Svona gerast kaupin á (bresku) eyrinni...

Sagt er frá því í Times í dag að það hafi verið olíuhagsmunir sem réðu því að dæmdur hryðjuverkamaður var látinn laus af bresku ríkisstjórninni. Um er að ræða eina manninn sem dæmdur hefur verið vegna Lockerbie fjöldamorðanna.

Þetta er sama breska ríkisstjórnin og beitti hryðjuverkalögum á Ísland.

Finnst engum þetta öfugsnúið?


Mólíkúlin mynduð

Sagt er nú frá því að tekist hafi að mynda mólíkúl í fyrsta sinn. Myndin sem birt er af efni sem notað er í sólarsellum. Bilið á milli hverrar einingar er 1/1000000 af stærð sandkorns. 

Hér er myndin sem tekin er af vísindamönnum sem starfa fyrir IBM:  

molecule.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Til samanburðar er hér tölvulíkan af sama mólíkúli:

molecule2.jpg

 


Er krónan að styrkjast?

Eftir mikla veikingu á fyrri hluta ársins (um -10%). Nú er Eyjólfur að hressast og stendur evran í 179 krónum í morgun og dalurinn kominn undir 125 krónur. 

Háar upphæðir hafa safnast fyrir í bönkunum ekki síst í erlendum gjaldeyri. Vera kann að þetta hafi áhrif. 

Vonandi er þetta raunveruleg styrking. 


Bílalánin

Bílaflotinn á götunum blekkir þá sem hingað koma enda erfitt að ímynda sér kreppu þegar jeppar og sportbílar eru um allar götur. Á bak við bílana eru oft himinhá lán sem hafa snarhækkað í verðbólgu og gengisfallinu. Mjög margir eiga yfirskuldsetta bíla og eru þessi lán kannski einn erfiðasti myllusteinninn þegar kemur að því að ná endum saman.

Húsnæðislán má lengja enda afskrifast hús á löngum tíma. Bílar eru eðli máls samkvæmt með stuttan lífaldur og því verða lánin að greiðast upp á tiltölulega fáum árum.

Erlend bílalán hafa mörg hver tvöfaldast og sum þrefaldast (Yen og CHF). Þegar hugað er að niðurskrift höfuðstóls þarf að huga að bílalánunum ekki síður en húsnæðislánunum. Þessi lán geta farið illa með heimili og fjölskyldur og því þarf að skoða hvort ekki borgi sig fyrir hagkerfið að afskriftin fari fram núna áður en ástandið versnar enn meira.

Eitt er víst að ef ekkert er gert versnar ástandið.
Engin ákvörðun er ákvörðun.


mbl.is Ástandið getur versnað hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanhugsuð lausn

Kannski var greiðsluaðlögun einfaldlega kynnt á röngum forsendum. Þegar frumvarpið var lagt fram var gert ráð fyrir að hundruð þyrftu á þessu "úrræði" að halda en nú hefur annað komið í ljós. Þá voru allt of miklar væntingar gerðar til þess að greiðsluaðlögun leysti mál fólksins. Skjaldborg. Eftir því sem ég fæ best séð er gjaldþrotameðferð betri fyrir suma. Frestur er á illu bestur segir orðskviður en ég er ekki viss um að það eigi við um skuldir heimilanna.

Ég var því sammála Lilju Mósesdóttur í sjónvarpinu í gær um almenna niðurfellingu. Sértæk úrræði (eins og greiðsluaðlögun) verða alltaf seinvirk, huglæg og kostnaðarsöm. Almenn úrræði eru fljótvirk hlutlæg og kosta lítið í framkvæmd. Eina spurningin er hvort að afskrift núna sé dýrari en afskrift í gjaldþrota og greiðsluaðlögunarferlum. Ef svarið er nei er augljóst að það ber að fara í almennar aðgerðir.


mbl.is Á vanskilaskrá í greiðsluaðlögun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuldamál hin síðari

Niðurfelling skulda er ekki óeðlileg leið þegar skuldir eru að verða óbærilegar. Gjaldþrotaleiðin kann að vera mannúðlegri en skuldafangelsi 19. aldar en það sem nú þarf að tryggja er greiðsluvilji. Það verður ekki gert með gjalþrotum einum saman þótt einhverjir fari í greiðsluaðlögun.

Nú hefur félagsmálaráðherra ljáð máls á því að fella niður skuldir sem ella hefðu ekki innheimts. Hann sér eins og aðrir að nýju bankarnir hafa fengið kröfurnar með afslætti sem réttast er að gangi áfram til fólksins. Í anda jafnaðarstefnunnar vill ráðherra að þeir sem verst standi fái eingöngu leiðréttingu. Hættan er hins vegar sú ef menn ætla að meta hvern og einn huglægt að tvennt gerist:

a) Mismunun eigi sér stað þar sem erfittt er að meta endanlegt greiðsluhæfi.

Dæmi: Er 22 ára maður ekki líklegri til að borga á starfsævinni en 55 ára maður í sömu eiginfjárstöðu? Á þá að fella niður skuldir þess sem er 55 ára en ekki þess 22?

b) Greiðsluviljinn minnki þar sem þá verður sérstakur hvati hins opinbera að fólk uppfylli kröfur þess um að vera ekki greiðslufær. Þeir sem ekki standa í skilum verða þá hugsanlega líklegri til að fá fyrirgreiðslu. Ekki getur það verið jákvæður hvati.

Ég er af ofangreindum ástæðum hallari undir þá leið sem framsóknarmenn hafa lagt áherslu á. Þetta mál er reyndar þverpólítískt (og ætti því að vera ópólítískt) enda eru þingmenn eins og Lilja Mósedóttir á svipuðum nótum.

Einfaldar, skjótvirkar og hlutlægar leiðréttingar á skuldahækkunum er það eina sem ég sé í stöðunni.


Jákvætt skref

Aðeins tvö ár eru síðan samningar voru undirritaðir um Aflþynnuverksmiðju Becromal og samhliða var gengið frá raforkukaupum við Landsvirkjun. Hér hefur starfssemi fyrsta græna stóriðjan sem jafnframt framleiðir hátæknivörur.

Það er magnað að þetta hafi tekist þrátt fyrir heimskreppu og hrunið á Íslandi. Nú mun þessi verksmiðja bæta vöruskipti Íslands næstu árin og áratugina.

Ekki veitir af jákvæðum fréttum.


mbl.is Aflþynnuverksmiðja gangsett
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VG stóðu að einkavæðingu HS

Nokkur sveitarfélög seldu hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja til Geysis Green Energy, en nú hefur hluti þess hlutafjár verið selt Magma Energy. Á síðustu dögum hafa forsvarsmenn VG (og einhverjir Samfylkingarmenn) sett sig á móti sölu á hlutabréfum í HS orku sem er annar helmingur Hitaveitu Suðurnesja og telja nú að þetta sé glapræði.

Það er því rétt og skylt að halda því til haga að bæjarstjórn Árborgar stóð einhuga að sölu á öllum hlutabréfum sveitarfélagsins til Geysis Green og þar meðtalinn Jón Hjartarson oddviti VG í Árborg og forseti bæjarstjórnar.

Ekki hafa komið fram gagnrýnisraddir frá forystu VG vegna þessarar einkavæðingar. Gott væri að einhver fjölmiðill spyrði Steingrím J. Sigfússon og Svandísi Svavarsdóttur um hvort þeim hafi hugnast þessi einkavæðing VG í Árborg.

Eða er ekki sama Jón og séra Jón?


Þekkingargarður byggður á sandi?

Í Sunnlenska Fréttablaðinu er sagt frá því í dag að fyrirætlanir um byggingu þekkingargarðs í miðbæ Selfoss séu endanlega komnar í salt. Nú er það svo að hugmyndir um miðbæ á Selfossi hafa verið í skötulíki lengi enda voru deilur um miðbæjarskipulagðið miklar. Nú er búið að tyrfa yfir miðbæjarreitinn og litlar líkur til að þar verði byggt eins og til stóð. Hér er hins vegar annað mál þar sem bæjarstjórnarmeirihlutinn blés til sóknar á sérstökum blaðamannafundi eftir bankahrunið og lofaði 200-300 störfum. Þessum hugmyndum var tekið fagnandi eins og sjá má af fréttum frá blaðamannafundinum. Nú eru þessar hugmyndir lagðar til hliðar eftir því sem Sunnlenska segir frá.

 


Vatnsskortur á Indlandi?

Himalaya fjöllin vista vatnsforðabúr fyrir norðvestur Indland en þar er til dæmis að finna Nýju Delí. Vísbendingar eru um að alvarlegur vatnsskortur sé í pípunum á þessum slóðum.

Litlar breytingar hafa verið á rigningu en neðanjarðar eru að eiga sér stað breytingar á vatnsbirgðum sem notaðar eru af hundruðum milljóna manna. Landbúnaður tekur hér stærstan skerf.

Engar lausnir eru á þessu máli sem hefur verið hugsanlegt en er nú sannað með gervitunglamyndum NASA þar sem teknar hafa verið myndir yfir 6 ára tímabil.  

vatnsskortur


Álið komið yfir 2000 dali

Þau tíðindi urðu í morgun á London Metal Exchange að álverð fór yfir 2000 dali í fyrsta sinn í mjög langan tíma eins sjá má hér. Í niðursveiflunni fór álverð niður fyrir 1300 dali og höfðu margir áhyggjur af því að þetta gæti haft alvarlegar afleiðngar fyrir eldri og nýrri orkuverkefni. Álverð hefur líka mikil áhrif á gjaldeyrisbússkapinn sem nú er mikið ræddur.

Hvað sem mönnum finnst um ál yfirhöfuð þá er það mikilvægt fyrir Ísland að ál skuli vera búið að hækka svona hressilega. Lán frá erlendum aðilum (IMF, kære nordiske venner, Rússar og AGS) þarf að borga en tekjur eru undirstaðan til að hér sé búandi.

Sem sagt góð frétt.


Hallarekstur ríkisins grefur undan stöðugleikanum

Stöðugleikasáttmálinn er sagður í hættu meðal annars vegna verðbólgu og hárra vaxta. Krónan hefur ekkert styrkst þrátt fyrir gjaldeyrishöft og umsókn í ESB.

Tapreksturinn ríkisins var óumflýjanlegur strax eftir hrunið en viðvarandi halli grefur undan trausti á framtíðinni, krónunni og ríkisbréfum. Hallarekstur ríkisins er fjármagnaður með skuldabréfum sem keppa við lántökur fyrirtækja og heimila. Í slíku umhverfi verður lánsfé áfram dýrt. Í erfiðri stöðu hefur markaðurinn takmarkaða trú á að ríkið geti endalaust hlaðið á sig nýjum skuldum (þó sumum stjórnmálamönnum þyki þeir endalaust geta á sig blómum bætt). Það er þekkt úr hagsögunni að þau ríki sem fjármagna sig til lengri tíma með skuldabréfum grafa undan gjaldmiðlinum og hækka vexti og verðbólgu.

Icesave og ESB hefur heltekið alla umræðu en á sama tíma virðast ríkisfjármálin hafa gleymst. Háir vextir eru heimatilbúið vandamál þegar allur heimurinn er með stýrivexti í algjöru sögulegu lágmarki. Eina leiðin til að lækka vexti er að ríkið dragi sig úr samkeppninni um það litla lánsfé sem er í boði. Það verður ekki gert nema með því að draga úr hallarekstrinum á sannfærandi hátt.


Hvað með ríkjasamband Íslands, Grænlands og Færeyja?

Á sama tíma og Ísland berst fyrir 65 ára sjálfstæði sínu eru Grænlendingar að færast nær sjálfstæði. Sama er að segja um vini okkar Færeyinga. Því er haldið fram að Ísland sé of lítið til að vera sjálfstætt og Grænland sömuleiðis. Þetta heyrist ekki síst frá þeim sem vilja sjá bandaríki Evrópu verða að veruleika. Afar ólíklegt er að Ísland gangi í ESB þar sem hagsmunirnir fara illa saman eins og dæmin sanna.

Hafsvæði Íslands, Grænlands og Færeyja nær yfir stóran hluta norðvestur Atlantshafsins. Auknir möguleikar á olíuvinnslu og siglingum færa hagsmuni þessara eyja saman meira en annara. Er nokkuð galið að sjá fyrir sér ríkjasamband þar sem unnt væri að samnýta utanríkisþjónustu, auðlindastefnu, landhelgisgæslu og stjórnsýslu svo eitthvað sé nefnt?


Þjóðstjórnarannáll

Var við opnun menningarsalar í Sunnlenska bókakaffinu hjá Elínu Gunnlaugsdóttur og Bjarna Harðarsyni. Þar eru til sölu fornbækur og notaði ég tækifærið og keypti mér Þjóðstjórnarannál eftir Árna Jónsson frá Múla sem er skrifuð 1942. Bókin inniheldur greinar höfundar og fjalla um lygilega lík málefni og nú eru efst á baugi nema enn er ekki komin þjóðstjórn nú:

"Verkefni þjóðstjórnarinnar eru mörg og erfið. Þjóðin viðurkennir fúslega að við óvenjulega erfiðleika er að stríða. Hún mun hafa hliðsjón af þeim erfiðleikum í mati sínu á starfi stjórnarinnar. En hún mun krefjast þess hiklaust að sú stjórn sem kennir sig við alþjóð láti borgarana ná rétti sínum."

Dýrtíðin - nú kölluð verðbólgan
Frjáls blöð - nú eignarhald á fjölmiðlum
Gengislögin - nú gengishöftin
Hættan af ásælninni - nú græðgin
Hvenær á að afnema höftin? -  Hvenær á að afnema gjaldeyrishöftin?
Kjördæmamálið - Athugasemdir ÖSE við kosningarnar í vor
Sjálfstæðismálið - nú ESB

og svo má lengi telja.

Það er óramargt svipað í dag og 1942 en flest í bókinni hefði þótt úrelt árið 2007.


Hversu bindandi er Icesave samningurinn án ábyrgðar þingsins?

Samningur ríkisstjórnarinnar við Holland og Bretland er háður samþykkt Alþingis varðandi ríkisábyrgð á lántökunni. En hversu bindandi er hann þess utan?

Getur verið að ríkisstjórnin hafi bundið Ísland burtséð frá ríkisábyrgðinni? Er hugsanlegt að samningurinn sé bindandi eins og kaupsamningur og ríkisábyrgðin sambærileg við samþykkt banka á yfirtöku skuldar? Ef svo er þá er mögulegt að hér myndist skaðabótaábyrgð vegna vanefnda ef ekki tekst að efna samninginn.

Ef ekki þá er spurning hvað Bretar og Hollendingar geta gert til að fá fullnustu krafna sinna. Dómsdagsspár hafa verið fluttar en gott væri að skilja hvernig innheimta á skuld Tryggingarsjóðs Innistæðueigenda getur fallið á ríkið án samþykkis Alþingis. Er mögulegt að samningurinn hafi skuldbundið Ísland að þjóðarrétti?

Gott væri að fá lögfræðileg sjónarmið varðandi þetta atriði.


Grein Anne Sibert

Ég las grein Anne Sibert sem birtist á vefnum Vox en Anne er prófessor í hagfræði, sérfræðingur hjá Evrópuþinginu og fulltrúi forsætisráðherra í peningamálanefnd Seðlabankans. Greinin gengur út á tölfræðilega skoðun á litlum hagkerfum og færir greinarhöfundur rök fyrir því að Ísland eigi ekki að vera sjálfstætt. Nokkur hætta sé fyrir Grænland að feta braut í átt til sjálfstæðis.

Mér finnst nánast ósmekklegt að lesa þessa grein þegar horft er til þess að hér er fulltrúi í peningamálastefnunefnd Íslands tilnefnd af núverandi forsætisráðherra. Hér er greinilegur vilji til þess að fá erlenda stjórnendur í vaxandi mæli og innlima Ísland í ESB. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi söngur heyrist en á 19. öld voru margir Danir á þeirri skoðun að best væri að flytja Íslendinga af eyjunni alfarið.

Anne talar niður til Íslendinga og því miður eru sumir landa okkar tilbúnir að taka undir þann boðskap. Staðreyndin er sú Íslendingar sækja framhaldsmenntun meira til útlanda en flestar aðrar þjóðir og stunda meiri utanríkisviðskipti en velflestar þjóðir. Ég þekki það sjálfur á eigin skinni þar sem ég hef búið og starfað í London og San Francisco með íslenskum og alþjóðlegum fyrirtækjum. Fjölgun erlendra stjórnenda hér á landi og innganga í ESB gerir okkur ekki sterkari í þeim efnum nema síður sé.

Anne lætur ógert að nefna hve sterkt lítil hagkerfi standa víða. Nærtakt er að nefna stöðu Noregs og Luxembourg sem standa upp úr í Evrópu. Einu tölfræðilegu rökin sem Anne heldur frammi eru þau að meiri sveiflur séu á tekjum og neyslu smáríkja en eins og flestir sjá í hendi sér eru alltaf meiri frávik litlu mengi en stóru.


Argentína?

Eru Argentína og Ísland svipuð? Lára Hanna segir mikla hættu á því og hefur nokkuð til síns máls.

Argentína merkir silfur-landið enda voru það silfurnámurnar sem Spánverjar ásældust sem gáfu landinu nafn. Samkvæmt Njall Ferguson var Argentína eitt af tíu ríkustu ríkjum veraldar árið 1913. Erlend fjárfesting var á þeim tíma svipuð og í Kanada og vöxtur meiri en í Bandaríkjunum og í Þýskalandi. Harrods verslanirnar voru á þessum tíma tvær; önnur í London en hin í Buenos Aires.

Síðan þá hefur margt farið til verri vegar. En hvað eigum við sameiginlegt?

Fyrir það fyrsta þá var tveggja stafa verðbólga í Argentínu algeng og endaði svo með óðaverðbólgu undir lok 20. aldar. Á Íslandi hefur verðbólgan verið algeng þó með þeirri undantekningu að hún var frekar lítil síðasta áratug síðustu aldar. Nú hefur hún komið aftur ásamt systur sinni gengisfallinu.

Hitt sem gerðist í Argentínu var ítrekað greiðslufall erlendra skulda. Það leiddi til einangrunar og hárra vaxta. Hætta er á slíku hér ekki síst ef íslenska ríkið tekur á sig of miklar skuldir (svo sem vegna Icesave).

Eina af ástæðunum fyrir hruninu má rekja til þess að stjórnmálamenn í Argentínu freistuðust til að "leysa málin" með meiri útgjöldum en tekjur voru til. Halli sem á mannamáli er ekkert annað en botnlaus taprekstur endaði með gengisfellingum, verðbólgu og greiðslufalli. Sennilegast er stærsta hættan á Íslandi einmitt fólgin í því að ríkið eyði langt um efni fram með tilheyrandi afleiðingum. Þótt margt megi misjafnt segja um AGS þá leggja þeir áherslu á að fjárlög verði rekin hallalaus til lengri tíma. Sagan hefur sýnt okkur að botnlaus hallarekstur ríkis verður á endanum aldrei leystur með skattheimtu en leiðir hratt til hárra vaxta og frekara hruns.

Eitt sláandi dæmi er varðandi erlenda krónu eigendur sem hafa verið að fara úr "jöklabréfum" og yfir í ríkisskuldabréf. Ríkið fjármagnar sig sem sagt hjá erlendum aðilum í krónum. Þegar gjaldeyrishöftunum verður aflétt er hætta á að erlendir eigendur ríkisskuldabréfa vilji fara út. Þá selja þeir ríkisskuldabréfin með einhverjum afföllum og þá getur það leitt til lækkunar krónu og ríkisskuldabréfa. Vandinn við jöklabréfin verður þá orðinn tvöfaldur.

Vonandi læra menn af reynslu Argentínu og varast vítin. Ekkert bendir þó til þess að við séum með skýra stefnu í að ná endum saman. Allt kapp ríkisstjórnarinnar er á að ganga í ESB og auka skuldir ríkisins. Á endanum þarf að borga þessar nýju skuldir með einum eða öðrum hætti.

ESB umsóknin hefur ekki breytt miklu og afar ólíklegt verður að teljast að Ísland geti gengið í ESB og eru fyrir því margar ástæður. Hættan við ESB áhersluna er að menn gleymi aðalatriðunum í þeirri von að ESB bjargi Íslandi með einhverjum hætti. Aðalatriðið er að auka gjaldeyris- og verðmætasköpun og minnka sóun. Hér eigum við silfur hafsins og auðlindir sem þarf að nýta, vernda og verja. 
-  Annars er mikil hætta á krónískri kreppu með argentínskum tangó.  


Takmarkað umboð

Hér sést vel hvers vegna lítill áhugi var fyrir því að spyrja þjóðina um umsókn að ESB. Það er reyndar afar sérstakt að ríki skuli sækja um aðild að ESB þegar mikill meirihluti er því afhuga. Þegar horft er til þess að ríkisstjórnin er klofin í þessu máli (sem öðrum) getur samningsumboðið ekki verið nema takmarkað. Ef það er eitthvað sem við ættum að hafa lært af Icesave samningunum þá er það að hafa umboðið skýrt og samningsmarkmiðin ljós.
mbl.is Fleiri andvígir aðild að ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband