Sigurður Guðmundsson

Það var glæsileg sjón að sjá nýtt höggmyndaverk Sigurðar Guðmundssonar listamanns rísa fyrir framan World Class. Verkið er unnið úr einum granítkletti sem er yfir 12 tonn að þyngd. Líkamar snertast og mynda rismikið verk sem á eftir að setja svip sinn á þetta "musteri líkamans" eins og Bjössi í World Class hefur kallað Laugar.

Ég kynntist verkum Sigurðar Guðmundssonar fyrst í Suðurgötu fyrir 30 árum síðan þegar ég kom þar með frænda mínum Steingrími Eyfjörð. Ég var strax hrifinn af hugmyndalist Sigurðar sem er í sérflokki. Undanfarið hefur Sigurður unnið mikið með stein og grjót. Árið 2000 var ég í dómnefnd Reykjavíkurborgar um árþúsundaverk borgarinnar. Dómnefndin var sammála um verk og valdi sjávargrjót sem væri meðhöndlað sérstaklega til að draga fram sérkenni og fegurð þess. Enginn dómnefndamanna vissi hver listamaðurinn væri, en svo kom í ljós að það var einmitt Sigurður Guðmundsson sem átti það. Ég hitti Sigurð í dag og hann sagði mér að honum þætti mjög vænt um þetta verk. Nú er komið annað verk fyrir almenningssjónir og á Bjössi í World Class heiður skilinn fyrir að standa að uppsetningu þessa verks sem er mjög glæsilegt.


700 þúsund á m2 ?

Í gær þótti 500 þúsund vera hátt fyrir 1 m2 í nýjum íbúðum fyrir aldraða í Reykjavík. Fréttir í morgun segja frá 1,9% hækkun á húsnæði á höfuðborgarsvæðinu eða 4X verðbólga milli mánaða sem mældist 0.52%.

Þessa dagana er unnið langt frameftir kvöldum í Skuggahverfi, en þar mun hæsta íbúðarhús Reykjavíkur brátt rísa. Í dag var svo sagt frá verðhugmyndum seljenda og hafa þær vakið athygli. Sagt er á mbl.is í dag að dýrasta íbúðin verði nálægt 230 milljónum króna. Ef skoðaðar eru teikningar á www.101skuggi.is virðist sem stærsta íbúðin sé 313 m2 að meðtöldum geymslum. Þá má ætla að fermetraverðið losi 700 þúsund krónur og er það þá farið að nálgast það fermetraverð sem Björgólfur Thor greiddi fyrir Fríkirkjuveg 11. Það þótti afar hátt.

Fermetraverð í London er víða um 1 milljón á m2. Þó eru til dæmi um 3 milljónir og jafnvel upp í 6-7 milljónir í einstökum tilfellum. Miðað við nýjustu fréttir erum við að saxa hratt á London í höfuðborginni og er varla hægt að kenna íbúðalánasjóði um þessar hækkanir.


Aðhalds er þörf

Velmegunarþjóðfélagið fær ábendingu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ríkisútgjöld þykja of há. Þenslan á Íslandi virðist vera í rénun, en þó hægar en margir vonuðu. Nýjar verðbólgutölur benda til að enn sé talsvert í land til að verðbólgumarkmið Seðlabankans nái. Enda hækkaði krónan í dag.

Ríkisútgjöld eru margs konar. Sum eru fjárfestingar og margar þeirra eru aðrbærar. Þetta á við um samgöngumál, en óvíða eru jafn arðbærar fjárfestingar og einmitt í vegamálum. Þar á ofan bætist svo það að rekstrarkostnaður fjárfestinga í vegamálum er lítill. Vandi ríkissjóðs er frekar kerfislægur en hitt og sennilega eru mestu sóknarfæri í að hagræða í rekstri ríkisins. Nýta peningana betur.

Þetta verður eitt helsta verkefni ríkisstjórnarinnar á sama tíma og miklum úrbótum hefur verið lofað á mörgum sviðum. Megrunarkúr yfir línuna gengur því ekki.

Svona aðhald er kúnst.


Maldon saltið

"Ég elska þig eins mikið og nýtt nautakjöt þarf salt" sagði dóttir ein í ævintýri við pabba sinn. Pabbinn var ósáttur við líkinguna, en áttaði sig síðar - þegar hann fékk ósalt nautakjöt í matinn - að dóttirin elskaði hann sannarlega. Mér datt þetta í hug eftir að hafa fengið frábæra nautasteik í grillveislu í gær. Á borðum voru sósur, en það sem var enn betra: Maldon salt. Af öllu salti er sjávarsaltið alltaf best. Til er mismunandi sjávarsalt, jafnvel rautt og svart, en Maldon saltið finnst mér alltaf best.

Salt jarðar. Salt sjávar.

Út að hlaupa

Ég er ekki einn um að hlaupa nokkra kílómetra á dag. Þetta virðist fara vaxandi hjá landanum. Stemmningin í kring um maraþonhlaupin er mikil og svo eru æ fleiri í hlaupahópum. Ég byrjaði að hlaupa fyrir alvöru fyrir ári síðan og tók þá malarafleggjarann við Hreiðurborg á morgnanna. það eru 3.2 km. Nú er ég að taka 5-10 km á dag, en er langt frá því sem margir jafnaldrar mínar geta í langhlaupum. Hlaup eru holl, sérstaklega í hófi. Margir vita sem er að fyrsti "maraþonhlauparinn hljóp með skilaboð frá Maraþon í Grikklandi hinu forna. Orrustan við Maraþon er reyndar ein sú frægasta í mannkynssögunni. Boðberinn náði að komast á leiðarenda, en sagan segir að þá hafi hann dottið dauður niður.

Allt er best í hófi.


G8

Í kalda stríðinu voru nær allir leiðtogafundir tengdir umræðu um kjarnavopn og varnarmál. Þó nú séu BNA og Rússland að deila um eldflaugavarnir á G8 fundinum, beinast augu flestra að umhverfismálum. Þjóðverjar hafa verið í fararbroddi í að styðja við notkun endurnýjanlegra orkugjafa og er til að mynda um helmingur sólarsellumarkaðarins í Þýskalandi. Japanir hafa verið öflugir líka, en Frakkar, Ítalir og Bandaríkjamenn hafa dregið lappirnar. Það er að segja ef Kalífornía Arnolds Schwarzeneggers er undanskilin. Reyndar er það svo að Frakkar eru sú þjóð sem framleiðir hlutfallslega mest rafmagn með kjarnorku og gerir einna minnst í umhverfismálum. Stofnþjóðir ESB eru því með ólíkar áherslur í umhverfismálum.

Stjórnmálaleiðtogar í Bretlandi hafa keppst við að vera sem "grænastir" á síðustu misserum, fara hjólandi og komið upp vindmyllum á heimilum sínum. Breland hefur oft verið miðja vegu milli ESB og BNA og verður fróðlegt að heyra innlegg Breta á ráðstefnunni.

Kínverjar og Indverjar eru stór þáttur í myndinni. Kína er að verða einn helsta uppspretta gróðurhúsalofttegunda og nýverið lýstu Kínverjar því yfir að efnahagsleg atriði væru mikilvægari umhverfismálum. Með öðrum orðum: Aðrar þjóðir verða að axla ábyrgðina vegna hlýnun jarðar.

G8 2007 mun varla ná sameiginlegri niðurstöðu um aðgerðir í umhverfismálum. Hitt er annað mál að þessi ráðstefna mun snúast mest um umhverfismál og mun svo verða áfram um hríð.


Air

"Smellti mér" á miða á www.midi.is  - ekki annað hægt þegar boðið er upp á franskt loft-popp af bestu gerð.

Einhver spurði mig af hverju frönsk hljómsveit væri með enskt nafn. Eðlileg spurning að því leyti að Frakkar reyna að halda í sína tungu eins og þeir geta. Staðreyndin er hins vegar sú að "Air" er franskt tökuorð í ensku. Reyndar er enskan stútfull af frönskum tökuorðum, en sumir málfræðingar vilja telja ensku fornnorrænt mál sem hafi mengast af latneskum orðum úr frönsku. "This is good food" er setning sem er stútfull af norrænum orðstofnum: "Þessi" "ist" "góður" "fóður". Svo eru önnur orð (oft lengri) sem koma beint úr frönsku. Establishment, government, payment og penalty eru dæmi um frönsk tökuorð.

Jæja burtséð frá þessu verður gaman að heyra í Air sem er einhver skemmtilegasta popphljómsveit síðustu ára.

Mæli með frönsku lofti í sumar.  


Nú reynir á

Sjávarútvegurinn er ein helsta stoð atvinnulífsins á Íslandi þótt nýjar stoðir hafi styrkst mjög að undanförnu. Fréttir síðustu daga benda eindregið til að endurskoða þurfi suma þætti. Það er að segja ef við viljum halda í sjávarbyggðirnar. Fréttir af Flateyri, Vestmannaeyjum og Hafró í sömu vikunni eru einfaldlega það alvarlegar.

Fiskveiðastjórnunarkerfið hefur þó verið gagnlegt fyrir ýmsar sakir ekki síst þetta:

a) Hagræðing hefur náðst með frjálsu framsali
b) Verðmæti hafa nýtst betur með veðhæfi kvóta
c) Veiðar hafa verið bundnar með magnkvótum og Íslendingar fengið alþjóðlegar viðurkenningar fyrir

Öfugt við margar aðrar þjóðir sem áður byggðu á fiskveiðum og eru nú veiðilausar og lens erum við enn öflug fiskveiðiþjóð.

Hitt er svo annað mál að kerfið er ekki gallalaust eins og sést.

Aflatillögur Hafró nú, benda til þess að spár hafi brugðist. Hvað hefur gerst?

Frjálst framsal kvóta og sterkt gengi krónu getur haft mikil áhrif á einstakra sjávarbyggða. Hér þarf að staldra við og bæta ástandið án þess að skerða grundvöll útgerða.

Á fimmtudaginn sl. var einróma samþykkt í bæjarráði Árborgar að endurskoða byggðakvóta við ströndina í Árborg. Þar eru hin gömlu þorp Stokkseyri og Eyrarbakki sem enn nytja fisk. Þaðan hafa fiskveiðiheimildir farið og er mikið um lokanir fyrir utan ströndina. Mikilvægt er að þessi gömlu þorp sem nú tilheyra Árborg njóta jafnræðis á við önnur byggðarlög þegar úthlutað er byggðakvóta. Allir flokkar í sveitarstjórn eru sammála um þetta mál.

Íslensk byggðamenning byggist á sjávarútvegi og landbúnaði. Bæði þessi ráðuneyti heyra nú undir sama ráðherrann; Einar K. Guðfinnsson frá Bolungarvík. Einar hefur fullan skilning á þeim vanda sem nú blasir við í fiskveiðum. Ég er þess fullviss að hann vinni vel í þessum málum á næstunni enda reynir nú á.


mbl.is Hafró leggur til þriðjungs samdrátt í þorskafla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju með daginn!

Til hamingju með afmælið Una Ást. Nú munu allir muna daginn þinn, enda fyrsti reyklausi dagurinn á Íslandi. Takk fyrir allt það góða Ástin mín.


Nýtt Alþingi, reykingar kvaddar, fyrsti bæjarráðsfundurinn og slys á Suðurlandsvegi

Síðasti dagur maímánaðar var fallegur dagur. Morguninn hófst hjá mér á bæjarráðsfundi Árborgar, þeim fyrsta eftir árs frí mitt. Það var góður andi á fundinum, þrátt fyrir ólík stjórnmálaviðhorf. Ísland í dag kom við í blíðunni á Selfossi.

Alþingi kom saman að nýju í höfuðborginni með nýjar áherslur og má sjá nýjar víglínur í pólítik á Íslandi. Sterkur meirihluti ríkisstjórnarinnar virðist líklegur til að ná árangri. Framsókn verður smá stund að ná Steingrími J. í andspyrnuræðum. Um hvað sammælast vinstri-frjálslyndir framsóknarmenn?

Reykingabann tekur gildi á miðnætti og verður söguleg bálför vindlanna haldin á Argentínu fram eftir kvöldi. Ölstofumenn hafa boðað málsókn vegna skerðingar á stjórnarskrárvernduðu atvinnufrelsi.

Skugga bar á daginn með fregnum af alvarlegu umferðarslysi - enn einu sinni - á Suðurlandsvegi. Allt of mörg alvarleg slys verða á þessari leið. Nú reynir á nýjan samgönguráðherra.


Ásta Lovísa látin.

Bloggið hennar Ástu Lovísu vakti mikla athygli, enda mögnuð barátta við erfiðan ofjarl. Bloggið sannar sig sem miðill í átökum sem þessum.

Ásta var valinn Íslendingur ársins af Ísafold enda þarf mikið hugrekki til að standa frammi fyrir alvarlegum sjúkdómi í blóma lífisins. Umræðan hefur aukið meðvitund um þennan vágest. Blessuð sé minning Ástu Lovísu.

Ég votta aðstandendum samúð mína.

Orkan á ferð um Suðurkjördæmi

Alcan tryggði sér orku frá OR og HS áður en atkvæðagreiðsla fór fram um nýtt deiliskipulag í Straumsvík. Orkusamningarnir eru mikilvægir enda frumforsenda álrekstrarins. Það er því eðlilegt að Alcan reyni fyrir sér annars staðar þar sem fyrirtækið er velkomið. Á sama tíma er brostið á kapphlaup um yfirtöku á Alcan og eru amk. þrjú álfyrirtæki á höttunum eftir því. Stækkun á Íslandi er sjálfsagt mikilvægur þáttur, þó hann sé ekki hlutfallslega stór.

Uppspretta orkunnar sem Alcan tryggði sér er annars vegar fengin úr háhitaborholum úr Hengilssvæðinu við Hellisheiði og hins vegar úr neðri hluta Þjórsár. Hvoru tveggja er á framkvæmda og undirbúningsstigi. Hugmyndir um að nýta orkuna "í héraði" hafa verið áberandi á Suðurlandi, ekki síst í Ölfusinu, en bæjarstjórnin í Þorlákshöfn hefur verið stórhuga um margt að undanförnu. Nægir að nefna mislæg gatnamót og enduruppbyggingu "Þrengslana", vatnsverksmiðju sem fer vaxandi, hugmyndir um áltæknigarð, stórskipahöfn og svo stórfellda uppbyggingu á íþróttamannvirkjum. Ölfuss stendur vel sem sveitarfélag og nú eru bæjaryfirvöld áfram um að nýta landkosti sveitarfélagsins af fullum krafti. Það er því eðlileg niðurstaða hjá Alcan að leita til Ölfuss.

Nú er að sjá hverju fram vindur. Álver eru að spretta upp víða á landinu, en aðrir kostir eins og gagnageymslur bandarískra hátæknifyrirtækja eru líka innan seilingar. Þá er annar orkufrekur iðnaður eins og fullvinnsla áls og kísilvinnsla á hærri stigum einnig möguleg. Það verður því veruleg eftirspurn eftir íslenskri orku ef svo fer sem horfir.


mbl.is Alcan á Íslandi skoðar möguleika á að færa álverið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamla krónan í fullu verðgildi?

Það var löngum lenska á Íslandi að krónan félli á ári hverju. Gengisfellingar einkenndu peningastjórnina enda fór svo að krónunni var kastað og svokölluð "nýkróna" tekin upp sem var 1/100 af þeirri gömlu. Í þá gömlu daga þegar mynt var notuð í fleira en stöðumæla var svo álkrónan tekin upp og var eftir því tekið að hún flaut á vatni. Það þótti ekki traust, enda voru gjaldmiðlar lengi vel tengdir við silfur og gullfætur eins og gulldalurinn og pundið sem kennt var við Sterling.

Nú ber svo við að krónan flýtur á ný þó það sé ekki á vatni. Frjálst flotgengi krónunnar hefur verið í nokkur ár og þrátt fyrir andstreymi hefur krónan sjaldnast verið eins "sterk". Það er að segja gengi hennar er hátt og gengisvísitalan í 112 sem er með lægsta móti. Háir stýrivextir halda krónunni "á floti" og þá er stóra spurningin hvað gerist þegar vextir lækka.

Það sem vekur síðan athygli manna er að á sama tíma og krónan styrkist hafa margar neysluvörur hækkað. Þegar tímarnir voru aðrir og gengislækkun var landlæg var talað um að vara væri á "gamla verðinu" og því ódýrari. Nú ber svo við að verð á innfluttum vörum lækkar ekki í takt við gengi eins og dæmin sanna á samanburði á neysluvísitöluni annars vegar og gengisvísitölunni hins vegar.

Er kannski erfiðara að lækka vörur en að hækka?


Arfleifð Hitlers og reykingabannið

Þess er minnst í dag að 70 ár eru liðin frá "fæðingu" Volkswagen sem seinna var nefndur bjallan. Þessi bíll sem fékk hið alþýðlega nafn fólksbíll upp á þýsku varð vinsælasti bíll allra tíma. Dr. Porsche var fenginn í verkið og sagt er að þjóðernis-sósíalistinn Adolf Hitler hafi lofað "fólksbílnum" í kosningunum 1933 og skilyrði bílsins voru að hann bæri tvö fullorðna og þrjú börn, kæmist 60 mílur á klukkustund og færi það á tveimur gallonum bensíns. Verðið mátti ekki fara yfir 1,000 þýsk mörk. Þetta gekk eftir og árið 1972 náði svo bjallan því marki að verða vinsælasti bíll allra tíma.

Á föstudaginn kemur ganga svo í gildi nýleg lög um reykingabann á opinberum stöðum. Veitingastaðir verða þá án reyks um ókomna tíð á Íslandi. Rétt er að geta þess að mér persónulega líður mun betur á reyklausum stöðum. Fáir minnast þess, en upphafsmaður reykingabanns á opinberum stöðum var einræðisherrann alræmdi Adolf Hitler, en hann reykti hvorki tóbak né drakk áfengi. Hitler var meðvitaður um skaðsemi reykinga og lét banna reykingar fyrstur allra mörgum áratugum á undan öðrum. Það er fyrst núna á síðustu árum að sambærileg bönn hafa rutt sér rúms en í Kalíforníu var þetta innleitt 1994 sextíu árum á eftir Þriðja ríkinu.

Læt svo fylgja með gamla áróðursmynd frá millistríðsárunum þar sem þessu tvennu er spunnið saman: Hægt er að kaupa 2 milljónir VW bjalla fyrir það sem Þjóðverjar reykja.

smoking vw


Hvítasunnuhugvekja Össurar, Norðlingaölduveituleyfi og bankamenn á básum

Össur Skarphéðinsson nýr iðnaðarráðherra er með hressa hugvekju á Sunnudegi. Þar spyr hann hví fjölmiðlar spyrji ekki réttu spurninganna og finnst greinilega um of spurt um skrifstofu hans og Norðlingaölduveitu og hvernig taka eigi leyfið af Landsvirkjun. Össuri finnst vanta heppilegri spurningar á fyrstu ráðherrahelginni.

Það sem mér fannst þó enn skemmtilegra var hinn hluti hugvekjunnar sem var um opið rými. Velþekkt er í seinni tíð að menn sem starfa á skrifstofum vinni í "opnu rými". Fundarherbergi eru þá mikið notuð. Össur gerir það að að hugmynd sinni að stjórnarráðið verði stundað í opnum rýmum og ráðherrar skipti með sér verkum. Ætli verði þá ekki minna um plott í "reykfylltum bakherbergjum"? Að minnsta kosti væri þetta nýtt fyrir flesta ráðherrana.

Mér er minnistætt þegar einn ráðherra sem nú er hættur störfum var í heimsókn í banka - líkt og Össur segir frá. Þessi ráðherra var afar hneykslaður á vinnuaðstöðunni og lýsti henn svona:

 "Það er ekki nema von að þeir séu dýrvitlausir þessir bankamenn. Þeir sitja allan daginn og guða á tölvuskjái sitjandi á básum og baula í síma. Það er engin leið fyrir þessa menn að hugsa heila hugsun þegar þeir eru eins á básum eins og beljur í fjósi."

Síðan eru liðin nokkur ár....


Búinn að jafna..

Það er ekki annað hægt en að taka ofan fyrir skógræktarátakinu á www.kolvidur.is - Almenningur, stofnanir og fyrirtæki hafa heldur betur tekið við sér og með þessu áframhaldi verður Ísland ansi skóglent í lok þessarar aldar. Landið var skóglent til forna eins og heimildir eru um. Menn voru meira að segja dæmdir til skóggangs en það væri erfitt á Íslandi í dag.

Sumir hafa jafnað þessu átaki við aflátssölu, en munurinn er þó sá að peningarnir í sjóðnum fara til ákveðins verkefnis, en ekki í óráðsstafaða hít. Páfinn í Róm var til að mynda með her um tíma og þá er ég ekki að tala um neina engla.
Kolefnisjöfnunin gengur sem sagt vel og án afláts.

Ég "jafnaði mig" í morgun fyrir árið. Góð tilfinning.


Áttu þetta í grænu?

Hekla býður græna bíla.. í öllum litum. Svipað er uppi á teningnum í mörgum neysluvörum, ekki síst í Bandaríkjunum, Þýskalandi og Bretlandi. Fólk vill kaupa "fair trade" kaffi og matvörur, lífrænt ræktaða matvöru og "græna" vöru. Endurunna hrávöru og spyr jafnvel í Walmart hvort varan sé til "í grænu."

The future is bright the future is....


Sjónvarp eða dagblað?

Hvað er www.mbl.is ? Er það dagblað? Varla. Er það sjónvarp? Kannski. En eitt er víst að við lesum það af tölvu- eða símaskjám sem eru harðir. Það kann að breytast í framtíðinni. Sony sýndu nýja tegund sjónvarpsskjáa í vikunni, en þeir eru eins þunnir og pappír. Geta verið settir á boli eða plaggöt...eða notaðir sem veggfóður framtíðarinnar.

Daily Mail segir frá þessu hér


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband