Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Betur má ef duga skal

Fjallið tók jóðsótt og fæddi 1% mús. Ekki var þetta mikil lækkun og eru stýrivextir nú með því allra hæsta í heiminum. Á sama tíma og vextir eru nálægt 0% víða og róið er að því alls staðar að örva atvinnulífið um allan heim eru stýrivextir hér á Íslandi ofurháir. Verðbólgan er í mikilli rénun og lækkaði byggingarvísitalan milli mánaða. Margt bendir því til verðhjöðnunar frekar en verðbólgu.

Ég vil ekki sjá 17% stýrivexti þegar verðbólgan er á niðurleið.


mbl.is Stýrivextir lækkaðir í 17%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einsdæmi?

Ekki man ég eftir því að ÖSE þyrfti að hafa áhyggjur af kosningum áður á Íslandi. Segir það mikið um ástandið og aðdraganda kosninganna. Kjörsókn hefur verið góð á Íslandi og lýðræðið verið virkt. Nú bregður svo við að traust á Alþingi er í lágmarki og boðað er til kosninga með skömmum fyrirvara auk þess sem enn er rætt um að breyta stjórnarskránni af hálfu ríkisstjórnarflokkanna. Best væri að menn hefðu kosningarnar hafnar yfir allan vafa. Ekki er á "ástandið" bætandi.

mbl.is ÖSE fylgist með kosningunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tillögur eru virðingarverðar

Það er út af fyrir sig virðingarvert að Framsókn leggi fram tillögur í efnahagsmálum. Umtöluð skjalborg um heimilin og fyrirtækin sem ríkisstjórnin hefur boðað hefur verið fremur í því að lengja í lánum og mýkja innheimtur frekar en annað.

Tillögur eru nauðsynlegar í aðdraganda kosninga og vonandi vita menn fyrir hvað framboðin standa fyrir kjördag. Tillögur Framsóknarmanna um flatan niðurskurð skulda kunna að vera óvitlausar þegar þær eru skoðaðar. Við hrun gömlu bankanna hafa menn áttað sig á því að "eignir" þeirra (það er að segja skuldir viðskiptavinanna) eru ótraustar og munu aldrei innheimtast nema að litlum hluta.

Tillögur Tryggva Herbertssonar eru ítarlegar og ákveðnar. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar benda til þess að þær bíti í því hugmyndafræðilega tómi sem nú er ríkjandi. Að minnsta kosti eru hér konkret hugmyndir um efnahagsmál. Stjórnlagaþing er allra góðra gjalda vert en skilar sér seint til heimilanna.

Hugmynd Framsóknarmanna um niðurfærslu skulda fela í sér að hluti varúðarfærslunnar verði notuð til að lækka höfuðstól skulda. Þetta mun leiða til þess að fleiri geta staðið í skilum, færri verða gjaldþrota og eignir falla minna í verði (sem aftur leiðir til færri gjaldþrota). Það sem mér finnst vera dapurlegt hjá ríkisstjórninni er það hvernig þessar hugmyndir eru blásnar af án rökræðu. Það er styrkleikamerki að geta tekið undir hugmyndir sem koma úr öðrum flokkun en manns eigin.


mbl.is Lífeyrissjóðirnir fá leyfi til gjaldeyrisviðskipta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterk staða kvenna í Suðurkjördæmi

Miklar breytingar verða á lista Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi og skipa nú 3 konur fjögur efstu sætin. Ragnheiður Elín hlýtur góða kosningu og hefur því sterkt umboð frá flokksmönnum. Þáttakan var minni en síðast en þó mun betri en hjá Samfylkingunni sem var með liðlega tvö þúsund þáttakendur en hér eru atkvæðin yfir fjögur þúsund. Sjálfstæðisflokkurinn er sterkur í kjördæminu eins og sést best á sterkri stöðu flokksins í sveitarstjórnum. Nú er að sjá hvort að flokkurinn haldi 1. þingmanninum í kosningunum.

Eyjamenn eru með mjög sterka stöðu á listanum en haft er á orði að Árnesingar ríði ekki feitum hesti frá prófkjörinu að þessu sinni. Prófkjör eru öflugt tæki til að virkja grasrótina en jafnframt geta úrslitin verið erfið fyrir þá sem ekki ná settu marki. Aðal atriðið nú er að menn fylki sér að baki þeim sem nú hafa fengið umboðið og horft sé fram til kosninga sem eru eftir nokkar vikur. Þær kosningar kunna að verða einhverjar þær örlagaríkustu um árabil.


mbl.is Ragnheiður Elín sigraði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er í boði?

Stóra prófkjörshelgin er nú algleymingi og listar framboðanna taka óðum á sig mynd. En um hvað verður kosið?Samkvæmt könnunum er vinstri stjórn líklegust. Það er því nærtækast að fá skýr svör frá þeim flokkum sem nú eru í samstarfi og stefna að óbreyttu að því að halda því áfram að kjósendur fái að vita hvað vinstri stjórnin ætlar að gera. Og ekki síst hvernig hún ætlar sér að ná jafnvægi í ríksrekstrinum.

Margt bendir til þess að í farvatninu séu stórfelldar skattahækkanir þrátt fyrir aðvörunarorð reyndra hagfræðinga um neikvæð áhrif skattahækkana í kreppu. Niðurskurður á óþarfa og yfirbyggingu hlýtur að vera forgangsmál til að ná endum saman í stað þess að freistast í skattahækkanir.

Hlutfall ríkisútgjalda af þjóðarframleiðslu á Íslandi er með því hæsta í heiminum í dag. Á sama tíma og þjóðarframleiðsla dregst nú saman um meira en 10% vaxa útgjöld ríkisins verulega. Spáð er halla upp á 150 milljarða af fjárlögum og þá verða framboðin að svara stóru spurningunum um skatta eða sparnað.  

Barack Obama hefur beitt sér fyrir ákveðnum skattalækkunum til að létta byrðunum hjá launafólki. Veruleg hækkun launaskatts myndi  á hinn bóginn hafa letjandi áhrif á atvinnusköpun og þar af leiðandi fjölgun starfa. Atvinnuleysið er höfuðmein Íslands í dag og mér skylst að við séum í þann mund að slá heimsmet í hröðu atvinnuleysi.

Allt bendir til að kosið verði um atvinnumál og vonandi keppast allir flokkar um að bjóða leiðir til atvinnu-uppbyggingar í stað þess að falla í gryfju óhóflegrar skattheimtu sem á endanum bugar klárinn og skilar litlu í ríkiskassann.


"This time it´s different"

Kreppan nú á sér fordæmi þó alltaf sé hver kreppa með sínu sniði. Á síðustu átta hundruð árum hafa verið margskonar kreppur sem eiga það þó sammerkt að eiga sér svipaðan aðdraganda og allar eiga þær - blessunarlega - endi. Carmen M. Reinhart  og Kenneth S. Rogoff hafa tekið saman gagnmerka ritsmíð um þetta efni og mæli ég með þeirri lesningu fyrir þá sem áhuga hafa á sögunni en eins og við vitum endurtekur hún sig. 

THIS TIME IS DIFFERENT:

A PANORAMIC VIEW OF EIGHT CENTURIES OF FINANCIAL CRISES

Carmen M. Reinhart

Kenneth S. Rogoff


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vegir netsins

Internetið hefur gjörbylt samskiptum manna og sameinað samskipti (fjarskipti) og útgáfu.
Lengi vel var ritmálið á fárra manna valdi og kirkjan talaði latínu sem fáir skyldu.
Reyndar er það einn helsti sjarmi katólskunnar að halda sig við gamla siði en um leið er hún fjarlægari söfnuði sínum.

Nú er Páfinn kominn á netið...


mbl.is Páfi: Verðum að fylgjast með netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítil þáttaka í prófkjörum?

Eftir mikla umræðu um lýðræðismál að undanförnu hlýtur það að koma á óvart hve þáttaka í prófkjörum reynist lítil.

Í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi 2006 voru 5149 sem greiddu atkvæði. Nú var prófkjörið galopið og þurftu menn ekki að fara að heiman til að kjósa þar sem boðið var upp á kosningu í heimabankanum en allt kom fyrir ekki: Aðeins 2389 kusu eða innan við helmingur á við síðast. - Hvað veldur?

Þá komum við að VG sem hafa undanfarið mælst öðru hverju sem stærsti flokkur landsins og prófkjöri þeirra í langstærsta kjördæmi landsins; Reykjavík.  
Alls kusu þar 1101 í Reykjavíkur kjördæmunum. Þegar skoðað er hvaða atkvæðafjöldi er á bak við hvert þingmannsefnið kemur í ljós að það eru um fimm hundruð atkvæði að jafnaði:

  • Katrín Jakobsdóttir, 856 atkvæði í 1. sæti
  • Svandís Svavarsdóttir, 616 atkvæði í 1. sæti
  • Lilja Mósesdóttir, 480 atkvæði í 2. sæti
  • Árni Þór Sigurðsson, 342 atkvæði í 2. sæti
  • Álfheiður Ingadóttir, 479 atkvæði í 3. sæti
  • Kolbrún Halldórsdóttir, 446 atkvæði í 3. sæti
  • Ari Matthíasson, 467 atkvæði í 4. sæti

Ekki er það stórt umboð.....

Nú er að sjá hvernig þáttakan verður í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins og er ég spenntastur fyrir að sjá niðurstöður í Reykjavík og á Suðurlandi. Síðast kusu yfir fimm þúsund manns í Suðurkjördæmi og yfir tíu þúsund í Reykjavík.

Nú er að sjá hvernig þáttaka verður.


Alþýðulýðveldið Ísland?

Fleiri og fleiri fyrirtæki eru að lenda í höndum ríkisins og þar með á ábyrgð þess. Rekstur félaganna er þá orðinn ríkisrekstur og fleiri ábyrgðir verða á herðum ríkissjóðs og stjórnmálamanna. Í dag er meirihluti alls hagkerfisins kominn í hendur ríkisins og sér ekki fyrir endan á þessari þróun.

Spurningin er hvert við stefnum með þessari þróun og hvenær hún nær jafnvægi.


mbl.is Ríkið tekur Straum yfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breytt landslag

Ingibjörg Sólrún tekur hér skynsama en sjálfsagt erfiða ákvörðun. Ingibjörg Sólrún hefur verið mikill leiðtogi á vinstri væng stjórmálanna og henni tókst að sameina ólíka hópa undir merkjum R-listans og að hluta til í Samfylkingunni. Ég óska Ingibjörgu góðs bata.

Eftir stendur Samfylkingin án formanns en Dagur B. Eggertsson og Jóhanna Sigurðardóttir eru líklegust til að taka við formennskunni. Ef Dagur verður formaður verða þeir Sigmundur Davíð að öllum líkindum með ungan formann Sjálfstæðisflokksins sér við hlið í kosningabaráttunni.-  Mikil breyting á stuttum tíma.

Með þessu er að verða gerbreytt landslag þar sem nýjir formenn leiða þá þrjá flokka sem hafa verið í ríkisstjórn á síðustu árum. Erfið úrlausnarefni eru framundan og er alls óvíst að næsta ríkisstjórn hafi styrk til að takast á við erfið mál.

Ekki er ólíklegt að kosið verði aftur fljótlega enda er það reynslan frá þeim löndum sem lent hafa í svipuðum málum og Ísland. IMF og pólítískur óstöðugleiki. Það sem gerist hins vegar jafnt og þétt er að nýtt fólk tekur við og ný sjónarmið ná að skjóta rótum. Nú er að sjá hvernig kosningarnar fara í breyttu landslagi og svo er ekki minna mál að sjá hvernig tekst að takast á við viðfangsefnin.


mbl.is Ingibjörg Sólrún hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband