1,6% sögðu JÁ - ríkisstjórnin er umboðslaus

Þetta er meiri munur en menn óraði fyrir - svipaður munur á NEI og JÁ og þegar samþykkt var að segja sig frá Dönum en þá greiddu 97% atkvæði með sjálfstæðinu. Þegar aðeins er tekið tillit til þeirra sem sögðu JÁ og NEI miðað við tölurnar nú sögðu 98% NEI og minna en 2% JÁ.

Þáttakan var með allra mesta sem þekkist þegar þjóðaratkvæðagreiðslur eiga sér stað og allt tal um slaka kjörsókn er slappur spuni.  Þeir sem ekki taka svona skýra afstöðu alvarlega ekki heima í stjórnmálum.

Viðsemjendur Íslands vissu það fyrir að ríkisstjórnin hefur ekki umboð til að semja án frekari stuðnings stjórnarandsöðu eða þjóðarinnar.

Ég er sammála Styrmi Gunnarssyni sem skrifar góða grein í dag. Þetta gæti verið upphafið af auknu beinu lýðræði.


mbl.is Nær allir segja nei
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð kjörsókn

Allt tal um dræma kjörsókn virðist vera einhvers konar spuni. Þegar litið er til þáttöku í þjóðaratkvæðagreiðslna í Evrópu er hún oft um helmingur þáttökunnar í þingkosningum. Þá eru Evrópukosningar oft með undir 50% þótt um þingkosningar sé að ræða.

Þá er það sennilega einsdæmi að forvígismenn ríkisstjórnar lands skuli sitja heima og tala þáttökuna niður. Þetta er enn furðulegra þegar litið er til þess að sömu aðilar (Steingrímur og Jóhanna) lögðu fram þessi lög sem nú er kosið um.

Ef þáttakan verður nálægt 50% er það gríðarmikil kjörsókn. Í íbúakosningu um flugvöll í Reykjavík sem haldin var 2001 tóku innan við 40% þátt.

Fyrstu tölur benda til einmitt mikillar þáttöku. Nefni héðan þessar tölur:

"Í Árborg höfðu 1744 kosið klukkan 15 sem er 31,65% kjörsókn. Á sama tíma í alþingiskosningunum í fyrra var kjörsóknin 39,55%." - 4/5 af kjörsókn síðustu alþingiskosninga.

Þetta er nálægt kjörsókn þingkosninga þrátt fyrir að formenn Samfylkingar og VG hvetji íbúa til að sitja heima. Eru þeir ekki nógu hlýðnir?


mbl.is Um 26% kjörsókn í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir saman nú

Í dag opnuðu 12 frambjóðendur í prófkjöri okkar sameiginlega skrifstofu. Það er örugglega einsdæmi að svo margir frambjóðendur skuli vera saman. Og að þeir skuli allir vera saman.

Þór Hagalín frá Eyrarbakka átti þessa hugmynd og við sem tökum þátt í prófkjörinu gripum hana á lofti.

Á morgun á að kjósa um vondan Icesave samning sem ríkisstjórnin hefur ekki afnumið og enginn annar samningur er á borðinu. Það eiga allir að fara á kjörstað sem það geta. Og allir ættu að segja NEI.

Samstaðan skilar sér.


Þakka ber það sem vel er gert

Í dag fórum við Hannes Kristmundsson og Sigurður Jónsson með blómvönd og kort fyrir hönd þeirra 27 þúsund Íslendinga sem skoruðu á Alþingi og ríkisstjórn að tvöfalda Suðurlandsveg.

Ástæðan fyrir þessari ferð okkar er einföld: Nú hefur 6.5km kafli verið boðinn út og er hann tvöfaldur. Þetta eru tímamót sem ber að þakka. Ekki síst þegar vitað er að AGS hefur lagst gegn framkvæmdum ríkisins og látið stöðva útboð. Af öllum framkvæmdum sem eru á teikniborði ríkisins er Suðurlandsvegur sú arðbærasta og er þá ekki litið til mannlega þáttarins.

Skotgrafahernaður og tortryggni manna og flokka á milli hefur einkennt umræðuna eftir hrun. Ég vona að við berum gæfu til að þakka það sem vel er gert og gagnrýna það hjá okkur sjálfum sem miður fer. Við Hannes og Sigurður vitum að Kristján Möller hefur hafið þetta verk af einlægni og nú treystum við því að því verði lokið eins fljótt og tafarlaust og unnt er.


Listamannalaun, silkihúfur og gæluverkefni

Umræðan um listamannalaun er heit þessa stundina og skyldi engan undra enda er um að ræða háar fjárhæðir sem ríkið greiðir án þess að hafa nokkur efni á því.

Sama er að segja um gæluverkefni sveitarfélaga sem mörg hver hafa ekki efni á að borga af núverandi skuldum. Það er því eðlilegt að fólk spyrji sig hvað "hið opinbera" eigi að gera og ekki síður hvað það á ekki að gera. Kostnaður við yfirstjórn í sveitarfélögum er ekki síður atriði sem þarf að endurskoða. Hér þarf að byrja efst og tryggja að raunveruleg grunnþjónusta svo sem við börnin haldist sem allra best.

Þó ég hafi lært tónsmíðar og lokið burtfararprófi í sellóleik finnst mér furðuleg forgangsröðun að byggja tónlistarhús fyrir lánsfé á samdráttartímum. Sama er að segja um margar sérstakar hugmyndir um t.d. "Vatnagarða", "Menningarhús" og uppbyggingu íþróttamannvirkja við Eyðimörk sem meirihlutinn í Árborg hefur sett á oddinn á síðustu árum en við fulltrúar D-listans lagst alfarið gegn.

Sem betur fer var ekki farið í þessi ævintýri. - Nóg er þó samt.


Prófkjörið þegar búið að skila sínu

Meðframbjóðendur mínir sýndu snarræði í dag þegar þeir uppgötvuðu alvarlegan leka í Sunnulækjarskóla. Þótt hér sé um hörmulegt tjón að ræða er næsta víst að hérna var meiri skaða forðað með réttum viðbrögðum.

Fyrr um daginn höfðum við farið yfir hvernig við gætum öll 12 verið með sameiginlega skrifstofu í prófkjörinu og kom strax í ljós hvað hópurinn er vel samstilltur og tilbúinn til verka. Framundan eru erfið verkefni að kosningum loknum og eitt er víst að það þarf að setja undir margan lekann.

Sumir efast um prófkjör og telja uppstillingu betri. Segja má að prófkjörið hafi þegar skilað sínu. En jafnframt má halda því fram að uppstilling vegna ljósmyndatöku hafi hér komið í veg fyrir enn frekara tjón en varð.


mbl.is Vatnstjón í Sunnulækjaskóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svavar Gestsson í Fréttablaðinu

Atvinnusköpun er vinsæl í umræðunni en minna fer fyrir fjölgun starfa í reynd. Sumir telja engu skipta hvert starfið sé og hverju það skilar. Þeir sem aðhyllast ríkisbúskap á flestum sviðum telja reyndar að ríkið geti tryggt laun fyrir alla.

Ágætis sýn í þennan hugarheim er að finna í viðhafnarviðtali við Icesave samningamanninn Svavar Gestsson í helgarblaði Fréttablaðsins. Þar nefnir Svavar sem dæmi að álver sé sambærilegt við fjölgun starfa við Lögbirtingarblaðið. Munurinn er að sjálfsögðu sá að álverið skapar verðmæti (ál) en lögbirtingablaðið skilar engu nema urðunarkostnaði þegar upp er staðið.

Það er reyndar umhugsunarvert að lesa leiðara Fréttablaðsins í dag þar sem kjósendur eru hvattir til að segja JÁ við Icesave samningunum sem forsetinn synjaði staðfestingar. Slík skoðun er bæði fráleit og mikil rökleysa þegar meira að segja Bretar og Hollendingar hafa boðið betur en Svavar og samninganefndin. Svo er í þessu sama blaði viðtal við Svavar Gestsson um hugmyndir hans um alheimseftirlit með lífsgæðum og viðskiptum sem hann segir sjálfur vera "útópískar".


Breiður og góður hópur - saman í prófkjöri

12 eintaklingar gefa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í sveitarfélaginu Árborg. Hópurinn samanstendur af einstaklingum sem hafa áður verið í framboði og setið í nefndum á vegum bæjarins ásamt mjög öflugum nýjum frambjóðendum sem bjóða nú fram krafta sína til að bæta bæjarstjórnina.

Það er ekki sjálfgefið að svo margir bjóði sig fram til starfa. Stjórnmálin eru lágt skrifuð en á sama tíma eru þau mikilvægari en nokkru sinni í 66 ára sögu lýðveldisins. Ég skynja það sterkt í þessum hópi að persónulegur frami er ekki aðalatriðið heldur vilja allir leggja sitt af mörkum til að snúa við blaðinu og byggja upp betra bæjarfélag.

Upp hefur komið hugmynd um að vera með sameiginlega kosningaskrifstofu frambjóðenda. Það væri nýjung og fráhvarf frá auglýsingamennsku og sérhagsmunum. Þessi einlægi ásetningur er mikilvægur grunnur fyrir heiðarlega og málefnalega kosningabaráttu í vor.


0% álag á 0% vexti

2.75% álag á breytilega vexti er ekkert betra en 5-6% fastir vextir. Talsverðar líkur eru á að breytilegir vextir muni hækka á næstu árum vegna ávöxtunarkröfu og mögulegrar verðbólgu.

Ef krafa Breta og Hollendinga er að fá fé sitt til baka er rétt að hjálpa þeim við að heimta það úr þrotabúi Landsbankans.

Íslendingar geta mögulega tryggt heimturnar að einhverju leiti. En þá án vaxta.

Ef það er rétt að þetta sé tilboð Breta og Hollendinga er það varla pappírsins virði.

Framundan er þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem vondum samningi verður hafnað.

Framundan er endurskoðun á tryggingarkerfi ESB sem fellur burt einstaka tryggingasjóði einstakra landa.

Framundan eru kosningar í Bretlandi og stjórnarslit eru í Hollandi.

Ég sé ekki betur en við séum með sterka samningsstöðu.


Grein 126.9 í Lissabon sáttmálanum

Ekki er langt síðan Lissabon sáttmálinn var staðfestur en hann er vísir að stjórnarskrá ESB. Í grein 126.9 er tekið á hallarekstri einstakra ríkja en þar er Evrópuráðinu veittur réttur til að taka fjárráðin af ríkinu sem hefur stundað hallareksturinn.

Þar að auki er atkvæðisrétturinn tekinn af viðkomandi ríki þegar málið er tekið fyrir. Nú hefur Grikklandi verið veittur stuttur frestur til að laga til hjá sér að viðlögðaðri beitingu greinar 126.9.

Með þessu er Grikkland í raun ekki lengur fullvalda um leið og fjárlagahallinn er talinn of mikill.


Sóknarfærin á Suðurlandi

Meirihluti raforkuframleiðslu á uppruna sinn á Suðurlandi. Virkjun Þjórsár var lengi burðarásinn í orkubúskapnum en svo hafa jarðvarmavirkjanir bæst við á Hengilssvæðinu. Þrátt fyrir þessa miklu orkuframleiðslu hefur orkufrekur iðnaður ekki verið starfræktur á Suðurlandi. Sveitarfélagið Ölfus hefur unnið gríðarmikið undirbúnings og þróunarstarf til að tryggja aðstöðu fyrir stóriðnað. Línulagnir eru tiltölulega einfalt mál, nægt byggingarland er á skipulagi, hafnaraðstaða og aðgangur að kælivatni. Hingað til hefur ekki neitt verkefni verið tryggt en vonandi verður nú breyting hér á. Iðnaður væri fjórða stoðinn undir atvinnulíf Suðurlands. Landbúnaður er elstur en síðan má nefna sjávarútveg sem enn er stundaður af krafti. Þá hefur þjónusta við ferðamenn verið fjölbreytt bæði verslun og veitingar en ekki síður sumarhúsabyggingar og þjónusta þeim tengd. Stóriðnaður myndi auka fjölbreytni og draga úr atvinnuleysi til lengri og skemmri tíma með uppbyggingu fyrst og reksri síðar.

Flestir ferðamenn sem heimsækja Ísland fara um Suðurland. Sama er að segja um innlenda ferðamenn. Suðurstrandarvegurinn er langt kominn og mun hann tengja Leifsstöð við suðurströndina og auka þannig möguleika ferðaþjónustunnar til mikilla muna. Einkaframtakið hefur skapað ferðamannaperlur á Stokkseyri og Eyrarbakka sem saman geta verið ferðaklasi á heimsvísu. Hér eru tækifæri til að tengja matarkistur landbúnaðar og sjávarútvegs við ferðmennsku. Bæjarfélögin geta stutt við þessa þróun með því að opna aðgengi að innviðum og styrkja ímynd svæðisins.

Kostnaður við rekstur sveitarfélaganna óx víða hraðar en tekjumyndunin. Sala á eignum og lóðum er eins og hvalreki sem ekki má treysta á. Grunnreksturinn varð sumstaðar ósjálfbær eins og dæmin sanna. Hér þarf að taka til hendinni og minnka yfirbyggingu. Sameining sveitarfélaga er ein leið til að minnka ráðhúskostnað en það er þó ekki sjálfgefið að sameining minnki rekstrarkostnað. Þetta verður lykilatriði á næsta kjörtímabili svo forðast megi skuldauppgjör.


Viðskiptalífið vill standa utan ESB

Viðskiptaráð stendur fyrir metnaðarfullu Viðskiptaþingi nú á miðvikudaginn kemur. Samhliða þinginu kemur út skýrsla um viðhorf viðskiptalífsins til helstu áhrifaþátta. Spurt var meðal annars um úrræði banka, gjaldmiðil, ESB aðild og skatta.

Samkvæmt frétt Viðskiptaráðs um helstu niðurstöður kemur fram að:

"Tæplega 60% forsvarsmanna íslenskra fyrirtækja telja hagsmunum íslensks viðskiptalífs betur borgið utan Evrópusambandsins. Þó viðhorf séu skipt eftir atvinnugreinum, þá taldi einungis 31% aðspurðra að íslensku viðskiptalífi væri betur borgið innan ESB."

Lengi hefur því verið haldið fram að atvinnulífið vilji ESB. Í skjóli þeirrar alhæfingar hefur verið skotið fast á Sjálfstæðisflokkinn. Nú þegar kreppir að í heiminum sjá menn hvernig veikum hlekkjum í ESB keðjunni reiðir af. Það er kannski þess vegna sem þessi könnun er svona afgerandi.  

http://www.vi.is/um-vi/frettir/nr/994/ 


Sannfærandi rökstuðningur

Það er ekki hægt að segja annað en rökstuðningur Eyvindar hafi verið sannfærandi. Lykilatriðið liggur annars vegar í 2. grein laga nr. 38 frá 2001 sem er skýr:

2. gr. Ákvæði II. og IV. kafla laga þessara gilda því aðeins að ekki leiði annað af samningum, venju eða lögum. Einnig verður vikið frá öðrum ákvæðum laganna að því marki sem þar er kveðið á um. Þó er ávallt heimilt að víkja frá ákvæðum laganna til hagsbóta fyrir skuldara.

og svo hins vegar í VI. kafla sem tekur á verðtryggingu:


VI. kafli. Verðtrygging sparifjár og lánsfjár.
 13. gr. Ákvæði þessa kafla gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar. Með verðtryggingu er í þessum kafla átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu. Um heimildir til verðtryggingar fer skv. 14. gr. nema lög kveði á um annað.
 Afleiðusamningar falla ekki undir ákvæði þessa kafla.
 14. gr. Heimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði. [Vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildir um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár frá fyrsta degi þar næsta mánaðar.]1)

 Í lánssamningi er þó heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi.

Miðað við orðanna hljóðan í VI. kalfa er eingöngu heimilt að nota neysluvísitölu (og reynda hlutabréfavísitölur) en ekki gengi erlendra mynta. Sérstaklega er þetta atriði áréttað í greinargerð. 

Önnur greinin tekur af tvímæli um hvað sé frávíkjanlegt og er VI. kafli ekki þar inni.

Margar stórar lántökur í skuldsettum yfirtökum eru þó líklegast ekki inni í þessu þar sem afleiðuviðskipti og raunveruleg gjaldeyrislán eru undanskilin.  

Það væri fróðlegt að sjá hvaða rökstuðning Hæstiréttur myndi nota til að hnekkja þessum dómi.  


mbl.is Yrði u-beygja hjá Hæstarétti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þórólfur Matthíasson og hagfræðin

Þórólfur Matthíasson er prófessor í hagfræði hjá Háskóla Íslands. Ef ég vissi ekki betur héldi ég að þetta væri uppskálduð persóna en ekki raunveruleg ekki síst þegar ég hlustaði á viðtal við hann á Sögu í morgun.
Já og svo var það greinin um Icesave sem hann birti í útlöndum sem var hreinlega hættuleg hagsmunum Íslands fyrir utan að vera kolröng.

En að aðalmálinu: Þar sem hagfræðin snýst um að meta hagstærðir fannst mér afar sérkennilegt að heyra prófessorinn tala um efnahagsmál.

Icesave skuld Tryggingasjóðs telur prófessor Þórólfur svo léttvæga að hún kosti okkur bara 1-2% af þjóðarframleiðslu á ári eftir 2017 og hafi engin áhrif fyrir þann tíma. Nú eru ekki komnar endanlegar tölur yfir þjóðarframleiðslu 2009 en ef miðað er við nýjustu tölur Hagstofunnar fyrir Q3 má ætla að talan sé um 1500 milljarðar. Eitt prósent væri þá 15 milljarðar.

Ef ríkið tæki yfir Iceslave skuldina þá er hún 700 milljarðar í það minnsta. Þótt 100% heimtur fengjust upp í þrotið þyrfti íslenska ríkið að greiða hátt í 300 milljarða í vexti ef svo illa færi að ríkið tæki þessa skuld á sig. Þá er ótalin gengisáhætta Íslands í þessu máli. Þórólfur útskýrir þetta með órökstuddum hagvexti en þó við fengjum 2% hagvöxt öll næstu 7 ár þá væri þjóðarframleiðslan aðeins 2.150 milljarðar. Laun væru um 1/3 af við þeirri tölu.

Þá komum við að dæmi prófessorsins: Þórólfur fullyrti á útvarpi Sögu að launamenn þyrftu að sætta sig við að sleppa launahækkunum í 1 ár til að greiða fyrir Icesave! Þeir gætu meira að segja fengið vísitöluhækkun! Þegar litið er til þess að hér er talan 300 milljarðar og allt upp í 1000 sem er áhættan vegna Icesave er með ólíkindum að það eigi að fást með því að sleppa hækkunum af launum. Störf á Íslandi eru um 170 þúsund í það heila. Meðallaun eru um 4 milljónir á ári. það gerir um 680 milljarða. Vænt launahækkun miðað við þessar forsendur þyrfti að vera 50% á árinu 2017 bara til að borga vextina.

Þá voru rökin fyrir skattahækkunum kostuleg: Þetta er víst gert til að minnka útflæði á gjaldeyri! Sem sagt með því að skattleggja launafólk er komið í veg fyrir að það geti keypt erlendan varning. Ég hefði haldið að risavaxin gengisfelling dyggði. Og svo eru gjaldeyrishöft. Í reynd virka skattahækkanirnar letjandi á fjárfestingu - ekki síst orkuskatturinn - og minnka innflæði bæði á fjárfestingarfé og útflæði á gjaldeyrisskapandi vörum. Skattar skaða hér en skapa engin verðmæti.

Þá sagði prófessor Þórólfur að Ísland væri lítið opið hagkerfi. Síðast þegar ég vissi eru hér einhver ströngustu gjaldeyrishöft sem fyrirfinnast á byggðu bóli. Slíkt ástand einkennir ekki "opið hagkerfi". Það er þvert á móti harðlokað. Hér er enn ein nýlundan í hagfræðinni hjá prófessor Þórólfi.

Ég held ég sé enn og aftur sammála Ögmundi: Við förum ekki í hagfræðikúrs í HÍ.


Dýr yfirbygging

Nú hefur þjóðarframleiðslan minnkað mikið og mælist nú 40% lægri í dollurum talið en hún var fyrir hrun.
Kaupmáttur hefur rýrnað hratt og er þá sama hvaða mælikvarði er notaður.

Sveitarfélögin hafa stækkað hraðar en hagkerfið og standa nú eftir með gríðarlegar skuldir og í einstaka tilfellum viðvarandi taprekstur. Eitt af því sem óx hraðast í góðærinu var stjórnkerfið enda standa ráðhús í mörgum sveitarfélögum með mikla yfirbyggingu. Fjöldi bæjarstjóra, fjármálastjóra, starfsmannastjóra og annara millistjórnenda er í litlu samræmi við íslenskan raunveruleika.

Mörgum þykir undarlegt að reka 7 sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sem í samkeppni sinni hafa aukið skuldir sínar. Frægast er dæmið frá Álftanesi, en eins og Grikkland getur svarti sauðurinn verið vísir að því sem koma skal ef menn gæta sín ekki og taka í taumana.

Hér á Suðurlandi eru enn fjölmörg sveitarfélög og á "árborgarsvæðinu" eru þrjú bæjarfélög; Árborg, Ölfus og Hveragerði sem eru hver með sinn bæjarstjóra og sína millistjórnendur. Öll eru þau með sitt ráðhús og þar til nýlega þrjú slökkvilið. Kostnaður við stjórnun hefur lítið minnkað þrátt fyrir hrunið þrátt fyrir að umsvifin hafi minnkað. Það er skylda þeirra sem koma að sveitarstjórnarmálum að horfa fyrst á yfirbygginguna áður en álögur eru hækkað á íbúa.

Fasteignagjöld hafa snarhækkað á undanförnum misserum. Það eru takmörk fyrir því hvað unnt er að leggja á fólk. Dæmi eru um eldri borgara sem óttast að missa húsin sín vegna þessara gjalda. Það er engum greiði gerður að fólk á efri árum fari á vergang. Í því felst ekkert nema tjón. Bæði fjárhagslegt og tilfinningalegt. Hvernig væri að huga að þessum þætti í aðdraganda sveitarfstjórnakosninga?


Prófkjör

Engin ein leið er fullkomin við að raða frambjóðendum á lista og eru eftirmál úr nokkrum prófkjörum undanfarið staðfesting á þeirri reglu. Prófkjör eru þó lýðræðislegri en uppstilling þar sem fleiri koma að valinu og má því segja að prófkjör veiti að vissu leyti meira pólítískt umboð. 

Prófkjör hafa verið algeng sérstaklega hjá Sjálfstæðisflokknum en á síðustu árum hafa þau sumpart farið úr böndunum varðand fjárútlát, auglýsingamennsku og smölun. Nú hefur verið ákveðið að halda prófkjör hér í Árborg hjá okkur þann 13. mars. Síðasta prófkjör tókst mjög vel en þá tvöfaldaðist fjöldi flokkbundinna Sjálfstæðismanna í Árborg og svo tvöfaldaðist fjöldi bæjarfulltrúa í kosningunum þar á eftir úr 2 í 4.

Nú hefur verið ákveðið að fara prófkjörsleiðina á ný. Kjörnefnd beinir þeim tilmælum til frambjóðenda að þeir stilli kostnaði í hóf og er það skynsamlegt hjá kjörnefndarmönnum. Óhóf í auglýsingum fór yfir velsæmismörk í góðærinu á stundum en nú er óhóf einfaldlega óviðeigandi og getur hreinlega virkað öfugt á kjósendur.

Í dag vill fólk heyra sannleikann og færri loforð. Almenningur veit betur en svo að unnt sé að slá ryki í augu hans hvort sem er í prófkjörum, kosningum eða af hálfu forsvarsmanna sveitarfélaga. Sannleikurinn er sá að nú þarf að kljást við skuldahala hjá mörgum sveitarfélögum og því er ábyrgðarleysi að horfast ekki í augu við hann.

Ég á von á að góður hópur gefi kost á sér þar sem straumurinn liggur til okkar eins og kannanir Gallup sýna. Í raun er nauðsynlegt að það séu ekki of fáir þegar farið er í prófkjör á annað borð. Annars er einfaldlega hægt að stilla upp.


Í læri hjá Niall Ferguson: Chimerica, ríkisgjaldþrot, næsta bóla...næsta kreppa...

Ég var svo heppinn að sækja tíma hjá Niall í Harvard þar sem hann kennir "Global Economy" sem er kúrs í fjármálasögu þar sem nútíminn (og framtíðin) er skoðuð með gleraugum sagnfræðinnar. Sagt er að sagan endurtaki sig sjaldnast bókstaflega en hún rímar!

Niall Ferguson hefur skrifað bækur um breska heimsveldið, bandaríska "heimsveldið", Rothschild bankann (og fjölskylduna) og svo nýverið sögu peninganna. Niall er einn þeirra sem bentu á veilurnar í fjármálakerfinu og spáði því árið 2006 að framundan gæti verið "liquidity crisis" á borð það sem gerðist 1914. Fáir trúðu þessu en því miður reyndist hann sannspár.

Niall setti fram heitið "Chimerica" á náið samband Kína og Bandaríkjanna en að mörgu leyti hegða þau sér saman sem eitt hagkerfi. Í einfaldaðri mynd má segja að Kínverjar spari en Bandaríkjamenn eyði. Kínverjar lána svo Bandaríkjunum hagnaðinn sem aftur borga Kína vexti af lánunum.  
Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem tvö ríki eiga með sér svipað samband.

chimerica

Bretland fjármagnaði Bandaríkin á mesta vaxtarskeiði þess.
Svo var náið samband milli Bretlands og Þýskalands fram að 1914...en þá breyttist það!

Og staðan í efnahagsmálum: Verður núverandi kreppa rótin að óðaverðbólgu (Weimar)? Eða verða Bandaríkin eins og Japan með samdrátt? Eða eins og sumt bendir til: Samdráttur og verðbólga á sama tíma líkt og var á Carter tímanum? Eitt er víst að ójafnvægið er mikið og skuldir hafa ekki minnkað heldur flutst frá einkabönkum til ríkissjóða og seðlabanka. Slík þróun er ekki góð og endar með nýrri krísu eins og nú örlar á í Grikklandi og víðar. Vandamál sem áður voru tengd við rómönsku Ameríku eru nú möguleg hjá löndum eins og Portúgal, Írlandi, Íslandi og jafnvel Bretlandi eða Sviss.

Gríðarmiklar skuldir og afleiður eru enn óleyst mál sem bíða eftir næstu bólu eða næsta hruni. Sagan hefur kennt okkur að hið óvænta gerir ekki boð á undan sér og því má ætla að næstu ár verði viðburðarrík.  


Endurvinnsla framtíðarinnar

Margir hafa hugað að því hvernig best sé að nýta metangas sem verður til á urðunarstöðum. Eitthvað er um bíla sem nota metan en áfyllingarstaðir eru enn sem komið er fáir. Iðnaðarnot á metangasi er önnur leið en þá er verið að breyta metangasi (sem er gróðurhúsalofttegund af verri gerðinni) í CO2.

Strokkur hefur í samvinnu við Eyfirðinga skoðað möguleika á að framleiða koltrefjar og þá kom í ljós að eitt af því sem háir Íslandi er aðgengi að gasi. Þegar betur var að gáð sáum við að unnt er að nota metangas úr sorphaugum Akureyrar þar sem iðnaðarlóð er nálægt. Rammasamningurinn við Akureyrarbæ tryggir aðgengi að hvoru tveggja og gerir okkur kleift að þróa verkefnið áfram.

Samstarfið við Akureyrarbæ og Atvinnuþróunarfélagið hefur gengið vel ekki síst í Becromal verkefninu sem nú er komið í útflutning á aflþynnum. Nýja verkefnið byggir á því góða trausti sem ríkir á milli áðila og þeirri staðreynd að verkefnið fór úr hugmynd í framleiðslu á aðeins 24 mánuðum.

Ef af verður þá mun metangas og íslensk orka verða notuð til að framleiða hátæknivöru sem skapar aukinn gjaldeyri. Metanið sem annars hefði gufað upp af haugunum verður þá liður í að framleiða gjaldeyri, verðmæti og störf.


mbl.is Rammasamningur um koltrefjaverksmiðju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband