Færsluflokkur: Tölvur og tækni

CCTV á RÚVTV

Sá í kvöld myndskeið frá ríkssjónvarpi Kína þar sem yfirvöld telja sig sanna sekt Tíbeta í Tíbet.

Ríkissjónvarpið í Kína heitir "China Central Television" skammstafað CCTV.
Þar er boðið upp á ýmsar sjónvarpsrásir eins og CCTV1, CCTV2, CCTV3 og fleiri.

CCTV er skammstöfun á vesturlöndum og merkir "Closed Circuit TV" eða eftirlitsmyndavélakerfi á venjulegri íslensku.

Tilviljun eða hvað?


Rise of the robots?

Terminator myndirnar sýndu ófagra framtíðarsýn. Þó ekki séu enn komnir holdteknir vélhermenn á borð við "Tortímandann" eru komnar sjálfvirkar vígvélar sem geta stjórnað sér sjálfar og elt menn uppi til drápa:

http://www.breitbart.tv/html/50644.html

Ef svona vélar verða áberandi í herjum framtíðar vakna ýmsar spurningar um siðferði og ábyrgð.

Er þetta það sem koma skal?


OZ í kvöld

Lítið hefur verið fjallað um OZ á Íslandi síðustu árin, en fyrir 12 árum síðan var OZ samnefnari fyrir sprotafyrirtæki og hátækni á Íslandi. Ég starfaði hjá OZ í nokkur ár, eða frá því að fyrirtækið var 7 manna þjónustufyrirtæki og þangað til að það var með yfir tvöhundruð manns í þremur löndum. Fullvíst má telja að fyrirtæki á borð við CCP, Landmat, Hex og SmartVR hefðu varla þróast eins og raun ber vitni á OZ. Margir frumherjar þessara fyrirtækja byrjuðu hjá OZ.

Margar sögur hafa lifað um fyrirtækið og eru þær efni í bók þó síðar verði, en í kvöld verður viðtal við Skúla Mogensen stjórnarformann OZ í þættinum Ísland í dag. Fyrirtækið hefur vaxið í Kanada og notið þar hagfellds umhverfis sem stjórnvöld í Kanada veita þróunarfyrirtækjum á borð við OZ.

Það verður gaman að heyra hvernig gengur hjá OZ í dag.


Sjónvarp eða dagblað?

Hvað er www.mbl.is ? Er það dagblað? Varla. Er það sjónvarp? Kannski. En eitt er víst að við lesum það af tölvu- eða símaskjám sem eru harðir. Það kann að breytast í framtíðinni. Sony sýndu nýja tegund sjónvarpsskjáa í vikunni, en þeir eru eins þunnir og pappír. Geta verið settir á boli eða plaggöt...eða notaðir sem veggfóður framtíðarinnar.

Daily Mail segir frá þessu hér


Auðkenni þjóðarinnar...

Auðkennislyklarnir auka öryggið, en þeir eru samt ekki fullkomnir. Margir hafa haft á orði að Auðkennislykillinn sé ófagur, en hálf þjóðin ber hann um allt - oftast sem lyklakippu. Ýmsir hafa lent í því að Auðkennislykillinn bili. Þetta gerist þegar gúmmíendinn dettur af, en hann er nauðsynlegur til að fá nýja tölu. Þetta væri svo sem ekkert sérstakt vandamál, nema af því leyti að allir þeir sem eru með bankareikning á netinu þurfa þennan lykil. Sem eru margir.

Kannski verður nýjum lyklum dreift á næstu mánuðum?


GSM ritskoðun í Íran: Netlöggan komin í farsímana...

Stjórnvöld í Íran hafa fyrirskipað ráðuneyti fjarskiptamála að kaupa búnað til ritskoðunar á MMS skeytum. Tilgangurinn er að fólk geti ekki "misnotað MMS með ósiðlegum hætti og til að forðast félagsleg vandamál" eins og það er orðað.

Ekki fæst uppgefið hvað átt er við með "ósiðlegt" en ætla má að þessi tilkynning eigi jafnframt að hafa fælingarmátt svo fólk sé fullmeðvitað um ritskoðunina á farsímum og þori síður að segja skoðanir sínar á stjórnvöldum með skilaboðum. - Svona er nú það.

Reuters sagði frá þessu í gær.

Hún var úr áli

Tveir pólar takast á um framtíð Íslands og hafa stór orð fallið. "Borgarastríð hugans". "Þjóðin klofin". "Nei eða Já". "Náttúra eða stóriðja". Ég var á fundi í dag þar sem þeir Andri Snær Magnason og Friðrik Sophusson voru frummælendur um möguleika Suðurlands á Hótel Selfossi og var yfirskriftin "Framtíðarlandið Suðurland". Menn höfðu mismunandi sýn á framtíðina. Jón Hjaltalín Magnússon vildi til dæmis áltæknigarð, álver og setja af stað túrisma fyrir verkfræðinga sem gætu skoðað virkjanir á Íslandi. Gunnar Steinn Pálsson sá framtíðina í börnunum.

Þeir Andri og Friðrik eru ekki sammála um framtíð í virkjanamálum, en hvað eiga þeir sameiginlegt?

Friðrik Sophusson var með ljóspenna úr áli sem er notaður sem bendill, en hann eins og aðrir notaði tölvu hússins fyrir glærur.

Andri Snær kom með sína eigin Macintosh tölvu:  Hún var úr áli


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband