Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
6.3.2010 | 15:41
Góð kjörsókn
Allt tal um dræma kjörsókn virðist vera einhvers konar spuni. Þegar litið er til þáttöku í þjóðaratkvæðagreiðslna í Evrópu er hún oft um helmingur þáttökunnar í þingkosningum. Þá eru Evrópukosningar oft með undir 50% þótt um þingkosningar sé að ræða.
Þá er það sennilega einsdæmi að forvígismenn ríkisstjórnar lands skuli sitja heima og tala þáttökuna niður. Þetta er enn furðulegra þegar litið er til þess að sömu aðilar (Steingrímur og Jóhanna) lögðu fram þessi lög sem nú er kosið um.
Ef þáttakan verður nálægt 50% er það gríðarmikil kjörsókn. Í íbúakosningu um flugvöll í Reykjavík sem haldin var 2001 tóku innan við 40% þátt.
Fyrstu tölur benda til einmitt mikillar þáttöku. Nefni héðan þessar tölur:
"Í Árborg höfðu 1744 kosið klukkan 15 sem er 31,65% kjörsókn. Á sama tíma í alþingiskosningunum í fyrra var kjörsóknin 39,55%." - 4/5 af kjörsókn síðustu alþingiskosninga.
Þetta er nálægt kjörsókn þingkosninga þrátt fyrir að formenn Samfylkingar og VG hvetji íbúa til að sitja heima. Eru þeir ekki nógu hlýðnir?
Um 26% kjörsókn í Reykjavík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
5.3.2010 | 20:22
Allir saman nú
Í dag opnuðu 12 frambjóðendur í prófkjöri okkar sameiginlega skrifstofu. Það er örugglega einsdæmi að svo margir frambjóðendur skuli vera saman. Og að þeir skuli allir vera saman.
Þór Hagalín frá Eyrarbakka átti þessa hugmynd og við sem tökum þátt í prófkjörinu gripum hana á lofti.
Á morgun á að kjósa um vondan Icesave samning sem ríkisstjórnin hefur ekki afnumið og enginn annar samningur er á borðinu. Það eiga allir að fara á kjörstað sem það geta. Og allir ættu að segja NEI.
Samstaðan skilar sér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.3.2010 | 23:50
Þakka ber það sem vel er gert
Í dag fórum við Hannes Kristmundsson og Sigurður Jónsson með blómvönd og kort fyrir hönd þeirra 27 þúsund Íslendinga sem skoruðu á Alþingi og ríkisstjórn að tvöfalda Suðurlandsveg.
Ástæðan fyrir þessari ferð okkar er einföld: Nú hefur 6.5km kafli verið boðinn út og er hann tvöfaldur. Þetta eru tímamót sem ber að þakka. Ekki síst þegar vitað er að AGS hefur lagst gegn framkvæmdum ríkisins og látið stöðva útboð. Af öllum framkvæmdum sem eru á teikniborði ríkisins er Suðurlandsvegur sú arðbærasta og er þá ekki litið til mannlega þáttarins.
Skotgrafahernaður og tortryggni manna og flokka á milli hefur einkennt umræðuna eftir hrun. Ég vona að við berum gæfu til að þakka það sem vel er gert og gagnrýna það hjá okkur sjálfum sem miður fer. Við Hannes og Sigurður vitum að Kristján Möller hefur hafið þetta verk af einlægni og nú treystum við því að því verði lokið eins fljótt og tafarlaust og unnt er.
2.3.2010 | 14:05
Listamannalaun, silkihúfur og gæluverkefni
Umræðan um listamannalaun er heit þessa stundina og skyldi engan undra enda er um að ræða háar fjárhæðir sem ríkið greiðir án þess að hafa nokkur efni á því.
Sama er að segja um gæluverkefni sveitarfélaga sem mörg hver hafa ekki efni á að borga af núverandi skuldum. Það er því eðlilegt að fólk spyrji sig hvað "hið opinbera" eigi að gera og ekki síður hvað það á ekki að gera. Kostnaður við yfirstjórn í sveitarfélögum er ekki síður atriði sem þarf að endurskoða. Hér þarf að byrja efst og tryggja að raunveruleg grunnþjónusta svo sem við börnin haldist sem allra best.
Þó ég hafi lært tónsmíðar og lokið burtfararprófi í sellóleik finnst mér furðuleg forgangsröðun að byggja tónlistarhús fyrir lánsfé á samdráttartímum. Sama er að segja um margar sérstakar hugmyndir um t.d. "Vatnagarða", "Menningarhús" og uppbyggingu íþróttamannvirkja við Eyðimörk sem meirihlutinn í Árborg hefur sett á oddinn á síðustu árum en við fulltrúar D-listans lagst alfarið gegn.
Sem betur fer var ekki farið í þessi ævintýri. - Nóg er þó samt.
28.2.2010 | 00:49
Prófkjörið þegar búið að skila sínu
Meðframbjóðendur mínir sýndu snarræði í dag þegar þeir uppgötvuðu alvarlegan leka í Sunnulækjarskóla. Þótt hér sé um hörmulegt tjón að ræða er næsta víst að hérna var meiri skaða forðað með réttum viðbrögðum.
Fyrr um daginn höfðum við farið yfir hvernig við gætum öll 12 verið með sameiginlega skrifstofu í prófkjörinu og kom strax í ljós hvað hópurinn er vel samstilltur og tilbúinn til verka. Framundan eru erfið verkefni að kosningum loknum og eitt er víst að það þarf að setja undir margan lekann.
Sumir efast um prófkjör og telja uppstillingu betri. Segja má að prófkjörið hafi þegar skilað sínu. En jafnframt má halda því fram að uppstilling vegna ljósmyndatöku hafi hér komið í veg fyrir enn frekara tjón en varð.
Vatnstjón í Sunnulækjaskóla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.2.2010 | 16:39
Svavar Gestsson í Fréttablaðinu
Atvinnusköpun er vinsæl í umræðunni en minna fer fyrir fjölgun starfa í reynd. Sumir telja engu skipta hvert starfið sé og hverju það skilar. Þeir sem aðhyllast ríkisbúskap á flestum sviðum telja reyndar að ríkið geti tryggt laun fyrir alla.
Ágætis sýn í þennan hugarheim er að finna í viðhafnarviðtali við Icesave samningamanninn Svavar Gestsson í helgarblaði Fréttablaðsins. Þar nefnir Svavar sem dæmi að álver sé sambærilegt við fjölgun starfa við Lögbirtingarblaðið. Munurinn er að sjálfsögðu sá að álverið skapar verðmæti (ál) en lögbirtingablaðið skilar engu nema urðunarkostnaði þegar upp er staðið.
Það er reyndar umhugsunarvert að lesa leiðara Fréttablaðsins í dag þar sem kjósendur eru hvattir til að segja JÁ við Icesave samningunum sem forsetinn synjaði staðfestingar. Slík skoðun er bæði fráleit og mikil rökleysa þegar meira að segja Bretar og Hollendingar hafa boðið betur en Svavar og samninganefndin. Svo er í þessu sama blaði viðtal við Svavar Gestsson um hugmyndir hans um alheimseftirlit með lífsgæðum og viðskiptum sem hann segir sjálfur vera "útópískar".
25.2.2010 | 00:56
Breiður og góður hópur - saman í prófkjöri
12 eintaklingar gefa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í sveitarfélaginu Árborg. Hópurinn samanstendur af einstaklingum sem hafa áður verið í framboði og setið í nefndum á vegum bæjarins ásamt mjög öflugum nýjum frambjóðendum sem bjóða nú fram krafta sína til að bæta bæjarstjórnina.
Það er ekki sjálfgefið að svo margir bjóði sig fram til starfa. Stjórnmálin eru lágt skrifuð en á sama tíma eru þau mikilvægari en nokkru sinni í 66 ára sögu lýðveldisins. Ég skynja það sterkt í þessum hópi að persónulegur frami er ekki aðalatriðið heldur vilja allir leggja sitt af mörkum til að snúa við blaðinu og byggja upp betra bæjarfélag.
Upp hefur komið hugmynd um að vera með sameiginlega kosningaskrifstofu frambjóðenda. Það væri nýjung og fráhvarf frá auglýsingamennsku og sérhagsmunum. Þessi einlægi ásetningur er mikilvægur grunnur fyrir heiðarlega og málefnalega kosningabaráttu í vor.
22.2.2010 | 11:48
0% álag á 0% vexti
2.75% álag á breytilega vexti er ekkert betra en 5-6% fastir vextir. Talsverðar líkur eru á að breytilegir vextir muni hækka á næstu árum vegna ávöxtunarkröfu og mögulegrar verðbólgu.
Ef krafa Breta og Hollendinga er að fá fé sitt til baka er rétt að hjálpa þeim við að heimta það úr þrotabúi Landsbankans.
Íslendingar geta mögulega tryggt heimturnar að einhverju leiti. En þá án vaxta.
Ef það er rétt að þetta sé tilboð Breta og Hollendinga er það varla pappírsins virði.
Framundan er þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem vondum samningi verður hafnað.
Framundan er endurskoðun á tryggingarkerfi ESB sem fellur burt einstaka tryggingasjóði einstakra landa.
Framundan eru kosningar í Bretlandi og stjórnarslit eru í Hollandi.
Ég sé ekki betur en við séum með sterka samningsstöðu.
17.2.2010 | 22:31
Grein 126.9 í Lissabon sáttmálanum
Ekki er langt síðan Lissabon sáttmálinn var staðfestur en hann er vísir að stjórnarskrá ESB. Í grein 126.9 er tekið á hallarekstri einstakra ríkja en þar er Evrópuráðinu veittur réttur til að taka fjárráðin af ríkinu sem hefur stundað hallareksturinn.
Þar að auki er atkvæðisrétturinn tekinn af viðkomandi ríki þegar málið er tekið fyrir. Nú hefur Grikklandi verið veittur stuttur frestur til að laga til hjá sér að viðlögðaðri beitingu greinar 126.9.
Með þessu er Grikkland í raun ekki lengur fullvalda um leið og fjárlagahallinn er talinn of mikill.
15.2.2010 | 11:55
Sóknarfærin á Suðurlandi
Meirihluti raforkuframleiðslu á uppruna sinn á Suðurlandi. Virkjun Þjórsár var lengi burðarásinn í orkubúskapnum en svo hafa jarðvarmavirkjanir bæst við á Hengilssvæðinu. Þrátt fyrir þessa miklu orkuframleiðslu hefur orkufrekur iðnaður ekki verið starfræktur á Suðurlandi. Sveitarfélagið Ölfus hefur unnið gríðarmikið undirbúnings og þróunarstarf til að tryggja aðstöðu fyrir stóriðnað. Línulagnir eru tiltölulega einfalt mál, nægt byggingarland er á skipulagi, hafnaraðstaða og aðgangur að kælivatni. Hingað til hefur ekki neitt verkefni verið tryggt en vonandi verður nú breyting hér á. Iðnaður væri fjórða stoðinn undir atvinnulíf Suðurlands. Landbúnaður er elstur en síðan má nefna sjávarútveg sem enn er stundaður af krafti. Þá hefur þjónusta við ferðamenn verið fjölbreytt bæði verslun og veitingar en ekki síður sumarhúsabyggingar og þjónusta þeim tengd. Stóriðnaður myndi auka fjölbreytni og draga úr atvinnuleysi til lengri og skemmri tíma með uppbyggingu fyrst og reksri síðar.
Flestir ferðamenn sem heimsækja Ísland fara um Suðurland. Sama er að segja um innlenda ferðamenn. Suðurstrandarvegurinn er langt kominn og mun hann tengja Leifsstöð við suðurströndina og auka þannig möguleika ferðaþjónustunnar til mikilla muna. Einkaframtakið hefur skapað ferðamannaperlur á Stokkseyri og Eyrarbakka sem saman geta verið ferðaklasi á heimsvísu. Hér eru tækifæri til að tengja matarkistur landbúnaðar og sjávarútvegs við ferðmennsku. Bæjarfélögin geta stutt við þessa þróun með því að opna aðgengi að innviðum og styrkja ímynd svæðisins.
Kostnaður við rekstur sveitarfélaganna óx víða hraðar en tekjumyndunin. Sala á eignum og lóðum er eins og hvalreki sem ekki má treysta á. Grunnreksturinn varð sumstaðar ósjálfbær eins og dæmin sanna. Hér þarf að taka til hendinni og minnka yfirbyggingu. Sameining sveitarfélaga er ein leið til að minnka ráðhúskostnað en það er þó ekki sjálfgefið að sameining minnki rekstrarkostnað. Þetta verður lykilatriði á næsta kjörtímabili svo forðast megi skuldauppgjör.