Þetta má ekki liggja óhreyft

Ríkisstjórnin hlýtur að bregðast við þessum tíðindum. Ríkisstjórnin sem sat á undan hélt því fram að AGS tengdi málin ekki enda er slíkt ósiðlegt og óeðlilegt.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn á ekki að vera einhvers konar Intrum fyrir einstakar þjóðir vegna einstakra innheimtumála. Sem eru auk þessu afar umdeild.
Starfsmennirnir bregðast hér rétt við.

Nú þurfa íslensk stjórnvöld að taka málið upp og bregðast þannig við þessar ósvinnu sem hér er komin fram.


mbl.is Starfsmenn AGS mótmæltu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvissan um Icesave - vissan um skuldina

Samningarnir umdeildu sem nú liggja fyrir Alþingi setja alla óvissu á Ísland. Þegar horft er til þess hve margþætt óvissa er í endurheimt eigna Landsbankans og forgangsröðun krafna finnst flestum þetta bersýnilega ósanngjarnt. Látum vera lögfræðileg rök og pólítísk. Óvissan um heimturnar hefði þurft að ígrunda betur. Í upphafi var talað um mögulegt tap og þá gleymdust vextirnir. Nú hafa menn á borð við Ragnar Hall bent á vankantana í uppgjörinu. Svo bíða kröfuhafar í hundruðatali sem freista þess að hnekkja neyðarlögunum.

Allt er þetta óvissa. 

Það eina sem er öruggt í samningnum er skuldin sem Ísland tekur á sig.


Bjartsýni er þörf þegar svartast er

Á sama hátt og nær allir fylltust óraunsærri bjartsýni á uppgangstímum er jafn hættulegt ef langflestir fyllast svartssýni á krepputímum. Hjarðhegðunin fer illa með læmingjana og vont getur versnað ef allt snýst um það neikvæða. Aldrei fyrr í lýðveldissögunni hefur verið eins mikilvægt að vonarneisti sé kveiktur. En því miður hefur glætan aldrei sýnst minni.

Ef bankar vilja ekki lána, stjórnvöld taka ekki ákvarðanir og fólk þorir ekki að kaupa neitt er það í sjálfu sér 100% trygging fyrir alvarlegri kreppu. Það þarf ekki einu sinni hlutabréfahrun, gjaldeyriskreppu eða atvinnuleysi til. Vantraustið á Íslandi er að verða óbærilegt. Bankar treysta ekki fólki né fyrirtækjum og fólk treystir ekki bönkum. Fáir treysta stjórmálamönnum og athafnamenn eru litnir hornauga. Mikið af þessu vantrausti er ekki óeðlilegt. Sumt verðskuldað.

En almennt og viðvarandi vantraust er lamandi og eyðileggjandi fyrir allt þjóðfélagið. Fyrir stuttu var það alveg á hinn veginn; við vorum best, fallegust, sterkust og "stórust". Þessar öfgar í ökla og eyra eru of miklar. Núna þegar krónan er í sögulegu lágmarki og skuldir þjóðarinnar skuggalegar þurfum við á öllu okkar að halda og ekkert minna.


Frjáls markaður er verstur - fyrir utan hin kerfin

Margir hafa haldið því fram að nú sé kapítalisminn endanlega dauður. Fjármálarhrun um heim allan hefur valdið því að menn hafa gefið upp von. Ríkið hefur dælt peningum í hagkerfið, keypt hafa verið hlutbréf í bönkum og svo hafa þing samþykkt "stimulus" pakka í allt og ekkert. Hér á Íslandi er ríkið fyrst og fremst upptekið við að hækka skatta og forðast niðurskurð í ríkisrekstri og er það slíkt einsdæmi að þess er ekki langt að bíða að þessi leið verði kölluð "Íslenska leiðin" ef svo fer sem horfir. Vandinn við skattekjurnar er sá að þó þær séu sannanlega til í Excel er ekki víst að þær skili sér. Skattbyrðar eru það síðasta sem Íslendingar þurfa nú og munu þær því fækka störfum. Skattlagning verður aldrei lausn enda er það ekki ríkið sem skapar útflutningstekjur með skattheimtu. Ríkið er yfirbygging en ekki undirstaða. Þessu megum við aldrei gleyma.

Churchill sagði eitt sinn að lýðræðið væri versta form stjórnkerfis - fyrir utan öll hin.
Sama má segja um frjálsan markað - enda er hann stórgallaður: Hann er versta viðskiptaumhverfið...fyrir utan öll hin.


Málfrelsi

Sem betur fer er enn málfrelsi á Íslandi. Davíð hefur fullan rétt á að tala þótt sumum þyki það óþægilegt.
Í hruninu í Október þótti mönnum óþægilegt þegar Davíð Seðlabankastjóri tjáði sig.
Nú þegar hann er ekki lengur embættismaður má hann heldur ekki tala.

Já og svo var víst kosið um Icesave í þingkosningunum. . .


mbl.is Ósvífin og ódýr afgreiðsla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ekki er það gott...

Þetta mál á ekki að snúast um flokkspólítík enda er fólk með ólíkar skoðanir á þessu í ýmsum flokkum. Þetta mál er hins vegar hápólítískt bæði varðandi stöðu Íslands sem ríkis og þjóðarinnar til framtíðar. Ég hef aldrei skilið af hverju ríkið er að taka á sig þessar skuldir Landsbanka Íslands hf. Hryðjuverkalögunum var misbeitt af Bretum en nú hefur þeim verið aflétt af þeim sjálfum enda varla stætt á öðru.

Bretar sjálfir mismuna innistæðueigendum meðal annars landfræðilega þar sem þeir greiða ekki innistæður á Guernsey. Lagarök fyrir því að skuldsetja Ísland með þessum hætti eru því í besta falli hæpin.

Nú berast af því fregnir að matsfyrirtækin vilji lækka lánshæfismat Íslands. "Glæsilegur" Icesave samingur virðist ekki vera fegra myndina nema síður sé.

Alþingismenn eru bundnir við samvisku sína og stjórnarskrá. Ég er viss um að þeir hugsa málið vel áður en þetta gengur í gegn. Trúi ekki öðru.


mbl.is Icesave kostar minnst 300 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

úps...

Oft fóru kosningar þannig í Sovét að það var 100%. Ég man þó ekki eftir að það hafi verið yfir 100%. Þó getur það verið.

Þáttakan er meiri en 100% í Íran og sýnir það væntanlega mikinn áhuga á lýðræðinu...


mbl.is Fleiri atkvæði en kjósendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eignaumsýsla á réttri leið?

Fyrstu hugmyndir um Eignaumsýslufélag ríkisins voru ekki kræsilegar. Ríkið hefur marg sannað það að því gengur ekki vel að hugsa fyrir aðra og reka hin og þessi fyrirtæki. Sú staða sem nú er uppi með skipbroti útrásarvíkinga afsannar ekkert í þessum efnum. Staðreyndin er engu að síður sú að bankar og fjöldi fyrirtækja hafa nú rekið á fjörur ríkisins og þar þarf að taka á.

Stefnu um hvert skuli fara með þessar eignir skortir á Alþingi og þarf fyrst að móta stefnuna áður en ný ríkisfyrirtæki eru stofnuð. Samræmingarhlutverkið er þó mikilvægt strax í upphafi enda er sterk krafa um gagnsæi og jafnræði.


mbl.is Eignaumsýslufélag tekur hamskiptum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Banka menn

Það væri óskandi að hér kæmu erlendir aðilar að bankastarfssemi. Það myndi auka valkosti og opna dyr til umheimssins. Staðan í dag er hörmuleg eins og allir vita. Landið er einangrað fjárhagslega og því mikilvægt að stíga skref í á að því að opna landið með þeim leiðum sem færar eru.

Það er jákvætt (eins og Bubbi segir) að nú sé bankað á dyr.


mbl.is Erlendir bankar sýna Íslandi áhuga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattaverðbólgan 2. kafli

Þá liggur fyrir að neysluskattar verða hækkaðir á mat og drykk. Þessi hækkun er í kjölfar bensín, áfengis og tóbakshækkunar. Eins og sú fyrri mun þessi hækkun hækka lán landsmanna enn og aftur.

Heimili og fyrirtæki skera niður. Verslanir lækka verð eins og unnt er en skattagjaldskráin er skrúfuð upp.


Páll Bergþórsson fær stuðning við niðurstöður sínar

Páll Bergþórsson hefur víða komið að merkum rannsóknum eins og menn þekkja. Hann hefur birt greinar þar sem hann framreiknar áætlaða hækkun sjávarborðs og hefur fundið samsvörun (correlation) við hitastig sjávar aftur í tímann. Skemmst er frá því að segja að hann hefur ítrekað talið spá IPCC og Sameinuðu Þjóðanna verið vanáætlaða um að minnsta kosti 100%. Nú er sagt frá því á Bloomberg að vísindamenn séu að komast að nákvæmlega sömu niðurstöðu og telja nú að sjávarborð hækki um einn metra - eins og Páll:

http://bloomberg.com/apps/news?pid=20601124&sid=afmw1nT6inhA


Þingmenn frétta mál úr "fréttum"

Ég hef heyrt marga þingmenn kvarta yfir því að fá lítið að vita. Á þetta við um síðasta vetur jafnt sem nú. Stórt mál eins og Icesave virðist eiga að vera samþykkt blanco af Alþingi. Löggjafinn er þá þiggjandi frétta og ábyrgðargjafi sem veit ekki hvað hann er í raun að setja í lög. Það er sérstaklega neyðarlegt þegar fjölmiðlar eru að birta trúnaðargögn sem enginn skilur í hvers vegna eru bundin leynd. Nú er komið fram að vanefndir verða lagðar fyrir enska dómara og virðast allar eigur íslenska ríkisins vera aðfarahæfar samkvæmt þessari frétt. Ekki er minnst á fyrirvara svo sem vegna neyðarlaganna en vonandi eru þeir skýrir.

Ég trúi ekki öðru en að samningurinn verði lagður fyrir Alþingi. Eða á að gera Alþingi algerlega óþarft?


mbl.is Enskir dómstólar skera úr Icesave-deilum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

17. júní 2009 framundan

Lýðveldið er ekki gamalt. Reyndar vorum við lengi að fá sjálfstæðið og fengum það í skömmtum yfir hálfa öld. Nú er vegið að sjálfstæði Íslands (eins og oft vill verða þegar á bjátar hjá þjóðum). Fullt sjálfstæði fengum við loks þegar Þjóðverjar hernámu Danmörku. Lausnin við hvers kyns vanda okkar nú segja sumir felast í inngöngu í ESB.

Frelsi fylgir ábyrgð og því höfðu margir gleymt. "Ég vil meira frelsi" söng technobandið Mercedes. "Frelsið er yndislegt" sagði Nýdönsk og svo voru fyrirframgreidd símakort ýmist kölluð "Frelsi" eða "Talfrelsi". - Samtíminn varð einnota og allt var til sölu.

Á morgun er fyrsti þjóðhátíðardagur eftir hrun. Það er gott að nota hann í að íhuga vel hvað við getum gert betur. Án þess að gefast upp. Tækifærin fyrir Ísland eru meiri en fyrir langflest ríki heims. Illa ígrundaðir samningar við erlendar þjóðir eru ekki það sem við þurfum. Mikilvægast er að efla atvinnuvegina og til þess höfum við alla burði. Eitt það mikilvægasta er að ná ríkissjóði og sveitarfélögunum hallalausum því þegar hið opinbera sogar til sín mest allt lánsfé verða vextir óhjákvæmilega háir áfram og allt þarf það að greiðast af sköttum framtíðarinnar.

Gjaldeyrisskapandi framleiðsla er það mikilvægasta í stöðunni til að við náum að vaxa á ný. Og umfram allt verður að varast að gefast upp. Það reynir fyrst á í mótlæti og þá er mikilvægt að við sjáum ljósið og vinnum saman í að efla undirstöðurnar. Skyndilausnir IMF, ESB, lánalínur og Icesave kúlulán leysa ekki þau mál þótt einhverjir samningar kunni að vera ill nauðsyn.

Ný lán leysa ekki skuldir nema í skamman tíma. Öll þessi lán sem er verið að taka hjá þessum aðilum þarf víst að greiða á endanum og það verður ekki gert nema með gjaldeyri fengnum með útflutningi.


Ritningarlestrar dagsins eiga vel við...

Lexía: Mík 6.6-8

Hvað á ég að koma með fram fyrir Drottin,
fram fyrir Guð á hæðum?
Á ég að koma fram fyrir hann með brennifórnir,
með veturgamla kálfa?
Hefur Drottinn þóknun á þúsundum hrúta
og tugþúsundum lækja af ólífuolíu?
Á ég að fórna frumburði mínum fyrir synd mína,
ávexti kviðar míns fyrir misgjörðir mínar?
Maður, þér hefur verið sagt hvað gott er
og hvers Drottinn væntir af þér:
þess eins að þú gerir rétt,
ástundir kærleika
og þjónir Guði í hógværð.

Pistill: 1Tím 6.17-19

Vara ríkismenn þessarar aldar við að hreykja sér og treysta fallvöltum auði, bjóð þeim heldur að treysta Guði sem lætur okkur allt ríkulega í té sem við þörfnumst. Bjóð þeim að gera gott, vera ríkir að góðum verkum, örlátir, fúsir að miðla öðrum, með því safna þeir handa sjálfum sér fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna og munu geta höndlað hið sanna líf.

Guðspjall: Lúk 12.13-21

Einn úr mannfjöldanum sagði við Jesú: „Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum.“
Hann svaraði honum: „Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur?“ Og hann sagði við þá: „Gætið ykkar og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé.“
Þá sagði Jesús þeim dæmisögu þessa: „Maður nokkur ríkur átti land er hafði borið mikinn ávöxt. Hann hugsaði með sér: Hvað á ég að gera? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum. Og hann sagði: Þetta geri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum. Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.
En Guð sagði við hann: Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð og hver fær þá það sem þú hefur aflað? Svo fer þeim er safnar sér fé en er ekki ríkur í augum Guðs.“

Sálmur: 179

Hvað stoðar þig allt heimsins góss og gæði
og gull og silfur, skart og dýrleg klæði,
er ber þú utan á þitt dauðlegt hold?
Hvar liggur það, þá líkaminn er dauður
og langt frá öllu prjáli hvílir snauður
í myrkri mold?

Veist þú þá ei, að dómsins lúður dynur,
þá djásnið fölnar, veldisstóllinn hrynur
og gullkálfurinn hjaðnar eins og hjóm?
Veist þú þá ei, að ekkert gildi hefur
öll auðlegð heims og neina bót ei gefur
við Drottins dóm?

Vor auðlegð sé að eiga himnaríki,
vor upphefð breytni sú, er Guði líki,
vort yndi' að feta' í fótspor lausnarans,
vor dýrðarskrúði dreyrinn Jesú mæti,
vor dýrlegasti fögnuður og kæti
sé himinn hans.

Sb. 1886 - Valdimar Briem


"Örvum atvinnulífið"

Á meðan víða er verið að verja fjármunum ríkja í örvun atvinnulífisins með svokölluðum "stimulus" aðgerðum eru álögur hækkaðar á neysluvörur, skattar hækkaðir og vextir í hæstu hæðum á Íslandi.

Ef skoðaðar væru aðgerðir ríkis og Seðlabanka á Íslandi myndu flestir ætla að hér væri of mikil þensla sem þyrfti að ná tökum á með öllum meðölum. Eins og allir vita er staðan einmitt allt önnur og hér eru fjöldagjaldþrot og gríðarleg aukning á atvinnuleysi.

Ráð ríksins ættu að vera þau að lækka álögur og stuðla að vaxtalækkunum í stað þess að þyngja byrðarnar. En hvernig stendur á því að það er ekki gert? Stærsta svarið liggur í stórfelldum kostnaði við ríkisreksturinn sem er enn eins og það sé árið 2007. Nær ekkert hefur verið gert til að skera niður og er ríkið langt á eftir fyrirtækjunum í aðhaldsaðgerðum. Að ekki sé minnst á heimilin.

Í staðinn er vaxandi halli (tap) á ríkissjóði sem eingöngu verður fjármagnaður með lánum. Þær lántökur halda uppi háum vöxtum og minnka möguleika fyrirtækja til lántöku.

Örvum atvinnulfíð sagði einhver.
Sláum skjaldborg um heimilin...


mbl.is Rætt um 8% aukaskatt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérstakt

ESB og Icesave málin eru stærstu málin á borði ríkisstjórnar og Alþingis. Bæði málin virðast undarlega undirbúin og engu líkara en ríkisstjórnin sé ekki búin að vinna tillögum sínum þingmeirihluta áður en samningar og tillögur eru settar fram. Þetta er nokkuð nýtt. Reyndar nokkuð sérstakt líka.
mbl.is Sjálfstæðismenn til bjargar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðar og slæmar fréttir

Olían er ákveðinn hitamælir á ástand heimsins. Óttinn við samdrátt víkur að hluta til fyrir óttanum um verðbólgu. Greenspan nefndi síðustu bók sína "the Age of Turbulence" eða "Óróaskeið". Sveiflur á fjármálamörkuðum eru ekki tilviljun heldur eins konar jarðskjálftar vegna misgengis. Kína og Bandaríkin eru hér stærstu breyturnar enda mjög háð hvort öðru í ógnarjafvægi fjárlagahalla og vöruskiptaójafnaðar.

Það að olían sé komin yfir 70 bendir til verðbólgu enda er aukið peningamagn að segja til sín. Hitamælirinn segir ákveðna sögu. Þetta eru bæði góðar og slæmar fréttir. Heimskreppunni kann að vera að linna en jafnframt bendir þetta til verðhækkanna sem koma þeim verst sem minnst mega sín. 


mbl.is Olíuverð yfir 71 dal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framvirkur samningur með kúluláni

Mér sýnist hér vera um að ræða "framvirkan samning" eða afleiðuviðskipti íslenska ríkisins. Áhættan er hjá íslenska ríkinu og fellst hún meðal annars í eftirfarandi þáttum:

a) Skuldasafn Landsbankans reynist lítils virði. 

b) Neyðarlögum verði hnekkt og eignir minnki verulega.

Þessu til viðbótar er svo áhætta vegna lánshæfismats ríkisins og íslenskra aðila vegna risaábyrgðar Icesave. Áhættan er allt að 896 milljörðum árið 2016 í peningum sem fjármagnað er með kúluláni. Þetta er kallað "skjól" og er það nýtt hugtak yfir það sem kallað var "kúlulán" á útrásartímanum. 896 milljarðar fara langt í að vera þjóðarframleiðsla okkar árið 2016 ef svo fer fram sem horfir. Hér er samið um greiðslur í erlendri mynt og því rétt að halda því til haga.

Allt þetta Icesave mál er hið dapurlegasta en það er ekki fyrr en nú að íslenska ríkið er að yfirtaka skuldbindingarnar og þá með þessum hætti. Átti þetta ekki að vera "glæsileg niðurstaða"?

 

 


mbl.is Hagkerfið kemst í skjól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband