Vinsældir Ingibjargar Sólrúnar

Ingibjörg vann mikinn sigur í maí. Ekki endilega með kosningaúrslitunum, enda dalaði fylgi Samfylkingarinnar frá síðustu kosningum, heldur með því að komast í ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum. Ég er þess fullviss að persónufylgi Ingibjargar muni fara ört vaxandi á næstu vikum og mánuðum. Vinsældir Ingibjargar Sólrúnar höfðu dalað mjög frá því hún var borgarstjóri, en með sterkri og trúverðugri innkomu í stjórnarmeirihluta hefur hún styrkst stöðu sína hvernig til muna. Göðsögnin um að "minni flokkurinn" tapi á samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn mun afsannast í eitt skipti fyrir öll.

Þá er ég viss um að áherslur nýrrar ríkisstjórnar með tilstyrk nýs þingmeirihluta muni mælast mjög vel fyrir. Áherslan á börn og eldri borgara er rétt og tímabær. Breytingin á ríkisstjórninni er talsverð og mun Ingibjörg njóta þess. Það er verðskuldað þótt ekki megi gleyma því að Sjálfstæðisflokkurinn lagði upp með svipaðar áherslur á landsfundinum og í kosningabaráttunni. Söngurinn var þá sá að verið væri að "skipta um liti" sveipa Sjálfstæðisflokkinn "bleikum og grænum lit". Nú er annað komið á daginn. Ríkisstjórn undir forystu Geirs H. Haarde gerir málefni eldri borgara og barna að forgangsmáli strax eftir kosningar. Jafnréttismálin eru sett í forgang. Umhverfismálin fá sitt vægi. Þessi samhljómur flokkanna gerir þeim kleift að framkvæma vinsælar aðgerðir.

Það verður erfitt að vera í stjórnarandstöðu á móti þessari stjórn.


Uppskeruhátið

Það er nokkuð ljóst að nýja ríkisstjórnin verður víða í hlutverki hins góða jólasveins. Ríkissjóður stendur vel og hefur aldrei verið auðveldara að styðja við bakið á góðum málum svo sem á sviði samgangna og gagnvart þeim sem standa höllum fæti. Helsta vandamálið er velmegunin og uppgangurinn í þjóðfélaginu þar sem útgjöld valda spennu og verðbólgu. Það er því öllum ljóst að það verður "árangur áfram" eins og einn flokkurinn auglýsti fyrir kosningarnar. Framsóknarmönnum þykir sjálfsagt súrt í broti að fá ekki að útdeila ávöxtunum, en svona getur farið. Þeir eiga samt heiður skilin fyrir að skila góðu búi og eiga að halda því fast að fólki kinnroðalaust.

Jón hættir - Guðni tekur við - Stjórnarandstaðan verður ræðin

Jón Sigurðsson stoppaði stutt sem formaður Framsóknar. Það var skynsamlegt af honum að bíða ekki lengur með afsögn sem formaður, enda fjarska erfitt að leiða flokk í stjórnarandstöðu utan þings. Guðni Ágústsson tekur nú við þar til nýr formaður er kjörinn.

Þegar þing kemur saman á ný verða þessir þrír forkólfar stjórnarandstöðunnar: Steingrímur J. Sigfússon, Guðjón Arnar Krisjánsson og Guðni Ágústsson. Allt miklir ræðumenn. Búast má við að stjórnarandstaðan þegi ekki þunnu hljóði heldur verði ræðin.

Spurningin er: Um hvað verða þeir sammála?


Heilbrigðisráðuneytið og Guðlaugur Þór Þórðarson

Sjálfstæðismenn hafa lengi haft áhuga á að koma að þeim viðamikla málaflokki sem heilbrigðismálin eru. Með nýskipan stjórnarráðsins með nýju ríkisstjórninni verður sú breyting að tryggingamálin skiptast og fara að hluta til félagsmálaráðuneytis. Segja má að þá sé verið að skipta verkefnum sem eru ólík, enda hefur heilbrigðisráðuneytið farið með málefni kaupanda og seljanda í heilbrigðismálum. Kerfið hefur reynst þungt.

Vafalaust má bæta heilbrigðiskerfið stórum, en það hefur reynst mörgum ráðherranum erfitt verk. Með skiptingu verkefna eins og nú er gert má ætla að verkefni Heilbrigðisráðuneytið verði skýrari. Það er óvitlaust að fá ungan og kraftmikinn mann að þessu stóra ráðuneyti. Það er ástæða til að óska Guðlaugi Þór þórðarsyni til hamingju með ráðuneytið sem og verkefnið.

Gangi þér vel.


Þingvallastjórnin með sterkan stuðning

Það er allt sem bendir til þess að ný ríkisstjórn sé að fæðast í dag eftir stutta meðgöngu. Stjórnin verður með mikinn og sterkan þingmeirihluta að baki sér, en jafnframt er ljóst að mikill stuðningur er meðal almennings við stjórnina. Óvísindaleg könnun bloggsíðu vorrar sýnir yfir 70% stuðning við stjórnina, en 146 hafa greitt atkvæði er þetta er ritað. Þetta er svipað hlutfall og Gallup mældi jákvæða í garð stjórnarþáttöku Sjálfstæðisflokks. Fráfarandi ríkisstjórn hafði oftast meirihlutastuðning almennings, en undir það síðasta fór hann undir sameiginlegt fylgi flokkanna tveggja. Ætla má að sú stjórn verði með stuðning 2/3 kjósenda til lengri tíma litið. Slík stjórn á að geta komið mörgum góðum málum í gegn og það sem skiptir ekki minna máli; geta tekið á erfiðu málunum.

Sinn er siður í landi hverju

Síðustu daga hafa ýmsir stjórnmálamenn faðmast á Íslandi. Ekki síst þeir sem koma úr sömu flokkum, en þó eru dæmi um að Sjálfstæðismenn hafi faðmað Samfylkingarfólk. Og jafnvel smellt kossi á kinn eins og dæmin sanna.

Þetta þætti vart sæmandi í Pakistan ef marka má frétt af visir.is en þar faðmaði ráðherra leiðbeinanda sinn kappklædd og með fallhlíf.

Faðmlagið kostaði ráðherradóminn.

"Ráðherra ferðamála í Pakistan tilkynnti í dag um afsögn sína vegna faðmlags. Ráðherrann, Nilofar Bakhtiar, tók þátt í söfnun til handa fórnarlömbum jarðskjálftans sem skók landið fyrir tveimur árum síðan. Til þess að safna áheitum fór hún í fallhlífastökk og eftir að hafa lent heilu og höldnu faðmaði hún leiðbeinanda sinn.

Þetta olli mikilli reiði á meðal klerka í höfuðborginni Islamabad sem sökuðu ráðherrann um að vera í óviðurkvæmilegum stellingum og fyrir að brjóta íslamskar hefðir...."

Mynd af faðmlaginu sem kostaði stólinn:

faðmlag pakistan

Kannski hefur ferðamálaráðherrann ferðast "of mikið" til frjálslyndra ríkja?

Hér er svo mynd af íslenskum stjórnmálaleiðtogum sem standa í stjórnarmyndunarviðræðum:

geir og ingibjörg

Það er gott að búa á Íslandi.


Frábær Margrét Pála

Alveg var frábært að hlusta á Margréti Pálu í Kastljósinu áðan. Hún hreinlega geislar af krafti og áræðni. Margrét hefur komið með ferska strauma í skólamálin, bæði faglega og rekstrarlega. Samstarf Hjallastefnunnar og Garðabæjar hefur verið til fyrirmyndar og hefur haft áhrif á fjölmarga skóla sem eru reknir af öðrum. Grunnhugsunin og viðhorf Margrétar er jákvæðni og val. "Er ekki dásamlegt að hafa val?" spurði Margrét. Það er einmitt einn höfuðlykillinn að foreldrar og börn hafi val. Margrét ákvað að byggja upp sjálfstæða skólastarfssemi í stað þess að reyna að breyta kerfinu innanfrá. Margrét var höll undir vinstristefnu á árum áður, en hefur verið boðberi frelsis og sjálfstæðis í skólamálum. Í fyrra var ég það heppinn að vera fundarhaldari í Fjölbraut á Selfossi þar sem Margrét Pála, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Árni Sigfússon voru með erindi. Þeir sem sátu þann fund muna vel þann jákvæða sköpunarkraft sem einkenndi fundinn. Menntun er forgangsmál hjá öllum, en peningar duga aðeins skammt. Frumkvæði Margrétar Pálu hefur verið verðmætt í þróun skólamála og sér ekki fyrir endan á því. Takk fyrir mig.

Bjössi í World Class

Mér fannst aldrei gaman í leikfimi, en það hefur breyst með árunum. Einhvernveginn var leikfimin í grunnskólanum lítið spennandi fannst okkur strákunum. Í dag sé ég sömu andlitin mæta - daglega - í leikfimi. Áhugi á líkamsrækt hefur vaxið á sama tíma og miðjan á landsmönnum. Kyrrseta, tölvur og bílar ásamt kalóríríku fóðri hafa aukið fallþunga íslenskra karlmanna gríðarlega á síðustu árum. Sama er að segja um konurnar. Á engan er hallað þegar það er fullyrt að Bjössi í World Class hefur lyft sannkölluðu Grettistaki í líkamsræktarmálum. Hljóðlát bylting hefur átt sér stað og í dag erum við með bestu líkamsrækt sem hægt er að hugsa sér. Flaggskipið er Laugar sem er byggt er við Laugardalslaugina, en sundlaugarnar hafa verið líkamsræktarmiðstöðvar og kaffihús um áratugaskeið. Nú er Björni kominn í víking til útlanda, en enn vantar samt eitt: Betri aðstöðu á Selfossi. Vonandi kemur það.

p.s.

Er kominn í 73 kg eftir 12 mánaða átak. Ætla að halda mér þar.


Hverjar verða áherslur nýrrar ríkisstjórnar?

Flest bendir til að stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar gangi eftir. Margir ræða um ráðherrastóla og hverjir fái að verma þá.


En hver verða áherslumál þeirrar ríkisstjórnar? Þótt erfitt sé að spá í þau spil sakar ekki að velta fyrir sér eftirfarandi:

a) Heilbrigðis- og tryggingamál

Mikil umræða hefur verið um að bæta þessa málaflokka, ekki síst með aðskilnaði þeirra í sitt hvert ráðuneytið. Heilbrigðismálin eru mjög umfangsmikil og annars eðlis en tryggingakerfið. Ekki er ólíklegt að almannatryggingar fari undir Félagsmálaráðuneytið. Þessi málaflokkur er gríðarstór og vaxandi og sjálfsagt að nútímavæða reksturinn eins og kostur er á svo fjármunir nýtist sem allra best.

b) Menntamál

Hér sýnist mér verði haldið áfram af krafti í auka enn háskólanám, en ekki kæmi mér á óvart að reynt yrði að styrkja lægri námsstigin og stytta tímann sem tekur að útskrifa stúdenta í samvinnu við fagaðila.

c) Samgöngumál

Áherslan verður sennilega á arðbærar samgöngur í takt við Samgönguáætlun. Tvöföldun akstursleiða úr Reykjavík hafa verið á stefnuskrá beggja. Einkaframkvæmd verður nýtt til að nýta betur vegafé.

d) Skattamál

Skattar verði lækkaðir fremur en hitt. Báðir flokkarnir hafa lagt áherslu á lækkun ákveðinna skatta. Virðisaukaskattur á barnavörur og afnám stimpilgjalda kemur upp í hugann. Lækkun tekjuskattar á einstaklinga og fyrirtæki hljóta að koma sterkt til umræðu.

e) Atvinnumál

Mikil umræða hefur verið um sameiningu ráðuneyta. Flokkarnir munu fyrst og fremst horfa til almennrar aðstöðu til atvinnureksturs fremur en sértækra aðgerða. Samgöngur menntun, verðbólga og vextir eru hér lykilmál og verður horft til aðhalds í ríkisrekstri af hálfu viðskiptalífsins. Ólíkar áherslur í landbúnaðarmálum valda óvissu.

f) Stóriðjumál og umhverfismál

Báðir flokkarnir hafa lagt meiri áherslu á umhverfismál en áður. Skynsamleg nýting endurnýjanlegra orkugjafa er hluti af þeirri mynd.

g) Utanríkismál

ESB og Evrumál verða eflaust rædd í samhengi við framtíð krónunnar. Aðild að ESB er þó ekki í kortunum.

h) Málefni aldraðra

Sá hópur sem stækkar hraðast eru aldraðir. Þótt margir hafi góðar lífeyristekjur eru ákveðnir hópar sem verða eftir. Þeim verður sinnst sérstaklega eins og Geir Haarde lagði áherslu á í landsfundarræðu sinni.
---

Vandinn verður að finna hinn gullna meðalveg útgjalda og jafnvægis í hagkerfinu. Tímasetningar á framfarasporunum munu skipta miklu til að ná þenslu niður á sama tíma og hagvöxtur vex. Þetta er langt í frá einfalt mál, en ef einhver stjórn hefur styrk til að takast á við þetta verkefni er það stjórn stærstu flokkanna tveggja; Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.


Framsókn.is og æðruleysisbænin

Skrif Jón Sigurðssonar á www.framsokn.is eru með þeim ólíkindum að ég þurfti að lesa þau sjálfur til að trúa þeim. Í gær fullyrti sami Jón að enginn trúnaðarbrestur væri á milli hans og Geirs. Nú snýr hann við blaðinu í sínu fyrsta bloggi. Jafnframt þessu bjóða Framsóknarmenn upp á forsætisráðherraefni sitt: Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, eins og Jón formaður bendir sjálfur á í pistli sínum. Ekki finnst mér þetta vera björguleg byrjun á endurskipulagninu og uppbyggingarstarfi Framsóknarmanna sem eru í bullandi afneitun eftir erfið úrslit. Jón er vandaður maður og ætti ekki að benda á aðra eða kenna þeim um stöðu Framsóknar.

Minni á æðruleysisbænina sem inniheldur góðan og gagnlegan sannleik:

Guð - gef mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og visku til að greina þar á milli.


Velferðarstjórn - viðskiptastjórn

Þessi ákvörðun kemur ekki á óvart í ljósi niðurstöðu kosninganna og ekki síst; hikandi afstöðu Framsóknar. Lengur var ekki hægt að draga málið sem hefur verið óþægilega óljóst frá kosninganóttu.

Geir er í mjög sterkri samningsstöðu, enda hafa bæði Samfylking og VG gefið formönnum sínum umboð til viðræðna. Í flestum málaflokkum stendur Samfylkingin nær Sjálfstæðisflokki en VG. Á þessu er þó sú undantekning að flokkarnir eru á öndverðum meiði í ESB málum. Það er því ekki óeðlilegt að fyrst sé rætt við Samfylkinguna. Ríkisstjórnin verður engu að síður undir forystu Sjálfstæðisflokksins eftir kosningasigur flokksins á laugardag.

Stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks hefði mikinn þingstyrk og því sterkt umboð frá kjósendum. Ég hef heyrt í fjölmörgu fólki í vikunni sem vill öfluga framfarasinnaða stjórn en hefur efasemdir um innri styrk núverandi stjórnar sem nú á aðeins einn dag eftir.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks var kölluð Viðreisnarstjórnin. Ríkisstjórn Davíðs Oddsonar með Alþýðuflokki var nefnd eftir Viðey. Þessi ríkisstjórn getur engan vegin kalast viðreisn þar sem hjól atvinnulífssins snúast hratt. Viðnám er varla réttnefni, enda vilja báðir flokkar framfarir og viðskiptafrelsi. Ekki er ólíklegt að viðskiptalífið vilji þessa stjórn og kannski mun hún vera kennd við viðskiptalífið. Báðir flokkar eru sammála um að nýta beri kraft atvinnulífssins til að bæta kjör þeirra sem minnst mega sín.

Raunveruleg velferð á grundvelli öflugs viðskiptalífs er það sem fólkið vill.


mbl.is Ekki grundvöllur fyrir áframhaldandi samstarfi stjórnarflokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísinn á Suðurskautinu - "nýjar myndir" frá 2005

Það kann að hljóma annannalega að tala um nýjar myndir, en þessar gervihnattamyndir eru tveggja ára gamlar og sýna bráðnun á Suðurheimskautinu - Antartíku - á nokkrum stöðum. Suðurheimsskautið geymir gríðarlegan vatnsforða og er svæðið sem er merkt á myndinni stærra en Kalífornía. Hér er svo grein um málið frá því í gær.

antartica

Sarkozy, Ísland og ESB

Það eru talsverð tíðindi að Sarkozy skuli orðinn forseti Frakklands. Tvær fylkingar tókust á í kosningunum og má segja að Frakkar hafi valið aukið frjálsræði, enda hefur Sarkozy boðað sveigjanlegri vinnumarkað. Allir eru umdeildir, ekki síst þeir sem bjóða sig fram til forseta. Sarkozy hefur fengið sinn skammt. Engu að síður er rétt að lesa í hvað þetta þýðir fyrir Frakkland og ESB. Margir telja að Sarkozy muni auka samskipti við Bandaríkin og hverfa frá einangrunarstefnu Chiracs í alþjóðamálum. Vel má vera að Sarkozy takist að hafa áhrif á ESB á viðkvæmum tímum þegar enn er tekist á um stjórnarskrá. Þýskalandi er stjórnað af samsteypustjórn og skiptir miklu hvað hin stóra stofnþjóðin vill í ESB málum.

Vandi Íslands í ESB málum er ekki bara hvað ESB er, heldur óvissan um hvert ESB stefnir. Stórríki "federalistanna" er enn möguleiki, þó flestar þjóðirnar séu því mótdrægnar. Vonandi skýrist það eitthvað með kjöri Sarkozy.


Að hika er sama og tapa

Stjórnin heldur með eins manns mun. Það er því eingöngu hægt að halda áfram (ekkert stopp) með fullri samstöðu innan flokkanna beggja. Framsókn virðist vera hikandi eftir síðustu fundi um hvert framhaldið skuli vera. Það er alveg sama í hvern fótinn Framsókn stígur næst: Skrefið er tekið með efa.

Sjálfstæðisflokkurinn stendur staðfastur og óskiptur að baki Geir H. Haarde. Nú reynir á Framsókn að taka afstöðu. Í dag vilja margir "í grasrót" Framsóknar að flokkurinn fari í stjórnarandstöðu. Það er erfið leið fyrir formanninn sem er utan þings.

Sumir þingmenn Framsóknar virðast vilja vinstri stjórn og vakti athygli hvernig áherslur varaformaðurinn Guðni Ágústsson boðaði ásamt Bjarna sveitunga sínum Harðarsyni. Þá er vert að minnast þess að ekki er langt síðan Jón og Jónína voru í framboði gegn Siv og Guðna. Annar armurinn er með formennskuna en hinn er á þingi.

VG virðast fremur vilja vera í stjórnarandstöðu en framlengja líf Framsóknar. Öðru vísi er ekki hægt að túlka málflutning Ögmundar og Steingríms J. Sigfússonar.

Í svona viðkvæmri stöðu er ekki gott að hika. Allra síst fyrir fámennan þingflokk.


Kjördæmaskipan

Kjördæmin sex skiptast í tvær gerðir: Höfuðborgarkjördæmi og landsbyggðarkjördæmi. Endurbætur á kjördæmaskipan leiðrétti að hluta misvægi atkvæða, en sameining kjördæma í þrjú stór landsbyggðarkjördæmi orkar tvímælis. Reynslan af núverandi fyrirkomulagi er komin og eru margir á því að þetta sé óhentugt. Tvær leiðir eru ræddar.

(a) Landið verði eitt kjördæmi

Þessi leið ætti að stuðla að jafnari vægi atkvæða en hættan er sú að landsbyggðin beri skarðan hlut frá borði. Jöfnun væri möguleg með hólfaskiptingu kjördæmisins, en reynslan af jöfnunarþingsætum er misjöfn eins og nýleg dæmi sanna úr Reykjavík norður. Þar fékk Sjálfstæðisflokkurinn 36,4% og 4 kjördæmakjörna menn, en Samfylkingin fékk 29,2% og þrjá kjördæmakjörnamenn. So far so good. En svo gerist það í "kerfinu" að Samfylkingin hlýtur tvo kjördæmakjörna þingmenn í Reykavík norður. Sjálfstæðisflokkur engan. Eitthvað bogið við kerfi sem jafnar svona.

(b) Kjördæmunum verði fjölgað

Fjölmargir þingmenn hafa undanfarið nefnt nauðsyn þess að minnka kjördæmin og þeim verði fjölgað. Þetta á sérstaklega við um landsbyggðarkjördæmin sem spanna nú mikið landsvæði. Nánd frambjóðenda við kjósendur er minni en áður og áherslumál ólík innan kjördæma. Ein leið væri að fjölga landsbyggðarkjördæmum svo þau væru 6, t.d. Vesturland, Vestfirðir, Norðurland, Austurland, Suðurland og Suðurnes. Þá væri hægt skipta Reykjavík í N, S, V og austur. Kraginn skiptist í tvennt.

Seint verður fullkomin sátt um kjördæmaskipan á Íslandi en núverandi skipulag er umdeilt í öllum flokkum.  


Merkileg áherslumál

Í flestum sjónvarpsviðtölum síðustu sólarhringana hefur Steingrímur J. æst sig yfir teiknimynda-auglýsingu ungra Framsóknarmanna þar sem skeggjaður maður kemur upp úr tölvu á sama tíma og talað er um netlöggu. Steingrímur hefur tekið þetta til sín, enda talaði hann um netlöggu í kosningabaráttunni og er skeggjaður.

Þetta er reyndar sami Steingrímur og hefur lagt Framsókn í einelti í ræðu og riti, kallað forsætisráðherra "gungu og druslu" og notað stolið slagorð Coca-Cola í skrumskælingunni; "Af hverju ekki ríkisstjórn með ZERO Framsókn".

Já og sami Steingrímur og hefur birst í gervi fjöldamorðingjans Che á vefsíðu VG þar sem menn eru hvattir til að styrkja flokkinn. Er Steingrímur J. nú orðinn svona siðvandur og orðvar að hann má ekki vamm sitt vita?

vgstudningur

Hmm... líkurnar á vinstri stjórn minnka hratt við svona málflutning.


Þjóðin kaus Sjálfstæðisflokkinn...

...í miklum mæli í gær. Eftir 16 ár treysta kjósendur Sjálfstæðisflokknum langbest til að fara með stjórn landsins inn í framtíðina. Geir H. Haarde og Þorgerður Katrín unnu pólítískan sigur. Stjórnin hélt velli, þótt Framsókn komi afar illa út úr kosningunum. Sjálfstæðisflokkurinn getur myndað tveggja flokka ríkisstjórn með þremur framboðum og "kaffibandalagið" á sér eingöngu framhaldslíf í minnihluta.

Úrslitin á Suðurlandi voru afgerandi og reyndar þingsætin alveg eins og ég hafði spáð fyrir um á tali við menn í gær. Sjálfstæðisflokkurinn endurheimti styrk sinn og 4 menn, Samfylkingin missti 2, Framsókn náði 2 og Frjálslyndir og VG fengu 1 hvor. Þar með er staðfest sú mynd sem við sáum í síðustu sveitarstjórnakosningunum og hlýtur þetta að vera verulegt áfall fyrir Samfylkinguna í kjördæminu.

Eina konan sem nær inn er Björg Guðjónsdóttir Sjálfstæðisflokki og er hún ennfremur eini þingmaðurinn af Suðurnesjum.

Sjálfstæðisflokkurinn í Árnessýslu hefur styrkt sig verulega í sessi með þessum kosningum og sveitarstjórnarkosningunum fyrir ári. Þetta fyrrum vígi Framsóknar var orðið höfuðvígi Samfylkingar sem var stærsti flokkurinn í kjördæminu á þingi og víða í sveitarstjórnum. Þetta hefur nú alveg snúist við - sem betur fer fyrir kjósendur.

 


Hátíð lýðræðisins - Framsókn í Höfn?

Í dag eru allir Íslendingar jafn valdamiklir. Hvert atkvæði vegur jafn þungt. Hver og einn atkvæðabær maður ræður næsta Alþingi - hver sem hann er. Margir fara í sparifötin og fólk er ögn kurteisara á þessum hátíðisdegi; kjördegi. Í Tryggvaskála hefur verið margt um manninn þar sem Sjálfstæðisflokkurinn býður upp á kosningakaffi. Ég skrapp yfir í Höfn þar sem Framsókn hefur sína kosningaskrifstofu og heilsaði upp á Framsóknarmenn. Það hefði einhvern tíman þótt tíðindi að Framsókn væri með kosningamiðstöð sína í húsnæði sem hýsti áður hlutafélagið Höfn, þó Krónuhús sé kallað. Nú er spurning hvort Framsóknarfylgið skili sér í höfn.

Samfylkingarfólk kom til okkar og spáði í spilin. Lýðræðið er góður siður sem er ekki sjálfsagður. Góð kjörsókn á Íslandi er styrkur okkar hvar sem menn setja x á blað.

Eitt eru allir sammála um: Þetta eru spennandi kosningar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband