Góð byrjun

Það er fagnaðarefni að opinber rannsóknarnefnd Alþingis skuli strax opna opinn og aðgengilegan vef þar sem allir geta sent inn upplýsingar. Það er einmitt mikilvægt að nefndin sjálf skuli hafa opinn aðgang að upplýsingum  bæði sem gagnvart stofnunum og í gegn um netið. Bankaleynd er svo aflétt gagnvart nefndinni til að allt geti legið fyrir.  

Nú er að sjá hvernig þessi rás verði nýtt...


mbl.is Öryggi rannsóknargagna tryggt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forðumst sértækar aðgerðir í gjaldeyris- og gengismálum

Hugmyndir um að gera upp skuldir ákveðinna hópa með fixeruðu gengi hafa verið áberandi síðustu dagana. Þá er ég ekki síst að vísa í hugmyndir um að breyta gengistryggingarsamningum sem útgerðin hefur víst tekið í stórum stíl og svo nýjustu fréttina; að ríkið taki á sig gengishögg vegna erlendra íbúðalána. Í báðum tilfellum er hugmyndin sú að hygla ákveðnum hópum sem hafa orðið fyrir búsifjum vegna lægra gengis krónunnar.

Mörgum misbýður þessi viðleitni til að hjálpa sumum umfram aðra enda erfitt að réttlæta slíka mismunum. Þegar almennt hrun verður eins og hjá okkur á Íslandi þurfa flestir stuðning og verða aðgerðir aldrei nógu góðar fyrir alla.

Eitt er víst: Sértækar aðgerðir til hjálpar einstökum hópum er eilífðarverkefni sem engan endi mun taka. Reynsla miðstýrðs þjóðarbúskapar hefur kennt okkur að sú leið að handstýra kjörum leiðir á endanum til varanlegrar kjaraskerðingar.

 


72,31% þeirra sem taka afstöðu vilja einhliða upptöku - mun færri vilja ganga í ESB

Þessi könnun er merkileg þegar svör við aðal spurningunni er skoðuð:

Meirihluti hefur gert upp hug sinn og eru 56,4% fylgjandi einhliða upptöku annars gjaldmiðils. Eingöngu 21,6% eru andvíg því að tekin sé upp önnur mynt einhliða. Þá eru 22% hvorki andvíg né fylgjandi.

Ef horft er til þeirra sem taka beina afstöðu er niðurstaðan sú að rúm 72% vilja einhliða upptöku annars gjaldmiðils. Þá er rétt að bera þetta saman við aðra könnun Gallup sem unnin var fyrir Samtök Iðnaðarins skömmu fyrir áramót. Þar kemur fram að 42,9% vilja ganga í ESB eða minna en helmingur þjóðarinnar. 

Með öðrum orðum: 

Um þriðjungi fleiri vilja taka upp annan gjaldmiðil einhliða en vilja ganga í ESB.

Þetta er staðan þrátt fyrir mjög stífan málflutning fjölmiðla og stjórnmálaflokka um annað. 


mbl.is Langflestir þeirra sem vilja skipta velja evru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður fundur - spurningar ræddar

Fundurinn í dag var ekki bara fjölsóttur heldur líka gagnlegur upptaktur fyrir landsfundinn. Báðir fundarmenn náðu vel til fundarmanna, en að Bjarna ólöstuðum verður að segja það eins og það er að Styrmir stal senunni á fundinum. Ekki var síður eftirtektarvert að heyra hvað fundarmenn sjálfir höfðu til málanna að leggja. Margir veltu fyrir sér kostum ESB og vildu jafnframt horfa sérstaklega á gjaldmiðilsmálin en þeim hefur verið ruglað oft saman við ESB.

Minnt var á hvernig Sjálfstæðisflokkurinn barðist fyrir sjálfstæði landsins og hvernig alþjóðasamningar á borð við stofnsamning SÞ, NATO og varnarsamningurinn við Bandaríkin gerðu okkur í senn; sjálfstæða þjóð og þáttakanda í samfélagi þjóðanna. Þá rifjuðu menn upp útfærslu landhelginnnar í þorskastríðum og við samningaborð SÞ. Mörgum fannst hætta á að nú væri miklum landvinningum Íslandssögunnar stefnt í voða vegna skammtímavanda.

Það er alveg morgunljóst að landsfundurinn verður bæði áhugaverður og mikilvægur.


mbl.is Umboð til að verja auðlindir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver eru aðalatriðin?

Nú stendur yfir ein mesta efnahagskreppa Íslandssögunnar og erum við Íslendingar orðnir tákmynd bankakreppunnar um allan heim. Þó ég hafi séð fréttir af Íslandi í mörgum helstu fjölmiðlum heims var mér brugðið um helgina þegar ég settist niður og horfði á heimildarmynd á al Jazeerah sem nefnist "When the world went bust" en þar er Ísland sýnt sem skelfilegt dæmi um hrunið og eru átakanleg viðtöl við Íslendinga svo ekki sé meira sagt. Þessi heimildarmynd fjallar um bankahrunið og hvernig lán voru tekin gáleysislega en það er athyglisvert að sjá hvað Ísland er notað sem dæmi.

Hér má skoða myndina: 

http://english.aljazeera.net/programmes/general/2009/01/2009141258799968.html 

---- 

Á sama tíma og allur heimurinn er að kljást við heimskreppuna og við hér heima þurfum að beita neyðarlögum svo greiðslumiðlun gangi fyrir sig er pólítíkin farin að snúast um inngöngu í ESB og það svo mjög að ekki er um annað rætt. 

Gjaldmiðlamál eru nær eingöngu rædd í samhengi við ESB og lítið er fjallað um samninga okkar við Breta og Þjóðverja. 

Uppbygging og endureisn Íslands verður vart byggð eingöngu á umsókn í ESB enda er atvinnuleysi í ESB miklu meira en á Íslandi. Aðalatriðið hlýtur að vera að klára okkar mál bæði í bráð og lengd og skilja ekki eftir óleystan vanda með því að benda á aðild að Sambandinu. Á endanum þurfa endar að ná saman hvort sem um er að ræða Bandaríkin, Bretland eða Ísland. Vöruskipti verða að vera í jafnvægi og lán að vera í samræmi við tekjur.

ESB umræðan er góðra gjalda verð en úrræði til uppbyggingar hljóta að vera aðalatriðið. 

 

 

 

 


mbl.is ESB aðeins átylla fyrir stjórnarslitum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kurteisari umræður á (útvarpi) Suðurlandi ...fm 96,3

Það er táknrænn endir fyrir afar dapurlegt ár að Kryddsíldinni hafi verið aflýst vegna mótmæla. Að óbreyttu hefði ég talið að mótmælendur væru uppteknir við fjölskyldumál á þessum síðasta degi þessa annus horribilis. - Annað hefur komið á gamlárs-daginn. Ekki er skortur á málum til að gagnrýna og verður fullt framboð af erfiðum málum áfram á nýju ári.

Á Selfossi var Útvarp Suðurlands með áramótaannál þar sem gestir voru úr pólítíkinn til lands og sveita. Valdimar Bragason og Kjartan Björnsson fengu til sín gesti á borð við Bjarna Harða, Árna Mathiesen, Björgvin G. Sigurðsson og sveitarstjórnamenn af Suðurlandi. Mér fannst áberandi hvað allir voru sammála um að horfa til uppbyggingar og flestir voru á því að Suðurlandsvegurinn ætti að koma til framkvæmda sem allra fyrst. Suðurland hefur mikla möguleika á nýju ári ef stutt er við vaxtarsprotana og þá atvinnukosti sem við búum við. Þessi þáttur var gott framtak sem og stöðin sjálf.

Nú er bara að njóta kvöldsins og fjölskyldunnar.


Al - 660.4 °C

Ef hremmingar þessa árs hafa kennt okkur eitthvað þá er það að Ísland þarf aukna framleiðslu og sterkari grunn til útflutnings. Þótt álið sé orðið fyrirferðarmikið í íslensku efnahagslífi er engu síður mikilvægt að fá nýja fjárfestingu inn í landið. Því ber að fagna.

Óvissa um Ísland er mikil um þessar mundir. Staðfestir samningar um nýjar fjárfestingar eru bestu skilaboðin til umheimsins um uppbyggingu og lánstraust.

Það er í raun heimsfrétt að verið sé að ákveða nýtt álver hér á Fróni á sama tíma og verið er að loka álverum víða um heim í kreppunni. Við skulum ekki gleyma því að nú er heimskreppa þótt hún sé mikil hér á landi er hún líka um heim allan.


mbl.is Sala á orku hefjist 2011
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaupum flugelda

Björgunarsveitirnar á Íslandi eru bæði mikilvægar og merkilegar. Þar er unnið mikið sjálfboðaliðastarf sem er bakhjarl öryggis víða um land. Flugeldasalan er mikilvægasti þáttur fjáröflunar þeirra. Þrátt fyrir krappari kjör er mikilvægt að við stöndum vörð um björgunarsveitirnar meðal annars með því að kaupa flugelda. Sparnaður hefur verið lítill á Íslandi og nauðsynlegt að hann sé aukinn og þó fyrr hefði verið. Flugeldarnir verða sjálfsagt minna keyptir en áður, en keyptir þó.

---------

HSBC bankinn spáir samdrætti víða um heiminn. Bankinn varar við þeirri tilhneigingu fólks að draga um of úr neyslu. Slíkt varð til þess á sínum tíma að kreppann mikla varð svo mikil sem raun bar vitni.


mbl.is Flugeldasalan hafin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðileg jól

Hér rifjast upp kvæði eftir Einar Sigurðsson frá Eydölum. Góðar stundir:

1. Emmanúel heitir hann
herrann minn enn kæri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.

2. Nóttin var sú ágæt ein,
í allri veröldu ljósið skein,
það er nú heimsins þrautar mein
að þekkja hann ei sem bæri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.

3. Í Betlehem var það barnið fætt
sem best hefur andar sárin grætt;
svo hafa englar um það rætt
sem endurlausnarinn væri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.

4. Fjármenn hrepptu fögnuð þann,
þeir fundu bæði Guð og mann;
í lágan stall var lagður hann
þó lausnarinn heimsins væri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.

5. Lofið og dýrð á himnum hátt
honum með englum syngjum þrátt;
friður á jörðu og fengin sátt,
fagni því menn sem bæri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.

6. Í Betlehem vil eg nú víkja þá
vænan svein í stalli sjá,
með báðum höndum honum að ná
hvar að eg kemst í færi.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.

7. Betlehem kallast kirkjan svinn, kórinn held eg stallinn þinn,
því hef eg mig þangað, herra minn,
svo heilræðin að þér læri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.

8. Upp úr stallinum eg þig tek
þó öndin mín sé við þig sek;
barns mun ekki bræðin frek,
bið eg þú ligg mér nærri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.

9. Örmum sætum eg þig vef, ástarkoss eg syninum gef,
hvað eg þig mildan móðgað hef,
minnstu ei á það kæri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.

10. Þér gjöri eg ei rúm með grjót né tré,
gjarnan læt eg hitt í té,
vil eg mitt hjartað vaggan sé,
vertu nú hér minn kæri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.

11. Umbúð verður engin hér
önnur en sú þú færðir mér,
hreina trúna að höfði þér
fyr hægan koddan færi.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.

12. Eilífs Guðs míns einka son,
undir hann breiði eg stöðuga von,
hjartans vil eg en heita bón bón
hvílu böndin væri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.

13. Á þig breiðist elskan sæt,
af öllum huga eg syndir græt,
fyr iðran verður hún mjúk og mæt,
miður en þér þó bæri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.

14. Af kláru hjarta kyssi eg þig,
komdu sæll að leysa mig;
faðmlög þín eru fýsilig,
frelsari minn enn kæri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.

15. Ver þú mitt eð veika brjóst
fyr veraldar sárum bræðiþjóst,
metnað deyð og mun það ljóst
að mér er þín ástin, kæri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.

16. Skapaðu hjartað hreint í mér
til herbergis sem sómir þér,
saurgan allri síðan ver
svo eg þér gáfur færi.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.

17. Þú heitir Jesús, heillin mín,
hjálpaðir mér frá dauðans pín;
í allri neyð þá minnstu mín
og mjúklega endurnæri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.


mbl.is Boðskapurinn breytist ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland í lánaleik jólablaðs Economist

Jólablað Economist er upp á 160 síður eða tvöfalt venjulegt blað. Ég kaupi yfirleitt Economist í lausasölu í "kaupfélaginu" (Nóatúni) en þetta nýjasta eintak vakti athygli á mínu heimili. Farið er yfir árið og kreppumál.

Í opnu blaðsins er svo "lánaleikur" á la Monopoly sem hægt er að hengju upp fyrir ofan rúmið (ef vill). Leikurinn heitir CREDIT CRUNCH og er vinstri hlutinn upphafið og hægri hlutinn hrapið. Tæpt er á ýmsum lykilþáttum kreditkreppunnar eins og undirmálslánunum og bílaiðnaðnum en af 23 leikreitum eru tveir sem eru tileinkaðir Íslandi. Hmmm...

Sá fyrri er "dæmi um öruggan stað til að fjárfesta á" fyrir þá sem vilja skoða nýmarkaði. (vinstri síða)
Hinn er kaup á Íslandi á ebay. Mjög slæm kaup greinilega því þau kosta næst mest og eru því næst versti kosturinn á eftir gjaldþroti spilarans sjálfs.

Gleðileg jól...


Skynsamleg ráðstöfun - fækkun kjörinna fulltrúa?

Þarna er stigið skynsamlegt og vel rökstutt skref. Stundum minnka afköst með of mörgum og getur það vel átt við nefndir Alþingis sem margt annað. Sama er að segja um nefndir sveitarstjórna; þar er unnt að sameina og draga saman seglin. Á samdráttartímum fækkar málum og með þessum hætti sýna stjórnvöld að þau eru tilbúin að minnka yfirbygginguna.

Kannski væri óvitlaust að skoða fækkun þingmanna?

-----------

Í kvöld var bæjarstjórnarfundur hjá okkur í Árborg. Þar lögðum við fulltrúar D-listans til að bæjarfulltrúum væri fækkað um 2 í 7 í stað 9. Þetta þýddi - að óbreyttu - að minnihlutinn missti 1 og meirihlutinn 1 fulltrúa. Heimild er í sveitarstjórnarlögum til að hafa 7 fulltrúa í sveitarfélögum sem telja 10.000 eða færri. Árborg er með færri en átta þúsund íbúa. Reykjavík er reyndar með 15 borgarfulltrúa svo 7 ættu að duga hér.


mbl.is Fastanefndir verði 7 í stað 12
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkefnið nú er að missa ekki atgervisfólk til útlanda

Þessi mikla fólksfjölgun er mælikvarði á hvað fólki hefur þótt Ísland eftirsóknarvert til búsetu. Fæðingartíðnin er líka sérstakt rannsóknarefni en fæðingarorlofið hefur örugglega ekki spillt fyrir.

Núna eru þungar horfur í atvinnumálum og atvinnuleysi um 5%. Enn er þó verra ástand í flestum öðrum löndum, en ef atvinnuleysi vex mikið getur þetta leitt til fólksflótta. Ég man þegar ég var lítill strákur þegar nágrannarnir voru að flytja til Svíþjóðar og Ástralíu. Þá var samdráttur á Íslandi en nú er samdráttur allsstaðar.

Uppbygging á Íslandi á næstu árum skiptir miklu máli um framtíð lands og þjóðar. Ef okkur fækkar mikið hefur það neikvæð áhrif á eignir og afkomu fyrirtækja jafnt sem opinberra aðila. Vinnandi fólk flytur helst þegar ágjöfin er enda var það vinnandi fólk og besta aldri sem helst fluttist til landsins í góðærinu. Nú er hætta á að þetta snúist við. Þess vegna er svo mikilvægt að við leggjumst á eitt að efla atvinnustigið.

Atvinnubótavinna er til einskis. Í staðinn eigum við að horfa til þess að auka hér framleiðslu og framleiðni.
Það eru lyklarnir að uppbyggingunni.


mbl.is Íbúum fjölgaði um 2,2% á einu ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vetrarríki - "The Sahara of snow"

það má með sanni segja að nú sé jólasnjórinn kominn. Veðurfræðingarnir spá reyndar "rauðum" jólum en ekki "hvítum" Aðalatriðið er samt að sem fæstir upplifi "blue christmas" eða "bláum jólum" eins og Elvis söng um forðum.

Vetrarríkið hefur lagt vegina undir og víða hafa menn varla undan að að moka. Á meðan getum við sem kunnum vel við birtuna af snjónum notið þess meðan hann er. Og svo voru Bláfjöllin full af skíðafólki.

Einn góður maður búsettur á Íslandi en ættaður frá New York hefur kallað Ísland "Sahara of snow". Ekki laust við að þessi líking komi upp í hugann nú um helgina.


ESB er eitt - gjaldmiðill er annað

Ályktun fundarins í gær er í takt við þá umræðu sem fer vaxandi. Of lengi hefur ESB verið gert að ígildi gjaldmiðilsskipta en innganga í ríkjasamband ESB er annað mál en upptaka gjaldmiðils. Í þeirri fjármála- og gjaldeyriskreppu sem við göngum nú í gegn um er eðililegt að margir láti hugfallast og horfi því til ESB sem "patent-lausnar". Ályktun fundarins gengur út að gjaldmiðilsskipti séu skoðuð sérstaklega og yfirvegað.

Hér er ályktunin í heild:

Selfossi 19. desember 2008
Sjálfstæðismenn í Árborg vilja skoða gjaldmiðilsmál óháð ESB

Fundur fulltrúaráðs Árborgar og sjálfstæðisfélagsins Óðins á Selfossi skorar á stjórnvöld að kanna til hlítar þann kost að taka einhliða upp annan gjaldmiðil í stað krónunnar. Ef niðurstaða slíkrar skoðunnar þykir jákvæð fyrir íslenskt efnahagslíf, heimili og fyrirtæki, verði ráðist í gjaldmiðlabreytingu svo fljótt sem verða má. Upptaka annars gjaldmiðils svo sem dollars eða evru væri hér til skoðunar burtséð frá hugleiðingum um inngöngu í ESB enda sanna nýleg dæmi að einhliða upptaka þarf ekki að vera háð slíkri inngöngu.

Þá leggur fundurinn áherslu á að gætt verði í hvívetna hagsmuna Íslands gagnvart ESB ekki síst hvað varðar landbúnaðarmál og sjávarútveg. Mikilvægt er að sú Evrópunefnd sem nú starfar að undirbúningi fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins horfi til þeirra grundvallar atvinnuvega sem matvælaframleiðsla og útvegur eru. Vægi sjávarútvegs og landbúnaðar er nú enn meira í þjóðarframleiðslu en fyrir hrun bankanna. Sjálfstæðisflokkurinn hefur frá upphafi staðið vörð um fullveldi og sjálfstæði Íslandseins og glöggt sést best á nafni flokksins. Verðmæti sem felast í sjálfstæðinu eru mikil og þau ber að varðveita með öllum ráðum.

mbl.is Einhliða upptaka gjaldmiðils
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru aðstoðarmenn þingmanna nauðsyn?

Nú þegar verið er að skera niður útgjöld ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja og heimila vakna spurningar um hvað sé nauðsyn og hvað sé bruðl. Undir lok góðæristímabilsins samþykkti Alþingi að þingmenn landsbyggðarinnar fengju aðstoðarmenn. Rökin voru þau að þingmenn gætu þá verið í betra sambandi við kjósendur enda væru þeir fastir niðri á Alþingi.

Á Íslandi eru 63 alþingismenn. Lögin koma í sívaxandi mæli frá framkvæmdavaldinu. Stundum samþykkt með afar litlum fyrirvara.

Því vaknar spurningin: Eru aðstoðarmenn þingmanna nauðsyn?


0% heimur

Vextir eru að nálgast 0% víða um heim. Með 0% verðtryggingu. Hagvöxtur er enginn.

Fyrir rúmu ári var heimurinn að vaxa hratt. Kína dró vaxtarvagninn og vesturlönd nutu ódýrrar framleiðslu. Alþjóðavæðingin var að lækka vöruverð og auka hagvöxt í Kína sem aftur gat lánað Bandaríkjunum milljarða dollara mánaðarlega. Svo kom hrávörubólan með matar- olíu- og málmaverðbólgu sem lagðist þungt á fyrirtækin enda sprakk bólan með gný.

Núna er samdráttur í Asíu, Evrópu og Bandaríkjunum samtímis og er það í fyrsta sinn í marga áratugi. Verðbólgan í BNA virðist horfin og neysluvísitalan lækkar um meira en prósent á milli mánaða.

Spurningin er: Hvað varir þetta lengi?

Eitt ár er viðráðanlegt, en ef alheimsvæðingin er að skreppa til baka verður þetta afturhvarf til fortíðar. Í stuttan tíma getur Kína haldið uppi innri hagvexti með fjárfestingum í lestarkerfum, hraðbrautum og flugvöllum. Til lengri tíma verður mikil breyting ef útflutningur Kína dregst saman.

0% vextir er besta ráðið við 0% vexti. Nú er að sjá hvort þetta meðal dugir. 

- Eitt er víst að við höfum úr nógu að spila þegar loks kemur að vaxtalækkunum hér á Fróni. -


mbl.is Vextir 0-0,25% í Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Listilega vel skrifuð grein

Adrian Gill skrifar leiftrandi stíl og ég er viss um að margir Bretar lesi þessa grein yfir morgunmatnum í dag.

Gill fer yfir hrunið (sem reyndar er í 10. sæti yfir fjármálahrun 2008 hjá Time magazine). Eins og menn muna beitti Gordon Brown sér af fullum þunga gegn Íslandi á sama tíma og hann var hvað lengst undir í skoðanakönnunum. Því miður fékk hann ESB með sér í lið og að því að ég best veit eru eignir Landsbankans enn frystar undir "the Landsbanki Freezing order" sem tók gildi 8. október. Enn er óútskýrt hvers vegna Bretar réðust gegn Kaupþingi og Landsbankanum með því offorsi sem gert var.

Gill fer yfir Íslandssöguna á leifturhraða og bendir á hvernig þjóðin hefur tekist á við hrikalega erfiða atburði og lifað þá af. Margt er spaugilegt í greininni en svona sjá margir okkur nú.  

 


mbl.is Brown sparkaði í Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óeðlileg afskipti af lýðræðislegu ferli

Það eru heldur nöturleg skilaboð frá formanni Samfylkingarinnar til samstarfsflokksins á aðventunni.
Sjálfstæðisflokkurinn var að opna lýðræðislegt og metnaðarfullt starf á vegum Evrópunefndar flokksins í gær.
Daginn eftir kemur formaður samstarfsflokksins í ríkisstjórn og hótar stjórnarslitum ef henni hugnast ekki niðurstaða landsfundar Sjálfstæðisflokksins. Það er rétt hjá Árna Sigfússyni að benda Ingibjörgu Sólrúnu á að ganga í Sjálfstæðisflokkinn vilji hún hafa áhrif á mótun stefnu flokksins. Sú árátta að vilja hafa áhrif á stefnumál annara flokka er undarleg. Ég hefði haldið að Samfylkingin hefði nóg að gera til dæmis við að vinna í þeirri kreppu sem sannarlega er komin hér á landi. Ekki er langt síðan að formaður Samfylkingarinnar sagði; "Hér er engin kreppa" í viðtali við Viðskiptablaðið. Daginn eftir voru fjöldauppsagnir.

Formaður Samfylkingarinnar ætti að fagna því að nú standi yfir metnaðarfull og fagleg vinna á vegum samstarfslokksins á sviði Evrópu og alþjóðamála.
Í staðinn kemur í ljós að Samfylkingin kýs að stilla forystu Sjálfstæðisflokksins upp við vegg í þessu máli - sem og öðrum.

Það hvarflar að manni hér sé viljandi verið að gera samstarf flokkanna erfitt eða jafnvel óbærilegt.


mbl.is Hafa ekki tíma fyrir truflun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband