12.10.2007 | 20:31
Reikjavíkurlistinn
Nýr fjögurra til fimm flokka meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur samanstendur af ólíku fólki og verður vægast sagt fróðlegt að fylgjast með hvernig þeim gengur að ná saman í fyrsta verkefni nýs meirihluta: REI.
Yfirlýst markmið meirihlutans er að:
"Samstaða sé um það innan nýs meirihluta í borginni að vinna að sameiginlegri niðurstöðu í málinu en ekkert liggi enn fyrir um það hvernig sú niðurstaða verði."
Eða svo sagði Svandís Svavarsdóttir í dag. Jú og "róa þarf umræðuna" sagði hún líka.
Var ekki markmiðið að stöðva sölu á almannaeigum?
Átti ekki að bakka út úr samrunaferlinu og leita allra leiða við það?
Eða er markmiðið núna eingöngu að "ná samstöðu um að vinna að sameiginlegri niðurstöðu"?
Voru það ekki málefnin sem skiptu máli í fyrradag?
Eða voru það völdin?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.9.2007 | 21:40
Krónan, tungan og sjálfstæðið
Það er í tísku að kenna íslensku krónunni um margt sem mönnum finnst aflaga í viðskiptalífinu. Og víst er það svo að stýrivextir eru háir. Reyndar afar háir. Skuldarar þurfa því að borga háa vexti og sparfjáreigendur fá á sama tíma ríkulega vexti. Rétt er að mælt í evrum eru hamborgarar og bjór frámunalega dýr munaður fyrir ferðamenn og yfirdráttarlán er með því hæsta sem þekkjast.
En hvað með aðra hagþætti?
Hvernig eru stóru mælistikurnar fimm; atvinnleysi, fjölgun starfa, verðbólga, hagvöxtur og kaupmáttur?
- Atvinnuleysi var 0,9% í ágúst sem er það minnsta í Evrópu
- Störfum fjölgar hratt sem sést vel á því að 832 ný atvinnuleyfi útlendinga í ágúst einum
- Verðbólga er 0,5% án húsnæðis eins og sést á þessu línuriti
- Hagvöxtur var 4,2% á síðasta ári sem er um tvöfalt á við fjölgun (sem þó var gríðarleg)
- Laun eru heilum 30% hærri hér en á Evrusvæðinu
Eru þetta ekki atriði sem skipta máli?
Er þetta tilviljun?
Það sem einkennir íslenskt þjóðfélag er frelsi umfram flestar aðrar þjóðir og hér mega menn nota erlendar myntir eins og Evru, Jen og Dal til að kaupa og selja fasteignir, fyrirtæki og taka lán. Þáttaka okkar í myntbandalagi Evrópu (eins og Björgvin G. Sigurðsson vill) eða tenging við Bandaríkjadal (eins og Guðni Ágústsson ýjar að) þarf að skoða vel áður við köstum krónunni.
--------
Annað atriði sem tengist sjálfstæði okkar og hefur verið í umræðunni og það er notkun íslenskunnar. Á sama tíma og við viljum að innflytjendur aðlagist íslensku samfélagi og læri íslensku færist það í vöxt að fyrirtæki noti ensku sem aðalmál. Vonandi verður þessi þróun til þess að fólk á Íslandi varðveiti tungu forfeðranna á sama tíma og við tileinkum okkur ensku í æ ríkara mæli. Svisslendingar eru dæmi um banka- og vatnsaflsþjóð sem hafa getað lifað með fleiri en eina tungu. En gleymum því ekki hvað íslenska tungan hefur gefið okkur. Ekki bara menningararf; heldur sameinað okkur sem þjóð. Þjóðarvitund Íslendinga er sterk og ég er alveg viss um það að það er styrkur okkar í alþjóðlegri samkeppni hvort sem um er að ræða í viðskiptum eða í samskiptum ríkja. Við eigum að bæta enskunám og enskunotkun, en kostum ekki íslenskunni.
Krónan og tungan, landhelgin og fjárræði íslenska ríkisins (og þá skattalegt sjálfstæði) eru allt atriði sem skiptu mjög miklu máli á síðustu öld þegar Íslendingar brutust út úr því að vera fátæk nýlenduþjóð yfir í að vera fyrirmynd í fjölmörgum málum.
Við ættum að huga að því sem gott er áður en við köstum því góða fyrir róða.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
25.7.2007 | 18:40
Einar Oddur kvaddur
19.7.2007 | 12:07
Ingibjörg í Ísrael
16.7.2007 | 09:30
Einar Oddur bráðkvaddur
Það eru mikil sorgartíðindi að Einar Oddur Kristjánsson skuli vera bráðkvaddur langt fyrir aldur fram. Einar Oddur var alla tíð sá stjórnmálamaður sem hlustað var á og þurfti engar sérstakar vegtyllur til þess. Hann var tilbúinn að hafa sjálfstæðar skoðanir og standa við þau gildi sem hann trúði á. Í mínum huga var Einar Oddur foringi sem vildi ná árangri fyrir þjóðfélagið Ísland. Þjóðarsátt er orð sem flestir tengja við persónu Einars Odds. Ábyrg ríkisfjármál eru annað hugtak sem kemur upp í hugann.
Heiðarleiki, stefnufesta og hugrekki einkenndu Einar Odd og þeir voru heppnir sem fengu að kynnast honum. Ég man vel þegar ég hitti Einar Odd fyrst, en það var á Sólbakka þegar ég kom þar 1986. Mér er ógleymanlegt hvernig miðpunktur Einar Oddur var. Menn voru sífellt að koma til hans og hlusta á hann, spyrja hann og rökræða. Styrkur hans var staða hans sem manns og það dró aðra að honum alla tíð. Það er mikið skarð fyrir skildi með skyndilegu brotthvarfi Einars Odds bæði fyrir stjórnmálin, aðstandendur og þá sem þekktu Einar Odd. - Hans er minnst um land allt.
Ég votta fjölskyldu og aðstandendum samúð mína.
Blessuð sé minning Einars Odds.
27.6.2007 | 09:53
Fordyri
Friðjón skrifar góða grein hér á bloggið um "kerfið" í BNA. Við Íslendingar gleymum því oft hvað við höfum það gott hér, en enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Þótt "kerfið" sé þungt á Íslandi þá kemst það ekki í hálfkvisti við flækjustigið hjá stjórþjóðunum. Ég kynntist þessu ágætlega í Bretlandi þegar ég bjó þar.
Til að geta leigt íbúð og sinna helstu nauðsynjum þarf bankareikning. Til að fá bankareikning þarf að sanna tilvist sína og vera auk þess með launað starf síðustu mánuðina. Engar kennitölur eru notaðar svo viðkomandi þarf að mæta með skriflegar sannanir á tilvist sinni en þær eru helst taldar vera prentaðir reikningar eins og fyrir síma og rafmagni. Til þess að vera rukkaður um rafmagn og síma þarf viðkomandi að vera með íbúð, en til að vera með íbúð þarf helst að vera með bankareikning. Til þess að fá laun (ef viðkomandi er kominn með vinnu) þarf að fá trygginganúmer. Til að fá trygginganúmer þarf að viðtal hjá vinnustofnun, en það getur tekið nokkrar vikur að fá að hitta þá. Þegar umsókn er gerð getur það tekið 1-3 tíma. Þá tekur annar starfsmaður við sem fer yfir umsóknina sem hinn starfsmaðurinn útfyllti. Hún er svo send í úrvinnslu og yfirferð. Það getur tekið 2-3 mánuði, jafnvel lengur ef eitthvað hefur verið gert vitlaust.
Þegar trygginarnúmer er loks fengið er það skýrt tekið fram að það gildir ekki sem sönnun fyrir persónu (no id). Lífeyrisgreiðslur eru þá dregnar af kaupi og rennur það í heilbrigðis- og trygginakerfið öfugt við lífeyriskerfið á Íslandi þar sem hver og einn á persónulega inneign. Þegar viðkomandi persóna flytur burt verða svo lífeyrisréttindin eftir í Bretlandi. Kannski ekki vanþörf á þar sem mikill halli er á málaflokknum þar í landi eins og víða annars staðar.
Sem sagt fyrst vinnu í 3 mánuði, svo trygginganúmer sem fæst eftir aðra 3, svo íbúð og safna reikningum í 2 mánuði amk og þá er hægt að sækja um bankareikning.
Vildi bara rifja þetta upp því það er svo miklu, miklu einfaldara að fá kennitölu og bankareikning á Íslandi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.6.2007 | 08:18
Moldrokið geimsæja
Það var eins og kviknað væri í jörðinni í gær. Molrokið var um allt og hef ég ekki séð það meira. Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem svona mikið berst út á haf. Ég hef bloggað um þetta áður og sýndi þá einmitt gervitunglamyndir frá NASA til að sýna hversu mikið landfokið er út á haf. Einhverjir efuðust um að þetta gæti verið rétt og héldu að þetta hlyti að vera í sjónum, svo það er gott að þetta er staðfest hér af mbl.is með þessum MODIS myndum. Landfokið á Íslandi er það mikið að það er svipað að sjá utan úr geimnum og moldrokið á sléttum Kína og í Sahara. Báðir þessir staðir eru heimsþekktir fyrir þetta vandamál.
Björn bóndi í Úthlíð vill láta stífla Hagavatn til að gamlir aurbotnarnir í kring fái raka í þurrkum. Það myndi sjálfsagt bæta ástandið, en víða er hætta á foki og uppblæstri.
Þetta hefur sennilegast ekki verið svona á þjóðveldisöld þegar landið var gróið frá fjöru til fjalls.
![]() |
Moldrokið á Suðurlandi sést utan úr geimnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.6.2007 | 11:05
MBF
Ég fór á fund hjá MBF á Hótel Selfossi í gær. Fundurinn var vel sóttur og fróðlegur. Fjöldi fólks tók til máls og var fróðlegt að heyra skoðanir og reynslusögur fundargesta. Athygli vakti að enginn bæjarfulltrúi úr meirihluta bæjarstjórnar Árborgar skyldi sjá sér fært að sækja þennan fund. MBF er skammstöfun fyrir Miðbæjarfélagið, en MBF er þekkt skammstöfun fyrir annað merkt félag: Mjólkurbú Flóamanna. Það er mikilvægt að hafa rætur og þekkja söguna. Þetta vita þeir sem standa að Miðbæjarfélaginu.
Einkaaðilar hafa sýnt þá framsýni að kaupa upp lóðir í miðbæ Selfoss. Því ber að fagna. Selfoss á einstakt tækifæri til að búa til fagran miðbæ við einstaklega fallegt brúarstæði og Ölfusá. Íbúarnir hafa sýnt þessu máli mikinn áhuga og er vert að gefa sjónarmiðum þeirra gaum. Lóðir bæjarins og bæjargarðurinn skipta hér miklu og er nauðsynlegt að íbúarnir fái að koma skoðunum sýnum á framfæri.
Fundur MBF samþykkti ályktun um framkomnar miðbæjarhugmyndir þar sem þeim er andmælt og lögð er áhersla á að vernda bæjargarðinn. Það skiptir miklu að sátt sé um miðbæ Selfoss og ég er þess fullviss að aðstandendur MBF eru á þeirri skoðun. Nú bíður það verkefni að ná þeirri sátt svo unnt sé að byggja upp glæsilegan miðbæ til framtíðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.6.2007 | 14:57
Verdur það Þorlákshöfn?
Michel Jaques, forstjóri Alcan Primary Metal Group segir Þorlákshöfn vera áhugaverðan kost. Ólafur Áki bæjarstjóri er stórhuga og hefur lýst yfir áhuga á fá áliðnað í Þorlákshöfn. Höfnin í Þorlákshöfn hentar vel og er auðvelt að stækka hana. Þá er landsvæði í Ölfusinu gríðarmikið. Margir Sunnlendingar hafa talið eðlilegt að orka sé nýtt í héraði. Hér eru líka ákveðin umhverfisrök þar sem styttri lagnaleiðir gæti minnkað raforkulínur.
Álver eru og verða umdeild, en það er ekki ólíklegt að áliðnaður skjóti rótum í Þorlákshöfn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.6.2007 | 10:08
Útivist
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.6.2007 | 22:58
Gróðurhúsaloftegundir og áhrif þeirra
Heimildarmyndir um hlýnun jarðar spretta nú upp víða. Fræg mynd Al Gore um "inconvenient truth" vann meira að segja Óskarinn. Tímanna tákn. Heimildarmynd sú sem Rúv sýndi í kvöld var af öðrum meiði. Þar var á nokkuð sannfærandi hátt sýnt fram á að hlýnun jarðar sé ekki af völdum CO2 heldur sólarinnar. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þetta er sagt, en myndin gerði þessu góð skil.
Umræðan um orsök og afleiðingu mun sjálfsagt verða vaxandi á næstu árum, enda um fátt meira talað en orku og hlýnun jarðar.
Gróðurhúsalofttegundir eru staðreynd, en hversu mikil áhrif þær hafa á hlýnun jarðar er enn umdeilt. Best er samt að láta jörðina njóta vafans.
18.6.2007 | 22:22
Jarlinn af Sigtúnum
Egill Thorarensen byggði sögufrægt hús sem stendur spölkorn frá Ráðhúsi Selfoss. Árni Valdimarsson býr þar nú og hefur hann verið frekar óhress með fyrirætlanir um að byggðar verði íbúðablokkir í kringum hús hans. Reyndar er áformað að fara með götu í gegnum gróinn garðinn hjá honum án þess að hann samþykki það.
Þessi áform eru hluti af þeim hugmyndum sem nú á að keyra í gegn um bæjarkerfið í Árborg. Tillögunni var frestað á fimmtudag þó engar skýringar hafi verið gefnar upp um ástæður frestunarinnar. Mörg óleyst mál tengjast tillögunni, en fleiri en Árni Valdimarsson eru óhressir með hana. Bæjarstjórnarmeirihlutinn keypti nýlega "Pakkhúsið" og "Pizza 67" og er talið að þessi kaup tengist skipulagstillögunni. Engar skýringar hafa þó verið gefnar upp um til hvers bærinn keypti þennan rekstur.
Augljóst er að málið á að fara í flýtimeðferð enda er þegar farið að rífa hús á svæðinu, auk þess sem aukafundur bæjarstjórnar verður haldinn í sumar til að geta gefið út bygginarleyfi. Margt bendir því til þess að menn telji málið í höfn þó það hafi ekki fengið afgreiðslu.
Nú er spurningin hvort málið fari umræðulítið í gegn, eða hvort ráðrúm fæst til að ígrunda það stóra mál sem miðbær Selfoss er.
Menn eins og Egill Thorarensen mörkuðu djúp spor í uppbyggingu Íslands. Hans mætti gjarnan minnast betur fyrir gríðarlegt brautryðjendastarf á Suðurlandi.
Menn eins og Árni Valdimarsson standa vörð um sögu, menningu og almannahagsmuni og eru óhræddi við að tjá sína skoðun.
Það mættu fleiri vera.
18.6.2007 | 11:25
Sjálfstæðið og 17. júní
Það er ekki langt síðan Ísland varð sjálfstætt ríki. Krafturinn sem leystist úr læðingi hjá þjóðinni hefur verið ótrúlegur. Svipaða sögu höfum við séð hjá sumum austur Evrópu þjóðum sem losnuðu undan oki Sovétríkjanna og urðu frelsinu fegnar. Sjálfstæðið hefur fært okkur mikil lífsgæði sem ekki eru sjálfsögð. Það er því vert að fagna 17. júní og minna okkur á hvað sjálfstæðið er okkur verðmætt.
Hvar værum við í dag ef við hefðum ekki ákveðið að slíta okkur burt?
16.6.2007 | 14:42
Miðbær Selfoss - einstakt tækifæri sem þarf að ígrunda vel
Það er ekki á hverjum degi sem nýr miðbær er mögulegur í vaxandi sveitarfélagi. Víðast er það svo að miðbær viðkomandi bæjar er fastmótaður og erfitt að ná utan um hann. "Nýi miðbærinn" sem átti að verða í Reykjavík er að uppistöðu Kringlan og Borgarleikhúsið. Tómarúmið sem varð til við gríðarlegan vöxt höfuðborgarsvæðisins nýttist svo Kópavogi og Smárlind.
Selfoss hefur afskaplega sjarmerandi bæjarstæði með Ölfusánni og brúnni yfir hana. Miðbær Selfoss hefur byggst upp við brúarsporðinn og þar standa sögufræg hús sem vert er að hlú að. Einkaaðilar hafa sýnt framsýni og áræðni með því að kaupa upp hús og lóðir á svæðinu, en sveitarfélagið er þó stærsti lóðarhafinn þegar bæjargarðurinn er meðtalinn.
Hugmyndir um nýjan miðbæ á Selfossi hafa verið í deiglunni um nokkurt skeið. Fyrir nokkru var talsverð umræða um byggingu 16 hæða bygginga sem síðar var horfið frá. Nú hafa komið fram hugmyndir um háreista fjölbýlishúsabyggð sem vert er að skoða vandlega áður en lengra er haldið. Íbúar eru ekki allskostar sáttir við framkomnar hugmyndir og er rétt að gefa þeim sjónarmiðum gaum. Stefnt var að því að keyra hugmyndirnar í gegn á fundi skipulags- og byggingarnefndar í vikunni, en á síðustu stundu ákvað vinstri meirihlutinn að fresta málinu.
Í dag er einstakt tækifæri til að byggja fallegan miðbæ á Selfossi. Þetta tækifæri ber að nýta af kostgæfni. Miðbæjarfélagið hefur varað við því að með framkomnum hugmyndum sé stórfellt skipulagsslys yfirvofandi. Það er því rétt að ígrunda málið vel áður en lengra er haldið.
![]() |
Rýmt fyrir nýjum miðbæ á Selfossi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
16.6.2007 | 12:09
Enn hækkar olían
Hráolían hækkaði hressilega á síðustu dögum og nálgast nú 70 dali. Samkvæmt Bloomberg telja flestir greininingaraðilar að þetta muni halda áfram á næstu dögum. Ísland er orkuland, þó ekki sé það (ennþá) olíuríki. Hitaveita og raforkuvinnsla úr endurnýjanlegum orkugjöfum setur okkur í tvennskonar sérstöðu: Ísland er minna háð olíuhækkunum en flest önnur ríki hvað varðar útgjöld og svo hitt að við erum "grænni" en öll önnur ríki sem við miðum okkur við.
Samningar vegna raforkusölu fara hækkandi, bæði hér á landi og erlendis. Oft er um langtímasamninga að ræða og þegar þeir losna hækkar verðið á ný. Þetta veldur því að breytingar á raforkuverði eru hægfara og ætla má að veruleg undirliggjandi verðhækkun sé því innbyggð í heimsmarkað á raforkuverði.
BP spáir því að aðeins 40 ár séu í að olían sé uppurin. Reyndar er það svo að BP hefur spáð þessu áður fyrir áratugum síðan og þá voru það líka 40 ár. Spádómar sem þessir eru kannski ekki yfir gagnrýni hafnir, en eitt eru menn sammála um og það er að olían verður sífellt dýrari í vinnslu. Menn þurfa að kafa dýpra í setlög á hafsbotni, vinna úr þurrausnum olíulindum og jafnvel vinna olíu úr sandi og bergi. Slík vinnsla kostar meira sem aftur skilar sér beint til neytenda.
Verður bensínlítrinn kominn í 200 kall á næstu árum?
15.6.2007 | 22:48
Til hamingju Benni!
![]() |
Benedikt Erlingsson var sigurvegari Grímunnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.6.2007 | 10:16
OZ í kvöld
Lítið hefur verið fjallað um OZ á Íslandi síðustu árin, en fyrir 12 árum síðan var OZ samnefnari fyrir sprotafyrirtæki og hátækni á Íslandi. Ég starfaði hjá OZ í nokkur ár, eða frá því að fyrirtækið var 7 manna þjónustufyrirtæki og þangað til að það var með yfir tvöhundruð manns í þremur löndum. Fullvíst má telja að fyrirtæki á borð við CCP, Landmat, Hex og SmartVR hefðu varla þróast eins og raun ber vitni á OZ. Margir frumherjar þessara fyrirtækja byrjuðu hjá OZ.
Margar sögur hafa lifað um fyrirtækið og eru þær efni í bók þó síðar verði, en í kvöld verður viðtal við Skúla Mogensen stjórnarformann OZ í þættinum Ísland í dag. Fyrirtækið hefur vaxið í Kanada og notið þar hagfellds umhverfis sem stjórnvöld í Kanada veita þróunarfyrirtækjum á borð við OZ.
Það verður gaman að heyra hvernig gengur hjá OZ í dag.
14.6.2007 | 23:19
Álit íbúa hunzað í Árborg
Í gær var bæjarstjórnarfundur í Árborg og var þar tekin fyrir tillaga Sjálfstæðismanna um íbúakosningu um miðbæ og miðsvæði Selfoss. Skemmst er frá að segja að vinstri meirihlutinn hafnaði þessari tillögu alfarið. Ástæður þess að rétt er að fá álit íbúanna eru margar, bæði skipulagslegar og fjárhagslegar. Hugmyndir þær sem nú liggja fyrir eru umdeildar meðal íbúanna, enda er um mikla röskun að ræða á miðsvæði Selfoss.
Fundargerð má svo skoða hér.
Vinstri mönnum er tíðrætt um íbúalýðræði, samræðustjórmál og íbúaþing. Þegar á hólminn er komið kveður við annan tón.
Hvað veldur?