur þar í sveit,
sem þrímennt er á dauðri geit,
og tíkargörn er taumbandið
og tófuvömb er áreiðið,
og öllu er snúið öfugt þó
aftur og fram í hundamó,
svo reiðlagið á ringli fer
og rófan horfir móti þér, -
veittu þeim draugi blundarbið,
bölvaðu ei né skyrptu við,
en signdu þig og setztu inn
sunnan og fram í jökulinn,
lúttu þar að, sem loginn er,
og láttu bráðna utan af þér,
og seinna, þegar sólin skín,
sendu geisla með boð til mín.

Til lukku með árin 200.


Samstaða, hringlandaháttur og umhugsunarefni frá Capacent Gallup

Var að koma af bæjarstjórnarfundi þar sem margt var á dagskrá. Full samstaða var um tvö mál; ályktun um eflingu löggæslunnar og ályktun um að orkan á Suðurlandi verði nýtt í héraði. Hvoru tveggja góð mál sem full samstaða er um og öllum til sóma.

Annað mál sem okkur í minnihlutanum fannst hins vegar undarlegt var tillaga um ráðningu íþrótta- og tómstundafulltrúa á sama tíma og verið er að vinna að stefnumótun í íþrótta- og tómstundamálum. Okkur þótti nógu slæmt að þeir litlu peningar sem renna til íþróttamála í Árborg skuli vera settir í skýrslugerð fyrir milljónir, en þó er sínu verra að ekki sé beðið niðurstöðu vinnuhópsins (og ráðgjafafyrirtækisins Ræktar ehf.) og farið í mannaráðningar.
Hvað liggur á? Til hvers er skýrsluvinnan ef ekki er beðið eftir niðurstöðunni?

Þá var ágæt umræða um flugvallarmál á Suðurlandi. Þó menn væru ósammála var umræðan gagnleg.

En mesta umhugsunarefnið var þó nýtt skipurit sem var borið undir atkvæði. Skipuritið er afrakstur annarar skýrsluvinnu, en í þetta skiptið var Capacent Gallup fengið til að vinna úttekt á framkvæmda- og veitusviði Árborgar.

Mér finnst umhugsunarefni að sjá SVÓT greininguna sem unnin var en þar kom fram hvaða styrkleikar, veikleikar, ógnanir og tækifæri menn sjá.
(Ég tek það fram að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins komu ekki að þessari vinnu).

Í SVÓT greining Capacent Gallup (bls. 40) er bent á að einn af styrkleikum felist í góðum starfsmönnum, en ógnanir eru meðal annars "náttúruhamfarir", "mengunarslys" og "pólítískar ákvarðanir". Til veikleika er talinn skortur á pólítískri sýn. Eitt af tækifærunum sem bent er á í SVÓT greiningunni eru "kosningar".

Segir þetta meira en mörg orð.  


ESB til fyrirmyndar?

Óendurskoðaður alríkisrekstur 13 ár í röð!

Hvernig geta menn réttlætt þetta?

Viljum við borga skatt til ESB?


mbl.is Endurskoðendur neita að skrifa undir reikninga ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvert er hlutverk ríkisins?

Alþingi setur lög og dómstólar dæma, en það sem við köllum í daglegu tali "ríkið" hefur einkarétt á mörgu meðal annars skatt- og tollheimtu og fer með framkvæmdavald laga.

Íslenska ríkið hefur hætt í einkarekstri símaþjónustu, bankareksturs og lagt niður Verðlagsráð, en er enn nær einrátt í heilbrigðisgeiranum, menntakerfinu, orkugeiranum og í samgöngum.

Íslenska ríkið rekur flugvelli, flugstöð Leifs Eiríkssonar og meira að segja verslun á eina alþjóða flugvellinum. Sagt er að helmingur snyrtivara sé seld af íslenska ríkinu í flugstöðinni einni saman. Hinn helmingurinn er seldur af hundruðum verslanna sem einkaaðilar reka. Ríkið fær þó sinn 24,5% vask af hverri sölu þar.

En íslenska ríkið gerir fleira:

Fjárhættuspil er bannað með lögum, en þó er ákveðnum aðilum veittur réttur til að starfrækja fjárhættuspil. Þeir sem njóta einkaréttar til rekstur fjárhættuspila eru aðilar eins og Háskóli Íslands og Íslensk Getspá.

Áfengi og tóbak er háð einkasölu ríkisins. Aðrir mega ekki stunda viðskipti með þessi efni nema með sérstökum leyfum. Íslendingar versla í "ríkinu".

Ríkið er löggjafinn og setur lög um fjárhættuspil og sölu löglegra og ólöglegra fíkniefna.

Ríkið er eftirlitsaðilinn .

Ríkið er rekstraraðilinn.

Getur verið að hér séu hagsmunaárekstrar?

Eða hvernig skilgreinum við hlutverk ríkisins?


Orkan verði nýtt í héraði

Hvergi er meiri orka en á Suðurlandi. Á það ekki bara við um menn heldur ekki síður um endurnýjanlega orku sem nýtt er til orkufreks iðnaðar. Miklar væntingar hafa verið um að raforkan sem unnin verður á Suðurlandi verði notuð á Suðurlandi. Nýlegt SASS þing ályktaði um þetta og nú munu Sjálfstæðismenn í Árborg leggja fram tillögu þessa efnis fram á næsta bæjarstjórnarfundi. Ölfusið hefur verið í fararbroddi við að gera allt til alls svo unnt sé að stunda orkufrekan iðnað. Nálægð Ölfus við orkulindir Hellisheiðar gera það ákjósanlegt en svo má heldur ekki gleyma því að Þorlákshöfn hefur góða höfn sem auðvelt er að stækka. Þá er kælivatn í miklum mæli og nálægð við stórar byggðir. Önnur sveitarfélög á Suðurlandi mættu taka sér frumkvæði Ölfyssinga til fyrirmyndar, en ekki er síður mikilvægt að menn standi þétt við bakið á þeim sem sýna frumkvæði í verki. Vonandi verður sem allra mest af virkjaðri orku úr Hengilssvæðinu og Þjórsá nýtt á Suðurlandi. Það er ekki bara byggðapólítík, heldur jafnframt umhverfispólítík. Því lengri leið sem menn vilja leiða rafmagnið; þess meira þarf að byggja af umdeildum háspennulínum. Það ætti því að nást full sátt um þetta mál hvar í flokki sem menn kunna að standa.

168 aðfluttir eða 5.535 á ári?

Samkvæmt reiknilíkani Hagstofu Íslands er því spáð að nettófjöldi aðfluttra til Íslands verði 168 manns á ári. Forsendurnar eru eftirfarandi: "Framreikningur þessi er frá árinu 2003. Forsendur hans eru: Meðalævilengd karla árið 2040 verður 80,1 ár og 82,6 ár hjá konum. Fæðingartíðni (lifandi fædd börn á ævi hverrar konu) er meðaltal áranna 1998-2002 eða 1,99. Búferlaflutningar til og frá landinu eru meðaltal áranna 1993-2002 eða 168 manns á ári." Þetta ma skoða á vef Hagstofunnar

Staðreyndin er sú að á síðasta ári skráði Hagstofan sjálf 5.535 aðflutta UMFRAM brottflutta: 2002: 745 2003 : 480 2004 : 968 2005 : 3.742 2006 : 5.535 (Heimild: www.hagstofa.is) Samkvæmt tölum Hagstofunnar hefur hlutfall erlendra ríkisborgara á Íslandi farið úr tæpum 2% í rúm 6% á 10 árum. Þá eru ótaldir þeir sem hafa hlotið íslenskan ríkisborgararétt. Sagt er að fjölmargir starfi hjá svonefndum starfsmannaleigum sem ekki séu skráðir. Þeir hljóta því að bætast við. Í öllu falli eru miklu meiri breytingar að eiga sér stað á Íslandi en ætla má af mannfjölaspá Hagstofunnar. Á einu ári fjölgar svipað og gert er ráð fyrir á 40 árum í spálíkaninu sem getið er hér að ofan. Við þurfum að vera full meðvituð um þróunina svo við getum brugðist rétt og vel við þessum breytingum. Fyrsta skilyrðið er að vera með sem réttastar tölur þó hraðinn sé mikill.


Davíð Oddsson, Óðinn og afmæli

Í gær hélt Óðinn upp á 60 ára afmæli Selfoss með hátíðarkvöldverði í Hótel Selfoss. Heiðursgestir voru þau Ástríður Thorarensen og Davíð Oddsson. Þetta kvöld var flestum ógleymanlegt sem sátu enda bæði hátíðlegt og skemmtilegt.

Sjálfstæðisfélagið Óðinn hefur í dag um eitt þúsund félagsmenn og hefur tvöfaldast á síðustu tveimur árum. Í tilfefni af afmæli Selfosskaupstaðar var ákveðið að menn gerðu sér dagamun enda fullt tilefni til.

Davíð Oddsson er Selfyssingur og bjó fyrstu ár sín á Austurveginu en fluttist svo til Reykjavíkur. Nú flytja margir Reykvíkingar austur.

Davíð skilur eftir sig djúp spor hjá íslensku þjóðinni og hefur alla tíð vakið upp sterk viðbrögð hjá fólki. Sagan mun sýna hversu mikið breyttist í frelsisátt á valdatíma Davíðs.

Sumir segja að Davíð sé valdamikill í dag. Sennilega er það ekki allskostar rétt, enda eru völd Seðlabankans afar takmörkuð þó sjálfstæður sé.

Hitt er hins vegar laukrétt að Davíð er áhrifamikill í íslensku samfélagi. Það sést kannski best á því að pólítískir andstæðingar hika við að snúa við mörgum af þeim framfaramálum sem gengu eftir undir stjórn Davíðs. Það eru fáir sem mæla með því Síminn verði ríkisfyrirtæki og fái einokunarleyfi á ný. Þeir eru þöglir sem vildu banna kreditkort og takmarka gjaldeyrisviðskipti fólks. Eignaskattturinn á sér færri talsmenn en áður og fáir vilja tvöfalda skatta á fyrirtækin. Litasjónvarpið verður áfram og fáir vilja Verðlagsráð!

Það er engin tilviljun að framfarir hafi verið miklar á sama tíma og höft viku fyrir frelsi. Þetta gerðist líka í Bretlandi hjá Maggie, í Þýskalandi eftir stríð og annars staðar þar sem ríkis-of-stjórn víkur fyrir frjálsri hagstjórn. Fólkið finnur sinn farveg best.

Óðinn þakkar fyrir Davíð.


Saga af flugvelli

Þegar Bretar komu til Íslands í maí 1940 lögðu þeir áherslu á gott flugvallarstæði og varð Kaldaðarnes við Ölfusá fyrir valinu. Mikil flóð í ánni urðu svo til þess að flugvöllurinn lagðist af og var starfssemin flutt til Keflavíkur. Nú eru aftur uppi umræður um flugvallarstarfssemi í nágrenni Selfoss.

Í fyrsta lagi var samþykkt merk ályktun á ársþingi Sambands Sunnlenskra Sveitarfélaga (SASS) um alþjóðaflugvöll á Suðurlandi. Ég sat í samgöngunefnd ásamt Elliða Vignissyni og öðru góðu fólki, en Elliði leggur út af ályktuninni á bloggi sínu í dag, reyndar með þeim formerkjum að flugvöllurinn verði á Bakka.

Í annan stað hefur D-listinn í Árborg talið rétt að huga að framtíð flugmála í tengslum við Selfoss og í Sveitarfélaginu Árborg. Það skýtur skökku við að sjá niðurstöðu starfshóps um flugvallarmál sem í raun lokar á þennan möguleika í nágrenni við Selfoss.
Um þetta má lesa í fundargerð bæjarráðs frá því í morgun.

Þá hafa ýmsir aðilar í flugrekstri sýnt því áhuga að færa starfssemi sína til Árborgar. Er bæði um að ræða aðila sem eru með starfssemi á Keflavíkurflugvelli og á Reykjavíkurflugvelli. Staðssetning á Suðurlandi hentar æ betur til ferðmála. Þá er þrengt að starfssemi í Reykjavík og aðstöðugjöld í Keflavík eru há.

Það skyldi þó aldrei vera að í framtíðinni verði alþjóða- og ferðamálaflugvöllur í Árnessýslu?


Toys"я"Us?

Toys"R"us, eða Tojsar-öss eins og skráð gæti verið í Billjónsdagbók er táknmynd um margt á Íslandi í dag. Eilífar umferðartafir hafa sett mark sitt á nágrenni Smáralindar og er þó ekki búið að opna stóra turninn sem nú rís. Toys"R"us var að opna og landinn kaupir stíft.

Sagt er að Íslendingar fái oft dellu fyrir hlutum, enda muna margir eftir fótanuddtækjunum, sodastreaminu og nú síðast fjórhjólunum. Sagt hefur verið um karlmenn að; "the only difference between men and boys is the price of the toys".

Bílaeign, húsbyggingar og nú síðast einkaflugvélar á Reykjavíkurflugvelli eru dæmi um íslensk leikföng samtímans. Þau eru svo sannarlega að verða dýrari með hverju árinu. Nú ætlar samgönguráðherrann að skoða sérstakar álögur vegna einkaflugvéla. Ekki er víst að það slái farþegana út af laginu. Við erum nefninlega þannig að við samsömum okkur leikföngunum stundum. Kannski á nafn búðarinnar við okkur mörg hver, ung og eldri:

Toys are us?


Fundir og mannfagnaðir

Karlakvöld U.M.F. Selfoss er orðinn fastur liður hjá mörgum. Kvöldið er í senn menningarhátið og fjáröflun fyrir knattspyrnudeildina sem nú er að uppskera vel. Í ár voru þeir Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra og Guðmundur Steingrímsson aðstoðarmaður borgarstjórans í Reykjavík ræðumenn og fjöldi gallvaskra pilta hlýddi á. Uppboðið á völdum munum og óvæntum var þó hápunkturinn enda boðnir upp hinir merkustu hlutir undir strangri stjórn Sigurðar Fannars Guðmundssonar sem beitti uppboðshamrinum með eftirtektarverðum limaburði. Keppnistreyjur afreksmanna seldust á háum prís, en svo voru málverk og t.d. hönnun á heilu einbýlishúsi sem VÁ verkfræðistofan gaf. Greinilegt að margir vilja styðja okkar menn.

Mikil umræða hefur verið um mætingar á annars konar fundi að undanförnu, en þess hefur gætt að slök mæting sé á fundi í nefndum hjá Árborg. Til bókanna hefur komið á fundum í bæjarstjórn og í bæjarráði, enda eru þess dæmi að heilu nefndirnar hafa ekki komið saman svo mánuðum skiptir. Rétt er að huga því hvort slíkar nefndir séu óþarfar.

Þá er framundan hátíðarkvöldverður í tengslum við aðalfund Óðins á Selfossi föstudaginn 9. nóvember. Verður hann á hótelinu og er tilefnið það að halda upp á 60 ára afmæli Selfoss jafnframt því sem aðalfundur félagsins er haldinn. Búast má við góðum gestum sem uppruna eiga frá Selfossi og munu heiðra fundinn. Meira af því síðar.

Það er því talsvert um fundi og aðra mannfagnaði sem lýsa upp í vetrardimmunni.


RES hf.

Heyrði þessa sögu í dag:

"Ef hluthafafundur REI stendur óhaggaður og nýi meirihlutinn telur sig bundinn af honum er bara eitt ráð; að stofna Reykjavik Energy Services. Segja upp öllum sérfræðingum OR og ráða þá til RES hf. Þar með væri samningur REI við OR rammi utan um tóma mynd. Eftir stæðu svo auðlindirnar og lagnirnar í OR"

Þetta var reyndar sagt í gríni (no pun intended) en samt er rétt að muna hvernig opinberar stofnanir (og valdamiklar nefndir) hafa verið lagðar niður.


olítunnan á $87.97 - hvað þýðir það?

Olíuverð heldur áfram að hækka og nálgast nú 90 bandaríkjadali. Þó $ sé verðminni en oft áður, er verðið á olíutunnuni komið langt fram úr hófi og fer að nálgast það að hefta hagvöxt í heiminum. Sögulega séð hefur tunnan verið í kring um 20 dali síðustu 80 ár. Olíuverð hefur hækkað um 20 dali á örstuttum tíma - og var þó hátt fyrir.

Sumir kunna að segja að það sé bara gott því þá verði minna um gróðurhúsalofttegundir, en það er ekki víst. Þjóðir heimsins munu í vaxandi mæli nota nýja orkugjafa, en ekki síður nota kol af kappi til raforkuframleiðslu. Þessi hækkun kemur sér illa fyrir bensínnotendur á Íslandi, en vel fyrir Ísland að mörgu öðru leyti þar sem við erum í fararbroddi í notkun og framleiðslu endurnýjanlegra orkugjafa. Kannski verður þetta til þess að bílar og skip á Íslandi verði knúin eldsneyti úr öðru en olíu.

Því má svo ekki gleyma að við erum orðin samvaxin heimsmarkaði, ekki síst með skuldsettum yfirtökum erlendis. Samdráttur á heimsvísu gæti haft mikil áhrif á útrás íslenskra fyrirtækja og ófyrirséð áhrif á valdajafnvægið í heiminum sem aftur er orðið viðkvæmt.

Það er kaldhæðnislegt að hækkun á olíuverði í dag og gær er einkum vegna fregna um viðsjár í mið-austurlöndum. Hækkun á olíu getur einmitt orðið til þess að grafa enn frekar undan viðkvæmu valda- og vopnajafnvægi á því svæði sem meirihluta olíu er að finna.

Eitt er víst að augu heimsins verða í vaxandi mæli á lausnum til að mæta tvöfaldri ógn; olíuþurrð og hlýnun jarðar. Hér getur Ísland spilað stórt hlutverk. Vonandi náum við að jafna okkur á REI-málum og komast yfir darraðadansinn sem dunað hefur á síðustu dögum. Ísland á mikið erindi við orkuheiminn ef vel er á málum haldið.

Vonum að fall sé fararheill á þeirri vegferð.


Hvers virði er 20 ára einkaréttur á útrás OR?

Það er fyrst núna að heildarmyndin er aðeins að skýrast í REI-málinu. Samingur OR og REI sem undirritaður var 3. október er óuppsegjanlegur og til 20 ára var fyrst dreginn fram í dagsljósið í gær. Þessi samningur veitir REI forgang á öll erlend verkefni sem kunna að koma á borð OR næstu 20 ár. Ennfremur hefur REI fullan aðgang að öllum gögnum og sérfræðingum OR.

Hvers virði er svona samningur?

Stjórnarformaður OR kastaði fram 300 milljarða verðmiða á OR nýverið.

Hvers virði er útrás OR næstu 20 árin?

10 milljarðar eru 3% af 300 milljörðum.

Er útrásin svona lítill hluti af framtíðarvirði OR?

Eða hvað?

Nú er að sjá hvernig Svandís Svavarsdóttir og félagar taka á þessu máli.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband