6.4.2007 | 08:49
Holl lesning
Í dag er píslardauða Jesús Krists minnst um allan heim. Hallgrímur Pétursson orti mikið meistaraverk með Passíusálmunum. Þeir lifa vel með okkur og eiga enn fullt erindi á 21. öldinni.
Hér er svo fyrsti sálmur sem er í 27 erindum:
Upp, upp, mín sál og allt mitt geð,
upp mitt hjarta og rómur með,
hugur og tunga hjálpi til.
Herrans pínu ég minnast vil.
Sankti Páll skipar skyldu þá,
skulum vér allir jörðu á
kunngjöra þá kvöl og dapran deyð,
sem drottinn fyrir oss auma leið.
Ljúfan Jesúm til lausnar mér
langaði víst að deyja hér.
Mig skyldi og lysta að minnast þess
mínum drottni til þakklætis.
Innra mig loksins angrið sker,
æ, hvað er lítil rækt í mér.
Jesús er kvalinn í minn stað.
Of sjaldan hef ég minnst á það.
Sál mín, skoðum þá sætu fórn,
sem hefur oss við guð, drottin vorn,
fordæmda aftur forlíkað.
Fögnuður er að hugsa um það.
Hvað stillir betur hjartans böl
en heilög drottins pína og kvöl?
Hvað heftir framar hneyksli og synd
en herrans Jesú blóðug mynd?
Hvar fær þú glöggvar, sál mín, séð
sanna guðs ástar hjartageð,
sem faðir gæskunnar fékk til mín,
framar en hér í Jesú pín?
Ó, Jesú, gef þinn anda mér,
allt svo verði til dýrðar þér
uppteiknað, sungið, sagt og téð.
Síðan þess aðrir njóti með.
Að liðinni máltíð lofsönginn
las sínum föður Jesús minn.
Síðasta kvöldið seint það var.
Sungu með hans lærisveinar.
Guðs sonur, sá sem sannleiks ráð
sjálfur átti á himni og láð,
þáði sitt brauð með þakkargjörð,
þegar hann umgekkst hér á jörð.
Þurfamaður ert þú, mín sál,
þiggur af drottni sérhvert mál,
fæðu þína og fóstrið allt.
Fyrir það honum þakka skalt.
Illum þræl er það eilíf smán,
ef hann þiggur svo herrans lán
drambsamlega og dreissar sig.
Drottinn geymi frá slíku mig.
Eftir þann söng, en ekki fyrr,
út gekk Jesús um hússins dyr.
Að hans siðvenju er það skeð.
Til Olíufjallsins ganga réð.
Lausnarans venju lær og halt,
lofa þinn guð og dýrka skalt.
Bænarlaus aldrei byrjuð sé
burtför af þínu heimili.
Yfir um Kedrons breiðan bekk
blessaður þá með sveinum gekk.
Sá lækur nafn af sorta ber.
Sýnir það góðan lærdóm mér.
Yfir hörmungar er mín leið,
æ meðan varir lífsins skeið.
Undan gekk Jesús, eftir ég
á þann að feta raunaveg.
Horfi ég nú í huga mér,
herra minn Jesú, eftir þér.
Dásamleg eru dæmin þín.
Dreg ég þau gjarnan heim til mín.
Þú vildir ekki upphlaup hart
yrði, þegar þú gripinn vart.
Út í grasgarðinn gekkstu því.
Gafst þig í manna hendur frí.
Af því læri eg að elska ei frekt
eigin gagn mitt, svo friður og spekt
þess vegna raskist. Þér er kært
þolinmæði og geð hógvært.
Sorgandi gekkstu sagða leið.
Særði þitt hjarta kvöl og neyð.
Hlæjandi glæpa hljóp ég stig.
Hefur þú borgað fyrir mig.
Vort líf er grasgarðs ganga rétt.
Gröfin er öllum takmark sett.
Syndugra leið ei leik þér að.
Lendir hún víst í kvalastað.
Iðrunartárin ættu vor
öll hér að væta lífsins spor.
Gegnum dauðann með gleði og lyst
göngum vér þá í himnavist.
Þá Jesús nú á veginum var,
við postulana hann ræddi þar,
henda mundi þá hrösun fljót.
Harðlega Pétur þrætti á mót.
Frelsarinn Jesús fyrir sér
þá fall og hrösun er búin mér.
Hann veit og líka lækning þá,
sem leysa kann mig sorgum frá.
Aldrei, kvað Pétur, ætla ég
á þér hneykslast á nokkurn veg
þó allir frá þér falli nú. -
Fullkomleg var hans lofun sú.
Sú von er bæði völt og myrk
að voga freklega á holdsins styrk.
Án guðs náðar er allt vort traust
óstöðugt, veikt og hjálparlaust.
Gef mér, Jesú, að gá að því,
glaskeri ber ég minn fésjóð í.
Viðvörun þína virði eg mest,
veikleika holdsins sér þú best.
Klukkan 13:00 í dag hefst lestur þeirra í Selfosskirkju og stendur hann þar til síðasti sálmurinn hefur verið lesinn, en áætlað er að það verði um kl. 17:00 Þeir sem ekki komast geta kynnt sér þá hjá Netútgáfunni hér.
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:39 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er meistaraverk/ Gleðilega Páska /Halli Gamli
Haraldur Haraldsson, 6.4.2007 kl. 17:04
Þvílík meistarasmíð! Fannst sérlega gaman að lesa upphafslínurnar hér því að það minnti mig á að móðir mín heitin, sem var með eindæmum ljóðelsk manneskja, vakti okkur systkinin alltaf með þessum orðum þegar við vorum krakkakríli, við vissum ekki þá að hún var að vitna í Passíusálmana og ég minnist þess reyndar aldrei að hafa spurt hana á þessum árum hvaðan þetta væri komið. Fannst þetta samt alltaf hressileg kveðja svona í upphafi dags Gleðilega hátíð!
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 6.4.2007 kl. 17:32
Já, svona fer fólk að hugsa sem hefur þurft að standa andspænis verkum sínum.
Guðrún Magnea Helgadóttir, 6.4.2007 kl. 17:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.