12.5.2007 | 09:43
Tvísýn útkoma - D-dagur eða V-dagur?
Sumir segja að D-dagur sé í dag, en aðrir vilja meina að V-dagurinn sé kominn. Það eru að minnsta kosti jól hjá fjölmiðlum sem verða vakandi yfir úrslitunum fram til morguns. Þó kosningaúrslitin verði spennandi og sjálfsagt óljós, er ekki síður tvísýnt hver útkoman verður í stjórnarmyndun.
(a) Ef stjórnin heldur naumt en Framsókn geldur afhroð má búast við skiptum skoðunum innan hennar um framhaldið. Valgerður hefur aftekið stjórnarþáttöku með litlum þingflokki.
(b) Ef stjórnin fellur munu sterk öfl innan V og S lista beita sér fyrir vinstri stjórn. Málefnaágreiningur við "þriðja hjólið" verður þó vandinn. Framsókn vill "ekkert stopp" og eiga erfitt með að samþykkja skattahækkanir. Frjálslyndir vilja takmarkanir gagnvart innflytjendum sem V og S munu eiga erfitt með að sætta sig við. Að sjálfsögðu er þetta aðeins hluti málsins, því áherslur flokkanna þriggja sem kenndar eru við kaffibandalagið eru ólíkar í mörgum málum, en eitt eru þau sammála um; að fella ríkisstjórnina.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.5.2007 | 21:01
Þetta er mjög ósanngjörn spurning Geir!
Geir Haarde spurði Steingrím J. Sigfússon hvort hann vildi endurvekja eignaskattinn sem hefur nú verið afnuminn. Þá svaraði Steingrímur eitthvað á þessa leið: "Þetta er mjög ósanngjörn spurning Geir því það er miklu erfiðara að segjast ætla að hækka skatta en standa í því að lækka þá ekki"
Spurningunni var aldrei alveg svarað, en eins og menn vita vill Steingrímur hækka fjármagnstekjuskattinn um 40%. Sennilegast bíða fjölmargar og fjölbreyttar skattahugmyndir handan við hornið ef vinstri stjórn tekur við eftir helgi.
Sannleikurinn um sanngirnina er sá að þó spurning þessi sé Steingrími og Ingibjörgu erfið, þá er hún langt frá því að vera ósanngjörn.
Hún er þvert á móti bæði sanngjörn og nauðsynleg fyrir kjósendur sem þurfa að búa við næstu ríkisstjórn - hver sem hún er - í fjögur ár.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.5.2007 | 15:15
Tvöfaldur Suðurlandsvegur 2009?
Á fundi um Suðurlandsveg á Hótel Selfossi í vikunni vakti athygli þegar Þór Sigfússon forstjóri Sjóvár tímasetti möguleg verklok tvöföldunar vegarins. Fyrir rúmu ári síðan var enn tekist á um 2+1 lausn og möguleg verklok 2017 að sumra mati. Nú hefur kraftur verið leystur úr læðingi með samstöðu um tvöfaldan Suðurlandsveg og mögulega aðkomu atvinnulífsins. Þór lýsti því yfir að unnt væri að ljúka tvöföldun frá Reykjavík til Selfoss árið 2009.
Þetta verkefni sparar hundruði milljóna á ári, forðar slysum á fólki og styrkir Suðurland allt.
Úrslit kosninganna skipta máli með framhaldið, en það er að minnsta kosti komið á hreint hvað þarf að gera og hvenær það getur verið klárt.
Hver vill ekki tvöfaldan Suðurlandsveg 2009?
11.5.2007 | 10:33
Jóhannes kýs D
Auglýsing Jóhannesar Jónssonar í Morgunblaðinu hefur að vonum vakið athygli. Sjaldgæft er að heilsíðuauglýsingar einstaklinga birtist fyrir kosningar, en þegar það hefur verið gert man ég helst eftir því að þá sé fólk hvatt til að kjósa EKKI viðkomandi framboð. Í þessari auglýsingu bregður hins vegar svo við að Jóhannes hvetur fólk til að strika yfir nafn Björns Bjarnasonar. Kemur það sjónarmið hans ekki á óvart.
Það sem mér finnst merkilegast er eindreginn stuðningur hans við Sjálfstæðisflokkinn sem hann styður. DV hefur á síðustu dögum stutt DS stjórn en Jóhannes tekur af öll tvímæli: Hann styður Sjálfstæðisflokkinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.5.2007 | 21:43
Ísland ekki í náðinni í Evró
Stórgott framlag Íslands með Eirík Hauksson í fararbroddi náði ekki að tryggja sér sæti í Evróvision -undanúrslitunum. Þetta er vonbrigði. Kannski spilar fleira inn í en lag og flytjandi. Að minnsta kosti eru þeir sem komust áfram um margt skyldir og styðja kannski hver annan. Það virðist vera erfitt fyrir okkur að komast inn í aðalkeppnina þrátt fyrir góða keppendur. Litla Ísland var að minnsta kosti vinafátt í kvöld.
10.5.2007 | 21:08
Tveggja flokkar vinstri stjórn?
Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun Stöðvar 2 sem gerð er af Félagsvísindastofnun eru vaxandi líkur á vinstri stjórn. Miðað við tölurnar geta vinstri flokkarnir myndað vinstri stjórn með Framsókn eða Frjálslyndum. Það sem vekur þó enn frekar athygli er hitt að vinstri flokkarnir eru hársbreidd frá því að ná hreinum meirihluta án atbeina þriðja aðila.
Það eina sem er verra en þriggja flokka vinstri stjórn er sennilega tveggja flokka vinstristjórn. Margir hafa sagt við mig að nú þurfi að styðja Framsókn til að verja ríkisstjórnina og margir munu sjálfsagt gera það. Geir H. Haarde leiðrétti þetta sjónarmið í sjónvarpinu og sagði sem satt er að eina ráðið til að tryggja áframhaldandi þáttöku Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn væri að setja X við D.
Yfirlýsingar Steingríms J. í vikunni staðfesta vilja vinstriflokkanna til að halda Sjálfstæðisflokknum utan ríkisstjórnar.
Kannanir sýna að yfirgnæfandi meirihluti kjósenda vill Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn.
Vonandi fær þjóðin ósk sína uppfyllta.
10.5.2007 | 17:24
Vinstri stjórnir stoppa stutt en stoppa margt á stuttum tíma...
Það er sama hvaða könnun er skoðuð, það er ljóst að mikil endurnýjun er framundan í þingliðinu. Er það ekki síst hjá Sjálfstæðisflokknum þar sem nýir þingmenn verða fjölmargir, enda hafa prófjörin skilað góðri nýliðun hæfileikafólks. Margir hafa spurt sig hvernig standi á því að þjóðin kjósi Sjálfstæðisflokkinn í þeim mæli sem reynslan sýnir. Er það ekki síst vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn er í sífelldri endurnýjun bæði málefnalega og í mannvali. Áherslurnar taka mið af breyttum tímum og þörfum hverju sinni. Endurnýjun verður að byggjast á góðum rótum og því er engin tilviljun að kosningabarátta Sjálfstæðisflokksins sé háð undir kjörorðunum: - Nýir tímar á traustum grunni.
Aðkoma Sjálfstæðisflokksins að næstu ríkisstjórn er þó langt í frá sjálfsögð, enda eru vinstri flokkarnir búnir að gefa það út að vinstri stjórn verði reynd til þrautar. Og þraut verður það. Þriggja flokka bræðingur er í eðli sínu erfitt stjórnarform. Á Ítalíu hefur verið hefð fyrir fjölflokkastjórnum sem hafa átt skamman líftíma. Reyndar er það svo að á Íslandi hafa vinstri stjórnir stoppað stutt, þótt stoppað hafi þær margt á stuttum tíma.
Á laugardaginn er kosið um framtíðina. Viljum við fara áfram inn í nýja tíma á traustum grunni eða viljum við fara aftur til fortíðar?
10.5.2007 | 08:01
Fleiri bakarí!
Margir nota gömlu líkinguna um kökuna sem er til skiptana. Sífellt fleiri hópar vilja stærri sneið af "þjóðarkökunni" sem er takmörkuð stærð í hugum fólks. Eins og sagt er á ensku: "You can´t have the cake and eat it".
Góður maður sagði eitt sinn við mig: Auðvitað á að skipta kökunni réttilega á milli fólks, en það er alltaf eins og allir vilji meira en það sem þeir fá. Á Íslandi þurfum við stærri kökur og fleiri. Til að allir geti fengið meira er aðeins til ein lausn:
Við þurfum fleiri bakarí!
9.5.2007 | 23:19
DV vill ekki DV....en vonast eftir DS
Sérstök útgáfa af DV fór með Blaðinu inn um lúgur tugþúsunda heimila í dag en það er helgað kosningunum. Farið var yfir síðustu ár, en það sem vakti sérstaka athygli var grein Hreins Loftssonar um "nýja Viðeyjarstjórn". Hreinn er stjórnarformaður útgáfufélags DV og er greinilegt að hann vill fá D+S í samstarf.
Með blaðinu kveður við nýjan tón þar sem blöð á Íslandi hafa ekki tekið ákveðna afstöðu til stjórnarmynsturs síðustu ár. DV er samt ekki að dásama D+V stjórn sem gæti náð saman um umhverfismál og fullveldismál.
Nú er að sjá hvort DV fái DS. . .
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.5.2007 | 16:50
Vinstri stjórn í næstu viku?
Ýmist teikn eru á lofti um að vinstri flokkarnir muni reyna til þrautar að mynda ríkisstjórn hafi þeir til þess styrk. Gildi þá einu þó þeir þurfi að gefa eftir af stefnumálum og loforðum í þriggja flokka bræðingi. Framsókn og Frjálslyndir gætu komið að slíkri stjórn ef vel væri boðið. Framsókn virðist vera í mikilli sókn og gæti enn og aftur verið í "lykilstöðu" eins og Halldór Ásgrímsson sagði eftir síðustu alþingiskosningar.
Það er margt gott og vel meint sem VG og Samfylkingin leggja áherslu á, en þriggja flokka ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokks yrði þjóðinni dýr. Nýlegt dæmi frá Árborg þar sem VG, Samfylking og Framsókn mynda meirihluta er ágætt dæmi um vinnubrögð þau sem vænta má af vinstri stjórn. Langir fundir þar sem reyndar eru málamiðlanir og veruleg bið á svörum og ákvörðunum.
Vilja menn virkilega vinstri stjórn á Íslandi?
9.5.2007 | 13:04
Guðni snemma á ferðinni
Þrjú hundruð Framsóknar-heimili vöknuðu snemma að morgni 1. maí. Síminn hringdi samtímis á fjölda bæja um gjörvalt Suðurland og hljómaði rödd varformanns Framsóknarflokksins úr þeim öllum. Framsóknarmenn hafa tekið tæknina í notkun í smölun atkvæða sem öðru og var símboði notaður með rödd Guðna þar sem hann hvatti sitt fólk til dáða. Eitthvað var boðinn stilltur vitlaust í þetta sinnið og fór sendingin því 12 tímum of snemma út.
Flestir tóku þessu þó vel, enda alltaf gaman að heyra í Guðna. Sagt er frá þessu á vefsíðunni www.horn.is sem birti afsökunarbeiðni ráðherrans.
Fylgið hefur heldur farið upp hjá Framsókn við tiltækið samkvæmt nýjustu tölum úr Suðurkjördæmi.
9.5.2007 | 09:00
Spádómur Jóhönnu
Fyrir tólf árum síðan voru niðurstöður Alþingiskosninga þær að Alþýðuflokkur fékk 7 þingsæti, Framsókn 15, Sjálfstæðisflokkur 25, Alþýðubandalag 9, Þjóðvaki hreyfing fólksins 4 og svo Samtök um kvennalista 3.
Stjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks stóð tæpt og fór svo að mynduð var ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. - Það samstarf hefur haldið síðan.
"Jóhanna Sigurðardóttir sagði fréttamönnum, að það yrðu vonbrigði ef Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur mynduðu ríkisstjórn og það myndi leiða af sér tímabil stöðnunar."
Á þessum tólf árum hefur margt breyst á Íslandi og er eitt víst sama hvar í flokki menn standa og hvaða skoðanir þeir kunna að hafa: Það hefur ekki ríkt stöðnun á Íslandi.
Kaupmáttur hefur stóraukist, fyrirtækin hafa eflst, menntun hefur vaxið, ríkissjóður er skuldlaus við útlönd. - Velferð þjóðarbússins er undirstaða velferðarþjóðfélagsins.
8.5.2007 | 00:23
Hver hefði trúað því?
Steingrímur J. Sigfússon var í kynningarþætti Sjónvarpssins í kvöld sem fjallaði um VG. Steingrímur ræddi um atvinnumál og sagði eitthvað á þessa leið: "hver hefði trúað því fyrir 15 árum að tölvuleikjafyrirtæki væri eitt helsta útflutningsfyrirtækið, hver hefði trúað því fyrir 20 árum að stoðtækjaverkstæði Össurar Kristinssonar væri orðið það sem það er, hver hefði trúað því að bjórverksmiðja á Árskógsströnd væri..." og fleira var tínt til.
Góð spurning Steingrímur: Hver hefði trúað því?
Sprotafyrirtækin hafa vaxið í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn hefur trúað því að fólkinu sé best treystandi að efla atvinnulífið, en ekki stjórnmálaflokkunum. Steingrímur hefði örugglega ekki trúað þessu, enda hefur hann ekki lagt áherslu á að skapa þessum atvinnuvegum skilyrði.
Steingrímur var eins og menn muna á móti sölu bjórs.
Steingrímur studdi hins vegar fiskeldi og minkaeldi eins og lesa má um hér
8.5.2007 | 00:04
Merki Íslandshreyfingingar það sama og þjónustufyrirtækis Alcoa
Endurvinnslan er vaxandi þessa dagana og umhverfismálin í brennidepli. Merki Íslandshreyfingarinnar þykir sláandi líkt merki ESS hugbúnaðarfyrirtæksins sem þjónustar meðal annars Alcoa eins og lesa má á heimasíðu fyrirtækisins hér. Guðmundur Oddur Magnússon prófessor í grafískri hönnun hjá Listaháskóla Íslands greindi frá líkindum með þessum merkjum í fréttatíma Stöðvar 2 í kvöld.
Það er kannski sama hvaðan gott kemur, en merkið (hjá báðum) minnir á endurvinnslu og því ekki óviðeigandi að það sé endurunnið!
7.5.2007 | 22:40
Styrkir sögulegan bakgrunn Krists
Þetta er afar merkur fundur og vonandi byggður á traustum grunni. Það er með ólíkindum að þetta geti fundist svona 2070+ árum síðar. Það er út af fyrir sig merkilegt þegar sögulegar minjar varðveitast en Jerúsalem hefur verið í brennidepli síðustu 2000 árin og því með nokkrum ólíkindum að þetta hafi uppgötvast núna. Verður fróðlegt að heyra hvernig þetta hefur sannast. Margir efast um tilvist Jesú Krists, en fjölmargt í Nýja Testamentinu samræmist sagnfræðiskoðunum og fornleifafundum. Vísindum. Tómas efaðist þar til hann fann. Sama er að segja um margan manninn.
Í Biblíunni er einna oftast talað um Jerúsalemborg en ef mér skjátlast ekki er Babýlon næst oftast nefnd af borgum þar á eftir. Bagdad er í raun arftaki hinnar fornu Babýlon. Það er svo undarlegt að nú á 21. öldinni eftir Kristburð eru þessar borgir enn þær tvær sem mest er um ritað. Nú í dagblöðum og á Netinu.
Þetta sýnir kannski hvað er erfitt stundum að finna það sem er fyrir framan fólk alla daga.
![]() |
Gröf Heródesar fundin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.5.2007 | 21:02
Slök staða Framsóknar
Valgerður Sverrisdóttir aftekur þáttöku Framsóknar ef þetta væri niðurstaðan, enda er þetta herfileg mæling fyrir flokkinn. Reyndar er það svo að með þessu væri ekki hægt að mynda tveggja flokka stjórn nema með þáttöku Sjálfstæðisflokks.
Fylgi Framsóknar fer oft upp fyrir kosningar, en í þessari könnun fer það niður, aðeins fimm dögum fyrir kjördag. Vekur það spurningar. Hugsanlega er neikvæð umræða í kring um Jónínu Bjartmarz að draga fylgið niður, en sennilegast er skýringanna að leita víðar. Afar ólíklegt er að þetta verði þó niðurstaðan, enda sækir Framsókn fylgið í réttir fyrir kjördag. Það sýnir sagan.
Verði niðurstaðan sú að Framsókn verði aðeins hálfdrættingur á við VG er breytt staða í íslenskri pólítík.
Sjálfstæðisflokkurinn styrkir stöðu sína þrátt fyrir að hafa verið 16 ár óslítið í ríkisstjórn. Það er einsdæmi þó víðar væri leitað.
![]() |
Samfylking og Sjálfstæðisflokkur bæta við sig fylgi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.5.2007 | 08:36
Egill gleymdi VG í Árborg
Egill Helgason benti réttilega á þá þversögn að VG væri að berjast við umhverfisverndarsinna í Mosfellsbæ um leið og þeir teldu sig "eiga" umhverfivernd í pólítík. Egill bætti svo við að það væri eina bæjarstjórnarsamstarfið sem þeir væru í.
Því miður er það ekki svo; VG er í samstarfi við "gamla meirihlutann" í Árborg S og B lista. Þar er einmitt nýbúið að samþykkja stórhýsi í nágrenni við Mjólkurbúshverfið svonefnda þrátt fyrir mótmæli íbúana. VG fóru sérstaklega í hús í þessu hverfi og lofuðu íbúunum að stórhýsið yrði ekki reist í þeirra óþökk. Já og svo voru framlög til leikskólamála skorin niður í Árborg.
Fyrir hvað ætla VG að standa í ríkisstjórn?
6.5.2007 | 20:44
Hægri sveifla í Evrópu
Sigur Sarkozy er í höfn. Franskur forseti sem leggur áherslu á frjálsan markað. Hann er sonur innflytjanda og vill aukin sveigjanleika og frelsi.
Angela Merkel kanslari Þýskalands er hægrisinnuð og þekkir sósíalismann af eigin raun frá upvaxtarárum sínum í austur-Þýskalandi.
Margt bendir til að David Cameron leiðtogi íhaldsflokksins í Bretlandi muni sigra í næstu þingkosningum.
Geir H. Haarde og Sjálfstæðisflokkurinn eru með sterka stöðu viku fyrir kosningar á Íslandi.
Í öllum tilfellum er um nýjar áherslur til hægri að ræða. Breytingar og endurnýjun einkenna sigurvegarana. Umhverfi, jafnrétti og frelsi einkenna stefnuskrár þessara hægriframboða.
Nú er að sjá hvernig til tekst eftir viku.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)