Erfiðleikar og lífið framundan

Aðgerðir íslenska ríkisins eru snöggar og mjög öflugar eins og menn hafa séð í dag. Sú áætlun að verja Ísland virðist vera ganga upp. Hin leiðin að veðja lífeyrispeningum og skattleggja börn og barnabörn okkar var sem betur fer ekki farin.

Mörg fyrirtæki eiga eftir að fara í greiðsluþrot á næstunni, ekki síst skuldsettu yfirtökurnar. Lengi vel var ein ábatasamasta atvinnugreinin að kaupa og selja sömu fyrirtækin aftur og aftur með sífellt meiri skuldum. Nú er komið að gjalddaga.

Þetta ferli er sársaukafullt fyrir marga, en enn erfiðara er að vita af fólki sem nú hefur tapað sparnaði sínum. Allt þetta veldur því að þjóðin verður að fá fullvissu um að allt þetta mál verði rannsakað og tryggt sé að eigum sé ekki skotið undan. Það liggur í hlutarins eðli.

Við höfum orðið fyrir gjöreyðingarvopni sem sprakk í andlitið á okkur. Skuldsetningin og eignatengslin voru svo eldfim blanda að ein bilun fór með allt kerfið. Það hefði engu máli skipt hvort það spil hefði heitið "Glitnir" eða eitthvað annað.  

Lífið heldur samt áfram og ef einhver þjóð getur komist í gegn um þetta eru það Íslendingar. Nú er allra mikilvægast að tala við sína nánustu og vernda geðheilsuna. Allir Íslendingar hafa lent í áfalli og þurfa allir styrk og hlýju hver frá öðrum. Segja má að í dag sé dagur núll í nýju Íslandi sem þarf að fólkinu sínu að halda.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elías Halldór Ágústsson

Það er ljóst að við verðum öll að standa saman í því að taka rólega á málunum og ekki æða áfram út í neina vitleysu, róa þá sem eru æstastir og reyna að dreifa læmingjahjörðinni áður en hún steypir sér fram af hengifluginu.

Elías Halldór Ágústsson, 9.10.2008 kl. 09:49

2 Smámynd: Eyþór Laxdal Arnalds

Sæl Magga: Fall bankanna er hrikalegt en verra væri ef Ísland hefði verið skuldsett til að reyna að halda þeim áfram. Sú aðgerð virðist vera að ganga upp.

Eyþór Laxdal Arnalds, 9.10.2008 kl. 16:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband