Icesave og Alþingi

Utanríkisráðherra lagði fram þingsályktunartilögu sem varðar samninga vegna Icesave.
Ríkið mun samkvæmt þessari ályktun taka á sig miklar skuldbindingar eins og kunnugt er.
Sennilega þær mestu í sögu þjóðarinnar.

Þingsályktunin var samþykkt og hljóðar svona:
 
Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli þeirra sameiginlegu viðmiða sem aðilar hafa komið sér saman um.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.
1.    Lagaleg afstaða.
    Í kjölfar bankahrunsins í byrjun október 2008 kom í ljós að umtalsverðar fjárhæðir voru á innlánsreikningum í útibúum íslenskra banka í Evrópu. Þessar fjárhæðir voru að stærstum hluta til á innlánsreikningum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi, svokölluðum Icesave- reikningum. Þar sem starfsemi bankans í viðkomandi löndum var rekin í formi útibúa en ekki dótturfélaga gilda lög nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, um þessa starfsemi en þau lög eru byggð á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/19/EBE um innlánatryggingakerfi.
    Í samræmi við ákvæði 3. gr. laga nr. 98/1999 nær greiðsluskylda sjóðsins, og þar með talin ábyrgð hans á greiðslufalli, til útibúa íslenskra banka á Evrópska efnahagssvæðinu. Í þessu efni er vísað til reglugerðar nr. 120/2000 um sama efni. Á þessari forsendu sneru stjórnvöld í viðkomandi ríkjum Evrópusambandsins sér að íslenskum stjórnvöldum í því skyni að kanna með hvaða hætti þau hygðust tryggja að sjóðurinn stæði við þær skuldbindingar sem í tilskipuninni felast.
    Íslensk stjórnvöld voru ekki tilbúin til að fallast á að íslenska ríkinu bæri að ábyrgjast greiðslur til innlánseigenda ef þær færu fram úr því sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta gæti staðið undir af inngreiðslum í sjóðinn. Hafa þau haldið því skýrt til haga í öllum sínum viðræðum við stjórnvöld viðkomandi ríkja að þau telji að vafi leiki á um ábyrgð ríkja á tryggingarsjóðnum, ekki síst undir kringumstæðum þar sem fjármálakerfi aðildarríkis hrynur nánast að fullu eins og reyndin er hér á landi. Þessari lagatúlkun hefur verið hafnað af þeim ríkjum sem hlut eiga að máli svo og af Evrópusambandinu.
    Af hálfu íslenskra stjórnvalda hefur verið lögð áhersla á að fá úr málinu skorið fyrir viðeigandi úrskurðaraðila eða dómstól. Þessu hafa aðildarríki Evrópusambandsins alfarið hafnað. Afstaða þeirra byggist ekki síst á því að þau telja það mjög varhugavert að gefa með einhverjum hætti til kynna að vafi kunni að leika á um gildissvið þess innlánstryggingakerfis sem liggur til grundvallar innlánastarfsemi í Evrópu, þar sem ótvírætt gildi tilskipunarinnar sé forsenda þess að innstæðueigendur treysti bönkum fyrir sparifé sínu. Réttaróvissa kynni að valda ófyrirséðum afleiðingum í evrópsku bankakerfi.

2.    Pólitísk staða.
    Við upphaf þeirrar deilu sem hér um ræðir sneri hún einvörðungu að Bretum og Hollendingum og voru því viðræður teknar upp við þau ríki sérstaklega. Á þeim tíma stóðu líkur þegar til þess að Ísland mundi þurfa að reiða sig á lánafyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem og tvíhliða aðstoð erlendra ríkja til þess að koma efnahagslífinu á réttan kjöl á nýjan leik. Eftir að gengið hafði verið frá viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í samvinnu við sérfræðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var skipulega unnið að því í gegnum tengslanet utanríkisþjónustunnar að kynna málstað og málaleitan Íslands fyrir aðildarríkjum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Varð framan af ekki vart neins annars en stuðnings. Það snerist hins vegar og verulegar tafir urðu á fyrirtöku viljayfirlýsingar Íslands í framkvæmdastjórn sjóðsins.
    Þessi staða kom enn skýrar í ljós þegar Frakkland, sem formennskuríki í Evrópusambandinu, ákvað að beita sér fyrir viðræðum milli deiluaðila með pólitíska lausn að markmiði. Þá varð ljóst að ríki Evrópusambandsins töluðu einum rómi í málinu og lögðu kapp á að ábyrgð Íslands skýrðist sem allra fyrst. Sama átti við um starfshóp norrænu ríkjanna um lánafyrirgreiðslu við Ísland sem starfaði í framhaldi af fundi forsætisráðherra Norðurlandanna á þingi Norðurlandaráðs í Helsinki. Þannig varð ljóst að lausn þessa máls væri forsenda þess að hægt væri að fjármagna að fullu þá efnahagsáætlun sem íslensk stjórnvöld höfðu sent Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til afgreiðslu og að Ísland stæði einangrað ef pólitískri samningaleið væri hafnað.

3.    Niðurstaða íslenskra stjórnvalda.
    Með allt framangreint í huga er það mat ríkisstjórnarinnar að hagsmunum Íslands til lengri tíma litið sé best borgið með því að stjórnvöld styðji við Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta þannig að hann geti staðið straum af þeim kostnaði sem hlýst af því að ábyrgjast lágmarkstryggingu þá sem EES-reglur mæla fyrir um að því marki sem eignir viðkomandi banka standa ekki undir henni. Gert er ráð fyrir því að þau ríki sem hlut eiga að máli muni aðstoða sjóðinn við að standa undir þessu verkefni og það verði í formi lánveitinga viðkomandi ríkja til sjóðsins með ábyrgð íslenska ríkisins. Þær viðræður sem fram undan eru munu skera úr um nánari útfærslu þessara lánveitinga, auk þess sem hin endanlega niðurstaða mun ráðast af því að hve miklu leyti andvirði eigna viðkomandi banka mun renna til sjóðsins við uppgjör á búum þeirra.
    Endanlegar niðurstöður framangreindra samninga munu verða lagðar fyrir Alþingi og aflað viðeigandi fjárheimilda eftir því sem aðstæður krefjast.

Fylgiskjal.

UMSAMIN VIÐMIÐ

    1.      Ríkisstjórn Íslands hefur átt viðræðufundi með stofnunum Evrópusambandsins og hlutaðeigandi aðildarríkjum þess um skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að því er tekur til tilskipunar um innstæðutryggingar 94/19/ EBE. Aðilar komu sér saman um að tilskipunin um innstæðutryggingar hafi verið felld inn í löggjöfina um Evrópska efnahagssvæðið í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og gildi því á Íslandi með sama hætti og hún gildir í aðildarríkjum Evrópusambandsins.
    2.      Viðurkenning allra aðila á þessari lagalegu stöðu greiðir fyrir skjótri niðurstöðu samningaviðræðna þeirra sem nú standa yfir um fjárhagsaðstoð við Ísland, þ.m.t. við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þessar samningaviðræður skulu fara fram með samhæfðum og samræmdum hætti og skal þar tekið tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt.
    3.      Stofnanir Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins munu taka áframhaldandi þátt í þessu ferli sem fer fram í samráði við þær.

Pétur Blöndal alþingismaður kom svo með þessa hógværu breytingatillögu sem var því miður felld:    

 

Breytingartillaga


við till. til þál. um samninga varðandi ábyrgð ríkissjóðs á innstæðutryggingum vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu.

Frá Pétri H. Blöndal.



    Við tillögugreinina bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Bera skal samningana undir Alþingi.

Þessi tillaga var felld en upphafleg tillaga utanríkisráðherra var samþykkt eins og hér segir:

já:
Arnbjörg Sveinsdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Ármann Kr. Ólafsson, Árni Páll Árnason, Árni M. Mathiesen, Ásta R. Jóhannesdóttir, Ásta Möller, Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Björk Guðjónsdóttir, Einar K. Guðfinnsson, Ellert B. Schram, Geir H. Haarde, Guðbjartur Hannesson, Guðfinna S. Bjarnadóttir, Gunnar Svavarsson, Helgi Hjörvar, Herdís Þórðardóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Jón Gunnarsson, Karl V. Matthíasson, Katrín Júlíusdóttir, Kjartan Ólafsson, Lúðvík Bergvinsson, Ólöf Nordal, Rósa Guðbjartsdóttir, Sturla Böðvarsson, Össur Skarphéðinsson

nei:
Atli Gíslason, Álfheiður Ingadóttir, Jón Bjarnason, Katrín Jakobsdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir, Pétur H. Blöndal, Steingrímur J. Sigfússon

sat hjá:
Eygló Harðardóttir, Grétar Mar Jónsson, Guðjón A. Kristjánsson, Helga Sigrún Harðardóttir, Höskuldur Þórhallsson, Jón Magnússon, Magnús Stefánsson, Valgerður Sverrisdóttir

leyfi:
Kristján Þór Júlíusson, Siv Friðleifsdóttir

fjarst.:

Árni Johnsen, Árni Þór Sigurðsson, Birkir J. Jónsson, Björgvin G. Sigurðsson, Björn Bjarnason, Einar Már Sigurðarson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Illugi Gunnarsson, Kristinn H. Gunnarsson, Kristján L. Möller, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sigurður Kári Kristjánsson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heidi Strand

Takk fyrir upplýsingarnar. Fróðlegt að sjá hverjir voru fjarstaddir.

Heidi Strand, 8.12.2008 kl. 20:30

2 Smámynd: Villi Asgeirsson

Samþykkt af 29 þingmönnum? Er ég að klikka á stærðfræðinni eða hefur minnihluti þingsins meirihlutavald?

Villi Asgeirsson, 8.12.2008 kl. 20:53

3 Smámynd: Eyþór Laxdal Arnalds

Þetta gætu orðið söguleg lög.

Eyþór Laxdal Arnalds, 8.12.2008 kl. 21:37

4 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Þakka þér fyrir Eyþór, að gera svona vel grein fyrir þessum smánarlögum.

Frábært hjá Pétri Blöndal að vera á móti. Sagan mun dæma hann vel.

Loftur Altice Þorsteinsson, 8.12.2008 kl. 22:27

5 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Takk fyrir þetta Eyþór, fróðlegt og þægilegt að fá þessi gögn "svona í fangið".

Eftir íslensku bankakreppuna 2006 þegar m.a. Danske Bank spáði gjaldroti íslensku bankana minkuðu verulega möguleikar þeirra á að fjármagna sig með lánum frá öðrum bönkum. Það var með vilja og vitund Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands að íslensku bankarnir hófu að safna innlánum erlendis. Fengu meðal annars verðlaun Viðskiptaráðs "fyrir snilldina". 

En með því að safna þessum innlánum erlendis þá var um leið verið að veðsetja almenning á Íslandi. Þetta gilti fyrir þessa IceSave reikninga Landsbankans því þeir fjármunir runnu inn á banka með íslenskri kennitölu. Glitnir og Kaupþing söfnuðu sínu fé inn á banka með erlendum kennitölum. 

Til þess að Landsbankinn gæti safnað þessum innlánum inn á banka með íslenskri kennitölu, innlán sem voru á ábyrgð Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands, þurfti samt meira bara grænt ljós frá FME og Seðlabanka Íslands. Valdið til að veðsetja þjóðina liggur ekki hjá starfsmönnum þessara stofnanna. Það vald hlýtur að liggja hjá þeim sem bera pólitíska ábyrgð þessum stofnunum.

Heimild til þessara veðsetningar hlýtur að hafa komið frá ráðherrum og ríkisstjórn. Forsætisráðherra, fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra hljóta að hafa gefið bönkunum sitt samþykki með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi.

Ég spyr, höfðu þessir ráðherrar umboð kjósenda til að veðsetja á tveim árum almenning fyrir meira en þúsund milljarða?

Þeir sem bera pólitíska ábyrgð á að hafa aukið skuldir/ábyrgðir ríkisins um þúsund milljarða á tæpum tveim árum vegna innlánsreikninga bankanna í útlöndum með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi hljóta að axla sína ábyrgð. 

Þó ekki væri nema vegna þessara ábyrgða sem nú eru að falla á almenning í landinu þá á ríkisstjórnin að biðjast opinberlega afsökunar á þessum mistökum og boða sem fyrst til kosninga og endurnýja umboð sitt.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 8.12.2008 kl. 22:29

6 Smámynd: Haukur Nikulásson

Það er ótrúlegt að eftir einkavæðingu bankanna á vegum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins er nú svo komið að einkavinirnir fóru með gróðann en þjóðin fékk allt tapið.

Samt situr íhaldið í stjórn áfram í svokölluðum "björgunarleiðangri" byggðan á hverjum vitleysisganginum í lagasetnignum á fætur öðrum. Á öllum öðrum stöðum í samfélaginu eru svona misheppnaðir stjórnendur og vitleysingar látnir hætta strax.

Eruð þið hissa á því að fólk skuli finna sig í mótmælum?

Haukur Nikulásson, 9.12.2008 kl. 09:05

7 Smámynd: Sigríður B Svavarsdóttir

Þetta er alveg ótrúlegt.  Ætlar sukkið að halda áfram eins og ekkert hafi gerst.? Hvert fór heiðarleiki Íslendinga?  Samfylkingarfólk hefði átt að hafa hærra í stjórnarandstöðu, þeir ættu að skammast sín.

Takk fyrir  þessar upplýsingar.

Sigríður B Svavarsdóttir, 9.12.2008 kl. 22:51

8 Smámynd: Baldvin Jónsson

Já, þetta er að verða alger skömm - skömm án endiloka að virðist.

Ég er nú ekki oft sammála Pétri Blöndal, en er ekki algert lágmarksskilyrði að Utanríkisráðherra sé ekki falið alræðisvald til þess að ganga frá svo viðamiklum samningum án þess að bera undir þingið?

Hvað verður þá um neitunarvald Forseta?

Baldvin Jónsson, 10.12.2008 kl. 09:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband