Heimsverðbólga framundan?

Í ójafnvægi er hætta á að farið sé úr einum vanda í annan. Seðlabankar og ríkisstjórnir um allan heim hafa verið að kljást við samdrátt og óttast verðhjöðnun. Til að bregðast við þessum vanda hefur verið dælt fé í hagkerfin úr ríkiskössunum og er það nær allt fjármagnað með lánsfé. Á sama tíma hefur Seðlabanki Bandaríkjanna keypt gríðarlegt magn af skuldabréfa og þannig aukið peningamagn í umferð (prentað peninga) .

Þegar hagsveiflan gengur til baka og vöxtur hefst er talsverð hætta á að hrávörur hækki í verði og ný verð- og eignabóla verði til. Bernanke seðlabankastjóri hefur reynt að fullvissa Bandaríkjaþing um að þá sé hægt að vinda ofan af málinu en það verður varla gert með öðru en að selja ríkisskuldabréf Seðlabankans og hækka vexti. Hvoru tveggja kann að verða bæði erfitt og óvinsælt. Pólítísk pressa á seðlabanka heimsins kann því að aukast.

Svo er annað mál ekki ósvipað og í morðgátu hjá Poirot: Hagsmunir (motive). Bandaríkin eru afar skuldug og sama er að segja um fjölmörg ríki sem er óvanalegt á friðartímum. Þessi ríki eru með óverðtryggðar skuldir að mestu. Þau hafa því beina hagsmuni af verðbólgu enda er verðbólga þess eðlis að óverðtryggðar skuldir rýrna hratt eins og sagan hefur kennt okkur. Því er líklegt að Bandaríkin muni ekki styðja við gengi dalsins eins og til dæmis Kínverjar vona. Hvað gerist þá?

Þegar dalurinn lækkar (sem margir spá) styrkist samkeppnishæfni Bandaríkjanna. Japanir, Kínverjar og Evrópusambandið verða þá að skoða alvarlega hvernig unnt sé að bregðast við þessu og munu því reyna að veikja sína gjaldmiðla á móti. Þetta gerist með því að halda vöxtum óeðlilega lágum, auka peningamagn í umferð eða draga það að ná endum saman. Allt er þetta sem fæðubótaefni fyrir verðbólguna enda hækkar verðlag þegar peningar minnka í verði. 


Nú er rétti tíminn til að ráðast í verkið

Ekkert samgönguverkefni er jafnarðbært þegar reiknað er út frá tjónum. Þá eru dýrustu skaðarnir þó ómetnir með öllu enda óbætanlegir.
Nú er atvinnuleysi og niðursveifla en á sama tíma allt fullt af vélum og tækjum svo ekki sé minnst á verkefnalaus fyrirtæki með reynslu og þekkingu.

AGS lánið, Icesave samningar og ESB umsókn skila sér ekki í umsvifum eins fljótt og ákvörðun um tvöföldun Suðurlandsvegar. Ákvörðun sem full samstaða er um hjá sveitarfélögum á Suðurlandi og fólki í öllum flokkum. Já og eins og sést vel á þessari könnun: Hjá landsmönnum.

Er eftir einhverju að bíða?


mbl.is Telja tvöföldun Suðurlandsvegar brýnasta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eva, Wikileaks, lögbann og Hrannar

Eva Joly birtir grein. Aðstoðarmaður forsætisráðherra gagnrýnir Evu hart. Reynt er að skjóta sendiboðann.
Lánayfirlit er birt á netinu. "Nýja Kaupthing" lætur setja lögbann á fréttir.

Eru þetta lausnir?

Eða eru svör?

Ef einhvern tíma hefur verið þörf á upplýstri umræðu er það núna. Þöggun er ansi "2007".


Vinur er sá sem til vamms segir

Ég vona að Eva Joly fái þessa grein birta í fleiri blöðum. Helst belgískum, breskum, hollenskum og víðar.

Hér er horft til stóru myndarinnar en ekki verið að klára mál í hasti sem kunna að vera "hangandi yfir okkur". 

Það er óvenjulegt að ráðgjafi saksóknara sem ráðinn er af ríkisstjórn skuli tala með þessum hætti en kannski getur Eva ekki orða bundist. 

Sú leið að taka lán hjá AGS, skuldbinda Ísland fyrir Icesave upp í topp og ganga þannig stórskuldug í Evrópusambandið er að mörgu leyti stórfurðuleg leið til að endurreisa efnahag Ísland. - Súrrealísk reyndar. 


mbl.is Stöndum ekki undir skuldabyrði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

AGS sem Intrum?

Hefur Icesave "skuldin" verið send í innheimtu hjá AGS?

Átti AGS áætlunin ekki að vera til stuðnings Íslandi?

Átti AGS og Icesave deilan ekki að vera sitt hvor hluturinn?

Eða er skortur á aðgerðum innanlands að trufla afgreiðslu lánsins?

Og af hverju fáum við alltaf fréttir af Íslandi frá fjölmiðlum í útlöndum?

Þetta kallar á skýringar...


mbl.is Afgreiðslu AGS frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styrkir aðildarumsóknin gengið?

Því var haldið fram að umsókn um aðild að ESB myndi strax styrkja gengi krónunnar enda væri þá mörkuð stefna í gjaldeyrismálum. Krónan fengi því styrk af umsókninni. Nú hefur umsókn verið samþykkt af Alþingi, ríkisstjórn og verið tekin fyrir á methraða af ráðherranefnd ESB og samþykkt. Reyndar hefur þetta gerst svo hratt að Hollendingar jafnt sem ríkin á Balkanskaga hafa verið ósátt. Hvað þá Tyrkir sem enn bíða.

Það sem hefur hins vegar gerst er að gengið hefur frekar veikst og er nú veikara en nokkru sinni á þessu ári og er evran nú tíu krónum dýrari en í maí. Hvernig skýra menn þetta?


Skólabókardæmi?

Ekki er ólíklegt að Icesave samningarnir rati í skólabækurnar. "Case-study" aðferðin sem er notuð víða í háskólum fær hér kjörið hráefni og nemendur geta svo spreytt sig á samningatækni. Reyndar er þetta mál líka skólabókadæmi í þjóðarrétti og sennilegast gott dæmi í þjóðhagfræði þar sem reiknað er út hvað íslenska þjóðin þolir.

Verst að þetta er raunveruleikinn...


mbl.is Breski tryggingasjóðurinn leystur undan ábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afkoman verður að standa undir skuldum

Það gildir það sama um heimili og fyrirtæki eins og sveitarfélög: Afkoman verður að standa undir skuldabyrðinni. Örfá sveitarfélög hafa reyndar meiri fjármagnstekjur en fjármagnsgjöld og slík sveitarfélög eru því með sannkallaðan "sveitarsjóð". A-hluti sveitarfélaga er sá rekstur sem rekinn er af skattfé og þar er því miður oftar skuld frekan en sjóður. Í sumum tilfellum er ekki afgangur af rekstri í afborganir jafnvel ekki afgangur upp í vaxtagreiðslur en það ætti öllum að vera ljóst að slíkur rekstur gengur aldrei lengi.

Kreppan sem við upplifum er að miklu leyti skuldakreppa. Heimurinn hefur skuldsett flest en Íslendingar eru reyndar í sérflokki. Kalíforníufylki er í þeirri stöðu að þurfa að greiða með "IOU" (ég skulda þér) skuldaviðurkenningum í stað peninga. Þar hefur það gerst að fyrirtæki, heimili og sveitarfélög hafa verið skuldsett í fasteignabólu. Nú er komið að skuldadögum og ekki hefur náðst samstaða um sparnaðaraðgerðir hjá stjórnmálamönnum.

Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig rekstur sveitarfélaga þróast á næstunni þegar forgangsröðun skiptir miklu og gæluverkefni geta verið háskaleg fjárhagslegri heilsu þeirra. 


mbl.is Sveitarsjóðir í athugun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2 milljarðar í lögfræðikostnað vegna...Bretana!

Alltaf kemur Icesave meira og meira á óvart. Nú er fullyrt að íslenska ríkið eigi að taka á sig útlagðan kostnað breskra stjórnvalda en þar er um að ræða 2ja milljarða lögfræðireikning!

Nokkrar spurning vakna (fyrir utan hvers vegna þingið ætti að samþykkja óskapnaðinn):

a) Vissu þingmenn af þessu?

b) Hver er lögfræðikostnaður Íslendinga?

c) Hvernig á að fjármagna þetta? (lána Bretar fyrir þessu líka?)

 


Erlent eignarhald á íslensku bönkunum

Sú niðurstaða að kröfuhafar Glitnis og Kaupthings eignist Íslandsbanka (hinn 3.) og nýja Kaupthing er í aðalatriðum heppileg. Þessir samningar eru þó því marki brenndir að vera svo stórir og svo lítið er vitað um "smáatriðin" sem geta verið ansi stór.

Það var draumur Einars Ben. að hér myndu erlendir bankar setja upp starfsstöðvar. Við sölu ríkisbankana var talað um erlent eignarhald en eins og komið hefur í ljós var það fjármagnað nær eingöngu frá Fróni. Og stór hluti með láni frá bönkunum sjálfum. Eftir einkavæðingu tóku bankarnir til við að opna dótturfyrirtæki og (því miður) útibú. Draumur Einars rættist því ekki þetta skiptið en í staðinn endaði "ævintýrið" í martröð. Nú eru hins vegar líkur á að erlendir aðilar eignist tvo stóra banka á Íslandi. Einkavæðingin gekk þó öðru vísi fyrir sig í þetta skiptið en hún hófst með uppboðum á skuldum bankanna og henni líkur í árslok ef allt gengur upp þegar kröfulýsingum líkur.

Það sem snýr að heimilum og fyrirtækjum er svo spurningin um hvers konar stefnu nýir eigendur muni kappkosta. Munu þeir fara þá leið að afskrifa skuldir eða einblína á að innheimta þær að fullu?

Eitt er víst að hér skapast von um að aðgangur að erlendu fjármagni opnist á ný. Sú staða að Orkuveita Reykjavíkur og Landsvirkjun geti ekki fjármagnað sig eðlilega er slík pattstaða að öll plön Seðlabanka, AGS og ríkisins eru sett upp í loft. Hér getur eignarhaldið hjálpað enda verða hagsmunir kröfuhafa og þjóðfélagsins að mörgu leyti þeir sömu.


Minnir á Öryggisráðið...

Sendiherra Íslands í Svíþjóð fór með umsókn um inngöngu í ESB með hraði. Sumir stjórnmálamenn eru bjartsýnir og telja bæði málið breyta miklu og að það muni ganga vel.

Einhvern veginn fæ ég samt svipaða tilfinningu með þessa umsókn og framboð Íslands í Öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna síðasta haust. Þá voru miklar væntingar um að Ísland ynni þær kosningar. 

Kostaði framboðið ekki svipað og umsóknin; 1-2 milljarða?


mbl.is Andsnúnir inngöngu Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Islandia (óskalandið)

Miklar væntingar hafa verið keyrðar upp vegna umsóknar um aðild að Evrópusambandinu. Hætt er við að vonbrigðin verði jafn mikil og í sömu hlutföllum.

Ég hef enga trú á því að ásættanleg samningsdrög náist enda er reynsla undanfarinna mánuða af samninganefnd Íslands um Icesave fordæmi sem ætti að kenna okkur lexíu. Sífellt tal um að Ísland verði að vera þjóð meðal þjóða missir marks þegar hagsmunir Íslands eru fótum troðnir af "vinaþjóðum".

With friends like these...who needs enemies?

Þessi niðurstaða á þingi þýðir að vinstri stjórnin verður að starfa áfram og takast á við fjárlagahallann á meðan umsóknin er í ferli og vinnslu. Sú aðferð að rétta af hallan (tapið) með skattahækunum er jafn óraunsæ og viðskiptamódel útrásarvíkinga. Hærri skattprósenta minnkar skattstofna eins og ofveiði fiskistofna enda er með þessu verið að sjóða útsæðið. Hækkun á skattprósentum skilar sér vel í reiknilíkunum enda endar með minni umsvifum og fækkun starfa. Það gildir það sama með þá sem reikna upp skattekjur og ímyndaðan hlutabréfahagnað að margur telur sig ríkan í Excel. 


"Glæsileg" samningsstaða

Nú hefur komið fram að AGS og nú ESB er beitt sem einskonar Intrum gagnvart Íslandi vegna skulda einkarekinna banka. Því meira sem við eigum undir þessum stofnunum þess veikari erum við.

Finnst einhverjum þetta vera "glæsileg" samningsstaða? Eða góður tímapunktur til að sækja um aðild?

ESB þingmenn hafa greinilega það sjónarmið að við séum ekki gjaldgengir í umsóknarferilinn hvað þá meira. Hvað sem mönnum finnst um tengingu Icesave og ESB er greinilegt að það tengja menn á Evrópuþinginu. Það er því ekkert óeðlilegt að þingmenn Borgarahreyfingarinnar skuli tengja þessi mál á íslenska þinginu. 

En hver eru samningsmarkmið ríkisstjórnarinnar? Hefur einhver séð þau?


mbl.is Líst illa á inngöngu Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leið Svisslendinga - leið Íslendinga

Sú leið að kjósa um aðildarviðræður á sér fordæmi í því ágæta landi Sviss. Það kom mér á óvart að Baldur Þórhallsson varaþingmaður Samfylkingarinnar og stjórnmálafræðingur skuli neita þessu í Kastljósi í kvöld og halda því fram að engin þjóð hafi fengið að koma að slíkri ákvörðun.

Hér eru fréttir af atkvæðagreiðslunni í Sviss:

http://www.fco.gov.uk/en/about-the-fco/country-profiles/europe/switzerland?profile=intRelations&pg=4 

http://news.bbc.co.uk/2/hi/europe/1201133.stm 

Það er ekki tilviljun að þær þjóðir sem best hafa séu utan ESB. Hér er ég að vísa til Noregs, Sviss og Íslands. Það er sorglegt að horfa upp á ráðamenn þjóðarinnar stefna á umsókn án skýrra samningsmarkmiða. Icesave samningurinn sýnir best hvað það gefur af sér.

Þá er stórundarlegt að þingsályktunartillaga stjórnarinnar skuli gera ráð fyrir að íslenska þjóðin verði látin taka þátt í "ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu". Sem sagt ekki bindandi atkvæðagreiðslu.

Ég minni á reynslu manna af atkvæðagreiðslum um málefni á Íslandi svo sem í flugvallarmálinu hjá R-listanum.


Afsökunarbeiðni með vöxtum

Þingmennirnir sem vógu að starfsheiðri lögfræðinga Seðlabankans skulda afsökunarbeiðni og hana með Icesave vöxtum.

Það er ekki léttvægt að Alþingi skuli vera notað sem hótunarvettvangur gagnvart opinberum starfsmönnum. Sem starfa auk þess fyrir stofnun sem á að vera sérstaklega sjálfstæð gagnvart stjórnvöldum.

Tilraun stjórnarliða til að sverta Seðlabankann vekur athygli erlendis enda virkar þetta sem stjórnleysi eða örvænting. Það er auk þess grafalvarlegt að verið sé að draga úr varnaðarorðum embættismanna á sama tíma og Alþingi er að taka ákvörðun um þetta stóra mál.

Nú er að sjá hvort þingmennirnir og formaður samninganefndarinnar biðjist afsökunar eða lausnar.

----

Fyrir þá sem hafa áhuga á efnisatriðum þessa máls má benda á nokkur lykilatriði í umsögn SÍ hér að neðan en þar kemur vel fram hvað samningurinn er slakur (fyrir Ísland):

Samningurinn er einkaréttarlegs eðlis og eru ákvæði í honum sem ekki eru vanaleg í hefðbundnum lánasamningum sem ríkið er aðili að. Æskilegt hefði verið ef þjóðréttarleg staða íslenska ríkisins hefði verið betur tryggð.

Vilji íslenska ríkið freista þess að taka upp samningana að nýju miðast sú endurupptaka við það að nýjast úttekt IV. greinar AGS á stöðu Íslands að skuldaþoli ríkisins hafi hrakað til muna miðað við mat AGS frá 19. nóvember 2008.

Hugsanlegar breytingar vegna Brussel-viðmiðanna frá því í nóvember 2008 fá ekki sams konar meðferð.
Seðlabankinn telur æskilegt að ákvæði um meðferð á kröfuhöfum Landsbankans hefði verið skýrara þar sem ekki sé ljóst hvað átt sé við með því ákvæði.

Lánveitendum er tryggður sami réttur og hugsanlegir framtíðarlánveitendur vegna fjármögnunar á kröfum innstæðueigenda hjá íslenskum banka ef þau kjör reynast hagstæðari en samið er um í Icesave-samningunum. Reyni á ákvæðið getur slíkt leitt til breytinga á kjörum lánasamninganna.

Æskilegt hefði verið að skilgreiningin á þeim skuldbindingum sem valdið geta gjaldfellingu hefði verið skýrari þar sem gjaldfelling á öðrum skuldbindingum sem ríkið er í einfaldri ábyrgð fyrir, þótt ólíkleg sé, virðist geta valdið gjaldfellingu á Icesave samningunum.

Athygli vekur að bresk lög og lögsaga gilda ekki eingöngu um ágreiningsefni sem upp kunna að rísa beinlínis vegna samninganna heldur einnig atriði í tengslum við samningana hvort sem þau réttindi sem þau byggjast á eru innan eða utan samninga. Þá geta lánveitendur einnig að því marki sem lög heimila höfðað mál samtímis í mörgum lögsögum.

Afsal á ríkisins varðandi lögsögu og fullnustu er víðtækara en hefðbundið er. Seðlabankinn og eigur hans njóta þó friðhelgi skv. breskum lögum. Íslenska ríkið nýtur einnig friðhelgi skv. Vínarsamningnum frá 1961 um stjórnmálasamband og því gildir meginreglan um að diplómatar og eignir sem nauðsynlegar eru vegna sendiráða njóti verndar fyrir íhlutun eða aðför.


mbl.is Stendur með lögfræðingunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vekur efasemdir um faglega hæfni samninganefndarinnar

Fram hefur komið að Seðlabankastjórinn sjálfur mætti með tvo lögfræðinga úr Seðlabankanum á fund þingnefndarinnar. Álit Seðlabankans kom þar fram enda er bréfið skrifað á bréfsefni bankans af starfsmönnum hans. Nú er verið að beita starfsfólk Seðlabankans ódrengilegum þrýstingi af hálfu þeirra sömu stjórnarliða og settu sérstök lög til að bola burt yfirmönnum bankans. Þetta eitt og sér er ekki þinginu sæmandi.

Það sem réttara er að þessi gagnrýni lögfræðinga Seðlabankans á frumvarpið og samninginn vekur verulegar efasemdir um faglega hæfni samninganefndarinnar sem starfaði undir forystu Svavars Gestssonar. Nefndin ber ábyrgð á samningum og svo ríkisstjórnin sem hefur staðfest hann fyrir sitt leyti. Nú þarf Alþingi að taka ákvörðun og þá er ekki góð taktík að skjóta sendiboða. Slík skot eru voðaskot.

En fyrir þá sem vilja kynna sér minnisblað lögfræðinga Seðlabankans er rétt að benda á eftirfarandi slóð:

http://www.althingi.is/pdf/umsogn.php4?lthing=137&malnr=136&dbnr=601&nefnd=ut


mbl.is Vekur efasemdir um faglega hæfni Seðlabankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lyktin af pólítík

Árni Þór segir að "málið lykti af pólítík". Það er athyglisvert. Lögum var breytt með hraði til að losna við bankastjórana þar sem allt átti að vera svo faglegt. Þá var fenginn "ópólítískur" samningamaður Svavar Gestsson sem dreif í að semja við Breta. Nú þegar gagnrýni kemur úr mörgum áttum um samninginn er sú gagnrýni talin "lykta af pólítík". 

Ég fagna gagnlegri gagnrýni enda enn ekki komnar fram endanlegar lyktir þessa óheillamáls. 

Er ekki rétti tíminn til að hætta í skotgröfunum og fara yfir málið með hagsmuni okkar sem þjóðar hreint og klárt? 


mbl.is Ekki formleg umsögn Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snýst ekki um Davíð

Þetta mál er þannig vaxið að það á ekki að snúast um flokkspólítík, ekki að vera aðgöngumiði að ESB og allra síst að verða persónulegt. Það er dapurlegt hvernig umræðan hefur farið hér á lægsta plan og margir geta til að mynda ekki hlustað á rök Davíðs Oddssonar vegna þess einfaldlega að hann er Davíð Oddsson.

Það var vel orðað hjá Davíð að ekki ætti að gera einfalt mál flókið. Það er líka laukrétt að talsmenn og ríkisstjórn Íslands á að verja hagsmuni Íslands. Það gerðu menn í sjálfstæðisbaráttunni, landhelgismálinu og í fjölmörgum málum. Ég nefni bara flökkustofna við Íslandsstrendur sem nýlegt dæmi. En í þessu risastóra máli keppast menn um að halda fram rökum erlendu kröfuhafanna. Málið snýst ekki um Davíð Oddsson. Það snýst um að halda fast og rétt um hagsmuni og réttindi íslensku þjóðarinnar.

Þátturinn var almennt vel unninn og til fyrirmyndar.


mbl.is Engin ríkisábyrgð á Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband