Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Afsökunarbeiðni með vöxtum

Þingmennirnir sem vógu að starfsheiðri lögfræðinga Seðlabankans skulda afsökunarbeiðni og hana með Icesave vöxtum.

Það er ekki léttvægt að Alþingi skuli vera notað sem hótunarvettvangur gagnvart opinberum starfsmönnum. Sem starfa auk þess fyrir stofnun sem á að vera sérstaklega sjálfstæð gagnvart stjórnvöldum.

Tilraun stjórnarliða til að sverta Seðlabankann vekur athygli erlendis enda virkar þetta sem stjórnleysi eða örvænting. Það er auk þess grafalvarlegt að verið sé að draga úr varnaðarorðum embættismanna á sama tíma og Alþingi er að taka ákvörðun um þetta stóra mál.

Nú er að sjá hvort þingmennirnir og formaður samninganefndarinnar biðjist afsökunar eða lausnar.

----

Fyrir þá sem hafa áhuga á efnisatriðum þessa máls má benda á nokkur lykilatriði í umsögn SÍ hér að neðan en þar kemur vel fram hvað samningurinn er slakur (fyrir Ísland):

Samningurinn er einkaréttarlegs eðlis og eru ákvæði í honum sem ekki eru vanaleg í hefðbundnum lánasamningum sem ríkið er aðili að. Æskilegt hefði verið ef þjóðréttarleg staða íslenska ríkisins hefði verið betur tryggð.

Vilji íslenska ríkið freista þess að taka upp samningana að nýju miðast sú endurupptaka við það að nýjast úttekt IV. greinar AGS á stöðu Íslands að skuldaþoli ríkisins hafi hrakað til muna miðað við mat AGS frá 19. nóvember 2008.

Hugsanlegar breytingar vegna Brussel-viðmiðanna frá því í nóvember 2008 fá ekki sams konar meðferð.
Seðlabankinn telur æskilegt að ákvæði um meðferð á kröfuhöfum Landsbankans hefði verið skýrara þar sem ekki sé ljóst hvað átt sé við með því ákvæði.

Lánveitendum er tryggður sami réttur og hugsanlegir framtíðarlánveitendur vegna fjármögnunar á kröfum innstæðueigenda hjá íslenskum banka ef þau kjör reynast hagstæðari en samið er um í Icesave-samningunum. Reyni á ákvæðið getur slíkt leitt til breytinga á kjörum lánasamninganna.

Æskilegt hefði verið að skilgreiningin á þeim skuldbindingum sem valdið geta gjaldfellingu hefði verið skýrari þar sem gjaldfelling á öðrum skuldbindingum sem ríkið er í einfaldri ábyrgð fyrir, þótt ólíkleg sé, virðist geta valdið gjaldfellingu á Icesave samningunum.

Athygli vekur að bresk lög og lögsaga gilda ekki eingöngu um ágreiningsefni sem upp kunna að rísa beinlínis vegna samninganna heldur einnig atriði í tengslum við samningana hvort sem þau réttindi sem þau byggjast á eru innan eða utan samninga. Þá geta lánveitendur einnig að því marki sem lög heimila höfðað mál samtímis í mörgum lögsögum.

Afsal á ríkisins varðandi lögsögu og fullnustu er víðtækara en hefðbundið er. Seðlabankinn og eigur hans njóta þó friðhelgi skv. breskum lögum. Íslenska ríkið nýtur einnig friðhelgi skv. Vínarsamningnum frá 1961 um stjórnmálasamband og því gildir meginreglan um að diplómatar og eignir sem nauðsynlegar eru vegna sendiráða njóti verndar fyrir íhlutun eða aðför.


mbl.is Stendur með lögfræðingunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vekur efasemdir um faglega hæfni samninganefndarinnar

Fram hefur komið að Seðlabankastjórinn sjálfur mætti með tvo lögfræðinga úr Seðlabankanum á fund þingnefndarinnar. Álit Seðlabankans kom þar fram enda er bréfið skrifað á bréfsefni bankans af starfsmönnum hans. Nú er verið að beita starfsfólk Seðlabankans ódrengilegum þrýstingi af hálfu þeirra sömu stjórnarliða og settu sérstök lög til að bola burt yfirmönnum bankans. Þetta eitt og sér er ekki þinginu sæmandi.

Það sem réttara er að þessi gagnrýni lögfræðinga Seðlabankans á frumvarpið og samninginn vekur verulegar efasemdir um faglega hæfni samninganefndarinnar sem starfaði undir forystu Svavars Gestssonar. Nefndin ber ábyrgð á samningum og svo ríkisstjórnin sem hefur staðfest hann fyrir sitt leyti. Nú þarf Alþingi að taka ákvörðun og þá er ekki góð taktík að skjóta sendiboða. Slík skot eru voðaskot.

En fyrir þá sem vilja kynna sér minnisblað lögfræðinga Seðlabankans er rétt að benda á eftirfarandi slóð:

http://www.althingi.is/pdf/umsogn.php4?lthing=137&malnr=136&dbnr=601&nefnd=ut


mbl.is Vekur efasemdir um faglega hæfni Seðlabankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lyktin af pólítík

Árni Þór segir að "málið lykti af pólítík". Það er athyglisvert. Lögum var breytt með hraði til að losna við bankastjórana þar sem allt átti að vera svo faglegt. Þá var fenginn "ópólítískur" samningamaður Svavar Gestsson sem dreif í að semja við Breta. Nú þegar gagnrýni kemur úr mörgum áttum um samninginn er sú gagnrýni talin "lykta af pólítík". 

Ég fagna gagnlegri gagnrýni enda enn ekki komnar fram endanlegar lyktir þessa óheillamáls. 

Er ekki rétti tíminn til að hætta í skotgröfunum og fara yfir málið með hagsmuni okkar sem þjóðar hreint og klárt? 


mbl.is Ekki formleg umsögn Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snýst ekki um Davíð

Þetta mál er þannig vaxið að það á ekki að snúast um flokkspólítík, ekki að vera aðgöngumiði að ESB og allra síst að verða persónulegt. Það er dapurlegt hvernig umræðan hefur farið hér á lægsta plan og margir geta til að mynda ekki hlustað á rök Davíðs Oddssonar vegna þess einfaldlega að hann er Davíð Oddsson.

Það var vel orðað hjá Davíð að ekki ætti að gera einfalt mál flókið. Það er líka laukrétt að talsmenn og ríkisstjórn Íslands á að verja hagsmuni Íslands. Það gerðu menn í sjálfstæðisbaráttunni, landhelgismálinu og í fjölmörgum málum. Ég nefni bara flökkustofna við Íslandsstrendur sem nýlegt dæmi. En í þessu risastóra máli keppast menn um að halda fram rökum erlendu kröfuhafanna. Málið snýst ekki um Davíð Oddsson. Það snýst um að halda fast og rétt um hagsmuni og réttindi íslensku þjóðarinnar.

Þátturinn var almennt vel unninn og til fyrirmyndar.


mbl.is Engin ríkisábyrgð á Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta má ekki liggja óhreyft

Ríkisstjórnin hlýtur að bregðast við þessum tíðindum. Ríkisstjórnin sem sat á undan hélt því fram að AGS tengdi málin ekki enda er slíkt ósiðlegt og óeðlilegt.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn á ekki að vera einhvers konar Intrum fyrir einstakar þjóðir vegna einstakra innheimtumála. Sem eru auk þessu afar umdeild.
Starfsmennirnir bregðast hér rétt við.

Nú þurfa íslensk stjórnvöld að taka málið upp og bregðast þannig við þessar ósvinnu sem hér er komin fram.


mbl.is Starfsmenn AGS mótmæltu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvissan um Icesave - vissan um skuldina

Samningarnir umdeildu sem nú liggja fyrir Alþingi setja alla óvissu á Ísland. Þegar horft er til þess hve margþætt óvissa er í endurheimt eigna Landsbankans og forgangsröðun krafna finnst flestum þetta bersýnilega ósanngjarnt. Látum vera lögfræðileg rök og pólítísk. Óvissan um heimturnar hefði þurft að ígrunda betur. Í upphafi var talað um mögulegt tap og þá gleymdust vextirnir. Nú hafa menn á borð við Ragnar Hall bent á vankantana í uppgjörinu. Svo bíða kröfuhafar í hundruðatali sem freista þess að hnekkja neyðarlögunum.

Allt er þetta óvissa. 

Það eina sem er öruggt í samningnum er skuldin sem Ísland tekur á sig.


Bjartsýni er þörf þegar svartast er

Á sama hátt og nær allir fylltust óraunsærri bjartsýni á uppgangstímum er jafn hættulegt ef langflestir fyllast svartssýni á krepputímum. Hjarðhegðunin fer illa með læmingjana og vont getur versnað ef allt snýst um það neikvæða. Aldrei fyrr í lýðveldissögunni hefur verið eins mikilvægt að vonarneisti sé kveiktur. En því miður hefur glætan aldrei sýnst minni.

Ef bankar vilja ekki lána, stjórnvöld taka ekki ákvarðanir og fólk þorir ekki að kaupa neitt er það í sjálfu sér 100% trygging fyrir alvarlegri kreppu. Það þarf ekki einu sinni hlutabréfahrun, gjaldeyriskreppu eða atvinnuleysi til. Vantraustið á Íslandi er að verða óbærilegt. Bankar treysta ekki fólki né fyrirtækjum og fólk treystir ekki bönkum. Fáir treysta stjórmálamönnum og athafnamenn eru litnir hornauga. Mikið af þessu vantrausti er ekki óeðlilegt. Sumt verðskuldað.

En almennt og viðvarandi vantraust er lamandi og eyðileggjandi fyrir allt þjóðfélagið. Fyrir stuttu var það alveg á hinn veginn; við vorum best, fallegust, sterkust og "stórust". Þessar öfgar í ökla og eyra eru of miklar. Núna þegar krónan er í sögulegu lágmarki og skuldir þjóðarinnar skuggalegar þurfum við á öllu okkar að halda og ekkert minna.


Frjáls markaður er verstur - fyrir utan hin kerfin

Margir hafa haldið því fram að nú sé kapítalisminn endanlega dauður. Fjármálarhrun um heim allan hefur valdið því að menn hafa gefið upp von. Ríkið hefur dælt peningum í hagkerfið, keypt hafa verið hlutbréf í bönkum og svo hafa þing samþykkt "stimulus" pakka í allt og ekkert. Hér á Íslandi er ríkið fyrst og fremst upptekið við að hækka skatta og forðast niðurskurð í ríkisrekstri og er það slíkt einsdæmi að þess er ekki langt að bíða að þessi leið verði kölluð "Íslenska leiðin" ef svo fer sem horfir. Vandinn við skattekjurnar er sá að þó þær séu sannanlega til í Excel er ekki víst að þær skili sér. Skattbyrðar eru það síðasta sem Íslendingar þurfa nú og munu þær því fækka störfum. Skattlagning verður aldrei lausn enda er það ekki ríkið sem skapar útflutningstekjur með skattheimtu. Ríkið er yfirbygging en ekki undirstaða. Þessu megum við aldrei gleyma.

Churchill sagði eitt sinn að lýðræðið væri versta form stjórnkerfis - fyrir utan öll hin.
Sama má segja um frjálsan markað - enda er hann stórgallaður: Hann er versta viðskiptaumhverfið...fyrir utan öll hin.


Málfrelsi

Sem betur fer er enn málfrelsi á Íslandi. Davíð hefur fullan rétt á að tala þótt sumum þyki það óþægilegt.
Í hruninu í Október þótti mönnum óþægilegt þegar Davíð Seðlabankastjóri tjáði sig.
Nú þegar hann er ekki lengur embættismaður má hann heldur ekki tala.

Já og svo var víst kosið um Icesave í þingkosningunum. . .


mbl.is Ósvífin og ódýr afgreiðsla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ekki er það gott...

Þetta mál á ekki að snúast um flokkspólítík enda er fólk með ólíkar skoðanir á þessu í ýmsum flokkum. Þetta mál er hins vegar hápólítískt bæði varðandi stöðu Íslands sem ríkis og þjóðarinnar til framtíðar. Ég hef aldrei skilið af hverju ríkið er að taka á sig þessar skuldir Landsbanka Íslands hf. Hryðjuverkalögunum var misbeitt af Bretum en nú hefur þeim verið aflétt af þeim sjálfum enda varla stætt á öðru.

Bretar sjálfir mismuna innistæðueigendum meðal annars landfræðilega þar sem þeir greiða ekki innistæður á Guernsey. Lagarök fyrir því að skuldsetja Ísland með þessum hætti eru því í besta falli hæpin.

Nú berast af því fregnir að matsfyrirtækin vilji lækka lánshæfismat Íslands. "Glæsilegur" Icesave samingur virðist ekki vera fegra myndina nema síður sé.

Alþingismenn eru bundnir við samvisku sína og stjórnarskrá. Ég er viss um að þeir hugsa málið vel áður en þetta gengur í gegn. Trúi ekki öðru.


mbl.is Icesave kostar minnst 300 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband