Lífeyriskerfið og bankahrunið

Íslenska lífeyrissjóðakerfið hefur verið í allra fremstu röð enda eru flestar þjóðir með "gegnumstreymiskerfi" þar sem treyst er á yngri kynslóðirnar við að standa straum af lífeyriskostnaði. Ergo: Ekkert í sjóði.

Á Íslandi hefur þessu verið öfugt farið ekki síst á síðustu árum. Lífeyrissjóðirnir hafa átt miklar eignir í hlutabréfum og skuldabréfum á Íslandi. Þessar eigur hafa stórskaðast að undanförnu.

Litlu mátti samt muna að staða þeirra hefði versnað enn frekar en það var þegar lagt var hart að þeim að leggja litla 500 milljarða inn í viðskiptabankana sálugu. Þessar hugmyndir lágu til grundvallar "ráðherrabústaðsfundunum" í október.

Sem betur fer var bönkunum ekki lánað enda hefur komið í ljós að þúsundir milljarða skorti upp á efnahagsreikningana eins og þeir líta út núna.

Vonandi standast væntingar lífeyrissjóðanna um að þessi vikmörk haldi en þar sem eignirnar eru taldar í krónum er ljóst að tjónið í evrum eða dölum er verulegt þó ekki sé það tilgreint í þessari frétt sérstaklega.


mbl.is Lífeyrisréttindi óbreytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helgi Ívarsson

Sá merki maður Helgi Ívarsson frá Hólum verður jarðsunginn frá Gaulverjabæjarkirkju á laugardaginn. Helgi var margfróður og rökfastur enda hafði hann yfirleitt síðasta orðið á stjórnmálafundum. Og var á hann hlustað. Helgi var harðduglegur að sækja fundi Sjálfstæðisflokksins á Selfossi og víðar. Sem meðhjálpari umgengst ég Helga í Selfosskirkju sem hann sótti reglulega fram á síðasta dag. Þegar vandamál lágu fyrir var hann manna fyrstur og bestur að greina aðalatriði frá aukaatriðum og reyndist mönnum vel á ögurstundum. Blessuð sé minning Helga Ívarssonar.

Rétt ákvörðun hjá Steingrími

Burtséð frá skoðunum Steingríms J. Sigfússonar á hvalveiðum er þessi ákvörðun rétt. Ríkissjóður hefði getað orðið skaðabótaksyldur ef fyrri ákvörðun hefði verið hnekkt af Steingrími.

Fræg er reyndar mynd af Steingrími við hvalskurð.


mbl.is Kvalræði sjávarútvegsráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sveitarfélög svigna undan skuldaböggunum..

Skuldsetning sveitarfélaga hefur verið gríðarleg á síðustu árum og eru mörg hver orðin svo skuldsett að þau geta ekki ráðist í lágmarks framkvæmdir. Vextir af lánum eru þá orðinn stór útgjaldaliður og í sumum tilfellum er útlit fyrir tap af rekstri næstu árin að óbreyttu. Slíkt getur að lokum leitt til gjalþrots. Ríki og borgir hafa orðið gjaldþrota og nú í fjármálakreppunni er útlit fyrir að slíkt geti endurtekið sig. Skattstofnar minnka og lánamöguleikar hverfa.

Á endanum þurfa sveitarfélög að eyða ekki meiru en þau afla. Sú aðlögun kann að vera sársaukafull en betra er að fara fyrr í það en seinna eins og dæmið sannar hér um Kalíforníu en þar þarf að segja upp tugþúsundum starfsmanna og hækka skatta til að reyna að forðast gjaldþrot.


mbl.is Kalifornía nær gjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sundhöll Selfoss

Kobbi Kútur er ennþá tákn fyrir Sundhöllina og fáir staðir eru jafn eftirsóttir á sumardögum og hún. Hugmyndir um endurbætur hafa frestast hjá meirihlutanum en á síðasta bæjarstjórnarfundi var tillaga um endurbætur á búningsklefunum. Í fljótu bragði hljómar þetta vel enda er búningsaðstaðan orðin lúin og þröngsetin. En þá á þannig í málinu að hér var átt við útibúningsklefa sem tillagan fjallaði um og þeir til bráðabirgða....Þröngt er í búi og miklar skuldir en fátt er dýrara en bráðabirgðalausnir. . .

Talandi um sundið þá var samstaða í Desember um að ókeypis yrði í sund fyrir börn en þá tillögu höfðum við D-lista fulltrúar komið með áður. Nú var samstaða um þessa tilhögun sem hefur mikið forvarnar, heilsu- og félagslegt gildi. Einfaldar aðgerðir eins og þessi geta gert mikið fyrir lítið fé - enda er laugin til staðar.


Leiðirnar út úr vandanum

Mikið er rætt um vandann og orsakir hans. Það sem mestu máli skiptir samt er hvernig við vinnum okkur út úr vandanum. Hér skiptir miklu máli að við eyðum ekki um efni fram en jafnframt þarf að auka útflutning með öllum tiltækum ráðum. Við búum vel að vera fámenn þjóð á eyju sem hefur miklar náttúruauðlindir og eru þær góður grunnur. Þjóðin er á góðum aldri miðað við Evrópu-þjóðir og þrátt fyrir allt eru enn öflugir lífeyrissjóðir öfugt við gegnumstreymiskefi fjölmargra annara ríkja.

Íslendingar vinna langa vinnudag og er atvinnuþáttaka mjög mikil. Framleiðni er hins vegar frekar lítil og þar er klárlega sóknarfæri hvort sem um er að einkarekstur eða ríkisrekstur. Aukin framleiðsla og bætt framleiðni eru hluti jöfnunnar en meira þarf til. Skuldabyrði heimila og fyrirtækja er komin yfir þolmörk. Ekki er hægt að leysa þau vandamál með því að taka ný lán enda ættum við að vita sem er að lánavandamál verða ekki leyst með nýjum og nýjum lánum. Samt sem áður er það sú leið sem farin er víða um heim til að leysa bráðavandan. En hvað með skatta? Skattahækkanir hjálpa kannski ríkissjóði til skamms tíma en þar sem skuldir heimila og fyrirtækja eru svo miklar eru raunveruleg takmörk fyrir því hvað þau þola af auknum sköttum. Burðarklárinn þolir aðeins svo og svo mikið. Skuldastöðuna þarf því að taka fyrir sérstaklega af festu og með aðgerðum sem leysa vanda þeirra sem eiga rekstrargrundvöll.

Þrátt fyrir að þetta hafi verið rætt af ríkisstjórnunum hafa smá skref verið stigin. Þegar við búum svo við vextabyrði með 18% stýrivöxtum er flestum ljóst að nú þarf að stíga stærri og markvissari skref. Bankarnir eru sem vélarvana skip og á meðan er farmurinn að skemmast. Kosningarnar eru tækifæri til að við taki starfhæf ríkisstjórn með fullt umboð til að takast á við efnahagsvandann og atvinnuleysið. - Annað er ávísun á frekari áföll.


Sjálfstæðisflokkurinn og uppgjörið

Hrunið 2008 á Íslandi lætur engan mann ósnortinn. Uppgjörið er að fara fram og þarf Sjálfstæðisflokkurinn að axla þá ábyrgð sem honum ber. Þannig mun honum farnast vel. Bjarni Benediktsson formannsefni hefur réttilega bent á þetta atriði. Mistökin eru raunveruleg og ekki hægt að takast á við framtíðina og uppbygginguna nema horfast í augu við þau. Ég er viss um að Sjálfstæðisflokkurinn verður enn sterkari á eftir.

Um umsögn

Ekki er langt síðan áhersla var í umræðunni um fagleg vinnubrögð og horft yrði í vaxandi mæli til alþjóðlegra aðila og heims-viðmiða.

Nú á að breyta lögum um Seðlabanka og virðist ganga hægt að fá botn í frumvarpið og eru margar athugasemdir innan þings sem utan. Nú er þetta umdeilt mál og hefði verið óvitlaust að fá umsögn stærstu seðlabanka heims um frumvarpið. - Eða eru venjur þingnefnda nú mikilvægari en víðtæk umsögn?


mbl.is Afþökkuðu umsögn Seðlabanka Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikið til í því

Ekki verður landinu bjargað með karpi. Þetta innlegg Ragnheiðar Ólafsdóttur er virðingarvert en nú reynir á Alþingi að ná trausti almennings. Það verður ekki gert með ávirðingum heldur með því að koma með lausnir og það fljótt. Mér sýnist þingið vera fast í skotgröfunum vegna Seðlabanka, hvalveiða og losunarheimilda vegna álvera.

Nú á að nota fámennið og snúa bökum saman. Flott hjá Ragnheiði enda þurfum við á öllu okkar að halda.


mbl.is Látið karpið bíða til kosningabaráttunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég heyri raddir...

"Raddir fólksins" hafa verið öflugar í búsáhaldabarningi og náð að vera í kastljósinu undanfarið. "Búsáhaldabyltingin" er komin í sögubækurnar. Nú er búið að fella ríkisstjórnina og ná fram kröfunni um kosningar en ég hef heyrt raddir fólks um að forsetinn og útrásarvíkingarnir eigi nú einhvern þátt í fallinu. Undarlegt nokk hefur ekki verið mótmælt við Bessastaði eða hjá víkingunum...

Hvað varð um ESB kröfuna?

Um síðustu áramót (sem ekki voru fyrir löngu síðan) sagði formaður Samfylkingarinnar að ríkisstjórnarsamstarfinu væru "sjálfhætt ef samstarfsflokkurinn samþykki ekki umsókn um ESB".

Nú er Samfylkingin aftur í ríkisstjórn með öðrum flokki.

Gleymdist eitthvað að ræða þetta við VG, eða var þetta alltaf blekking?


Misráðið bréf

Forgangsmál Jóhönnu Sigurðardóttur var að senda seðlabankastjórum beiðni um starfslok. Margt bendir til að þetta bréf hafi verið misráðið hjá ráðherranum.

Ef hugmyndin var sú að fá seðlabankastjóra til að segja af sér hefði bréfið aldrei verið viðrað fyrst í fjölmiðlum. Formaður bankaráðs gat ekki svarað þessu bréfi á annan hátt. Ef eina leiðin til að losna við tiltekna embættismenn er að breyta lögum hefði verið skynsamlegast að verja tímanum í skothelda lagasmíð. Ef þessi undarlega bréfa-leið var tekin af Jóhönnu meðvitað hlýtur það að hafa verið til að viðhalda spennu og athygli á Seðlabankanum. Ef svo er þá hefur það tekist, en ég hefði haldið að forgangsmálin væru að verja heimilin og endurreisa atvinnulífið.

Svo er það hin hliðin á málinu:

Seðlabankinn er sjálfstæð stofnun. Gætum við átt von á svipuðum bréfaskriftum til Hæstaréttar ef dómarar þykja ráðherrum ekki þóknanlegir?


mbl.is Davíð segir ekki af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jákvæð (stjórnar)-andstaða

Það er jákvætt að leggja fram tillögur í stjórnarandstöðu hvort sem um er að ræða á Alþingi eða í sveitarstjórn. Stjórnarandstaða getur verið beitt í andófi en ekki síður með því að leggja gott til málanna. Ég er á því að síðari kosturinn sé betri.

Það er sama hvaðan gott kemur og vonandi verður meira um að minnihluti í pólítík komi með uppbyggilegar tillögur en áður hefur verið.


mbl.is Fyrstu verk sjálfstæðismanna í stjórnarandstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Reykjavik on the Thames" og Íslandshrunið á Al Jazeera

Íslendingar hafa verið stoltir af því að vera þekktir fyrir ósnortna náttúru, Þjóðveldið, hreina orku, sterka menn, Björk og fyrstu konu heimsins í embætti svo eitthvað sé nefnt.

Nú er Ísland og Reykjavík samnefnari fyrir allt annað og verra. Nýlega sá ég þátt á Al Jazeera þar sem hrunið á Íslandi var notað sem tímanna tákn:

"Al Jazeera's Samah El-Shahat  hears from top financial experts and learns how the aftershocks of America's sub-prime crisis and credit crunch are being felt worldwide.

Nowhere more keenly than in Iceland - a country which was bankrupted by too much borrowing which led to the collapse of its financial system."

og svo þetta frá Davos:

"GORDON Brown mounted a spirited defence of his government’s economic record at the World Economic Forum in Davos yesterday, pointing to the country’s low inflation, low interest rates and low public debt.

He dismissed suggestions that London was “Reykjavik on the Thames” and rejected the comments of Jim Rogers, the investor, who warned a few days ago Britain was finished."


Sigmundína hefur störf...

Guðmóðir nýju ríkisstjórnarinnar mun halda utan um fjárræði ungviðsins þessa 83 daga sem eru til kosninga. Framsóknarflokkurinn ver minnihlutastjórnina falli en lofar engu öðru. Sigmundur Davíð bauðst til að verja vinstri flokkana vantrausti og tókst í krafti búsáhaldabyltingarinnar að fella óvinsæla ríkisstjórnina þrátt fyrir stærsta þingmeirihluta Íslandssögunnar og er því ekki óeðlilegt að ríkisstjórnin verði kennd við hann líkt og Ólafía og Stefanía fyrri tíma. Guðfaðirinn er þó forsetinn sem setti ríkisstjórninni fyrir eins og frægt er.

Nú reynir á samstarf þriggja flokka sem vonandi gengur vel. Í Árborg höfum við haft reynslu af samstarfi VG, S og B lista síðustu 2 árin en þar hefur gengið hægt með framfarir og efndir kosningaloforða verið með minna móti. Samt sem áður hafa skuldir vaxið gríðarlega og eigið fé minnkað hratt á tveimur árum. Nú þegar kreppir að er sveitarfélagið með skuldabagga upp á meira en 6 milljarða og hafa skuldir hækkað um 3 milljarða á 2 árum - í góðæri. Vonandi gengur Sigmundínu betur.


mbl.is Ingibjörg á Bessastaði í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni Benediktsson

Framboð Bjarna til formanns kemur ekki á óvart enda hefur hann verið talinn líklegt formannsefni um nokkurn tíma. Endurnýjun í forystu stjórnmálaflokkanna er eðlileg viðbrögð við kröfum um breytingar. Bjarni var formaður allsherjarnefndar Alþingis vorið 2004 þegar samþykkt voru lög um fjölmiðla og þótti þá standa sig sérlega vel í erfiðu máli. Lögin tóku svo ekki gildi þar sem forsetinn synjaði þeim staðfestingar en það er önnur saga. Þá vakti grein Bjarna og Illuga Gunnarssonar um vanda bankakerfisins mikla athygli en hún birtist í febrúar 2008 og þótti fréttnæm þar sem um stjórnarþingmenn var að ræða. Ég er viss um að vel verður tekið í framboð Bjarna.


mbl.is Bjarni staðfestir framboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú vandast málið...

Oft er spurning um hvað sameini fólk og sama á við um stjórmálaflokka. Nær allir Íslendingar hafa verið á móti "ástandinu" og allir eru sammála um að úr því þurfi að bæta. Spurningin er hins vegar um hvernig eigi að bæta úr því eða með öðrum orðum; "leiðir".

VG og Samfylkingin eru sammála um að gera seðlabankastjóra brottræka þótt slíkt sé ekki heimilt nema með lagabreytingu og væri hér um stærstu pólítísku brottvikningu síðari tíma.

Hvalveiðar hafa ekki stuðning stjórnarinnar - en Framsókn er líkleg til að styðja þær.

Icesave-samkomulag var gert að hluta í fráfarandi ríkisstjórn Samfylkingar en Framsókn vill endurskoða málið.

Þá vill VG endurskoða IMF/AGS prógrammið ef marka má orð varaformanns VG í samtali við Financial Times.

Og svo eru það atvinnumálin þar sem ólík sjónarmið takast á.

Framsókn hefur boðist til að verja stjórnina vantrausti en lofar ekki hlutleysi. Þess vegna er eðlilegt að Framsókn vilji fara yfir tillögur stjórnarflokkanna tilvonandi. Annað væri ábyrgðarlaust.

Kannski kom þetta vinstri flokkunum á óvart, að minnsta kosti var sérkennilegt að heyra verðandi forsætisráðherra boða fundi og blaðamannafundi í dag sem frestuðust fyrst til morguns og verða svo eftir helgi. Kannski.

Nú reynir á...


mbl.is Telur forsendur fyrir stjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna og Obama

Nú taka þau við Jóhanna og Obama við erfiðar aðstæður í sínum löndum. Bæði brjóta þau blað hvort á sinn hátt en jafnframt eru bundnar gríðarmiklar væntingar til þeirra. Jóhanna hefur vakið heimsathygli vegna kynhneigðar og Barack Obama hefur á sinn hátt látið draum Marin Luther King rætast. Bæði eru þau afar vinsæl og hafa því mikið "pólítískt kapítal" eins og það er kallað til að takast á við erfið verkefni. Bæði vilja þau efla samfélagsþjónustu á sama tíma og minna er um fjármagn. Obama er að vísu nýbúinn að vinna kosningar en Jóhanna er að hefja sína kosningabaráttu fyrir vorið. Þótt ólík séu af mörgu leyti er freistandi að sjá hvað er sameiginlegt með þeim.  

Nú er að sjá hvernig til tekst. . .  


mbl.is Jóhanna vekur heimsathygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband