Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hvað með ríkjasamband Íslands, Grænlands og Færeyja?

Á sama tíma og Ísland berst fyrir 65 ára sjálfstæði sínu eru Grænlendingar að færast nær sjálfstæði. Sama er að segja um vini okkar Færeyinga. Því er haldið fram að Ísland sé of lítið til að vera sjálfstætt og Grænland sömuleiðis. Þetta heyrist ekki síst frá þeim sem vilja sjá bandaríki Evrópu verða að veruleika. Afar ólíklegt er að Ísland gangi í ESB þar sem hagsmunirnir fara illa saman eins og dæmin sanna.

Hafsvæði Íslands, Grænlands og Færeyja nær yfir stóran hluta norðvestur Atlantshafsins. Auknir möguleikar á olíuvinnslu og siglingum færa hagsmuni þessara eyja saman meira en annara. Er nokkuð galið að sjá fyrir sér ríkjasamband þar sem unnt væri að samnýta utanríkisþjónustu, auðlindastefnu, landhelgisgæslu og stjórnsýslu svo eitthvað sé nefnt?


Þjóðstjórnarannáll

Var við opnun menningarsalar í Sunnlenska bókakaffinu hjá Elínu Gunnlaugsdóttur og Bjarna Harðarsyni. Þar eru til sölu fornbækur og notaði ég tækifærið og keypti mér Þjóðstjórnarannál eftir Árna Jónsson frá Múla sem er skrifuð 1942. Bókin inniheldur greinar höfundar og fjalla um lygilega lík málefni og nú eru efst á baugi nema enn er ekki komin þjóðstjórn nú:

"Verkefni þjóðstjórnarinnar eru mörg og erfið. Þjóðin viðurkennir fúslega að við óvenjulega erfiðleika er að stríða. Hún mun hafa hliðsjón af þeim erfiðleikum í mati sínu á starfi stjórnarinnar. En hún mun krefjast þess hiklaust að sú stjórn sem kennir sig við alþjóð láti borgarana ná rétti sínum."

Dýrtíðin - nú kölluð verðbólgan
Frjáls blöð - nú eignarhald á fjölmiðlum
Gengislögin - nú gengishöftin
Hættan af ásælninni - nú græðgin
Hvenær á að afnema höftin? -  Hvenær á að afnema gjaldeyrishöftin?
Kjördæmamálið - Athugasemdir ÖSE við kosningarnar í vor
Sjálfstæðismálið - nú ESB

og svo má lengi telja.

Það er óramargt svipað í dag og 1942 en flest í bókinni hefði þótt úrelt árið 2007.


Hversu bindandi er Icesave samningurinn án ábyrgðar þingsins?

Samningur ríkisstjórnarinnar við Holland og Bretland er háður samþykkt Alþingis varðandi ríkisábyrgð á lántökunni. En hversu bindandi er hann þess utan?

Getur verið að ríkisstjórnin hafi bundið Ísland burtséð frá ríkisábyrgðinni? Er hugsanlegt að samningurinn sé bindandi eins og kaupsamningur og ríkisábyrgðin sambærileg við samþykkt banka á yfirtöku skuldar? Ef svo er þá er mögulegt að hér myndist skaðabótaábyrgð vegna vanefnda ef ekki tekst að efna samninginn.

Ef ekki þá er spurning hvað Bretar og Hollendingar geta gert til að fá fullnustu krafna sinna. Dómsdagsspár hafa verið fluttar en gott væri að skilja hvernig innheimta á skuld Tryggingarsjóðs Innistæðueigenda getur fallið á ríkið án samþykkis Alþingis. Er mögulegt að samningurinn hafi skuldbundið Ísland að þjóðarrétti?

Gott væri að fá lögfræðileg sjónarmið varðandi þetta atriði.


Grein Anne Sibert

Ég las grein Anne Sibert sem birtist á vefnum Vox en Anne er prófessor í hagfræði, sérfræðingur hjá Evrópuþinginu og fulltrúi forsætisráðherra í peningamálanefnd Seðlabankans. Greinin gengur út á tölfræðilega skoðun á litlum hagkerfum og færir greinarhöfundur rök fyrir því að Ísland eigi ekki að vera sjálfstætt. Nokkur hætta sé fyrir Grænland að feta braut í átt til sjálfstæðis.

Mér finnst nánast ósmekklegt að lesa þessa grein þegar horft er til þess að hér er fulltrúi í peningamálastefnunefnd Íslands tilnefnd af núverandi forsætisráðherra. Hér er greinilegur vilji til þess að fá erlenda stjórnendur í vaxandi mæli og innlima Ísland í ESB. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi söngur heyrist en á 19. öld voru margir Danir á þeirri skoðun að best væri að flytja Íslendinga af eyjunni alfarið.

Anne talar niður til Íslendinga og því miður eru sumir landa okkar tilbúnir að taka undir þann boðskap. Staðreyndin er sú Íslendingar sækja framhaldsmenntun meira til útlanda en flestar aðrar þjóðir og stunda meiri utanríkisviðskipti en velflestar þjóðir. Ég þekki það sjálfur á eigin skinni þar sem ég hef búið og starfað í London og San Francisco með íslenskum og alþjóðlegum fyrirtækjum. Fjölgun erlendra stjórnenda hér á landi og innganga í ESB gerir okkur ekki sterkari í þeim efnum nema síður sé.

Anne lætur ógert að nefna hve sterkt lítil hagkerfi standa víða. Nærtakt er að nefna stöðu Noregs og Luxembourg sem standa upp úr í Evrópu. Einu tölfræðilegu rökin sem Anne heldur frammi eru þau að meiri sveiflur séu á tekjum og neyslu smáríkja en eins og flestir sjá í hendi sér eru alltaf meiri frávik litlu mengi en stóru.


Argentína?

Eru Argentína og Ísland svipuð? Lára Hanna segir mikla hættu á því og hefur nokkuð til síns máls.

Argentína merkir silfur-landið enda voru það silfurnámurnar sem Spánverjar ásældust sem gáfu landinu nafn. Samkvæmt Njall Ferguson var Argentína eitt af tíu ríkustu ríkjum veraldar árið 1913. Erlend fjárfesting var á þeim tíma svipuð og í Kanada og vöxtur meiri en í Bandaríkjunum og í Þýskalandi. Harrods verslanirnar voru á þessum tíma tvær; önnur í London en hin í Buenos Aires.

Síðan þá hefur margt farið til verri vegar. En hvað eigum við sameiginlegt?

Fyrir það fyrsta þá var tveggja stafa verðbólga í Argentínu algeng og endaði svo með óðaverðbólgu undir lok 20. aldar. Á Íslandi hefur verðbólgan verið algeng þó með þeirri undantekningu að hún var frekar lítil síðasta áratug síðustu aldar. Nú hefur hún komið aftur ásamt systur sinni gengisfallinu.

Hitt sem gerðist í Argentínu var ítrekað greiðslufall erlendra skulda. Það leiddi til einangrunar og hárra vaxta. Hætta er á slíku hér ekki síst ef íslenska ríkið tekur á sig of miklar skuldir (svo sem vegna Icesave).

Eina af ástæðunum fyrir hruninu má rekja til þess að stjórnmálamenn í Argentínu freistuðust til að "leysa málin" með meiri útgjöldum en tekjur voru til. Halli sem á mannamáli er ekkert annað en botnlaus taprekstur endaði með gengisfellingum, verðbólgu og greiðslufalli. Sennilegast er stærsta hættan á Íslandi einmitt fólgin í því að ríkið eyði langt um efni fram með tilheyrandi afleiðingum. Þótt margt megi misjafnt segja um AGS þá leggja þeir áherslu á að fjárlög verði rekin hallalaus til lengri tíma. Sagan hefur sýnt okkur að botnlaus hallarekstur ríkis verður á endanum aldrei leystur með skattheimtu en leiðir hratt til hárra vaxta og frekara hruns.

Eitt sláandi dæmi er varðandi erlenda krónu eigendur sem hafa verið að fara úr "jöklabréfum" og yfir í ríkisskuldabréf. Ríkið fjármagnar sig sem sagt hjá erlendum aðilum í krónum. Þegar gjaldeyrishöftunum verður aflétt er hætta á að erlendir eigendur ríkisskuldabréfa vilji fara út. Þá selja þeir ríkisskuldabréfin með einhverjum afföllum og þá getur það leitt til lækkunar krónu og ríkisskuldabréfa. Vandinn við jöklabréfin verður þá orðinn tvöfaldur.

Vonandi læra menn af reynslu Argentínu og varast vítin. Ekkert bendir þó til þess að við séum með skýra stefnu í að ná endum saman. Allt kapp ríkisstjórnarinnar er á að ganga í ESB og auka skuldir ríkisins. Á endanum þarf að borga þessar nýju skuldir með einum eða öðrum hætti.

ESB umsóknin hefur ekki breytt miklu og afar ólíklegt verður að teljast að Ísland geti gengið í ESB og eru fyrir því margar ástæður. Hættan við ESB áhersluna er að menn gleymi aðalatriðunum í þeirri von að ESB bjargi Íslandi með einhverjum hætti. Aðalatriðið er að auka gjaldeyris- og verðmætasköpun og minnka sóun. Hér eigum við silfur hafsins og auðlindir sem þarf að nýta, vernda og verja. 
-  Annars er mikil hætta á krónískri kreppu með argentínskum tangó.  


Takmarkað umboð

Hér sést vel hvers vegna lítill áhugi var fyrir því að spyrja þjóðina um umsókn að ESB. Það er reyndar afar sérstakt að ríki skuli sækja um aðild að ESB þegar mikill meirihluti er því afhuga. Þegar horft er til þess að ríkisstjórnin er klofin í þessu máli (sem öðrum) getur samningsumboðið ekki verið nema takmarkað. Ef það er eitthvað sem við ættum að hafa lært af Icesave samningunum þá er það að hafa umboðið skýrt og samningsmarkmiðin ljós.
mbl.is Fleiri andvígir aðild að ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimsverðbólga framundan?

Í ójafnvægi er hætta á að farið sé úr einum vanda í annan. Seðlabankar og ríkisstjórnir um allan heim hafa verið að kljást við samdrátt og óttast verðhjöðnun. Til að bregðast við þessum vanda hefur verið dælt fé í hagkerfin úr ríkiskössunum og er það nær allt fjármagnað með lánsfé. Á sama tíma hefur Seðlabanki Bandaríkjanna keypt gríðarlegt magn af skuldabréfa og þannig aukið peningamagn í umferð (prentað peninga) .

Þegar hagsveiflan gengur til baka og vöxtur hefst er talsverð hætta á að hrávörur hækki í verði og ný verð- og eignabóla verði til. Bernanke seðlabankastjóri hefur reynt að fullvissa Bandaríkjaþing um að þá sé hægt að vinda ofan af málinu en það verður varla gert með öðru en að selja ríkisskuldabréf Seðlabankans og hækka vexti. Hvoru tveggja kann að verða bæði erfitt og óvinsælt. Pólítísk pressa á seðlabanka heimsins kann því að aukast.

Svo er annað mál ekki ósvipað og í morðgátu hjá Poirot: Hagsmunir (motive). Bandaríkin eru afar skuldug og sama er að segja um fjölmörg ríki sem er óvanalegt á friðartímum. Þessi ríki eru með óverðtryggðar skuldir að mestu. Þau hafa því beina hagsmuni af verðbólgu enda er verðbólga þess eðlis að óverðtryggðar skuldir rýrna hratt eins og sagan hefur kennt okkur. Því er líklegt að Bandaríkin muni ekki styðja við gengi dalsins eins og til dæmis Kínverjar vona. Hvað gerist þá?

Þegar dalurinn lækkar (sem margir spá) styrkist samkeppnishæfni Bandaríkjanna. Japanir, Kínverjar og Evrópusambandið verða þá að skoða alvarlega hvernig unnt sé að bregðast við þessu og munu því reyna að veikja sína gjaldmiðla á móti. Þetta gerist með því að halda vöxtum óeðlilega lágum, auka peningamagn í umferð eða draga það að ná endum saman. Allt er þetta sem fæðubótaefni fyrir verðbólguna enda hækkar verðlag þegar peningar minnka í verði. 


Nú er rétti tíminn til að ráðast í verkið

Ekkert samgönguverkefni er jafnarðbært þegar reiknað er út frá tjónum. Þá eru dýrustu skaðarnir þó ómetnir með öllu enda óbætanlegir.
Nú er atvinnuleysi og niðursveifla en á sama tíma allt fullt af vélum og tækjum svo ekki sé minnst á verkefnalaus fyrirtæki með reynslu og þekkingu.

AGS lánið, Icesave samningar og ESB umsókn skila sér ekki í umsvifum eins fljótt og ákvörðun um tvöföldun Suðurlandsvegar. Ákvörðun sem full samstaða er um hjá sveitarfélögum á Suðurlandi og fólki í öllum flokkum. Já og eins og sést vel á þessari könnun: Hjá landsmönnum.

Er eftir einhverju að bíða?


mbl.is Telja tvöföldun Suðurlandsvegar brýnasta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eva, Wikileaks, lögbann og Hrannar

Eva Joly birtir grein. Aðstoðarmaður forsætisráðherra gagnrýnir Evu hart. Reynt er að skjóta sendiboðann.
Lánayfirlit er birt á netinu. "Nýja Kaupthing" lætur setja lögbann á fréttir.

Eru þetta lausnir?

Eða eru svör?

Ef einhvern tíma hefur verið þörf á upplýstri umræðu er það núna. Þöggun er ansi "2007".


Vinur er sá sem til vamms segir

Ég vona að Eva Joly fái þessa grein birta í fleiri blöðum. Helst belgískum, breskum, hollenskum og víðar.

Hér er horft til stóru myndarinnar en ekki verið að klára mál í hasti sem kunna að vera "hangandi yfir okkur". 

Það er óvenjulegt að ráðgjafi saksóknara sem ráðinn er af ríkisstjórn skuli tala með þessum hætti en kannski getur Eva ekki orða bundist. 

Sú leið að taka lán hjá AGS, skuldbinda Ísland fyrir Icesave upp í topp og ganga þannig stórskuldug í Evrópusambandið er að mörgu leyti stórfurðuleg leið til að endurreisa efnahag Ísland. - Súrrealísk reyndar. 


mbl.is Stöndum ekki undir skuldabyrði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband