Dýr aðgangsmiði

Eitt af skilyrðum ESB landanna fyrir aðildarviðræðum Íslands virðist vera að Íslendingar undangangist 650 milljarða ábyrgð á Icesave skuldum Landsbankans. Þetta er mér illskiljanlegt mál en þó sérstaklega sá vilji margra stjórnmálamanna að keyra slíka skuldbindingu í gegn án þess að látið sé á hana reynt fyrir dómstólum.

Vaxtagreiðslan ein og sér er 35 milljarðar á ári en afborganirnar eru þá eftir. Eina von manna er að Landsbankinn hafi lánað traustum aðilum með góðum veðum en áhættan verður öll ríkisins og þjóðarinnar. Gjaldeyrisútsreymi vegna þessa gjörnings kann að verða meira en mögulegur vöruskiptajöfnuður næstu 15 ára. Hvaða áhrif hefur það?

Lög um tryggingarsjóði innistæðueigenda eru byggð á tilskipun ESB og lögfest hér í krafti EES samningsins. Þessi sjóðir eru trygging fyrir bankagjaldþrotum en er ekki hugsuð sem ríkisábyrgð. Mörg mistök hafa verið gerð en það er dapurt ef það þarf að flýta sér að gera vondan samning til þess eins að fá að ræða við ESB um mögulega umsókn Íslands að Sambandinu.

Dýr myndi Hafliði allur.

 


Góður útskriftardagur um Hvítasunnuna

Ekki var farið í langferðalag um Hvítasunnuna. Í staðinn var 2ja ára ferð lokið; MBA náminu í HR. Úskriftin var í senn glæsileg og innblásin. Útskrifarræðurnar fjölluðu enda mikið um ferðalög. Margrét Pála hélt hátíðarræðu og minnti okkur á aðalatriðin og óskaði okkur til hamingju með krefandi tíma. MBA 2009 hópurinn hóf námið haustið 2007 og fékk að njóta leiðsagnar alþjóðlegs hóps prófessora á mikilum umbrotatímum. Fyrir það er ég þakklátur.


Skattaverðbólgan lögfest - 8 milljarðar til skuldabréfaeigenda

Með hækkunum á álögum á neysluvörur er ríkið að auka skuldabyrði heimilanna. Verðtryggð lán eru talin hækka um 8 milljarða á næstu dögum vegna þessarar ákvörðunar. Með þessu er ríkið að hækka verðbólguna í landinu þar sem vörurnar eru í neysluvísitölunni - og þannig hækka verðtryggð íbúðalán sem önnur verðtryggð lán.

Vilji ríkisstjórnarinnar er að fá um 4 milljarða í aukatekjur en þess ber að geta að þetta er spá sem kann að breytast ef neyslan minnkar. Skattarnir eru hugsaðir sem "neyslustýring" og eiga því að vera letjandi. Það er því nokkur þversögn að ætla óbreytta neyslu eftir verðhækkanirnar og því óvíst að milljarðarnir fjórir skili sér í ríkiskassan.

Það eina sem er öruggt er að neysluvísitalan hækka og lánin með. Skuldabréfaeigendur verðtryggðra pappíra fá því um 8 milljarða inneign hjá skuldurum um mánaðarmótin.


Heimssýn á Suðurlandi

Í gærkvöldi var góður fundur í Þingborg þar sem Heimssýn var með opinn umræðufund um ESB. Guðni Ágústsson var fundarstjóri og fluttu Atli Gíslason og Sigurður Jónsson framsögur auk mín. Tilefnið var heimsókn Norðmannana Dag Seierstad og Jostein Lindland. Boðskapur þeirra var skýr og fræðandi: Engar varanlegur undanþágur hafa verið í boði. Það sýnir reynsla Norðmanna.

Margt bendir til þess að erfitt verði að fá viðunandi samning - ekki síst í dag þegar nýjar þjóðir ESB búa við djúpa kreppu. Heimssýn eru mikilvæg samtök sem halda við umræðu um álitaefni og eru fundir sem þessir nauðsynlegir. Heimssýn á Suðurlandi verða aðildarfélag Heimssýnar.

Fundarmenn voru sammála um að samningsmarkmið verði að vera skýr enda næst ekki góður samningur ef menn hafa ekki skýr samningsmarkmið.

 


Nú þurfa allir - líka ríkið - að halda aftur af verðhækkunum

Fyrirhugaður sykurskattur hljómar vel sem fyrirbyggjandi aðgerð. Því miður er alls óvíst að hærri skattur leiði til minni neyslu en eitt er fullvíst: Hækkunin skilar sér í neysluvísitöluna.

Þeir þættir sem ríkið er að skoða að hækka eru meðal annars skatta á bensín, sykur, áfengi og tóbak. Allt er þetta gert í nafni neyslustýringar en því miður hækka þessar aðgerðir (ef af verður) lánin hjá heimilunum.

11,9% er ekki lítið.


mbl.is Árshækkun vísitölu neysluverðs 11,9%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna og sumarið

Það er svo sannarlega kærkomið að fá þennan góða árangur í Eurovision. Og sumarið komið. Það hafa linnulaust dunið á okkur daprar og neikvæðar fréttir núna í meira en hálft ár. Þessi helgi er sú besta í langan tíma. Jóhanna gerði mikið fyrir þreytta þjóðarsál.

- Nú þarf bara að klára þessi Icesave, IMF, EU og fjárlagamál...en það er önnur saga.


Skattaverðbólgan...

Neysluskattar eru í bígerð á ýmsa hluti sem ekki þykja heppilegir. Ríkið skattleggur í skjóli þess að verið sé að hafa vit fyrir fólki. Búast má við sköttum á bensín, áfengi, tóbak, gosdrykki og sjálsagt fleira.

Allir þessir skattar munu leggjast á almenning með tvennum hætti:

a) Með auknum kostnaði á einstaklinga og fjölskyldur.

b) Með aukinni verðbólgumælingu sem mælir skattinn sem verðhækkanir!

Það síðastnefnda er það allra sorglegasta þegar við sjáum víxlverkun ríkisverðbólgu og verðtryggingar. Jú og svo mun Seðlabankinn "verða að halda vöxtum háum" vegna hækkunar á verðbólgu.

Getur það verið að ríkisstjórnin ætli að fara búa til verðbólgu með sköttum??


Rekstur Árborgar - eigið fé brennur upp

Á bæjarstjórnarfundi í dag var fyrri umræða um ársreikning fyrir árið 2008. Skemmst er frá því að segja að tapið er mikið og stefnir í mikið óefni að óbreyttu. Rekstur bæjarsjóðs er 1,2 milljarðar í mínus og bæjarsamstæðan skilar hátt í 1,4 milljarðs tapi - fjórar milljónir dag hvern á síðasta ári.

Eigið fé minnkar um 55% og stendur nú í einum milljarði. Heilir 2,5 milljarðar bætast við skuldirnar sem nú eru um milljón á hvern íbúa í Árborg þegar eingöngu er litið á bæjarsjóð. Erlendar skuldir eru innan við 10% af skuldum sveitarfélagsins og er því langsótt að kenna henni um stöðuna.

Frávik frá áætlun eru gríðarleg en verst þykir mér að endurskoðuð áætlun sem staðfest var í bæjarstjórn 12. nóvember - 49 dögum fyrir áramót - er svo langt frá niðurstöðunni sem raun ber vitni. Munar hér um 450 milljónir!

Ekkert fé er afgangs í fjárfestingar, ekkert í afborganir og ekki einu sinni í vexti. Niðurstaða fyrir fjármagnsliði var neikvæð upp á 73 milljónir króna og því þarf að taka lán fyrir vöxtum og afborgunum. Enginn getur mótmælt því að þetta gengur engan veginn upp.

Á sama tíma birtir Vestmannaeyjabær niðurstöður þar sem reksturinn skilar 434 milljónum og eigið fé stendur nú í 3,5 milljörðum. Bæði sveitarfélögin seldu í HS árið 2007 með hagnaði.

Á fundinum mættu slökkviliðsmenn úr Brunavörnum Árnessýslu. Staða mála þar á bæ er sorgleg. Þrautþjálfaðir slökkviliðsmenn hafa sagt upp störfum og engin lausn er í sjónmáli. Að óbreyttu verður sett í gang neyðaráætlun þar sem BÁ mun þurfa að reiða sig á slökkvilið annara sveitarfélaga sem þurfa að senda menn um langan veg. Enginn veit hve lengi þetta neyðarástand getur varað enda tekur það fjölda ára að þjálfa slökkvilið. Fjárhagslegt tjón við að þurfa að þjálfa nýtt fólk skiptir tugum milljóna.

---

Já og svo voru kaup á Internetsíu rædd en meirihlutinn ákvað að setja 3 milljónir í að hefta aðgang starfsfólks að Facebook. Skólaferðalög og Skólahreysti liggja niðri vegna fjárskorts....


Verður "bindisskyldan" afnumin?

Óstaðfestar fréttir herma að skylda karlkyns alþingismanna til að vera með bindi verði afnumin. Er þetta umdeild bindisskylda þótt ekki sé hún álitin hafa mikil áhrif á efnahagsmálin. Sumir þingmenn hafa barist fyrir afnámi bindisskyldunnar en þessa dagana er verið að fara yfir siði og reglur þingmanna ekki síst þeirra sem nýir eru á þingi.

Nú er að sjá hvort eins auðvelt verði að afnema verðtrygginguna...


Jóhanna og Euro

Árangur Jóhönnu í Evrópumálunum er verðskuldaður. Hún hefur undirbúið sig vel og er fagmaður fram í fingurgóma. Lagasmíðin er mikilvæg og vönduð en túlkunin var ekki síðri. En grín og gamanlaust eru allir stoltir af Jóhönnu okkar í Moskvu í kvöld - hún stóð sig eins og hetja.

Nú er að sjá hvernig Jóhönnu gengur í lokakeppninni á laugardaginn! Áfram Ísland...


Síðasti dagurinn í MBA náminu - valkostir í peningamálum

Síðustu tvö ár hef ég átt þess kost að stunda MBA með frábærum hópi fólks víða að úr atvinnulífinu. Námið er bæði gagnlegt og skemmtilegt. Úrval alþjóðlegra kennara setur svip sinn á námið og er kennslan í besta gæðaflokki. -  Í gær var svo síðasti skóladagurinn minn.

Eitt af því sem hópurinn ræddi mikið var hrunið og endureisn Íslands. Hópurinn hóf nám haustið 2007 og útskrifast nú vorið 2009 og því er ekki óeðlilegt að mörgum steinum hafi verið velt í umræðum. Eitt af því sem kom út úr þessum umræðum er grein sem birtist í Morgunblaðinu 28. apríl síðastliðinn og fylgir hún hér:

 

Valkostir með mismunandi fórnarkostnaði

Frá hópi nema sem er í MBA- námi í HR

impossible tri 
Frá hópi nema sem er í MBA- námi í HR: "VIÐ ERUM 55 manna hópur víðs vegar að úr atvinnulífinu, sem lýkur í vor MBA-námi frá HR. Við viljum við freista þess að útskýra með skýrum hætti valkosti Íslendinga í peningamálum. Megininntak skilaboða okkar er að allir valkostir hafa kosti og galla."

 

VIÐ ERUM 55 manna hópur víðs vegar að úr atvinnulífinu, sem lýkur í vor MBA-námi frá HR. Við viljum við freista þess að útskýra með skýrum hætti valkosti Íslendinga í peningamálum. Megininntak skilaboða okkar er að allir valkostir hafa kosti og galla. Fórnarkostnaðurinn verður bara mismunandi eftir því hvaða leið er valin.

 

Grundvallarstaðreyndir

Það er ófrávíkjanleg staðreynd að ekkert ríki getur á sama tíma haft frjálsa fjármagnsflutninga, fastgengisstefnu og rekið eigin peningamálastefnu. Það gengur einfaldlega ekki upp og því verður eitthvað eitt af þessu þrennu ávallt að víkja. Ísland verður því að velja á milli eftirfarandi leiða:

1) Frjálsa fjármagnsflutninga og fastgengi með upptöku annars gjaldmiðils einhliða. A) Evra B) US$.

2) Frjálsa fjármagnsflutninga og fastgengi með upptöku evru með ESB-aðild.

3) Sjálfstæða peningamálastefnu með ISK og fast gengi, en hefta fjármagnsflutninga til frambúðar.

4) Sjálfstæða peningamálastefnu með ISK og frjálsa fjármagnsflutninga, en fljótandi gengi.

 

Íslenska krónan er ekki raunhæfur valkostur

Íslenska krónan er því miður ekki framtíðargjaldmiðill í hnattvæddum heimi ef Íslendingar vilja njóta góðra lífskjara og taka þátt á alþjóðlegum vettvangi. Kostir við að halda í krónuna:

* Sjálfstæð peningamálstefna og stefna í ríkisfjármálum Fórnarkostnaður miðað við fastgengisstefnu og höft á fjármagnsflutningum:

* Gjaldeyrishöft til framtíðar

* Lítil eða engin erlend fjárfesting

* Háir vextir vegna þess að Ísland verður talið áhættusamt land til fjárfestinga

* Hár viðskiptakostnaður. Fórnarkostnaður miðað við flotgengi og frjálsa fjármagnsflutninga:

* Landið er berskjaldað gagnvart spákaupmennsku

* Mikill óstöðugleiki og miklar gengissveiflur

* Fjármagnsflótti

* Háir vextir vegna þess að Ísland verður talið áhættusamt land til fjárfestinga

* Hár viðskiptakostnaður.

Niðurstaða: Sú leið að halda í íslenska krónu er illframkvæmanleg. Hún leiðir af sér einangrun og fátækt.

 

Raunhæfar leiðir, en ekki sársaukalausar

Þá standa fyrstu tvær leiðirnar eftir, sem hafa þá kosti að leiða til lægra vaxtastigs og lægri verðbólgu, auk þess sem Seðlabanki Íslands verður í raun óþörf stofnun. Á móti kemur kostnaður við að reyna að tryggja okkur fyrir áföllum. Þá mun skipta miklu á hvaða gengi myntskiptin fara fram, en sú ákvörðun mun hafa ólík áhrif á ólíka þjóðfélagshópa og atvinnugreinar.

 

Einhliða upptaka evru eða US$

Kostir:

* Fljótlegt og tiltölulega einfalt í framkvæmd

* Höldum sjálfstæði í ríkisfjármálum

* Engin hætta á að missa yfirráð yfir náttúruauðlindum

* Þetta hefur verið gert í öðrum smáríkjum með góðum árangri

 

Fórnarkostnaður

* Engin lánveitandi til þrautar, ekki hægt að aðstoða banka í lausafjárskorti

* Engin sjálfstæð peningastefna

* Líkur á að erlendir bankar verði að taka yfir stóran hluta af bankastarfsemi landsins

* Ekki gert í samvinnu við viðkomandi ríki og gæti því skapað óvild í garð Íslands.

Við einhliða upptöku evru bætist við sá kostur að evrusvæðið er stærsti einstaki markaðurinn fyrir útflutningsvörur Íslands og íslenska hagkerfið á meira sameiginlegt með hagkerfi evrusvæðisins en öðrum hagkerfum, sem auðveldar sveiflujöfnun. Á móti kemur eindregin andstaða ESB-ríkja við hugmyndinni, sem gæti skapað verulega óvild í garð Íslands. Við einhliða upptöku US$ er það kostur að mikilvægar innflutningsvörur, eins og t.d. olía, eru verðlagðar í dollurum, eins og mikilvægar útflutningsvörur eins og ál. Þá hafa ýmis ríki tekið upp US$ einhliða án refsiaðgerða. US$ er jafnframt enn útbreiddasti gjaldmiðill heims. Á móti kemur að mikilvægar útflutningsgreinar nota evru fyrst og fremst í viðskiptum.

 

Upptaka evru með ESB-aðild

Kostir:

* Evrópski seðlabankinn er bakhjarl og lánveitandi til þrautar.

* Ísland fær fullan aðgang að ákvarðanatöku ESB og verður fullur þátttakandi í Evrópu.

* Aukinn stöðugleiki og betra rekstrarumhverfi til lengri tíma litið fyrir íslensk fyrirtæki og heimili.

* Líkur á að hagsveiflur landsins verði meira í takt við Evrópu.

 

Fórnarkostnaður

* Tekur a.m.k. nokkur ár, en yfirlýsingin ein og sér hefði einhver áhrif.

* Tíminn sem tekur að fá fulla aðild að evru gæti verið mjög erfiður fyrir íslenskt efnahagslíf.

* Göngumst undir Maastrich-skilyrðin, sem hefta mjög sjálfstæði Íslands í ríkisfjármálum.

* Missum yfirráð yfir auðlindum þjóðarinnar og stjórnun á nýtingu þeirra – umdeilt atriði.

 

Lokaorð

Það er ljóst að íslenska krónan dugar okkur ekki lengur. Þá eru nokkrir kostir í stöðunni. Færa má rök með og á móti þeim öllum, en afstaða manna mun ráðast af því hversu þungt einstakir kostir og gallar vega í huga þeirra. Við tökum ekki afstöðu hér, enda ólíkar skoðanir að finna í okkar hópi. Við hvetjum hins vegar til þess að upplýsingar um þessi mál séu settar fram með skýrum og fordómalausum hætti. Margar erfiðar ákvarðanir eru framundan. Nú eftir kosningar verður að vinna hratt og örugglega að því að koma peningamálum Íslands í öruggan og trúverðugan farveg.

Aðgerðaleysi er dýrasti kosturinn.


Eru menn að tala saman?

Þetta er bæði stórundarlegt og grafalvarlegt mál. Ef Gordon Brown er að nota neyð Íslands er það sorgleg staða. Dráttur á lánagreiðslum IMF verða gerðar tortryggilega í ljósi þessara ummæla.

IMF á ekki að vera innheimtustofnun fyrir einstakar þjóðir. Ef Gordon Brown segir satt hefur verið logið að Íslendingum. Ef Gordon Brown er að fara með rangt mál er nauðsynlegt að það sé leiðrétt í hvelli.

Þarf ekki að hringja í nr. 10 í dag?


mbl.is Bretar að semja við IMF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugmyndaráðuneytið...og Vinaminni

Á sama tíma og vondar fréttir eru allsráðandi er frískandi að fá nýjan tón eins og þann sem er að finna hjá Guðjóni Má og Hugmyndaráðuneytinu. Mæli með því að fólk kíki á www.hugmyndaraduneytid.is eða taki beinan þátt. Ísland hefur upp á svo margt að bjóða en það síðasta sem við þurfum er uppgjöf og illindi. Bjartsýni og kjarkur skilaði íslenskri þjóð langt þegar lítið var til að efnum í landinu. Þá skipti sköpum að hafa sýn á framtíðina.

Annað jákvætt var í gær hér á Selfossi en það var opnun dagdvalar fyrir heilabilaða. Þetta hefur verið baráttumál um nokkuð skeið og nú er aðstaðan komin þó enn sé stefnt að varanlegri lausn. Það var sérstaklega ánægjulegt að heyra Sigurð Jónsson fyrrverandi formann óska sveitarfélaginu til hamingju en Sigurður hefur í þessu máli eins og mörgum öðrum barist fyrir góðum málsstað til sigurs. Nafnið á dagvistinni er líka vel til fundið: Vinaminni.


Að vera sammála...um að vera ósammála

Það var ekki mismæli hjá Atla Gíslasyni að stjórnarflokkarnir væru sammála um að vera ósammála. Nú er það komið á daginn að stærsta kosningamál Samfylkingarinnar verður ekki afgreitt af ríkisstjórninni. Hver örlög umsóknar verða kemur því í ljós á þingpöllum. Afstaða Framsóknarflokksins er bundin þeim skilyrðum að varla má vænta þess að umsókn án skilyrða verði samþykkt af Alþingi.

Því miður hefur allt of mikill tími farið í ESB málin á meðan mikil og nagandi óvissa er hjá heimilum og fyrirtækjum. Þessi óvissa lýsir sér einna best í því að nú eru fleiri og fleiri að tala um að fara í greiðsluverkfall. Þau ummæli forsætisráðherra að úrræði þau sem nú hafa verið samþykkt verði að duga hafa komið mörgum á óvart enda var talað um bæði skjaldborg um heimilin og velferðarbrú.

Hvar er skjaldborgin, brúin og störfin spyrja margir í dag.


mbl.is ESB-málið til Alþingis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snarpur skjálfti í nótt

Hann fannst vel hér í Tjarnabyggð skjálftinn í nótt. Skálafellið blasir við og þar átti hann upptök sín. Þótt flestir séu orðnir vanir skjálftum er minningin um Suðurlandsskjálftann (sem var í raun löng hrina) óþægileg mörgum. Það eru kostir við að vera á eldfjallaeyju (heitt vatn og gufurafmagn) en svo eru líkar gallar...

Lausnir í gjaldmiðilsmálum - engar undanþágur hjá ESB...

Nú þegar Olli Rehn hefur kveðið upp úr með sjávarútvegsmálin er nær útilokað að stjórnmálaflokkar leggi til umsókn Íslands. Olli Rehn segir meðal annars; "landið verði að uppfylla öll skilyrði aðildar og gangast undir reglur sambandsins um sjávarútveg. Frávik komi ekki til greina." Skýrara verður það varla.

Í þessu ljósi er brýnt að skoða til hlítar aðrar leiðir í gjaldmiðilsmálum svo sem einhliða upptöku USD eða EUR. Þá er enn brýnna en fyrr að leysa jöklabréfavandann.

Hér er svo frétt RÚV þar sem vitnað er í Olli Rehn:

Olli Rehn, framkvæmdastjóri stækkunarferlis Evrópusambandsins, vonar að Ísland gangi í Evrópusambandið innan skamms, þrátt fyrir efnahagsörðugleika. Ísland geti hins vegar ekki vænst þess að fá neina sérmeðferð.

 

Rehn ræddi við fréttamann þýska viðskiptablaðsins Handelsblatt og lýsti þar skoðunum sínum á hugsanlegri aðild Íslands. Hann útilokaði hvers kyns frávik frá aðildarskilyrðum Evrópusambandsins, einkum í ljósi kreppunnar.

Eins og stendur er gangið að því sem gefnu að Króatía verði næsta land sem hlýtur aðild að sambandinu, en Rehn segir það geta breyst og Ísland orðið á undan. Aðildarumsókn geti borist frá Íslandi í sumar. Viðræður geti gengið hratt fyrir sig, þar sem Íslandi hafi nú þegar leitt í lög um tvo-þriðju hluta réttartilskipana Evrópusambandsins. Rehn líkir aðildarviðræðum við maraþonhlaup, og segir Ísland 35 til 40 kílómetrum á undan ríkjunum á Balkanskaga.

Evrópusambandið sé mjög opið fyrir aðildarumsókn Íslands, og Ísland eigi heima í Evrópusambandinu. En landið verði að uppfylla öll skilyrði aðildar og gangast undir reglur sambandsins um sjávarútveg. Frávik komi ekki til greina.  

Hreinskilinn Steingrímur

Steingrímur J. Sigfússon hefur byggt upp VG úr flokksbroti úr Alþýðubandalaginu upp í að vera einn þriggja stærstu flokka landsins. Þetta hefur honum tekist án þess að hafa verið í ríkisstjórn. Hann og VG hafa verið hreinskilinn flokkur og það má segja þeim til hróss að menn vita hvar þeir hafa VG.

Það er því furðulegt að horfa upp á hvernig Samfylkingin stillir VG vísvítandi upp við vegg í einu eldfimasta máli Íslandssögunnar.

Sú aðferð að stilla upp úrslitakostum eins og frambjóðendur Samfylkingar hafa gert er ekki til þess fallin að ná sátt um leiðir.

Ég tek ofan fyrir Steingrími fyrir hreinskilni og heiðarleg skoðanaskipti.


mbl.is Elítan vill í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtum kosningaréttinn

Kjörsókn hefur yfirleitt verið góð hér á landi. Vonandi verður svo áfram. Margir vilja skila auðu en í því felst ákveðin uppgjöf þótt í slíkum atkvæðum kunni að felast skilaboð. Kjörkassinn er annað og meira en skilaboðaskjóða enda erum við að velja hverjir fara með löggjafavald og í reynd líka framkvæmdavald.

Kosningarnar í dag snúast um framtíðina. Einhverjir telja að þær snúist um ESB en fyrst og fremst snúast þær um hvort við séum að fara leið sósíalisma eða leið frjáls markaðar. Hvorug leiðin er fullkomin en sagan hefur sýnt okkur að forræðisleiðin skilar minni ávinningi til almennings. Að sjálfsögðu eru margir sárir en reiðin má ekki bitna á þeim sem síst skildi.

Ég vil hvetja alla þá sem hafa kosningarétt að nýta þennan rétt á þessum fallega degi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband