Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

"Skyldi Halldór koma á morgun?"

Ung kona í sveit varð ástfanginn af manni sem Halldór hét. Þótt ástin væri heit náði hún aldrei að tjá manninum hvað hug hún bar til hans. Halldór kom stundum í heimsókn á bæinn en þess á milli beið unga konan eftir Halldóri og sagði þá oftar en ekki upp úr hljóði; "skyldi Halldór koma á morgun?"

Á morgun á að ákveða stýrivexti af peningamálanefnd og Seðlabanka Íslands.

Lengi hefur verið beðið vaxtalækkunar en staðan í dag er sú að háir vextir eru farnir að veikja íslensku krónuna þegar vaxtagjalddagar eru greiddir í dýrmætum gjaldeyri út úr landinu. Nú bíða margir spenntir og vona að nú komi loks að langþráðri lækkun vaxta...


Á íslenska ríkið að borga fyrir Icesave?

Þegar bankarnir voru seldir var það trú manna að ríkisábyrgðin fylgdi ekki með. Nú hafa fjölmargar ábyrgðir fallið á ríkið ekki síst vegna lána Seðlabankans sem reyndi að bakka upp bankanna. En furðulegasta ábyrgðin er Icesave. Samkvæmt lögum og reglugerðum eiga lönd sem tilheyra EES samningnum að koma sér upp tryggingarsjóði innlána. Það gerðu íslendingar. Vandamálið er að tryggingarsjóðurinn er allt of lítill þegar allt hrynur. Lítill sparisjóður gæti verið varinn en tröllvaxnir fjárfestingabankar á Íslandi voru einfaldlega of stórir. Sérstaklega þar sem þeir söfnuðu innlánum í hundraða milljarða tali í Evrópu.

Samkvæmt lögfræðiálitum ber íslenska ríkinu ekki nein skylda til að ábyrgjast innistæður umfram tryggingarsjóðinn (sem er sjálfstæður). Samkvæmt áliti seðlabanka Frakklands er ekki gert ráð fyrir ríkisábyrgð og reyndar efast menn um að þessar evrópsku reglur hafi verið hugsaðar til enda.

Nú hefur því verið borið við að ef Íslendingar greiði ekki Icesave skuldir falli evrópska bankakerfið. Ef við gefum okkur það að þessi fullyrðing sé rétt er það algerlega glórulaust að íslenska ríkið sem er minnsta og eitt skuldsettasta ríkið í Evrópu í dag skuli vera látið borga brúsann.

Margt bendir til þess að helstu rökin fyrir ríkisábyrgð á Icesave (hvers nafn er mikið öfugmæli) séu kúganir ESB og IMF.

Þetta mál þarf að ræða opinskátt og óháð flokkapólítík.


John Perkins, Michael Hudson og ofurvaxtastefnan í Silfrinu

Tveir viðmælendur Egils vöktu talsverða athygli í dag þó ólíkir séu en báðir vörpuðu þeir Perkins og Hudson sprengjum inn í umræðuna. Báðir vöruðu þeir við IMF og töldu að Ísland ætti ekki að standa við skuldbindingar sínar við útlönd.

Nú er það svo að ríkið var nær skuldlaust við útlönd í Október í fyrra en sífellt fleiri ábyrgðir hafa verið að færast í fang ríkisins. Ég hef aldrei sannfærst um rök fyrir því að íslenska ríkið eigi að gangast í ábyrgðir vegna Icesave eða annarra innistæðna umfram það sem lög og reglur segja til um. Nú fer vaxandi sú umræða að ríkið eigi ekki að taka á sig skuldbindingar umfram getu og nauðsyn. Þetta er stórpólítísk umræða sem hefur vikið fyrir umræðu um kosningar, landsfundi, stjórnarskrárbreytingar og smápólítískt skark.

Annað sem nefnt var af Michael Hudson var að lenging og frestun vandans væri skuldaranum í óhag en það eru einmitt slíkar aðgerðir sem helst hefur verið gripið til með greiðsluaðlögun, mildari gjaldþrotalögum einstaklinga og svo frystingu afborganna. Ekkert af þessu tekur á undirliggjandi vanda sem fellst í of háum skuldum og atvinnuleysi. Niðurfelling skulda á að koma til greina og hana á ekki að slá út af borðinu í fljótræði.

Svo eru það vextirnir en um þá var fjallað á vandaðan hátt ekki síst með innleggi Jóns Helga Egilssonar en hann og Kári Sigurðsson hafa skrifað vægast sagt athyglisverðar greinar um málið.  Vaxtastigið á Íslandi er nú orðið með þeim furðum að ekki finnast sambærileg dæmi á byggðu bóli. Verðhjöðnun er í gangi á ýmsum sviðum en samt eru stýrivextir 17% og vextir atvinnulífs og heimilanna yfir 20% á sama tíma og verðbólgan er minna en engin! Ofurháir vextir valda veikara efnahagslífi og því raun-veikari krónu auk þess að þessi stefna öll tryggir í raun fjöldagjaldþrot heimila og fyrirtækja. Ef rétt er sem sagt er að hávaxtastefnan veiki krónuna eru engin rök eftir til að viðhalda skrúfstykkinu nema kannski fyrir jöklabréfaeigendur sem fá vaxtagreiðslurnar útgreiddar í gjaldeyri.  

Vonandi verður þessi umræða til að menn líti upp úr skotgröfunum og horfi á stóru málin.


Söngvar Kim Il Sung og Kim Jong Il hljóma nú

Samkvæmt Pyongyang  tókst að senda fjarskiptatungl á braut um jörðu og sendir það út "ódauðlega söngvar Kim Il Sung og Kim Jong Il" eins og það er orðað. Flaugin sem bar gervitunglið fór reyndar í heimildarleysi yfir japanska lofthelgi og vilja margir meina að tilgangurinn sé annar og verri en að útvarpa "ódauðlegum söngvum" frá himingeimnum.

Ekki laust við að þetta minni á Team America


mbl.is Norður Kóreumenn skjóta eldflaug á loft
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður hryðjuverkalögunum þá aflétt?

Enn er það svo að Landsbankinn er á lista yfir hryðjuverkasamtök hjá breskum stjórnvöldum eins og sjá má hér.

Breska fjármálaráðuneytið birtir listann sem nú er svona eftir að sér listi var gerður fyrir Landsbankann neðanmáls:

 

Current regimes

Asset freezing measures not related to terrorist or country-based financial sanctions

Landsbanki


mbl.is Hryðjuverkalög of harkaleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margt vitlausara

Sú leið að taka einhliða upp annan gjaldmiðil er ekki gallalaus. En menn verða að meta valkostina og ekki síst þann sem nú er reyndur; að halda í krónuna með höftum og stýringum. Gallarnir við að taka upp stærsta gjaldmiðil heimsins er helst þeir að við værum ekki með Seðlabanka með þrautavaralán.

En er ekki einn stærsti vandinn einmitt tilkominn vegna þrautavaralána? Og væntinga um ríkisábyrgð af öllu tagi? Þeir sem henda burt hugmynd um að taka upp dalinn verða að bera þá leið saman við það ástand sem við virðumst vera föst í.

Svo má ekki gleyma því að um 70% af raforkunni, meirihluti stjóriðjuafurða, stór hluti sjávarafla og olían eru keypt og seld í bandaríkjadölum á Íslandi.


mbl.is SUS: Vilja Bandaríkjadal á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miðbæjarklúðrið á Selfossi

Eins og menn sjá sem aka yfir Ölfusarbrú hefur lítið þokast í miðbæjarmálum síðustu árin. Grindverk og skilti liggja nú fyrir vindi og er fremur nöturlegt að sjá. Uppruna málsins má rekja til samnings sem gerður var rétt fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar en þá skuldbatt sveitarfélagið til að hafa hátt nýtingarhlutfall og að selja byggingarrétt fyrir 45 milljónir króna.

Verkefnið hefur ekki gengið þrautalaust enda voru yfir 11 hundruð aðilar sem mótmæltu deiliskipulaginu þegar það var auglýst. Þegar því ferli var lokið hefur lítið gerst. Töldum við í minnihlutanum að forsendur samningsins væru í raun brostnar og honum ætti að rifta en því var hafnað að meirihlutanum. Þá töldum við að innheimta bæri skuld upp á 45 milljónir sem gjaldféll 90 dögum eftir að deiliskipulagið tók gildi. Því var hafnað og nú eru mótbárurnar þær að ekki hafi verið gerð lóðablöð til að skaffa alla þá m2 sem getið er um í samningum. Það er sem sé vanhöld bæjaryfirvalda sem standa í veginum samkvæmt þeirri söguskýringu. Það verður þó varla bæði sleppt og haldið en eins og staðan er nú er miðbæjarsvæðið tekið gíslingu án niðurstöðu, greiðslu eða uppbyggingar.

Kannski hefði verið hyggilegra að byggja smærra og klára það frekar en að reyna að nýta hvern m2 og m3 í trássi við vilja íbúanna og sitja svo uppi með þá stöðu að góðærið fór framhjá?

Á sama tíma og 45 milljónirnar eru óinnheimtar starfar Intrum í umboði bæjarins við að innheimta gjöld heimila og fyrirtækja. Það njóta ekki allir þess að fá vaxtalaus lán eins og í dæmi Miðjunnar. Það er því eðlilegt að fólk spyrji hvers vegna sumir njóti þessara fríðinda en almenningur ekki.


Ofurvextir á Íslandi

Nú þegar verðbólgan er illmælanleg og síðasta stöðutaka sýndi verðhjöðnun eru litlar röksemdir eftir til að réttlæta ofurvexti á Íslandi. Helst geta menn týnt til gengi krónunnar en það virðist reyndar stjórnast af allt öðrum þáttum en vaxtamun um þessar mundir. Gjaldeyrishöftin hafa nú verið hert og er í dag óheimilt að flytja út vörur frá Íslandi og þiggja fyrir þær íslenskar krónur sem gjaldmiðil. Tvöfalt gengi krónunnar hefur leitt til þess að viðskiptamenn hafa nýtt sér misgengið í hagnaðarskyni. Haftastefna leiðir alltaf af sér einhvers konar hjáleiðir og er mér sagt að næst verði farið í vöruskipti og fólk flytji út krónur með því að flytja út lausafjármuni eins og báta, flugvélar, bíla og hesta.

Háir vextir eru að ganga af atvinnulífinu (og mörgum heimilunum) dauðum. Mikil umræða er á þingi um greiðsluaðlögun, vægari gjaldþrot og lengingu lánalína. Miklu mikilvægar er þó að ráðasta að rótum vandans frekar en að einblína um of á einkennin. Lenging lána kann að létta sársaukann en getur í sumum tilfellum frestað vandanum frekar en að leysa hann. Skuldir hafa hækkað vegna verðbólgu, gengisfalls og ekki síst ofurvaxta.

Seðlabankinn lækkaði stýrivexti um 1% og eru þeir nú gríðarlega háir enn eða 17% þrátt fyrir að verðlag hafi lækkað milli mánaða í síðustu mælingu. Mismunur verðlags og vaxta - raunvaxtastigið - hefur aldrei verið hærra. Mikið lá á að skipta um Seðlabankastjóra en eitthvað virðist liggja minna á að ná niður okurvöxtunum sem hafa aldrei verið hærri.


Kaflaskil - nýtt upphaf

Bjarni Benediktsson hlaut mjög góða kosningu og er vel að þessum úrslitum kominn. Kristján Þór fékk jafnframt mikinn stuðning við framboð sitt bæði á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu. Kristján Þór er sterkari á eftir og Bjarni er með óumdeilt pólítískt umboð eftir að hafa fengið svo öflugt mótframboð og ótvíræðan stuðning.

Með þessum landsfundi verða nú skýr kaflaskil og ung forysta tekst nú á við kosningabaráttu þar sem fylgið er í lágmarki og þjóðin er í sárum. Ég er viss um að sú áhöfn sem nú er að taka við mun ná að vinna saman af heilindum og ná til almennings. Framundan eru mjög erfið úrlausnarefni og reynir á alla flokka við að takast á við þau.

Sambandið við grasrótina verður sjálfsagt meira en áður auk þess sem greinileg áhersla var á að gera hlut miðstjórnar virkari og meiri. Tillaga Péturs Blöndal um aukið aðhald og eftirlit miðstjórnar og upplýsingagjöf hennar til landsfundar var samþykkt samhljóða. Það er á tímum sem þessum sem rétt er að endurskoða það sem betur má fara hvort sem er innan þings, flokkanna eða í löggjöf. Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið ákveðið frumkvæði í endurnýjun ekki síst þegar litið er til stjórnarflokkanna í minnihlutastjórninni. - Þessi kaflaskil eru upphafið að nýrri endurreisn.


mbl.is Bjarni kjörinn formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt afstaða Geirs - dreift eignarhald hefði gefist betur

Upphafleg stefna í einkavæðingarferlinu var einmitt dreifð eignaraðild. Þetta var reynt með ríkisbankana og svo FBA (Fjárfestingarbanka Atvinnulífsins) en þar söfnuðust hlutabréfin hratt á hendur ORCA hópsins.

Sú ákvörðun að selja svokölluðum "kjölfestufjárfestum" reyndist röng ekki síst þegar þessir fjárfestar urðu jafnframt umsvifamiklir í öðrum atvinnurekstri og eignarhaldi á fjölmiðlun. Það er líklegt að upphafalega stefnan - sem Eykon kallaði eftir á sínum tíma - þar sem almenningur átti hluti í almenningshlutafélögum hefði gefist betur.

Sú afstaða Geirs að biðjast afsökunar á þessum mistökum er rétt og virðingarverð. Uppgjörið við foríðina er að fara fram og Geir stígur hér mikilvægt skref. Það ber að virða.


mbl.is Mistök gerð við einkavæðingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband