Mikilvægum markmiðum náð í Árborg

Í dag var í bæjarráði fjallað um bréf frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Þar kemur fram að Sveitarfélagið Árborg er ekki lengur undir eftirliti nefndarinnar enda hefur það náð þeim fjárhagslegu markmiðum sem því bar um síðustu áramót. Er það á mjög stuttum tíma eða aðeins þremur árum. Sveitarfélagið skuldaði 206% af tekjum árið 2010 en er nú komið undir 150% af tekjum. Rekstarafgangur var of lítill en er nú yfir 15%.

Oft er fjallað um pólítík á neikvæðum nótum, "farið í manninn en ekki boltann", fjallað um persónur en ekki hvað þær gera. Það er því mjög ánægjulegt þegar kjörnir fulltrúar ná settu marki um bættan rekstur eins og nú hefur tekist. Aðhaldsaðgerðir hafa skilað árangri og má hér nefna að stjórnendum hefur verið stórlega fækkað, samkeyrsla eininga hefur gengið upp og gæluverkefni hafa ekki fengið fjármagn. Sveitarfélagið er með einhvern lægsta kostnað í yfirstjórn á íbúa á landinu og tekist hefur að ná breiðri samstöðu um betri rekstur.

Hér er bókun bæjarráðs sem samþykkt var samhljóða í morgun:

"Sveitarfélagið Árborg hefur verið yfir skuldaviðmiðum Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga og verið undir eftirliti vegna þess. Jafnframt var sveitarfélagið með of lítinn rekstrarafgang til að uppfylla viðmið eftirlitsnefndarinnar. Í júlí 2010 barst sveitarfélaginu athugasemd eftirlitsnefndarinnar og hefur sveitarfélagið síðan unnið markvisst að því að ná viðmiðum hennar og hafa skuldir farið úr því að vera yfir 206% af tekjum í að fara undir 150% um síðustu áramót. Þá hefur rekstrarafgangur verið hærri en 15% af tekjum frá árinu 2010 og þar með er Sveitarfélagið Árborg einnig yfir viðmiðum eftirlitsnefndarinnar hvað þetta varðar. Sveitarfélagið hefur þannig náð að uppfylla skilyrði Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga á aðeins þremur árum. Af því tilefni hefur sveitarfélagið móttekið bréf frá nefndinni þar sem tekið er fram að ekki sé óskað frekari upplýsinga vegna þessa máls og er sveitarfélagið þar með ekki lengur undir eftirliti nefndarinnar. Unnið hefur verið að hagræðingu og bættum rekstri sveitarfélagsins með samstilltu átaki bæjarfulltrúa, starfsmanna og íbúa sveitarfélagsins."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Til hamingju með þennan frábæra árangur. Þetta er til fyrirmyndar.  Það vekur  athygli hversu samstíga bæjarstjórnin er í að ná árangri við erfiðar aðstæður. Vonandi sjáum við aukinn hagvöxt á þessu ári og þá mun það skila sér í enn betri rekstri sveitarfélagsins.

Sigurður Þorsteinsson, 31.1.2013 kl. 23:48

2 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Til hamingju Eyþór.

Jósef Smári Ásmundsson, 1.2.2013 kl. 09:40

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Innilega ti hamingju, þetta er frábært.

Ásdís Sigurðardóttir, 1.2.2013 kl. 13:16

4 Smámynd: Eyþór Laxdal Arnalds

Takk fyrir góðar kveðjur - það eiga margir heiðurinn af þessu mikilvæga skrefi

Eyþór Laxdal Arnalds, 1.2.2013 kl. 18:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband