Færsluflokkur: Bloggar

Tvöföldun Suðurlandsvegar þolir enga bið

Þetta skelfilega slys er áminning um að ekki er hægt að bíða, fresta eða hika við að tvöfalda Suðurlandsveginn. Tvöfaldur vegur með aðgreindar aksturstefnur er lykilatriði. Fólk er sammála um þetta forgangsmál, enda skrifuðu 25 þúsund manns undir áskorun til Alþingis fyrir áramótin um tvöföldun 2+2. Allir sveitarstjórnarmenn á suðurlandi eru sammála um þetta. Þó að 12 ára vegaáætlun hafi ekki verið lögfest er unnt að ráðast í þetta mál af hálfu samgönguráðherra með heimild í lögum.

Nú þarf að bretta upp ermarnar og bjóða út hönnun vegarins og að niðurstaða sé komin fyrir kosningar

Ég votta aðstandendum konunnar sem lést í umferðarslysinu samúð mína.

 


mbl.is Kona lést í umferðarslysi á Suðurlandsvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

og nú Róbert

Róbert Marshall kvartar yfir Agnesi Bragadóttur blaðamanni, enda sennilega best fyrir Samfylkinguna að sem fæstar fréttaskýringar séu birtar um hana nú rétt fyrir kosningar. Þau mál sem eru efst á baugi eins og umhverfismál og skipulagsmál eru nefnilega í miklum hnút hjá framboðinu. Það er hins vegar vond latína að kenna sendiboðanum um. Fyrst voru það þau Guðmundur Steingrímsson og Ingibjörg sem kveinkuðu sér undan fréttaskýringum Moggans. Nú er það blaðamaðurinn góðkunni Róbert Marshall á www.marshall.is - Verður þetta línan fyrir kosningarnar?

Laberinto del fauno

Var að koma af þessari dásamlegu mynd. Hún verkar á allar tilfinningaflóruna. Falleg, ævintýraleg og sorgleg. Saga lítillar stúlku. Saga þjóðar. Þjóðsögur og borgarastríð. Barn og móðir, systir og bróðir, fæðing og dauði. Ævintýri fyrir fullorðna. Ég vissi ekki á hverju ég átti von, hafði heyrt að þetta væri góð mynd. En hún er það ekki. Hún er frábær.

pan

Verður Lúðvík Geirsson næsti formaður Samfylkingarinnar?

Stóriðjustopp eða stóriðjuhlé er óframkvæmanlegt að mati bæjarstjórans í Hafnarfirði. Í fréttum Stöðvar2 í kvöld segist hann "ekki skilja alveg þessa umræðu þegar menn halda því blákalt fram að það sé hægt að leggja fram einhverja einhliða ákvörðun um stöðvun eða frestun á slíkum málum." og mótmælir því ekki að þetta séu innihaldslausar yfirlýsingar.

Förum aðeins yfir þetta:

Pólítískur bæjarstjóri í Hafnarfirði er Lúðvík Geirsson (S)

Samfylkingin er með hreinan meirihluta í einu sveitarfélagi: Hafnarfirði

Lúðvík Geirsson hefur lagt áherslu á íbúalýðræði í meiriháttar ákvörðun sem þessari.

33.grein bæjarmálasamþykktar Hafnarfjarðar kveður séstaklega á um að leggja beri mjög þýðingarmikil mál í hendur kjósenda með sérstakri kosningu

Framtíð álversins er mjög þýðingarmikið mál fyrir alla Hafnfirðinga

Formaður Samfylkingar lýsti yfir andstöðu Samfylkingarinnar við álver í Hafnarfirði á Alþingi þ. 6. febrúar sl

Lúðvík Geirsson aftekur stopp- og hléstefnu og segist ekki skilja hvernig slíkt eigi að ganga upp

Lúðvík Geirsson er sigurvegari

Formaður bæjarráðs er Gunnar Svavarsson og er hann efsti maður á S lista í SV kjördæmi.

Verður Lúðvík Geirsson næsti formaður Samfylkingarinnar?


Sáttmáli hinna óviljugu?

Eitthvað hefur undirskriftarsöfnun "Framtíðarlandsins" farið úr skorðum á fyrstu metrunum. Um er að ræða áskorun á netinu, en einhverjir óprúttnir aðilar hafa skráð einstaklinga án þeirra vilja eða vitundar. Markmið Framtíðarlandsins er göfugt og hefur höfðað til stórs hóps. Því hlýtur að vera mikilvægt fyrir samtökin að þau séu trúverðug í baráttu sinni. Sáttmáli er samningur.

Samkvæmt heimildum Mannlífs var Magnús Þór Hafsteinsson skráður, en hann er þó ekki að finna þar lengur. Hins vegar er Jónína Bjartmarz, Steingrímur J. Sigfússon og Jón Sigurðsson skráð. Vita þau af þessu? Er þetta með þeirra vilja

Þetta gæti minnt á umræður um annan lista sem hægt er að skoða hér


Æi..á nú að kenna Mogganum fylgistapið?

Guðmundur Steingrímsson hefur nokkurt nef fyrir því spaugilega og skemmtilega sem er að ske hverju sinni. Ég les oft bakþanka hans sem eru smellnir. Nýjasta aðhlátursefnið eru fréttaskýringar Moggans. Um allnokkurt skeið hefur fylgi Samfylkingarinnar farið minnkandi. Margir hafa leitað skýringa á fylgistapinu og hefur það kannað og greint. Helst eru það konur sem hafa ákveðið að kjósa stóra vinstri flokkinn, frekar en Samfylkinguna.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur komið með skýringar á vanda Samfylkingarinnar við hin ýmsu tilefni og nefnt þá þingflokkinn til sögunnar. Ennfremur að Samylkingin sé of pólítísk. Jón Baldvin Hannibalsson hefur lýst því yfir að Samfylkingunni hafi mistekist. Kannanir staðfesta loks ítrekað að flokksbrotið VG er stóri vinstri flokkurinn á Íslandi.

Ingibjörg hefur verið erlendis undanfarið bæði þegar stjórnarskrármálið var í kreppu og svo eins á síðustu dögum þingsins þegar 50 mál voru á dagskrá. Össur er kemur þar í staðinn, þó ekki sé hann vara-formaður. Hún sendi hins vegar frá sér yfirlýsingu með fyrirsögninni "Slúður á forsíðu" sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Þar er hún þó ekki ekki að grínast þar sem hún átelur Morgunblaðið fyrir "ómálefnanlegar árásir á Samfylkingarfólk" og sér ekki skoplegu hliðar málsins sem aðrir samflokksmenn hennar hafa skemmt sér yfir. 

Agnes Bragadóttir er reyndur blaðamaður og sá hún um fréttaskýringu Morgublaðsins um stjórnarskrármálið. Greinar Agnesar vekja oft eftirtekt, enda hefur hún stundað rannsóknarblaðamennsku umfram marga aðra í stétt sinni. Vegið er að heiðri Agnesar með aðdróttunum Ingibjargar Sólrúnar. Mæli með Reykjavíkurbréfi dagsins í dag fyrir Samfylkingarfólk í leit að skýringum á stöðunni, fremur en að reyna að skjóta sendiboðann.

Nú er það svo að Morgunblaðið er nokkuð lýðræðislegt blað. Þar geta allir komið að greinum, bæði lesendabréfum, aðsendum greinum (sem og dánarfregnum og afmæliskveðjum). Þar geta allir menn bloggað á vef blaðsins eins og á gummisteingrims.blog.is og það hefur stutt við bakið á málum óháð flokkslínum. Þar má nefna umdeilda atkvæðagreiðslu um álver í Hafnarfirði á vegum Samfylkingarinnar. Þar er kosið um notkun Alcan á lóð sem bæjarfélagið hafði selt Alcan. Hafnarfjörður er í SV kjördæmi, einmitt sama kjördæmi og Guðmundur Steingrímsson, en hann skipar að eigin sögn baráttusætið: 5. sætið, en Samfylkingin er með um 20% í kjördæminu.

Skemmtilegt!


Vatnajökulsþjóðgarður (6x stærri en Luxembourg)

Eitt af stóru málunum sem Alþingi samþykkti á síðasta þingdegi fyrir kosningar voru lög um Vatnajökulsþjóðgarð. Með þessu erum Íslendingar að stíga stórt skref í átt að skipulegri friðun víðernis, en jafnframt að tryggja skipulegt aðgengi sem raskar ekki náttúru um of. Þjóðgarðar hafa verið gerðir víða um lönd og á engan er hallað þegar rifjað er upp stórvirki Teddy Roosevelt fyrir rúmum 100 árum. Þá var náttúruvernd komin skammt á veg, en Teddy var mikill náttúruunnandi og framsýnn. Með þessum lögum er Ísland komið á heimskortið með einn af stærri þjóðgörðum heims, reyndar þann stærsta í Evrópu. Landsvæðið er sex sinnum stærra en stóhertogadæmið Luxembourg, en þar býr hálf milljón manna.

Vatnajökull NASA

Gott er að muna það fyrir kosningarnar í vor að það er ríkissjórn hægrimanna sem náði þessu máli í gegn um Alþingi. Full samstaða var um málið á þingi.  


Björgólfur gegn Baugi?

Baráttunni um Króníkuna lauk kl. 17 í dag, þegar eigendur hennar tilkynntu DV mönnum að ekki yrði af kaupum. Pétur Gunnarsson vék að þessu á blogginu hér áðan. Sagt er að klukkan 15 hafi eigendur Króníkunnar verið tilbúin í söluna, en Björgólfur eigandi Ólafsfells ehf. hafi komið í veg fyrir það. Ólafsfell sem er í eigu Björgólfs Guðmundssonar og á ennfremur 8% hlut í Árvakri hf. og 82% í Vöku Helgafelli hf. Ástæðan er sögð sú að ekki var fallist á að framselja lán upp á rúmar tuttugu milljónir. DV menn hafi þó verið tilbúnir að bæta það upp að fullu. 
Má segja að í dag hafi átakalínan í fjölmiðlum legið um þetta vikurit sem rekið er með tapi.

Stjórnarformaður DV er Hreinn Loftsson...en Árvakur sér um prentun og dreifingu þess

. . . .já þetta er lítið land. . .

 DB

p.s.

bæði Ólafsfell og Helgafell eru á ferðaáætlun Ferðafélags Íslands...
http://www.fi.is/files/FI2007_1312766787.pdf 


Magnaðar myndir

Engin tvö snjókorn eru alveg eins þegar grannt er skoðað. Hér eru nokkuð magnaðar myndir af snjókristölum eins og falla í dag í milljarðatali á suðurlandi.

snjór2snjór3snjór4snjór6snjór5snjór1

Bókin Critical Mass sem er fjallað um hér að neðan tekur dæmi um snjókorn. Þau myndast við ákveðið hitastig, en minnstu breytur hafa áhrif á hvernig þau þróast. Eins og fólkið.

Nokkar gamlar myndir af snjókornum


Hvernig gæti vinstri stjórnin litið út?

Ýmsar skoðanakannanir benda til vinstristjórnar. Hverjir munu skipa þessa ríkisstjórn? Formenn, varaformenn og sitjandi þingmenn ganga sjálfsagt fyrir, en fáir þeirra hafa setið áður í ríkisstjórn.

Þetta væri því talsverð nýliðun, enda langt um liðið síðan vinstri menn voru við stjórn.  

Svona gæti þetta litið út eftir kosningar, en ég læt lesendum um að eyrnarmerkja embættin:

Steingrímur J     Ingibjörg Sólrún     Guðjón Arnar    Ögmundur

Össur  Sigurjón Þórðar    Ágúst

Magnús Þór    Kolbrún    Þuríður    Jóhann Ársælsson 

Rétt er að geta þess þó að Ingibjörg Sólrún taldi einboðið að stærsti kaffibandalagsflokkurinn fengi forsætisráðuneytið. Þetta kom fram í Kryddsíldinni. NB: VG er nú stærsta framboð stjórnarandstöðunnar samkvæmt könnunum og á því líta á Steingrím J. sem forsætisráðherraefni bandalagsins?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband