21 þúsund vilja breytingar á lífeyriskerfinu - vilja færri ESB?

Undirskriftasöfnun Helga í Góu um lífeyrismál skilaði 21 þúsund manns. Vonandi er að Jóhanna Sigurðardóttir taki þetta alvarlega. Fyrir tveimur árum safnaði ég 27 þúsund undirskriftum án auglýsinga þar sem skorað var á Alþingi að tvöfalda Suðurlandsveg. Ég nefni þetta tvennt til samanburðar við þá 10 þúsund sem nú hafa skrifað undir manifesto ESB sinna "sammála" sem hefur verið auglýst víða meðal annars með heilsíðu auglýsingum. Samt eru endurbætur á lífeyriskerfinu ekkert sérstakt kosningamál hjá flokkunum.

Þó ESB sé mikilvægt mál til að ræða brenna önnur og meira aðkallandi mál á fólkinu í landinu. Raunverulegar aðgerðir í þágu heimilanna og fyrirtækjanna á Íslandi þola enga bið. Vonandi tekur ný ríkisstjórn fast á þeim málum.

Eitt er víst að meiri álögur þola heimili og fyrirtækin ekki. Össur Skarphéðinsson á hrós skilið fyrir að taka af öll tvímæli um að skattbyrðar á fyrirtæki eins og kom fram í þættinum "Hvernig á að bjarga Íslandi" sem sýndur var á Stöð 2. VG hafa verið að draga í land með eignaskatta en segja nú "hins vegar fullum fetum að ekki stendur til að leggja eignarskatt á venjulegt fólk og þeirra eðlilegu eignir." Spurningin er hvað er "venjulegt" og "eðlilegt" og hver leggur dóm (og skatt) á það?


Verum ekki sammála um að vera ósammála

Á erfiðum tímum er þörf fyrir samstöðu. Á endanum erum við nefninlega á sama báti - eða að minnsta kosti á sömu eyjunni.

ESB er nú enn og aftur að spretta upp sem klofningsmál enda ganga sjónarmið manna þvert á flokkslínur. Mikil hætta er á að nú fari í hönd óvissa í úrlausnum á meðan tekist er á um ESB málin. Á sama tíma eru fyrirtækin og heimilin að brenna. Vonandi geta stjórnmálamenn í öllum flokkum sammælst um góð mál eftir kosningar.

Heiftin sem einkennir umræðuna núna skilar engu góðu. Það er vel skiljanlegt að margir séu reiðir enda hafa allflestir lent í miklu tjóni. Sjálfstæðismenn eru margir svo reiðir að þeir ætla að skila auðu.

Reiðin er hins vegar varasöm enda gera menn margt í bræði sem þeir annars myndu ekki gera. Það er því mikilvægt að við reynum að vera sammála um það sem við getum verið sammála um en einblínum ekki um of á það sem sundrar íslenskri þjóð.

 

 


Fyrir hvað stendur vinstri stjórnin?

Þeir sátu saman þeir Björgvin G. og Atli Gíslason og voru spurðir um lykilmál eins og álver í Helguvík og ESB. Eins og annar þeirra orðaði það voru þeir "sammála um að vera ósammála".  Nýlega samþykkti Alþingi fjárfestingarsamning Norðuráls en stjórnin var klofin og það í margar fylkingar. En stóra málið er ESB:

Björgvin setti VG úrslitakosti. Atli hafnaði þeim í beinni.

Þessir tveir flokkar sitja nú í minnihlutastjórn og sitja áfram í meirihluta ef marka má skoðanakannanir. En hvað ætla þeir að gera þegar þeir eru svona ósammála? Þarf ekki núna samstíga stjórnvöld sem geta tekið ákvarðanir?


mbl.is Evrópustefnan verði á hreinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framtíð Íslands út frá aldurssamsetningu (..og vandi ESB)

Í MBA náminu var hópurinn minn hjá Pedro Videla að skoða framtíð Íslands. Eitt af því sem við skoðuðum var aldursamsetningin og bað ég Hjálmar Gíslason hjá Datamarket að gera aldurstré fyrir Ísland, ESB og Bandaríkin 2008, 2030 og 2050. Myndirnar segja mikið enda er aldursamsetning Íslands og Bandaríkjanna mjög góð útfrá lágum meðaladri og hárri fæðingartíðni (yfir 2). Evrópa er klárlega í miklum vanda þar sem fæðingum hefur snarfækkað. Eina lausn Evrópu er stórfelld aukning ungra innflytjenda en um þá leið er ekki sátt.

Þegar haft er í huga að Ísland er með öfluga lífeyrissjóði (þrátt fyrir allt) en Evrópa er með lífeyrisskuld sem á að greiðast af komandi kynslóðum verður ljóst að staða okkar í þessum mikilvægu efnum er firnasterk og þarna eigum við ekkert sameiginlegt með vinum okkar í ESB. Þetta er eitt af þeim málum sem við þurfum að meta þegar við myndum okkur stefnu til framtíðar.  

 

 

Slide2Slide3Slide4Slide5

Slide1


Sóknarfæri

Íslendingar ferðast meira innanlands og felast sóknarfæri í því fyrir svæði eins og Árborgarsvæðið. Verslunarbærinn Selfoss hefur hér mikið færi en ekki síður menningartengd ferðamannaþjónusta á Stokkseyri og á Eyrarbakka.

Við fulltrúar D-listans erum með tillögu um að farið verði í markvissa vinnu af hálfu sveitarfélagsins í þjónustu- og ferðamannamálum. Sameiginlegar kynningarmál skipta hér miklu sem og það að byggja á þeim viðburðum sem þegar eru til staðar að sumri og vetri. Jólabærinn Selfoss er hér einn þáttur með jólasveinunum úr Ingólfsfjalli sem og Sumar á Selfossi, Jónsmessuhátíð á Eyrarbakka og Bryggjuhátíð á Stokkseyri. Tillagan verður rædd á bæjarstjórnarfundi í dag - og vonandi verður hún samþykkt samhljóða.


Stóru viðfangsefni næstu ríkisstjórnar

Samkvæmt samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þarf ríkissjóður að verða hallalaus á næsta kjörtímabili. Líklegt má telja að það eigi að nást árið 2011. Talað hefur verið um 150 milljarða sem þurfi að skera niður í útgjöldum enda er ólíklegt að tekjur verði auknar svo heitið geti enda eru takmörk fyrir því hvað heimilin og fyrirtækin geta þolað í viðbót. Ef við horfum til þess að ríkið þurfi að lækka útgjöld sín um 150 milljarða á ári þá er það um 500 milljónir á dag. Engin ríkisstjórn er öfundsverð að takast á við svo stórt verkefni og umræðan síðustu dagana fyrir kosningar ættu að sjálfsögðu að taka á þessum stóru málum. Fróðlegt væri að heyra frá framboðunum hvernig þau ætla sér að ná endum saman. . .

Okurvextir - fyrir hverja?

Jón Helgi Egilsson skrifar ágætan pistil þar sem hann veltir fyrir sér rökstuðningi Seðlabankans við ákvörðun stýrivaxta. Eða eins og segir í pistlinum:

"Í gær þegar heimsmet í stýrivöxtum fyrir þjóð á barmi gjaldþrots var réttlætt, spurði Björgvin Guðmundsson blaðamaður MBL, seðlabankastjórann hvernig lægri vextir geta veikt krónuna.

Svarið var stórundarlegt. Blaðamanninum var svarað þannig að Ísland hefði verið með viðskiptahalla s.l. 15 ár - fjármagnað af öðrum ríkjum. Síðan var bætt við: "That debt burden is now being served by the economy".

Virðist manni helst að háir vextir séu eins konar skaðabætur. Eru þetta þá Versalavextir?

Hér má lesa grein Jóns Helga.


Monsters vs. Aliens

Það var gaman að fara á 3-víddarmynd með krökkunum og hverfa úr hversdagleikanum í veröld skrýmsla og geimvera.

Mæli með bíóferð. ..


Bjarni bregst fljótt og rétt við

Nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins tekur af festu á erfiðum málum. Það sést best á styrkjamálinu þar sem hann ákvað að skila fénu og taldi móttöku þess óeðlilega.

Þá ákvað Bjarni ennfremur að upplýsa um alla háa styrki á árinu áður en ný lög um fjármögnun stjórnmálaflokka tóku gildi þó ekki sé nein lagaskylda til þess. Málið var rætt á hjá okkur á fyrsta fundi nýrrar miðstjórnar og var einsýnt að við þessu þyrfti að bregðast skjótt. Mikilvægt er að upplýst sé um alla málavöxtu.

Það er fróðlegt að bera saman þessi vinnubrögð við loðin svör Samfylkingarinnar um hverjir styrktu framboðið.

Svo ekki sé minnst á Framsókn.

15,5%

Þegar verðbólgan var sem mest á Íslandi hefði verið hægt að rökstyðja 15,5% stýrivexti en núna þegar samdráttur er gríðarlegur er það furðulegt að stýrivöxtum sé enn haldið í tveggja stafa tölu.

Almennir vextir eru að sjálfsögðu hærri og má hér nefna nýju óverðtryggðu vexti Landsbankans sem eiga að vera með 1,5% álagi á stýrivexti Seðlabankans. Þeir eru þá 17% vextir og næst vaxtaákvarðannadagur verður í sumar. 

Mikið lá á að skipta út stjórn Seðlabankans og setja á nýja skipan peningamála. Til hvers?

Því er síðan haldið fram aftur og aftur að þetta sé stefna til að styrkja gengi krónunnar en í staðinn hefur krónan lagst á sóttarsæng og veikst stöðugt frá því.

Þann 28. febrúar var þetta haft eftir bankastjóranum:

"Brýnustu verkefni Seðlabanka Íslands nú snúa að styrkingu krónunnar og endurskipulagningar bankakerfisins." Þetta segir Norðmaðurinn Svein Harald Øygard, nýr bankastjóri Seðlabanka Íslands."

Síðan þá hefur krónan veikst um 13%. 


"Skyldi Halldór koma á morgun?"

Ung kona í sveit varð ástfanginn af manni sem Halldór hét. Þótt ástin væri heit náði hún aldrei að tjá manninum hvað hug hún bar til hans. Halldór kom stundum í heimsókn á bæinn en þess á milli beið unga konan eftir Halldóri og sagði þá oftar en ekki upp úr hljóði; "skyldi Halldór koma á morgun?"

Á morgun á að ákveða stýrivexti af peningamálanefnd og Seðlabanka Íslands.

Lengi hefur verið beðið vaxtalækkunar en staðan í dag er sú að háir vextir eru farnir að veikja íslensku krónuna þegar vaxtagjalddagar eru greiddir í dýrmætum gjaldeyri út úr landinu. Nú bíða margir spenntir og vona að nú komi loks að langþráðri lækkun vaxta...


Á íslenska ríkið að borga fyrir Icesave?

Þegar bankarnir voru seldir var það trú manna að ríkisábyrgðin fylgdi ekki með. Nú hafa fjölmargar ábyrgðir fallið á ríkið ekki síst vegna lána Seðlabankans sem reyndi að bakka upp bankanna. En furðulegasta ábyrgðin er Icesave. Samkvæmt lögum og reglugerðum eiga lönd sem tilheyra EES samningnum að koma sér upp tryggingarsjóði innlána. Það gerðu íslendingar. Vandamálið er að tryggingarsjóðurinn er allt of lítill þegar allt hrynur. Lítill sparisjóður gæti verið varinn en tröllvaxnir fjárfestingabankar á Íslandi voru einfaldlega of stórir. Sérstaklega þar sem þeir söfnuðu innlánum í hundraða milljarða tali í Evrópu.

Samkvæmt lögfræðiálitum ber íslenska ríkinu ekki nein skylda til að ábyrgjast innistæður umfram tryggingarsjóðinn (sem er sjálfstæður). Samkvæmt áliti seðlabanka Frakklands er ekki gert ráð fyrir ríkisábyrgð og reyndar efast menn um að þessar evrópsku reglur hafi verið hugsaðar til enda.

Nú hefur því verið borið við að ef Íslendingar greiði ekki Icesave skuldir falli evrópska bankakerfið. Ef við gefum okkur það að þessi fullyrðing sé rétt er það algerlega glórulaust að íslenska ríkið sem er minnsta og eitt skuldsettasta ríkið í Evrópu í dag skuli vera látið borga brúsann.

Margt bendir til þess að helstu rökin fyrir ríkisábyrgð á Icesave (hvers nafn er mikið öfugmæli) séu kúganir ESB og IMF.

Þetta mál þarf að ræða opinskátt og óháð flokkapólítík.


John Perkins, Michael Hudson og ofurvaxtastefnan í Silfrinu

Tveir viðmælendur Egils vöktu talsverða athygli í dag þó ólíkir séu en báðir vörpuðu þeir Perkins og Hudson sprengjum inn í umræðuna. Báðir vöruðu þeir við IMF og töldu að Ísland ætti ekki að standa við skuldbindingar sínar við útlönd.

Nú er það svo að ríkið var nær skuldlaust við útlönd í Október í fyrra en sífellt fleiri ábyrgðir hafa verið að færast í fang ríkisins. Ég hef aldrei sannfærst um rök fyrir því að íslenska ríkið eigi að gangast í ábyrgðir vegna Icesave eða annarra innistæðna umfram það sem lög og reglur segja til um. Nú fer vaxandi sú umræða að ríkið eigi ekki að taka á sig skuldbindingar umfram getu og nauðsyn. Þetta er stórpólítísk umræða sem hefur vikið fyrir umræðu um kosningar, landsfundi, stjórnarskrárbreytingar og smápólítískt skark.

Annað sem nefnt var af Michael Hudson var að lenging og frestun vandans væri skuldaranum í óhag en það eru einmitt slíkar aðgerðir sem helst hefur verið gripið til með greiðsluaðlögun, mildari gjaldþrotalögum einstaklinga og svo frystingu afborganna. Ekkert af þessu tekur á undirliggjandi vanda sem fellst í of háum skuldum og atvinnuleysi. Niðurfelling skulda á að koma til greina og hana á ekki að slá út af borðinu í fljótræði.

Svo eru það vextirnir en um þá var fjallað á vandaðan hátt ekki síst með innleggi Jóns Helga Egilssonar en hann og Kári Sigurðsson hafa skrifað vægast sagt athyglisverðar greinar um málið.  Vaxtastigið á Íslandi er nú orðið með þeim furðum að ekki finnast sambærileg dæmi á byggðu bóli. Verðhjöðnun er í gangi á ýmsum sviðum en samt eru stýrivextir 17% og vextir atvinnulífs og heimilanna yfir 20% á sama tíma og verðbólgan er minna en engin! Ofurháir vextir valda veikara efnahagslífi og því raun-veikari krónu auk þess að þessi stefna öll tryggir í raun fjöldagjaldþrot heimila og fyrirtækja. Ef rétt er sem sagt er að hávaxtastefnan veiki krónuna eru engin rök eftir til að viðhalda skrúfstykkinu nema kannski fyrir jöklabréfaeigendur sem fá vaxtagreiðslurnar útgreiddar í gjaldeyri.  

Vonandi verður þessi umræða til að menn líti upp úr skotgröfunum og horfi á stóru málin.


Söngvar Kim Il Sung og Kim Jong Il hljóma nú

Samkvæmt Pyongyang  tókst að senda fjarskiptatungl á braut um jörðu og sendir það út "ódauðlega söngvar Kim Il Sung og Kim Jong Il" eins og það er orðað. Flaugin sem bar gervitunglið fór reyndar í heimildarleysi yfir japanska lofthelgi og vilja margir meina að tilgangurinn sé annar og verri en að útvarpa "ódauðlegum söngvum" frá himingeimnum.

Ekki laust við að þetta minni á Team America


mbl.is Norður Kóreumenn skjóta eldflaug á loft
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður hryðjuverkalögunum þá aflétt?

Enn er það svo að Landsbankinn er á lista yfir hryðjuverkasamtök hjá breskum stjórnvöldum eins og sjá má hér.

Breska fjármálaráðuneytið birtir listann sem nú er svona eftir að sér listi var gerður fyrir Landsbankann neðanmáls:

 

Current regimes

Asset freezing measures not related to terrorist or country-based financial sanctions

Landsbanki


mbl.is Hryðjuverkalög of harkaleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margt vitlausara

Sú leið að taka einhliða upp annan gjaldmiðil er ekki gallalaus. En menn verða að meta valkostina og ekki síst þann sem nú er reyndur; að halda í krónuna með höftum og stýringum. Gallarnir við að taka upp stærsta gjaldmiðil heimsins er helst þeir að við værum ekki með Seðlabanka með þrautavaralán.

En er ekki einn stærsti vandinn einmitt tilkominn vegna þrautavaralána? Og væntinga um ríkisábyrgð af öllu tagi? Þeir sem henda burt hugmynd um að taka upp dalinn verða að bera þá leið saman við það ástand sem við virðumst vera föst í.

Svo má ekki gleyma því að um 70% af raforkunni, meirihluti stjóriðjuafurða, stór hluti sjávarafla og olían eru keypt og seld í bandaríkjadölum á Íslandi.


mbl.is SUS: Vilja Bandaríkjadal á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miðbæjarklúðrið á Selfossi

Eins og menn sjá sem aka yfir Ölfusarbrú hefur lítið þokast í miðbæjarmálum síðustu árin. Grindverk og skilti liggja nú fyrir vindi og er fremur nöturlegt að sjá. Uppruna málsins má rekja til samnings sem gerður var rétt fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar en þá skuldbatt sveitarfélagið til að hafa hátt nýtingarhlutfall og að selja byggingarrétt fyrir 45 milljónir króna.

Verkefnið hefur ekki gengið þrautalaust enda voru yfir 11 hundruð aðilar sem mótmæltu deiliskipulaginu þegar það var auglýst. Þegar því ferli var lokið hefur lítið gerst. Töldum við í minnihlutanum að forsendur samningsins væru í raun brostnar og honum ætti að rifta en því var hafnað að meirihlutanum. Þá töldum við að innheimta bæri skuld upp á 45 milljónir sem gjaldféll 90 dögum eftir að deiliskipulagið tók gildi. Því var hafnað og nú eru mótbárurnar þær að ekki hafi verið gerð lóðablöð til að skaffa alla þá m2 sem getið er um í samningum. Það er sem sé vanhöld bæjaryfirvalda sem standa í veginum samkvæmt þeirri söguskýringu. Það verður þó varla bæði sleppt og haldið en eins og staðan er nú er miðbæjarsvæðið tekið gíslingu án niðurstöðu, greiðslu eða uppbyggingar.

Kannski hefði verið hyggilegra að byggja smærra og klára það frekar en að reyna að nýta hvern m2 og m3 í trássi við vilja íbúanna og sitja svo uppi með þá stöðu að góðærið fór framhjá?

Á sama tíma og 45 milljónirnar eru óinnheimtar starfar Intrum í umboði bæjarins við að innheimta gjöld heimila og fyrirtækja. Það njóta ekki allir þess að fá vaxtalaus lán eins og í dæmi Miðjunnar. Það er því eðlilegt að fólk spyrji hvers vegna sumir njóti þessara fríðinda en almenningur ekki.


Ofurvextir á Íslandi

Nú þegar verðbólgan er illmælanleg og síðasta stöðutaka sýndi verðhjöðnun eru litlar röksemdir eftir til að réttlæta ofurvexti á Íslandi. Helst geta menn týnt til gengi krónunnar en það virðist reyndar stjórnast af allt öðrum þáttum en vaxtamun um þessar mundir. Gjaldeyrishöftin hafa nú verið hert og er í dag óheimilt að flytja út vörur frá Íslandi og þiggja fyrir þær íslenskar krónur sem gjaldmiðil. Tvöfalt gengi krónunnar hefur leitt til þess að viðskiptamenn hafa nýtt sér misgengið í hagnaðarskyni. Haftastefna leiðir alltaf af sér einhvers konar hjáleiðir og er mér sagt að næst verði farið í vöruskipti og fólk flytji út krónur með því að flytja út lausafjármuni eins og báta, flugvélar, bíla og hesta.

Háir vextir eru að ganga af atvinnulífinu (og mörgum heimilunum) dauðum. Mikil umræða er á þingi um greiðsluaðlögun, vægari gjaldþrot og lengingu lánalína. Miklu mikilvægar er þó að ráðasta að rótum vandans frekar en að einblína um of á einkennin. Lenging lána kann að létta sársaukann en getur í sumum tilfellum frestað vandanum frekar en að leysa hann. Skuldir hafa hækkað vegna verðbólgu, gengisfalls og ekki síst ofurvaxta.

Seðlabankinn lækkaði stýrivexti um 1% og eru þeir nú gríðarlega háir enn eða 17% þrátt fyrir að verðlag hafi lækkað milli mánaða í síðustu mælingu. Mismunur verðlags og vaxta - raunvaxtastigið - hefur aldrei verið hærra. Mikið lá á að skipta um Seðlabankastjóra en eitthvað virðist liggja minna á að ná niður okurvöxtunum sem hafa aldrei verið hærri.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband