Færsluflokkur: Lífstíll

Arfleifð Hitlers og reykingabannið

Þess er minnst í dag að 70 ár eru liðin frá "fæðingu" Volkswagen sem seinna var nefndur bjallan. Þessi bíll sem fékk hið alþýðlega nafn fólksbíll upp á þýsku varð vinsælasti bíll allra tíma. Dr. Porsche var fenginn í verkið og sagt er að þjóðernis-sósíalistinn Adolf Hitler hafi lofað "fólksbílnum" í kosningunum 1933 og skilyrði bílsins voru að hann bæri tvö fullorðna og þrjú börn, kæmist 60 mílur á klukkustund og færi það á tveimur gallonum bensíns. Verðið mátti ekki fara yfir 1,000 þýsk mörk. Þetta gekk eftir og árið 1972 náði svo bjallan því marki að verða vinsælasti bíll allra tíma.

Á föstudaginn kemur ganga svo í gildi nýleg lög um reykingabann á opinberum stöðum. Veitingastaðir verða þá án reyks um ókomna tíð á Íslandi. Rétt er að geta þess að mér persónulega líður mun betur á reyklausum stöðum. Fáir minnast þess, en upphafsmaður reykingabanns á opinberum stöðum var einræðisherrann alræmdi Adolf Hitler, en hann reykti hvorki tóbak né drakk áfengi. Hitler var meðvitaður um skaðsemi reykinga og lét banna reykingar fyrstur allra mörgum áratugum á undan öðrum. Það er fyrst núna á síðustu árum að sambærileg bönn hafa rutt sér rúms en í Kalíforníu var þetta innleitt 1994 sextíu árum á eftir Þriðja ríkinu.

Læt svo fylgja með gamla áróðursmynd frá millistríðsárunum þar sem þessu tvennu er spunnið saman: Hægt er að kaupa 2 milljónir VW bjalla fyrir það sem Þjóðverjar reykja.

smoking vw


Bjössi í World Class

Mér fannst aldrei gaman í leikfimi, en það hefur breyst með árunum. Einhvernveginn var leikfimin í grunnskólanum lítið spennandi fannst okkur strákunum. Í dag sé ég sömu andlitin mæta - daglega - í leikfimi. Áhugi á líkamsrækt hefur vaxið á sama tíma og miðjan á landsmönnum. Kyrrseta, tölvur og bílar ásamt kalóríríku fóðri hafa aukið fallþunga íslenskra karlmanna gríðarlega á síðustu árum. Sama er að segja um konurnar. Á engan er hallað þegar það er fullyrt að Bjössi í World Class hefur lyft sannkölluðu Grettistaki í líkamsræktarmálum. Hljóðlát bylting hefur átt sér stað og í dag erum við með bestu líkamsrækt sem hægt er að hugsa sér. Flaggskipið er Laugar sem er byggt er við Laugardalslaugina, en sundlaugarnar hafa verið líkamsræktarmiðstöðvar og kaffihús um áratugaskeið. Nú er Björni kominn í víking til útlanda, en enn vantar samt eitt: Betri aðstöðu á Selfossi. Vonandi kemur það.

p.s.

Er kominn í 73 kg eftir 12 mánaða átak. Ætla að halda mér þar.


50 tonn af páskaeggjum

Meðalþyngd íslenskra karla var 79,4 kg árið 1968 en var komin upp í 87,9 kg árið 1998. Gætum verið komin yfir 90 kg í dag miðað við þetta. Ég þekki það á eigin skinni að aukakílóin sækjast í selskap hvert við annað. Það er kannski illa gert að vera að minna á þessa þróun daginn áður landsmenn torga kannski 50 tonnum af súkkulagðieggjum, en einhvernveginn kom þetta upp í hugann í morgun.

Í dag eru lífslíkur Íslendinga meiri en flestra annara og eru nú svo komið að íslenskir karlmenn eru í fyrsta sinn manna líklegastir til að ná hárri elli og nálgast 80 ár að jafnaði. Margir eru á því að mesta heilbrigðisógn 21. aldarinnar sé offita. Það er því ekkert að því að kaupa aðeins minna páskaegg, enda er 1 málsháttur í hverju eggi, enda skiptir stærðin ekki máli í þeim efnum.

Gestaþáttur Hávamála fjallar um átið þótt minna hafi verið um offitu á þeim tímum:

Gráðugur halur,
nema geðs viti,
etur sér aldurtrega.
Oft fær hlægis
er með horskum kemur
manni heimskum magi.

Hjarðir það vitu
nær þær heim skulu
og ganga þá af grasi.
En ósvinnur maður
kann ævagi
síns um mál maga.


Hið góða ál og "pappírslausu" pappírsviðskiptin

Vinstri grænir hafa verið að dreifa barmmerkjum úr áli. Þau eru úr því sem vinstri grænir kalla gott amerískt ál. Á merkjunum eru líka endurunnin slagorð fengin "að láni" úr auglýsingaherferð Coca Cola. Einhverjir voru að benda á álið í merkjum vinstri grænna, en á móti benda þeir á möguleikan á endurvinnslu. Það er athyglisvert sjónarmið.

Kannski eigum við að horfa á neysluna, fremur en framleiðsluna?

Þó freistandi sé að benda á tvíræðni þeirra sem dreifa álmerkjum og berjast gegn álverum, er samt rétt að horfa til þess að umhverfismál byrja hjá hverjum og einum. Þar er af nógu af taka. 

Hér er eitt mál:

"Pappírslaus viðskipti" sem svo hafa verið nefnd framleiða gríðarlegt magn af pappír á degi hverjum: Visa nótur, gluggaumslög og kvittanir úr pappír fara í tugþúsundavís á degi hverjum á Íslandi. Oft að óþörfu.

Hvernig væri að minnka þetta?


Ísland, sósíalisminn og lífsgæðin

Íslendingar eru í hópi langlífustu þjóða. Lengi vel voru það konurnar sem drógu vagninn, en nú eru íslenskir karlmenn orðnir langlífastir í heimi og nálgast íslenskar konur sem enn bæta sig. Mikið jafnréttis- og velferðarmál. Bæði langlífi og ungbarnadauði eru ákveðnir mælikvarðar á lífsgæði.

Þjóðartekjur segja aðeins litla sögu og er því vert að rýna í þessar tölur frá Hagstofunni:

(1) Langlífi karla er mest á Íslandi. Langlífi kvenna er mest á Íslandi af Norðurlöndunum.

(2) Munur á kynjunum er varla af hinu góða í þessu frekar en öðru. Mikill munur er neikvæður.

(3) Minnsti munur á langlífi kynjanna er á Íslandi: 3,6 ár.

(4) Mesti munur á langlífi kynjanna er í fyrrum ráðstjórnarríkjunum. Í Rússlandi er munurinn 13 ár og rússneskir karlmenn verða ekki nema 58,9 ára að meðaltali.

Á þessum mælikvarða erum við að koma frábærlega út. Nær nákvæmlega sömu mynd er að sjá þegar unbarnadauði er skoðaður. Þar trónir litla Ísland langefst. Fyrrum ráðstjórnarríkin skrapa botninn, Ísland kemur vel undan vetri.

Hvernig er það átti sósíalisminn ekki að tryggja jöfnum og velferð borgaranna?

Er það kannski ekki besta leiðin að jöfnuði, heilbrigði og langlífi?

Er íslenska leiðin kannski betri?


mbl.is Íslenskir karlar verða karla elstir í heiminum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vatnajökulsþjóðgarður (6x stærri en Luxembourg)

Eitt af stóru málunum sem Alþingi samþykkti á síðasta þingdegi fyrir kosningar voru lög um Vatnajökulsþjóðgarð. Með þessu erum Íslendingar að stíga stórt skref í átt að skipulegri friðun víðernis, en jafnframt að tryggja skipulegt aðgengi sem raskar ekki náttúru um of. Þjóðgarðar hafa verið gerðir víða um lönd og á engan er hallað þegar rifjað er upp stórvirki Teddy Roosevelt fyrir rúmum 100 árum. Þá var náttúruvernd komin skammt á veg, en Teddy var mikill náttúruunnandi og framsýnn. Með þessum lögum er Ísland komið á heimskortið með einn af stærri þjóðgörðum heims, reyndar þann stærsta í Evrópu. Landsvæðið er sex sinnum stærra en stóhertogadæmið Luxembourg, en þar býr hálf milljón manna.

Vatnajökull NASA

Gott er að muna það fyrir kosningarnar í vor að það er ríkissjórn hægrimanna sem náði þessu máli í gegn um Alþingi. Full samstaða var um málið á þingi.  


Er fasteignaverð að rjúka upp?

Eftir kyrrstöðu á síðasta ári bendir fernt til þess að nú sé breyting að verða á fasteignamarkaðnum:

1) Veltan hefur nær tvöfaldast síðustu mánuði...

2) Meðalverð á m2 hefur náð sér á strik og er á uppleið...

3) Íbúðalánasjóður og bankarnir hafa komið með útspil á síðustu dögum - eftir að þessar mælingar voru gerðar sem að ofan greinir.

4) Væntingavísitala Gallup hefur aldrei verið hærri á Íslandi frá upphafi mælinga......

(línurit fengin af www.fmr.is)

 


Öldruðum á ekki að refsa fyrir vinnu sína

Um helmingur fólks á aldrinum 65-71 hefur áhuga á að vinna. Skortur er á vinnuafli og sýnir mikil fjölgun erlends vinnuafls það hvað gleggst. Samt er það svo að eldri borgarar hika við að taka að sér störf, þar sem svo örlítið situr eftir þegar upp er staðið. 

Í dag mega eldri borgarar aðeins vera með 25 þúsund krónur á mánuði, eða 300 þúsund á ári áður bætur eru skertar. Þykir mér þetta lág skattleysismörk og þó var þetta enn verra hér áður fyrr, en lágmarkið var hækkað í vetur. Þetta fyrirkomulag gerir það að verkum að fólk hefur oft ekkert upp úr því að taka að sér störf á efri árum. Í landi þar sem skortur er á vinnuafli og annar hver maður á aldrinum 65-71 vill vinna á að hvetja og auðvelda fólki að leggja sitt af mörkunum. Það er enda margsannað að maður er manns gaman og gildir það ekki síður við störf en leik. Hér þarf ríkið að sjá að sér.   

Refsum fólki ekki fyrir að vinna, þó það sé komið á eftirlaunaaldur.


CO2 - virkjum þekkinguna

Top: Increasing atmospheric CO2 levels as measured in the atmosphere and ice cores.  Bottom: The amount of net carbon increase in the atmosphere, compared to carbon emissions from burning fossil fuel.

Íslendingar geta verið í fararbroddi við að minnka útblástur CO2 og annara gróðurhúsalofttegunda.
Þetta graf sýnir aukningu CO2 í andrúmsloftinu (rauða súlan) og fylgni við brennslu olíu og kola. Draumurinn um "vetnissamfélagið" getur ræst á Íslandi, ekki síst ef við náum að gera flotann út með vetni. Fallvötnin og háhitinn nýtast þá beint í að minnka okkar útblástur enn frekar.
Við erum nefninlega svo heppin að framleiða raforku úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Þökkum fyrir það.

Við ættum að styðja við bakið á "orku-útrás" þar sem íslenskt hugvit, reynsla og þekking í orkugeiranum nái að margfaldast.

Virkjum þekkinguna. Carbon dioxide


mbl.is Blair segir „gríðarlegar“ breytingar í vændum í loftslagsmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fæðingarorlofið eykur frjósemi um 10% (?)

Fæðingartíðni í Evrópu er í sögulegu lágmarki með um 1,5 börn á hverja konu. Stefnir í að mörgum þjóðum fækki verulega á næstu árum. Rússum fækkar um 700 þúsund á ári og á Ítalíu er 1,2 börn á hverja konu. Á Íslandi er þessu öfugt farið. Það eru nokkur tíðindi ef fæðingarorlofið er að valda straumhvörfum í náttúrulegri fjölgun.Nýjust fréttir benda til þess að við séum að fjölga okkur með fæðingum, eða um 10%. Munar um minna.

 Til fróðleiks er hér niðurstaða könnunar á Ítalíu um ástæður þess að konur eignast ekki fleiri börn:

"...the more the father was involved in the chores of looking after the child and household, the more likely his wife was to want and have a second baby. The survey indicated that Italian men do little around the house - fewer than six per cent of mothers responded that their husbands "always" or "often" did household chores . Consequently many women cannot face the dual burden of going out to work and looking after an extra child. They have to give up one of those two options: they usually decide to sacrifice the extra child.

Kannski við karlmenn ættum að fara oftar út með ruslið og vaska meira upp, en ekki bara í fæðingarorlofinu?


mbl.is Fæðingarorlof feðra lengist og frjósemi eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband