Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Vel boðið

2% vextir eru talsvert lægri en gengur og gerist. Ekki er víst að veðin séu svona mikið betri og því væri gott að fá frekari útskýringu á þessum vöxtum. SPRON og Straumur fór veg allrar veraldar en Saga og VBS fá hér afar góð kjör.

Fyrirtækin eru almennt með 25% óverðtryggt. 


mbl.is Vextir lána til VBS og Saga tvö prósent
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Formaður Evrópunefndar telur Ísland eiga ekkert erindi í ESB

Það eru talsverð tíðindi í viðtali við Kristján Þór Júlíusson formann Evrópunefndar Sjálfstæðisflokksins í Viðskiptablaðinu sem birtist í kvöld. Þar segir Kristján meðal annars að: "Íslendingar eigi ekkert erindi inn í Evrópusambandið að öllu óbreyttu.  Ástæðurnar eru tiltölulega einfaldar. Þetta snýst um fullveldið, yfirráð auðlinda okkar og sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar," Þetta er hárrétt hjá Kristjáni og verður fróðlegt að fylgjast með niðurstöðu landsfundar í ESB málum sem enn og aftur eru komin í brennidepil.

Þá er í sama blaði viðtal við Bjarna Benediktsson frambjóðanda til formanns þar sem hann tekur skýrt fram að hann hafi "Aldrei verið talsmaður inngöngu í ESB". Þar með er það komið á hreint. Hvorugur frambjóðandanna til formanns vill aðild að ESB miðað við núverandi forsendur enda eru brýnni mál sem bíða úrlausnar.


Mikill áfangasigur

Nú er staðfest það sem áður hafði verið rætt að Suðurlandsvegur verður tvöfaldaður. Vinur minn og baráttufélagi Hannes Kristmundsson frá Hveragerði færði mér fyrstur fréttirnar fyrr í vikunni og var það gott símtal.

Sá hluti sem verður 2+1 verður að lokum tvöfaldur líka þó síðar verði. Það er skynsamlegt að fara ekki í öll mislæg gatnamót strax enda eru þau mjög kostnaðarsöm. Þetta er mikill sigur fyrir alla þá fjölmörgu sem hafa barist fyrir tvöföldun Suðurlandsvegar.

Umferðarþungi heldur áfram að aukast um Suðurlandsveg þrátt fyrir kreppuna og var umferðaraukning um 9% milli ára á Suðurlandi en samdráttur í akstri víða annars staðar á landinu. Núverandi vegur er yfir þrjátíu ára gamall og barn síns tíma. Nú er kominn tími á tvöföldun enda full samstaða orðin um það. Bráðabirgðalausnir verða alltaf dýrari á endanum og því er tvöföldun framtíðarlausn.

Fyrsti áfanginn gæti verið tilbúinn næsta vor en gott væri að fá tímasetningu í kaflann frá Kömbum og að Ölfusá enda er leiðin milli Hveragerðis og Selfoss hættuleg eins og dæmin sanna. Sú leið er kostnaðarsöm í framkvæmd en jafnframt afar dýr þeim sem aka þessa leið á meðan hún er 1+1. Nú er kominn stór og mikill áfangasigur og því ber að fagna og það ber að þakka.


mbl.is Breikkun kostar 15,9 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðhjöðnun - stýrivextir út úr öllu korti

Ársverðbólgan mælist nú -7% ef miðað er við síðasta mánuð. 

Stýrivextir eru hins vegar 17% og voru þeir ákveðnir fyrir nokkrum dögum, eða á sama tíma og verðhjöðnun átti sér stað. 

Stýrivextir eru samkvæmt þessu 22% hærri en verðlag. 

Að ekki sé talað um dráttarvexti og yfirdráttarvexti.  


mbl.is Talsvert dregur úr verðbólgu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heiðarlega komið fram - skattahækkunum lofað

Steingrímur J. Sigfússon má eiga það að hann kemur heiðarlega fram og lofar skattahækkunum. Það er ákveðinn kostur við stjórnmálamann að segja kjósendum á hverju þeir eiga von.

Nú geisar atvinnuleysi og verðbólga en saman eru þessir stuðlar stundum nefndir "the misery index" Lengi vel voru tölurnar 2% á Íslandi og stuðullinn því 4. Nú hefur verðbólgan verið 15-17% og atvinnuleysið er að snerta 10%. Stuðullinn gæti því verið 25.

Ofan á skuldasúpu og launabrest megum við eiga von á því að þeir sem enn hafa góð laun fái auka-kjaraskerðingu. Nú er það svo að margar fjölskyldur eru afar skuldsettar og berjast því fyrir því að geta borgað af lánunum. Þetta gera menn oft þó auðveldara væri að lýsa sig gjaldþrota. Ekki er víst að aukin skattheimta skili miklu í kassann en hún mun örugglega letja menn til aukavinnu. Skattar á Íslandi eru háir og vandinn liggur ekki síst í mikilli eyðslu ríkisins sem þandist út á vakt Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og Samfylkingar.  Það er ekki víst að VG sé líklegasti flokkurinn til að ná þenslu ríkisins niður miðað við skattahugmyndir formannsins- fyrir kosningar.


mbl.is 3% skattur á 500 þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furðuleg forgangsröðun

Það er sérstakt að áhersla stjórnmálaflokka skuli frekar vera á að vera á móti öðrum stjórnmálaflokkum frekar en að setja allt afl á að ná fram góðum málum.

Nú ríður á að flokkar geti unnið saman en þá er það sett fram sem sérstakt kosningaloforð að vinna ekki með ákveðnum flokki sem þrátt fyrir allt er sá flokkur sem er í mestri naflaskoðun og uppgjöri.

Hvað með fyrirtækin og heimilin?


mbl.is VG bundin - á móti Sjálfstæðisflokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vígsla minnisvarða um sr.Sigurð Pálsson og frú Stefaníu Gissurardóttur

Að lokinni messu í morgun var vígður veglegur minnisvarði um heiðurshjónin sr.Sigurð Pálsson og frú Stefaníu Gissurardóttur sem voru burðarás Selfosskirkju frá upphafi. Sólin skein og athöfnin sem var utandyra var falleg þar sem Sigurður vígslubiskup Sigurðarsson sonur þeirra hjóna flutti predikun.

Frumkvæði að þessu kom frá Birni I. Gíslasyni sóknarnefndarmanni en sveitarfélagið Árborg styrkti þetta framtak.  Þorvaldur Guðmundsson afhjúpaði svo minnisvarðan ásamt Eysteini Ó. Jónassyni formanni sóknarnefndar.

Þetta framtak var öllum hlutaðeigandi til mikils sóma.


Fimm þingmenn í Suðurkjördæmi?

Listi Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi var samþykktur í dag. Eins og stundum vill verða voru ýmsir ósáttir við niðurstöðu prófkjörs og aðrir óánægðir með breytingar á lista eftir prófkjörið. Listinn var engu að síður samþykktur með miklum meirihluta án breytinga á tillögu kjörnefndar.

Lýðræðið er eins og við vitum ófullkomið en eins og Churchill sagði er það þó illskást; ("Democracy is the worst form of government, except for all those other forms that have been tried from time to time."). Meðferð þess er þó alltaf annmörkum háð og viðkvæmt mál yfirleitt.

Listann leiðir Ragnheiður Elín Árnadóttir þingmaður og er engan bilbug á henni að finna þrátt fyrir einstaka úrtöluraddir. Ragnheiður telur Kjartan Ólafsson sem skipar 5. sætið vera í baráttusæti og raunhæfa möguleika að D-listinn bæti við sig manni og tryggja þannig áframhaldandi þingsetu Kjartans. Þetta eru háleit og metnaðarfull markmið hjá nýjum forystumanni í kjördæminu. Nú er að sjá hvernig þetta gengur en ekki er ólíklegt að Sjálfstæðisflokkurinn fái einna besta kosningu í Suðurkjördæmi á landsvísu enda er staða flokksins sterk í sveitarstjórnum og mælist sterkastur í okkar kjördæmi á landsvísu.

Framundan er landsfundur þar sem helstu mál verða niðurstöður í Evrópumálum og bók Endurreisnarnefndar flokksins. Nú er að sjá hvernig upptakturinn fyrir kosningarnar verður um næstu helgi en búast má við kröftugum landsfundi sem leggur upp með endurnýjað umboð og nýja forystu.


Heimsverðbólga í kjölfar lausafjárkreppu?

Nú eru prentvélar seðlabanka farnar að vinna á sólarhringsvöktum. Peningamagn eykst...en þó ekki í umferð. Vandinn er sá að peningar safnast fyrir í bönkunum og skila sér ekki til fólks og fyrirtækja.

Þegar vandinn loks leysist er hætta á að peningamagn verði mikið og þar með verðbólga og raunverðlækkun á helstu gjaldmiðlum heimsins (pappírspeningum). Rimbimbi-ið í Kína er þó undanskilið enda er það talið stórlega undirverðlagt. Það sem gerist hins vegar við hækkun á því er að verðlag á kínverskri framleiðslu hækkar en hingað til hefur kínversk framleiðsla haldið heimsverðbólgunni niðri. - Þetta fjallar Greenspan um í bókinni sinni "The age of turbulence".

Stærsta einstaka skrefið í þessa átt var stigið á dögunum þegar bandaríski seðlabankinn ákvað að "stækka efnahagsreikning sinn" um eina trilljón dala með því að kaupa skuldabréf. Þessi eina aðgerð dælir þúsund milljörðum dala inn í hagkerfið. Ekki er ólíklegt að Evrópubankinn svari á svipaðan hátt til að vernda ESB gagnvart BNA.


Fjárhagsáætlunin "Hókus pókus" - segir forseti bæjarstjórnar

Þriggja ára áætlun sveitarfélagsins Árborgar gerir ráð fyrir 1 milljón í tap - hvern einasta dag. Þá stefnir í tæknilegt gjaldþrot árið 2015 að óbreyttu. Aðspurður um áætlunina segir forseti bæjarstjórnar að þriggja ára áætlanir sveitastjórna vera "hókus pókus - einhver spádómur út í loftið".

Hér er frétt Fréttablaðisins:

Sjálfstæðismenn í bæjarstjórn Áborgar segja að miðað við nýsamþykkta þriggja ára fjárhagsáætlun sveitarfélagsins muni það tapa einni milljón króna á hverjum degi næstu árin.Eyþór Arnalds, oddviti minnhluta sjálfstæðismanna í bæjarstjórn, segir að miðað við fjárhagsáætlun meirihluta bæjarstjórnar verði 1.433 milljóna króna halli árin 2009 til 2012. „Þannig verður eigið fé sveitarfélagsins uppurið að óbreyttu árið 2015. Þá væri svo komið að Árborg yrði tæknilega gjaldþrota. Því þykir okkur að við þetta verði engan veginn unað og hér sé í raun um uppgjöf núverandi bæjarstjórnarmeirihluta að ræða," segir Eyþór.Þorvaldur Guðmundsson, oddviti framsóknarmanna og forseti bæjarstjórnar, segir fullyrðingar sjálfstæðismanna miðaðar við verstu aðstæður.„Það er mjög mikil óvissa og það er hægt að búa til alls konar missvört dæmi en við höfum ekkert viljað vera að mála skrattann á vegginn," segir Þorvaldur sem kveður óvissuna fram undan svo mikla að í raun sé öll gerð fjárhagsáætlana nánast út í loftið.„Það verður að segjast eins og er að þessar þriggja ára áætlanir sem sveitarstjórnir eru að gera í dag eru bara eins og hókus pókus – einhver spádómur út í loftið."


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband