Madoff reyndist Ponzi-plan

Nú berast fréttir af fjársvikum víða. Nú er upplýst af Fréttablaðinu að Novator hefur tapað milljörðum á lögfræðingi að nafni Marc Dreier. Fleiri íslenskir fjárfestar treystu þessum aðila fyrir fjármunum.

Stóra fréttin er samt af Bernard Madoff sem virðist hafa tapað 50 milljörðum bandaríkjadala (um 6000 milljörðum íslenskra króna) í hálfgerðu "Ponzi-plani" en það felst í því að greiða fjárfestum út mikinn arð með peningum nýrra fjárfesta. Þessi bolti gengur svo áfram þangað til ekki koma fleiri inn. Nú í kreppunni hafa sennilega færri fjárfest hjá Madoff og því var peningurinn og keðjan búin.

Sumar viðskiptakeðjur hafa stundað ekki ósvipuð viðskipti þó þau kunni að vera lögleg. Fyrst er eitt fyrirtæki keypt með skuldsetningu svo er næsta keypt og svo koll af kolli þar sem pappírshagnaður myndast og nýir (skulda-) peningar koma í viðbót. Þega hnykillinn raknar upp snýst dæmið við; eignir hrökkva ekki fyrir skuldum enda var sennilegast aldrei reiknað með að borga skuldirnar.


SA könnunin: Hver er niðurstaðan?

Afstaða forsvarsmanna Samtaka Atvinnulífsins til ESB hafa lengi verið kunnar. Nýverið var svo gerð sérstök könnun meðal aðildarfélaga um ESB aðild. Sjálfsagt hefur könnunin verið gerð til þess að fá skýrt umboð til að beita SA í þágu ESB umsóknar Íslands.

Nú segir Björn Bjarnason frá því að 43% hafi verið hlynntir, 40% andvígir og 17% óvissir. Björn spyr hvers vegna niðurstaðan skuli ekki birt? 

Ef þessar tölur eru réttar er ljóst að aðilar SA eru hreint ekki ákveðnir í afstöðu sinni - öfugt við það sem ætla mætti af forsvarsmönnum þeirra.

Nú er að sjá og bíða.


Göran Persson um Davíð Oddsson

Göran Persson fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar segir: „Bestu fjármálaráðherrarnir sem við höfum haft í Svíþjóð hafa verið stjórnmálamenn. Þegar lögð hefur verið áhersla á að fá í embættið fólk með hagfræðilegan bakgrunn hefur það endað í ringulreið.“

Um Davíð Oddsson Seðlabankastjóra segir Göran: „Seðlabanki þar sem ekki er til staðar í stjórninni einhver með þekkingu á alþjóðlegum stjórnmálum er illa staddur, það er mjög mikilvæg færni. Og sá sem nú stýrir bankanum er mjög hæfur á því sviði.“

Svo mörg voru þau orð.

Sá þetta ekki á forsíðu Fréttablaðisins...


Forgangsröðun í útgjöldum

Ríkið og sveitarfélög standa frammi fyrir vandasamri forgangsröðun í rekstri og fjárfestingum. Tekur minnka og verðbólgan eykst. Því er enn mikilvægara en áður að forgangsraða verkefnum.

Þau verkefni sem skila gjaldeyri, tekjum, störfum og arði hljóta að ganga fyrir. Rekstur stjórnsýslunnar hlýtur að vera takmarkaður við það sem nauðsynlegast þykir. Atvinnusköpun ætti að vera númer eitt.

Nú eru að koma ný fjárlög og öll sveitarfélög þurfa að klára fjárhagsáætlun fyrir 2008. Nú er að sjá hvernig áherslurnar verða.


Icesave og Alþingi

Utanríkisráðherra lagði fram þingsályktunartilögu sem varðar samninga vegna Icesave.
Ríkið mun samkvæmt þessari ályktun taka á sig miklar skuldbindingar eins og kunnugt er.
Sennilega þær mestu í sögu þjóðarinnar.

Þingsályktunin var samþykkt og hljóðar svona:
 
Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli þeirra sameiginlegu viðmiða sem aðilar hafa komið sér saman um.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.
1.    Lagaleg afstaða.
    Í kjölfar bankahrunsins í byrjun október 2008 kom í ljós að umtalsverðar fjárhæðir voru á innlánsreikningum í útibúum íslenskra banka í Evrópu. Þessar fjárhæðir voru að stærstum hluta til á innlánsreikningum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi, svokölluðum Icesave- reikningum. Þar sem starfsemi bankans í viðkomandi löndum var rekin í formi útibúa en ekki dótturfélaga gilda lög nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, um þessa starfsemi en þau lög eru byggð á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/19/EBE um innlánatryggingakerfi.
    Í samræmi við ákvæði 3. gr. laga nr. 98/1999 nær greiðsluskylda sjóðsins, og þar með talin ábyrgð hans á greiðslufalli, til útibúa íslenskra banka á Evrópska efnahagssvæðinu. Í þessu efni er vísað til reglugerðar nr. 120/2000 um sama efni. Á þessari forsendu sneru stjórnvöld í viðkomandi ríkjum Evrópusambandsins sér að íslenskum stjórnvöldum í því skyni að kanna með hvaða hætti þau hygðust tryggja að sjóðurinn stæði við þær skuldbindingar sem í tilskipuninni felast.
    Íslensk stjórnvöld voru ekki tilbúin til að fallast á að íslenska ríkinu bæri að ábyrgjast greiðslur til innlánseigenda ef þær færu fram úr því sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta gæti staðið undir af inngreiðslum í sjóðinn. Hafa þau haldið því skýrt til haga í öllum sínum viðræðum við stjórnvöld viðkomandi ríkja að þau telji að vafi leiki á um ábyrgð ríkja á tryggingarsjóðnum, ekki síst undir kringumstæðum þar sem fjármálakerfi aðildarríkis hrynur nánast að fullu eins og reyndin er hér á landi. Þessari lagatúlkun hefur verið hafnað af þeim ríkjum sem hlut eiga að máli svo og af Evrópusambandinu.
    Af hálfu íslenskra stjórnvalda hefur verið lögð áhersla á að fá úr málinu skorið fyrir viðeigandi úrskurðaraðila eða dómstól. Þessu hafa aðildarríki Evrópusambandsins alfarið hafnað. Afstaða þeirra byggist ekki síst á því að þau telja það mjög varhugavert að gefa með einhverjum hætti til kynna að vafi kunni að leika á um gildissvið þess innlánstryggingakerfis sem liggur til grundvallar innlánastarfsemi í Evrópu, þar sem ótvírætt gildi tilskipunarinnar sé forsenda þess að innstæðueigendur treysti bönkum fyrir sparifé sínu. Réttaróvissa kynni að valda ófyrirséðum afleiðingum í evrópsku bankakerfi.

2.    Pólitísk staða.
    Við upphaf þeirrar deilu sem hér um ræðir sneri hún einvörðungu að Bretum og Hollendingum og voru því viðræður teknar upp við þau ríki sérstaklega. Á þeim tíma stóðu líkur þegar til þess að Ísland mundi þurfa að reiða sig á lánafyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem og tvíhliða aðstoð erlendra ríkja til þess að koma efnahagslífinu á réttan kjöl á nýjan leik. Eftir að gengið hafði verið frá viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í samvinnu við sérfræðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var skipulega unnið að því í gegnum tengslanet utanríkisþjónustunnar að kynna málstað og málaleitan Íslands fyrir aðildarríkjum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Varð framan af ekki vart neins annars en stuðnings. Það snerist hins vegar og verulegar tafir urðu á fyrirtöku viljayfirlýsingar Íslands í framkvæmdastjórn sjóðsins.
    Þessi staða kom enn skýrar í ljós þegar Frakkland, sem formennskuríki í Evrópusambandinu, ákvað að beita sér fyrir viðræðum milli deiluaðila með pólitíska lausn að markmiði. Þá varð ljóst að ríki Evrópusambandsins töluðu einum rómi í málinu og lögðu kapp á að ábyrgð Íslands skýrðist sem allra fyrst. Sama átti við um starfshóp norrænu ríkjanna um lánafyrirgreiðslu við Ísland sem starfaði í framhaldi af fundi forsætisráðherra Norðurlandanna á þingi Norðurlandaráðs í Helsinki. Þannig varð ljóst að lausn þessa máls væri forsenda þess að hægt væri að fjármagna að fullu þá efnahagsáætlun sem íslensk stjórnvöld höfðu sent Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til afgreiðslu og að Ísland stæði einangrað ef pólitískri samningaleið væri hafnað.

3.    Niðurstaða íslenskra stjórnvalda.
    Með allt framangreint í huga er það mat ríkisstjórnarinnar að hagsmunum Íslands til lengri tíma litið sé best borgið með því að stjórnvöld styðji við Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta þannig að hann geti staðið straum af þeim kostnaði sem hlýst af því að ábyrgjast lágmarkstryggingu þá sem EES-reglur mæla fyrir um að því marki sem eignir viðkomandi banka standa ekki undir henni. Gert er ráð fyrir því að þau ríki sem hlut eiga að máli muni aðstoða sjóðinn við að standa undir þessu verkefni og það verði í formi lánveitinga viðkomandi ríkja til sjóðsins með ábyrgð íslenska ríkisins. Þær viðræður sem fram undan eru munu skera úr um nánari útfærslu þessara lánveitinga, auk þess sem hin endanlega niðurstaða mun ráðast af því að hve miklu leyti andvirði eigna viðkomandi banka mun renna til sjóðsins við uppgjör á búum þeirra.
    Endanlegar niðurstöður framangreindra samninga munu verða lagðar fyrir Alþingi og aflað viðeigandi fjárheimilda eftir því sem aðstæður krefjast.

Fylgiskjal.

UMSAMIN VIÐMIÐ

    1.      Ríkisstjórn Íslands hefur átt viðræðufundi með stofnunum Evrópusambandsins og hlutaðeigandi aðildarríkjum þess um skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að því er tekur til tilskipunar um innstæðutryggingar 94/19/ EBE. Aðilar komu sér saman um að tilskipunin um innstæðutryggingar hafi verið felld inn í löggjöfina um Evrópska efnahagssvæðið í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og gildi því á Íslandi með sama hætti og hún gildir í aðildarríkjum Evrópusambandsins.
    2.      Viðurkenning allra aðila á þessari lagalegu stöðu greiðir fyrir skjótri niðurstöðu samningaviðræðna þeirra sem nú standa yfir um fjárhagsaðstoð við Ísland, þ.m.t. við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þessar samningaviðræður skulu fara fram með samhæfðum og samræmdum hætti og skal þar tekið tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt.
    3.      Stofnanir Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins munu taka áframhaldandi þátt í þessu ferli sem fer fram í samráði við þær.

Pétur Blöndal alþingismaður kom svo með þessa hógværu breytingatillögu sem var því miður felld:    

 

Breytingartillaga


við till. til þál. um samninga varðandi ábyrgð ríkissjóðs á innstæðutryggingum vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu.

Frá Pétri H. Blöndal.



    Við tillögugreinina bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Bera skal samningana undir Alþingi.

Þessi tillaga var felld en upphafleg tillaga utanríkisráðherra var samþykkt eins og hér segir:

já:
Arnbjörg Sveinsdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Ármann Kr. Ólafsson, Árni Páll Árnason, Árni M. Mathiesen, Ásta R. Jóhannesdóttir, Ásta Möller, Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Björk Guðjónsdóttir, Einar K. Guðfinnsson, Ellert B. Schram, Geir H. Haarde, Guðbjartur Hannesson, Guðfinna S. Bjarnadóttir, Gunnar Svavarsson, Helgi Hjörvar, Herdís Þórðardóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Jón Gunnarsson, Karl V. Matthíasson, Katrín Júlíusdóttir, Kjartan Ólafsson, Lúðvík Bergvinsson, Ólöf Nordal, Rósa Guðbjartsdóttir, Sturla Böðvarsson, Össur Skarphéðinsson

nei:
Atli Gíslason, Álfheiður Ingadóttir, Jón Bjarnason, Katrín Jakobsdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir, Pétur H. Blöndal, Steingrímur J. Sigfússon

sat hjá:
Eygló Harðardóttir, Grétar Mar Jónsson, Guðjón A. Kristjánsson, Helga Sigrún Harðardóttir, Höskuldur Þórhallsson, Jón Magnússon, Magnús Stefánsson, Valgerður Sverrisdóttir

leyfi:
Kristján Þór Júlíusson, Siv Friðleifsdóttir

fjarst.:

Árni Johnsen, Árni Þór Sigurðsson, Birkir J. Jónsson, Björgvin G. Sigurðsson, Björn Bjarnason, Einar Már Sigurðarson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Illugi Gunnarsson, Kristinn H. Gunnarsson, Kristján L. Möller, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sigurður Kári Kristjánsson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson

 


Veitir ekki af...

Þessi styrking er verulega góð fyrir alla þá sem eru með erlend lán, verðtryggð lán, hafa áhyggjur af háum vöxtum eða þurfa á innfluttri vöru að halda; Íslendinga

Í öldudal þar sem slæmar fréttir eru nær einu fréttirnar eru þetta kærkomin tíðindi. 

Ekki veitir af. 

Gjaldeyrislögin umdeildu eru sem betur fer að virka og ef svo fer sem horfir verða áramótin mun skárri en við blasti fyrir nokkru. Gott væri að fá greiningu bankanna á horfum miðað við gengi krónunnar í 150, 200 og 250 þar sem ólík staða krónunnar hefur gríðarleg áhrif á afkomu fyrirtækja og heimila.

 

----

Í vefkönnun síðunnar hafa 200 greitt atkvæði með gjaldmiðli og er USD efstur með 38,5%

Spurt er "Hvaða gjaldmiðil viltu hafa?"
EUR 26,0%
USD 38,5%
ISK 21,0%
NOK 9,5%
Fjölmyntasamfélag 5,0%
200 hafa svarað

 


mbl.is Krónan styrkist áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tryggingarsjóður og ESB reglur túlkaðar af Seðlabanka Frakklands

Mér var sendur póstur með greinargerð Banque de France vegna innistæðutrygginga en þar segir meðal annars:

"It is accepted that deposit guarantee schemes are neither meant nor able to deal with systemic banking crises, which fall within the remit of other parts of the "safety net", e.g. supervisors, central bank, government."

Frakkar eru burðarás í ESB sem vildi ekki fallast á nákvæmlega sömu sjónarmið Íslendinga um takmarkaða ábyrgð vegna Icesave.  

Með öðrum orðum: Frakkar gera sér fulla grein fyrir því að tryggingarsjóður innistæðueigenda er takmörkuð trygging sem ekki getur bætt tjón sem verður við kerfislægt hrun banka. Enda ekki nema von því tryggingarsjóðir eru eingöngu í hverju landi fyrir sig og enginn ESB-sjóður er til.  

Áhættumat og greinargerð Banque de France á ensku má svo lesa hér 


1. des í Ráðhúsinu og í Pakkhúsinu

Því miður komst ég ekki á fullveldishátið Heimssýnar í Kópavogi þar sem hátíðarfundur bæjarstjórnar var haldinn í dag á sama tíma.  Fundurinn var haldinn vegna 10 ára afmælis Árborgar sem sveitarfélags auk þess sem ungmennaráð var formlegur þáttakandi fundarins. Fjölmenni var í salnum og var gaman að sjá Karl Björnsson fv. bæjarstjóra þar. Samþykkt var ályktun um aukið samstarf bæjarstjórnar og ungmennaráðs og að því loknu gengum við öll yfir í gamla Pakkhúsið þar sem vígt var langþráð ungmennahús. Meirihluti bæjarstjórnar stóð að því að kaupa þann hluta Pakkhússsins sem var undir öldurhús og var fyrirætlunin að rífa þetta sögufræga hús. Nú hefur verið horfið frá því - í bili - og það var vel við hæfi á fullveldisdaginn að við gátum samfagnað saman opnun nýja ungmennahússins. Vonandi fögnum við 100 ára afmæli fullveldis Íslands 2018 með endurheimtan efnahag, græna stóriðju og olíuvinnslu á Drekasvæðinu!

Það er alltaf vandasamt að velja nafn á miðstöðvar ungs fólks en nafnið sem valið var hljómar vel, sögulega og kunnulega: Að sjálfsögðu Pakkhúsið.

Lengi lifi fullveldið.
Lengi lifi Pakkhúsið.

 


Kjúklingabringur og evrur á fullveldisdegi

Það er bara eitt ár síðan að ESB átti að leysa af hólmi mikinn hluta landbúnaðar á Íslandi sem sagður var baggi á þjóðinni. "Kjúklingabringur á evrópuverði" voru ekki síst notaðar sem rök fyrir því að ganga í Sambandið. Jú og svo vorum við með svo stóra banka að við þurftum að ganga í ESB til að verja þá. Nú hefur reyndar komið á daginn að Seðlabanki Evrópu er ekki að bjarga bönkunum í Evrópu. Það gera ríkisstjórnir og seðlabankar landanna sjálfra. Nokkrir stærstu banka Evrópu eins og Royal Bank of Scotland, UBS í Sviss og Commerzbank hafa þurft að taka á sig miklar búsifjar og er þjóðríkin orðin aðal bankaeigandinn í Evrópu í dag.

Nú eftir bankahrunið á Íslandi er því haldið fram að ESB leysi vandamálin. Margir eru orðnir svartsýnir á krónuna í opnu hagkerfi og vilja því fá nýjan gjaldmiðil. Vandamálið við evruna er samt ekki síst ESB því þar á bæ vilja menn ekki að við fáum að taka evruna upp fyrr en við erum komin í Sambandið. Í fljótu bragði virðist því valið helst vera milli krónu og dollars.

En ef ESB færir okkur ekki ódýrari kjúklingabringur (sem eru núna ódýrari á Íslandi) og ekki heldur evru á ögurstundu. Hvað færir ESB þá? Þessu þurfa ESB sinnar að svara.

 

 


mbl.is Lykilorusta um ESB-aðild háð á landsfundi Sjálfstæðisflokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flensað í hvalinn; Hvalur 8 og mótmælaát með Benna Erlings

Þetta eru góðar fréttir og eiga japönsk stjórnvöld hrós skilið.

Ég man vel þegar ég fékk að fara í tvo hvalveiðitúra hjá móðurbróður mínum Þórði Eyþórssyni á Hval 8. Þetta voru ógleymanlegar ferðir fyrir lítinn gutta en móðir mín Sigríður fór með mér og svo systir mín Bergljót. Eitt sá ég vel: Það er allt krökkt af hval á Íslandsmiðum norður undir Grænland. Meira að segja Steypireyðurinn sem hefur verið alfriðaður um langan tíma var víða sjáanlegur. Hvalveiðar eru hluti af menningu okkar og nú skapa hvalveiðar dýrmætan gjaldeyri. Sú lausn að fá gjaldeyrislán fyrir hundruði milljarða gagnast ekkert ef við getum ekki framleitt vörur og þjónustu sem veita okkur gjaldeyri. Sjálfbærar hvalveiðar og hvalaskoðun geta vel farið saman.

Það rifjast líka upp fyrir mér hvalkjötsát okkar Benedikts Erlingssonar þegar við lékum saman í leikritinu Flensað í Malakoff undir leikstjórn Brynju heitinnar Benediktsdóttur 1986 á Kjarvalsstöðum. Þá voru Bandaríkjamenn að refsa okkur fyrir hvalveiðar og við tókum okkur til að átum hval í hádegismat flesta daganna. Þá var Potturin og Pannan með hvalsteik sem hægt var að taka með sér. Við Benedikt vorum í 19. aldar fötum þar sem við lékum læknanema sem vildu "flensað í Malakoff" og tókum okkur vel út með hvalkjötið sem við flensuðum í með hníf og gafli. 

Mæli með góðri hvalasteik eða hvala sashimi í tilefni dagsins.


mbl.is Grænt ljós á íslenskt hvalkjöt?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt að staldra við og skoða aðra kosti: EUR eða USD?

Sú ákvörðun að fara sér hægt í að fleyta krónunni skapar okkur svigrúm og tækifæri. Óvissan við krónuflotið er mikil og veruleg hætta á að illa fari með frekara gengisfalli vegna jöklabréfa og annara þátta. Mjög snörp lækkun krónunnar í viðbót við hrun hennar hingað til mynda hafa grafalvarlegar afleiðingar fyrir heimili og fyrirtæki. Verðbólgan myndi endanlega fara úr böndunum með tilheyrandi verðbótum og gjaldþrotum. Í annan stað gæti ríkið reynt að verja gengi krónunnar með því að ganga á dýrkeyptan gjaldeyrisvarasjóðinn. Slík viðleitni gæti leitt til mikils skaða þar sem spákaupmenn gætu leikið sér að vörnum ríkisins.

Með nýjum lögum um gengisvarnir eru farnar róttækar leiðir þar sem gjaldeyrishöft eru notuð til að tempra frjálst flæði peninga inn og út úr landinu. Hámarksrefsings við brotum er 2ja ára fangelsi og 75 milljón króna sekt. Þessi lög minna meira á gamla tíma haftastefnunnar og sósíalisma. Þessi leið er ekki til þess fallin að auka traust á íslenskum efnahag en kann þó að vera rétt og nauðsynleg í þeirri erfiðu stöðu sem stjórnvöld eru í.

Í stað krónuflots við erfiðar aðstæður gefst núna tími til að huga að nýjum leiðum í gjaldmiðlamálum. Ég fagna því þessum orðum forsætisráðherra að nýjar leiðir séu skoðaðar að fullri alvöru af ríkisstjórn. Hér hljóta menn einkum að horfa til upptöku evru, franka og ekki síst dollars annað hvort einhliða eða með samningsbundnum stuðningi seðlabanka viðkomandi myntar.

Á Íslandi er um 70% raforkumarkaðar nú þegar í USD og um 1/5 af fiskútflutningi einnig. Ályktun LÍÚ í dag markar tímamót í umræðunni um einhliða upptöku og þarf að skoða þá leið í kjölinn nú þegar. Biðstofan hjá ESB skilar seint árangri eins og margoft hefur komið fram og fólk hefur ekki meiri biðlund. Ástandið er einfaldlega of erfitt.


mbl.is Allt opið í gjaldeyrismálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krónunni fleytt á ís - hér er frumvarpið

Segja má að gjaldeyrishöft þau sem nú gilda valdi frosti á gjaldeyrismarkaði. Þar að auki hafa mikil vandamál verið í að koma gjaldeyri til og frá landinu vegna bankahrunsins og eru enn vandamál í þessu sambandi. Nú er komið fram frumvarp sem gerir ráð fyrir viðamiklum heimildum Seðlabanka Íslands til inngripa í gjaldeyrisviðskipti út þarnæsta ár. Ekki er ólíklegt að verið sé að forða því að eigendur jöklabréfa geti leyst þau til sín með því að setja þau "í frost".

Hér er svo frumvarpið: 

Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




1. gr.
    Á eftir 15. gr. laganna koma fjórar nýjar greinar, 15. gr. a – 15. gr. d, svohljóðandi:

    a. (15. gr. a.)
    Vakni grunur um brot gegn lögum þessum eða reglum settum á grundvelli þeirra skal Seðlabanki Íslands tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það. Með tilkynningu Seðlabanka Íslands skulu fylgja afrit þeirra ganga sem varða hið meinta brot. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um ákvörðun Seðlabanka Íslands um að tilkynna um málið til Fjármálaeftirlits. Seðlabanka Íslands er heimilt að láta Fjármálaeftirlitinu í té upplýsingar og gögn sem bankinn hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 2. mgr.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að leggja á stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn:
    1.      Reglum settum á grundvelli 3. gr. um takmarkanir eða stöðvun tiltekinna skammtímahreyfinga fjármagns í allt að sex mánuði.
    2.      4. gr. um takmarkanir á gjaldeyrisviðskiptum vegna fjármagnshreyfinga vegna beinna fjárfestinga erlendra aðila í atvinnurekstri, viðskipta erlendra aðila með hlutabéf í innlendum fyrirtækjum og fasteignakaupa erlendra aðila hér á landi.
    3.      10. gr. um skyldu aðila sem annast gjaldeyrisviðskipti til að hafa til reiðu upplýsingar um slíka þjónustu.
    4.      11. gr. um skyldu aðila til að verða við ósk viðskiptamanns um að ljúka tiltekinni yfirfærslu.
    5.      12. gr. um tímamörk til að ljúka yfirfærslu.
    6.      15. gr. um þagnarskyldu.
    Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 10 þús. kr. til 20 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 50 þús. kr. til 75 millj. kr. Við ákvörðun sekta skal m.a. tekið tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Ákvarðanir um stjórnvaldssektir skulu teknar af stjórn Fjármálaeftirlitsins og eru þær aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
    Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.

    b. (15. gr. b.)
    Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara eða reglur settar á grundvelli þeirra er Fjármálaeftirlitinu heimilt að ljúka málinu með sátt með samþykki málsaðila, enda sé ekki um að ræða meiri háttar brot sem refsiviðurlög liggja við. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins.

    c. (15. gr. c.)
    Í máli sem beinist að einstaklingi, sem lokið getur með álagningu stjórnvaldssekta eða kæru til lögreglu, hefur maður, sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot, rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Fjármálaeftirlitið skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.

    d. (15. gr. d.)
    Heimild Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum eða reglum settum á grundvelli þeirra fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
    Frestur skv. 1. mgr. rofnar þegar Fjármálaeftirlitið tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.

2. gr.


    16. gr. laganna orðast svo:
    Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn:
    1.      Reglum settum á grundvelli 3. gr. um takmarkanir eða stöðvun tiltekinna skammtímahreyfinga fjármagns í allt að sex mánuði.
    2.      4. gr. um takmarkanir á gjaldeyrisviðskiptum vegna fjármagnshreyfinga vegna beinna fjárfestinga erlendra aðila í atvinnurekstri, viðskipta erlendra aðila með hlutabéf í innlendum fyrirtækjum og fasteignakaupa erlendra aðila hér á landi.
    3.      15. gr. um þagnarskyldu.

3. gr.


    Á eftir 16. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 16. gr. a og 16. gr. b, svohljóðandi:

    a. (16. gr. a.)
    Brot gegn lögum þessum og reglum settum á grundvelli þeirra er varða sektum eða fangelsi varða refsingu hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Heimilt er að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað sem hlotist hefur af broti gegn ákvæðum laga þessara er varðar sektum eða fangelsi.
    Tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum og reglum settum á grundvelli þeirra er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.

    b. (16. gr. b.)
    Brot gegn lögum þessum og reglum settum á grundvelli þeirra sæta aðeins opinberri rannsókn að undangenginni kæru Fjármálaeftirlitsins til lögreglu.
    Varði meint brot á lögum þessum og reglum settum á grundvelli þeirra bæði stjórnvaldssektum og refsingu metur Fjármálaeftirlitið hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá stofnuninni. Ef brot eru meiri háttar ber Fjármálaeftirlitinu að vísa þeim til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef það lýtur að verulegum fjárhæðum, ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Jafnframt getur Fjármálaeftirlitið á hvaða stigi rannsóknar sem er vísað máli vegna brota á lögum þessum til opinberrar rannsóknar. Gæta skal samræmis við úrlausn sambærilegra mála.
    Með kæru Fjármálaeftirlitsins skulu fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot er studdur við. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að kæra mál til lögreglu.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 2. mgr. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 2. mgr.
    Lögreglu og ákæruvaldi er heimilt að láta Fjármálaeftirlitinu í té upplýsingar og gögn sem hún hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 2. mgr. Lögreglu er heimilt að taka þátt í aðgerðum Fjármálaeftirlitsins sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 2. mgr.
    Telji ákærandi að ekki séu efni til málshöfðunar vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi sem jafnframt varðar stjórnsýsluviðurlögum getur hann sent eða endursent málið til Fjármálaeftirlitsins til meðferðar og ákvörðunar.

4. gr.


    Við 17. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Seðlabanki Íslands skal fylgjast með að starfsemi aðila sé í samræmi við lög þessi. Fjármálaeftirlitið rannsakar þau mál sem Seðlabanki Íslands tilkynnir um til eftirlitsins.

5. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað binda lög þessi alla þegar við birtingu.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Fram til 30. nóvember 2010 er Seðlabanka Íslands heimilt, þrátt fyrir ákvæði 2. gr., að ákveða að gefa út reglur, að fengnu samþykki viðskiptaráðherra, sem takmarka eða stöðva tímabundið einhverja eða alla eftirtalda flokka fjármagnshreyfinga og gjaldeyrisviðskipti sem þeim tengjast ef slíkar hreyfingar fjármagns til og frá landinu valda að mati Seðlabankans alvarlegum og verulegum óstöðugleika í gengis- og peningamálum:
    1.      Viðskipti og útgáfu verðbréfa, hlutdeildarskírteina í verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum, peningamarkaðsskjala og annarra framseljanlegra fjármálagerninga.
    2.      Innlegg á og úttektir af reikningum í lánastofnunum.
    3.      Lánveitingar, lántökur og útgáfu ábyrgða sem ekki tengjast milliríkjaviðskiptum með vöru og þjónustu.
    4.      Inn- og útflutning verðbréfa og innlends og erlends gjaldeyris.
    5.      Framvirk viðskipti, afleiðuviðskipti, viðskipti með valrétti, gjaldmiðla- og vaxtaskipti og önnur skyld gjaldeyrisviðskipti þar sem íslenska krónan er annar eða einn gjaldmiðlanna.
    6.      Gjafir og styrki og aðrar hreyfingar fjármagns hliðstæðar þeim sem taldar eru upp í 1.–5. tölul.
    Seðlabanka Íslands er heimilt, að fengnu samþykki viðskiptaráðherra, að setja reglur um að skylt sé að skila erlendum gjaldeyri sem innlendir aðilar hafa eignast fyrir seldar vörur og þjónustu eða á annan hátt.
    Reglur skv. 1. og 2. mgr. skulu birtar í B-deild Stjórnartíðinda og skulu koma til endurskoðunar a.m.k. á sex mánaða fresti frá útgáfu þeirra.
    Brot gegn ákvæði þessu varðar stjórnvaldssektum og refsingu skv. 15. gr. a – 15. gr. d, 16. gr., 16. gr. a og 16. gr. b.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Inngangur.
    Í kjölfar hruns þriggja stærstu banka landsins í byrjun október ákvað ríkisstjórn Íslands að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um fjárhagslega fyrirgreiðslu. Í viljayfirlýsingu íslenskra stjórnvalda var þeirri fyrirætlan lýst að koma á stöðugleika á gengi íslensku krónunnar. Tímabil mikils samdráttar, stóraukins fjárlagahalla og mikillar aukningar opinberra skulda er fram undan. Hugsanlegt er að mikið fjármagnsflæði úr landi leiði til verulegrar viðbótarlækkunar á gengi krónunnar. Vegna skuldsetningar heimila og fyrirtækja gæti slíkt valdið stórskaða fyrir efnahag þjóðarinnar og aukið á samdráttinn í efnahagslífinu.
    Eitt brýnasta verkefni Seðlabanka Íslands næstu missirin er að tryggja stöðugleika íslensku krónunnar og búa í haginn fyrir styrkingu gengisins. Hætta er á að gengi krónunar verði tímabundið fyrir miklum þrýstingi þegar möguleikar á gjaldeyrisviðskiptum opnast á ný. Til að stemma stigu við þessa áhættu og koma í veg fyrir of mikið fjármagnsflæði úr landi er talin brýn nauðsyn að grípa til tímabundinna takmarkana á fjármagnshreyfingum milli landa.
    Í áætlun stjórnvalda til Alþjóðgjaldeyrissjóðsins kemur fram að gert sé ráð fyrir að beitt verið blöndu af hefðbundnum og óhefðbundnum aðgerðum. Stýrivextir hafa verið hækkaðir í 18% auk þess sem Seðlabankinn er tilbúinn að hækka stýrivextina enn frekar. Einnig verður beitt aðhaldi hvað áhrærir aðgang bankanna að lánum frá Seðlabankanum með það að markmiði að ekki verði dregið um of á lausafé með þeim hætti. Þá hefur Seðlabankinn lýst því að hann sé tilbúinn að nota gjaldeyrisforðann til að koma í veg fyrir of miklar sveiflur í gengi krónunnar. Óvíst er hvort þessar aðgerðir einar og sér nægi til að koma í veg fyrir fjármagnsútflæði. Því er talið óhjákvæmilegt samkvæmt áætluninni að beita tímabundnum takmörkunum á gjaldeyrisviðskipti vegna fjármagnsviðskipta sem er efni frumvarps þessa. Gjaldeyrishöftum á fjármagnsviðskipti fylgja ýmis neikvæð hliðaráhrif. Því er stefnt að því að afnema þau svo fljótt sem auðið er og lagt til að heimild Seðlabankans til að gefa út reglur um takmarkanir eða stöðvun fjármagnshreyfinga verði bundin við tímabil fjárstuðningsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Alþjóðlegar skuldbindingar.
Samingurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn).
    Kveðið er á um meginregluna um frjálst fjármagnsflæði í 40. og 41. gr. EES-samningsins. Reglan felur í sér að aðildarríkjunum er óheimilt að hefta flutning fjármagns um Evrópska efnahagssvæðið. Verði gripið til takmarkana á fjármagnshreyfingum sem frumvarpið veitir heimild til má telja að þær gangi gegn þessari meginreglu samningsins. Með vísan til skuldbindinga Íslands samkvæmt samningnum er gert ráð fyrir að öðrum aðildarríkjum og eftirlitsstofnunum svæðisins verði tilkynnt um þessa þróun mála í tengslum við efnahagsaðgerðir íslenskra stjórnvalda. Jafnframt gera stjórnvöld ráð fyrir að grípa til verndarráðstafana skv. 43. gr. samningsins sem veitir samningsaðilum heimild til slíks reynist það nauðsynlegt til að bregðast við ýmiss konar erfiðleikum eða röskun á fjármagnsmarkaði viðkomandi aðildarríkis. Er það mat stjórnvalda að þær aðgerðir sem hugsanlega verður gripið til á grundvelli frumvarpsins falli undir fyrrgreint ákvæði og rétt sé að beita heimildum þess við slíkar aðstæður.

Efnahags- og framfarastofnunin (OECD).
    Ísland er aðili að samþykktum OECD um afnám hafta á þjónustu og fjármagnshreyfingar (Codes of Liberalisation of Current Invisible Operations and Capital Movements). Samþykktirnar eru skuldbindandi fyrir Ísland að þjóðarétti. Samþykktirnar fela ekki aðeins í sér að aðildarríkin skuldbinda sig til að heimila gjaldeyrisyfirfærslur vegna viðskipta heldur einnig að afnema allar hömlur á viðskiptunum sjálfum. Samkvæmt samþykktunum geta aðildarríki endurvakið höft sem áður hafa verið felld niður ef alvarlegar aðstæður skapast vegna þess að gjaldeyrisreglur hafa verið rýmkaðar. Hyggist aðildarríki setja aftur upp hömlur ber að tilkynna slíkt til OECD.

Alþjóðaviðskiptastofnunin.
    Þær aðgerðir sem lagt er til í frumvarpinu að Seðlabankanum verði heimilt að grípa til beinast ekki gegn inn- og útflutningi vöru eða þjónustu eða greiðslu vegna slíks inn- og útflutnings. Verður því að jafnaði ekki talið að þær fari í bága við skuldbindingar Íslands til að afnema höft í vöruviðskiptum (XI. gr. GATT-samningsins) og til að takmarka ekki yfirfærslur og greiðslur í þjónustuviðskiptum (XI. gr. GATS-samningsins). Jafnvel þótt síðar verði talið að tiltekin ráðstöfun fari í bága við aðra hvora af fyrrgreindum skuldbindingum má eigi að síður réttlæta hana á grundvelli ákvæða XII. gr. viðkomandi samnings, en þau ákvæði heimila aðildarríki að setja takmarkanir í því skyni að tryggja fjárhagsstöðu sína og tryggja greiðslujöfnuð. Ákvæðið gerir ráð fyrir að slíkar takmarkanir verði tilkynntar stofnuninni.

Efni frumvarpsins.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að Seðlabanka Íslands verði í samráði við viðskiptaráðherra heimilt fram til 30. nóvember 2010 að setja reglur sem takmarka eða stöðva tímabundið tiltekna flokka fjármagnshreyfinga.
    Talsverð hætta er á að aðilar sem eiga verulegar fjárhæðir í krónum, bæði á innlánsreikningum og í verðbréfum, muni leggja allt kapp á að selja slík bréf og kaupa gjaldeyri til að koma fjármunum sínum úr landi um leið og færi gefst. Þar sem fjárhæðir þessar eru verulegar geta slíkir fjármagnsflutningar leitt til verulegrar gengislækkunar íslensku krónunnar vegna keðjuverkandi áhrifa. Hætta er á að fjárfestar sem að öðrum kosti vildu halda krónustöðum sínum reyni einnig að selja við slíkar aðstæður. Mikil bankaviðskipti slíkra aðila geta valdið miklum sveiflum í gengi krónunnar. Dæmi eru um að gengi haldist lágt um árabil í kjölfar fjármála- og gjaldeyriskreppu, þrátt fyrir viðskiptaafgang sem skapar að öðru óbreyttu forsendur til þess að gengi gjaldmiðils styrkist. Til þess að draga úr líkum á langvarandi yfirskoti er nauðsynlegt að takmarka möguleika aðila á að selja krónur gegn erlendum gjaldeyri og á sama hátt að takmarka möguleika þeirra sem aðgang hafa að erlendum gjaldeyri vegna útflutnings eða erlendra eigna að mæta þeirri eftirspurn.
    Í 3. gr. laganna er að finna ákvæði sem heimilar Seðlabanka Íslands að höfðu samráði við viðskiptaráðherra að takmarka eða stöðva í allt að sex mánuði tiltekna flokka fjármagnshreyfinga ef skammtímahreyfingar fjármagns til og frá landinu valda að mati Seðlabankans óstöðugleika í gengis- og peningamálum. Ákvæði 3. gr. er takmarkað við sex mánuði og tekur eingöngu til skammtímahreyfingar fjármagns. Spákaupmennska og óstöðugleiki í peninga- og gjaldeyrismálum fylgir fremur skammtímahreyfingum fjármagns en langtímahreyfingum. Ákvæðið miðar að því að geta spornað við því að skyndihreyfingar fjármagns hafi óæskileg áhrif á innlendan peninga- og gjaldeyrismarkað og skapi umrót og óvissu. Seðlabankar geta í flestum tilvikum stemmt stigu við fjármagnsflæði með almennum aðgerðum, svo sem kaupum og sölu á erlendum gjaldeyri og vaxtabreytingum. Dugi slíkar aðgerðir ekki til er heimild 3. gr. til staðar. Þær aðstæður sem nú eru á innlendum gengis- og peningamarkaði kalla hins vegar á víðtækari úrræði en 3. gr. veitir þar sem takmarkanir á skammtímahreyfingum eru ekki taldar nægjanlegar til að sporna við útflæði gjaldeyris af framangreindum ástæðum.
    Aðgangur almennings og fyrirtækja að gjaldeyri vegna viðskipta með vöru og þjónustu verður ekki heftur nema að því marki að til fjármagnshreyfinga komi í tengslum við slík viðskipti. Almenningur mun því áfram hafa aðgang að gjaldeyri vegna ferðalaga og námskostnaðar.
    Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að Fjármálaeftirlitið hafi heimild til að leggja á stjórnvaldssekt vegna brota á lögunum eða reglum settum á grundvelli þeirra eftir að Seðlabankinn hefur tilkynnt Fjármálaeftirlitinu um meint brot. Nauðsynlegt er að stjórntæki séu til staðar til að framfylgja ákvæðum laganna, m.a. þeim takmörkunum sem lagt er til að Seðlabankinn hafi heimild til að setja um tiltekna flokka fjármagnshreyfinga. Ella geta aðilar virt slíkar takmarkanir að vettugi án viðurlaga og heimildin hefði ekki tilætluð áhrif. Ákvæði frumvarpsins um stjórnvaldssektir eru sambærileg viðurlagaákvæðum laga á fjármálamarkaði og eru í samræmi við ný viðmið um beitingu viðurlaga við efnahagsbrotum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

 

Um 1. gr.


    Í 1. gr. er lagt til að á eftir 15. gr. laganna komi fjórar nýjar greinar, 15. gr. a – 15. gr. d, er lúta að heimild til Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssektir eða ljúka málum með sátt. Þá eru ákvæði um fyrningu og rétt manna til að fella ekki sök á sjálfan sig. Ákvæðin eru í samræmi við ákvæði laga á fjármálamarkaði um viðurlög við brotum, sbr. t.d. XIV. kafla laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
    Í a-lið ákvæðisins eru ákvæði frumvarpsins um heimildir Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssektir. Gert er ráð fyrir að Seðlabanki Íslands tilkynni Fjármálaeftirlitinu um það ef grunur vaknar um brot gegn lögunum. Þannig er gert ráð fyrir að Seðlabankinn fari almennt með eftirlit með að framkvæmd sé í samræmi við ákvæði laganna, en að Fjármálaeftirlitið rannsaki grun um einstök brot.
    Gert er ráð fyrir að Fjármálaeftirlitinu verði heimilt að leggja stjórnvaldssektir á þann sem brýtur gegn reglum á grundvelli 3. gr. um takmarkanir eða stöðvun tiltekinna skammtímahreyfinga fjármagns í allt að sex mánuði, 4. gr. um takmarkanir á gjaldeyrisviðskiptum vegna fjármagnshreyfinga vegna beinna fjárfestinga erlendra aðila í atvinnurekstri, viðskipta erlendra aðila með hlutabéf í innlendum fyrirtækjum og fasteignakaupa erlendra aðila hér á landi, 10. gr. um skyldu aðila sem annast gjaldeyrisviðskipti til að hafa til reiðu upplýsingar um slíka þjónustu, 11. gr. um skyldu aðila til að verða við ósk viðskiptamanns um að ljúka tiltekinni yfirfærslu, 12. gr. um tímamörk til að ljúka yfirfærslu og 15. gr. um þagnarskyldu. Gert er ráð fyrir að hámarksfjárhæð stjórnvaldssekta verði 75 millj. kr.
    Er lagt til í b-lið ákvæðisins að Fjármálaeftirlitið hafi heimild til að ljúka máli með sátt við tilteknar aðstæður. Gert er ráð fyrir að til þess að unnt sé að ljúka máli með sátt verði samþykki málsaðila að liggja fyrir. Þá megi ekki vera um að ræða brot sem meiri háttar refsiviðurlög liggja við. Þá er lagt til að sátt sé bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt hana og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. Ekki er heimilt að ljúka máli með sátt ef um er að ræða meiri háttar brot sem refsiviðurlög liggja við. Þá er loks gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið geti sett nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins.
    Í c-lið ákvæðisins er fjallað um rétt manna til að fella ekki á sig sök. Talið hefur verið að á meðan ekki er í stjórnsýslulögum almennt ákvæði um rétt einstaklinga til að fella ekki sök á sjálfan sig við rannsókn á stjórnsýslustigi þyki æskilegt að inntak réttarins verði lögfest í sérlögum á sviði fjármunaréttar þar sem stjórnsýsluviðurlög, sem talist geta viðurlög við „refsiverðu broti“ í skilningi 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, liggja við brotum á lögunum.
    Ákvæðið á aðeins við ef til staðar er „rökstuddur grunur“ um að viðkomandi hafi framið refsivert brot. Þykir eðlilegt að miða við að grunur yfirvalda sé svo sterkur að ástæða væri til að veita honum réttarstöðu grunaðs manns samkvæmt reglum opinbers réttarfars. Þannig verði að vera til staðar aðstæður eða sönnunargögn sem bendi til sektar viðkomandi og rannsókn að beinast að honum sérstaklega en ekki stærri hópi manna. Ef til staðar er rökstuddur grunur um að viðkomandi hafi framið refsivert brot er honum aðeins skylt að veita upplýsingar ef unnt er að útiloka að þær geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um sekt hans. Væri honum því til dæmis skylt að veita upplýsingar um nafn sitt og heimilisfang.
    Í d-lið ákvæðisins er fjallað um fyrningu og er lagt til að heimild Fjármálaeftirlitsins til að beita stjórnvaldssektum falli niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk. Er það í samræmi við sambærileg ákvæði laga á fjármálamarkaði.

Um 2. gr.


    Í ákvæðinu er lögð til breyting á refsiákvæði 16. gr. laganna. Er lagt til að kveðið verði á um refsingar vegna saknæmrar háttsemi í tengslum brot gegn 3. gr. um takmarkanir eða stöðvun tiltekinna skammtímahreyfinga fjármagns í allt að sex mánuði, 4. gr. um takmarkanir á gjaldeyrisviðskiptum vegna fjármagnshreyfinga vegna beinna fjárfestinga erlendra aðila í atvinnurekstri, viðskipta erlendra aðila með hlutabéf í innlendum fyrirtækjum og fasteignakaupa erlendra aðila hér á landi og 15. gr. um þagnarskyldu. Í greininni er lagt til að brot á ákvæðunum varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Ákvæðið er sambærilegt ákvæðum laga á fjármálamarkaði. Vakin er athygli á að gert er ráð fyrir að færri brot varði refsingu en stjórnvaldssektum.

Um 3. gr.


    Á eftir 16. gr. er lagt til að tvær nýjar greinar bætist við sem varða viðurlagaákvæði laganna. Í a-lið er kveðið á um að brot gegn lögunum og reglum settum á grundvelli þeirra varði refsingu hvort heldur sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi. Þá er mælt fyrir um að heimilt sé að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað sem hlotist hefur af broti gegn ákvæðum laganna er varða refsingu. Að lokum er kveðið á um að tilraun til brots eða hlutdeild í brotum á ákvæðum laganna eða reglum settum á grundvelli þeirra sé refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.
    Í b-lið lagt til að sett verði ákvæði um verklag við rannsókn mála þar sem meint brot varða bæði stjórnvaldssektum og refsiviðurlögum og um samskipti milli Fjármálaeftirlitsins, lögreglu og ákæruvalds. Eru breytingarnar í samræmi við ákvæði laga á fjármálamarkaði, sbr. 112. gr. laga um fjármálafyrirtæki.
     Í 1. og 2. mgr. er kveðið á um hvernig skulu fara með brot gegn lögum um fjármálafyrirtæki sem bæði geta varðað stjórnvaldssektum og refsingu. Í 1. mgr. er kveðið á um að brot gegn lögunum sæti aðeins opinberri rannsókn að undangenginni kæru Fjármaálaeftirlitsins til lögreglu. Í 2. mgr. er síðan mælt fyrir um að ef meint brot varði bæði stjórnvaldssektum og refsingu meti Fjármálaeftirlitið hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá stofnuninni. Í málsgreininni er síðan að finna viðmið um það hvenær Fjármálaeftirlitinu ber að kæra mál til lögreglu. Lagt er til að stofnuninni beri að kæra öll meiri háttar brot á lögunum sem varða refsingum til lögreglu. Brot teljast meiri háttar í skilningi ákvæðisins ef þau lúta að verulegum fjárhæðum eða ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brots. Þá mun verða höfð hliðsjón af heimildum Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssektir við afmörkun á því hvaða brot teljist meiri háttar. Lögregla mun síðan rannsaka þau mál sem Fjármálaeftirlitið vísar til hennar og eftir atvikum gefa út ákæru vegna þeirra.
    Í ákvæðinu er einnig kveðið á um að Fjármálaeftirlitið geti á hvaða stigi rannsóknar sem er vísað máli vegna brota á lögunum til opinberrar rannsóknar.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að kæra mál til lögreglu teljist ekki til stjórnsýsluákvörðunar og því gildi ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga ekki um slíkar ákvarðanir stofnunarinnar. Í málsgreininni er jafnframt kveðið á um að með kæru Fjármálaeftirlitsins skuli fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot er studdur við.
    Í 4. mgr. er að finna heimild fyrir Fjármálaeftirlitið til að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast brotum sem bæði geta varðað stjórnvaldssektum og refsiábyrgð. Þá er í málsgreininni heimild fyrir stofnunina til að taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varða rannsókn þeirra brota sem bæði geta varðað stjórnvaldssektum og refsingu.
    Í 5. mgr. greinarinnar er kveðið á um að lögreglu og ákæruvaldi sé heimilt að afhenda Fjármálaeftirlitinu upplýsingar og gögn sem aflað hefur verið og tengjast brotum sem bæði geta varðað stjórnvaldssektum og refsiábyrgð. Þá er gert ráð fyrir að lögreglu sé heimilt að taka þátt í aðgerðum Fjármálaeftirlitsins sem varða rannsókn brota sem bæði geta varðað stjórnvaldssektum og refsingu.
    Í lokamálsgrein ákvæðisins er kveðið á um heimild ákæranda til að senda eða endursenda mál til Fjármálaeftirlitsins til meðferðar og ákvörðunar í þeim tilvikum þar sem ekki eru talin efni til málshöfðunar og ætluð refsiverð háttsemi varðar jafnframt stjórnsýsluviðurlögum. Á ákvæðið við hvort sem lögregla eða ákæruvald hafa tekið mál upp að eigin frumkvæði eða fengið það sent frá eftirlitsaðilanum.

Um 4. gr.


    Í grein þessari kemur fram hvernig gert er ráð fyrir að eftirlit með ákvæðum laganna sé háttað. Kveðið er á um að Seðlabanki Íslands hafi almennt eftirlit með lögunum, en að Fjármálaeftirlitið rannsaki þau mál sem Seðlabanki Íslands tilkynnir eftirlitinu um. Fjármálaeftirlitið fer með eftirlit með starfsemi á fjármálamarkaði. Samkvæmt 20. og 22. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, getur starfsemi banka og verðbréfafyrirtækja lotið að gjaldeyrisviðskiptum. Í ljósi þessa og þar sem Fjármálaeftirlitið hefur víðtækar heimildir til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum sem gilda um starfsemi á fjármálamarkaði er talið skynsamlegt að eftirlitið rannsaki meint brot gegn lögunum og leggi eftir atvikum á stjórnvaldssektir. Ekki er þörf á að kveða sérstaklega á um eftirlitsheimildir Fjármálaeftirlitsins í frumvarpi þessu þar sem í 3. mgr. 2. gr. og 3. mgr. 8. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, er gert ráð fyrir að þau lög taki til eftirlits og annarra verkefna gagnvart einstaklingum og lögaðilum sem Fjármálaeftirlitinu er falið að framkvæma samkvæmt ákvæðum sérlaga.

Um 5. gr.


    Í ákvæðinu er lagt til að lögin öðlist þegar gildi enda er talið mikilvægt að Seðlabankinn hafi þær heimildir sem frumvarpið felur í sér hið fyrsta. Í lögum um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað er kveðið á um að lög bindi alla frá og með deginum eftir útgáfudag þeirra Stjórnartíðinda þar sem fyrirmælin voru birt. Vegna eðlis ákvæða frumvarpsins er nauðsynlegt að lögin bindi alla þegar við birtingu þeirra.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Í ákvæðinu er lagt til að Seðlabankanum verði heimilað að fengnu samþykki viðskiptaráðherra að ákveða með reglum að takmarka eða stöðva tímabundið tiltekna flokka fjármagnshreyfinga sem taldir eru upp í ákvæðinu og gjaldeyrisviðskipti þeim tengdum. Lagt er til að Seðlabanka Íslands verði heimilt að grípa til slíkra aðgerða ef líkur eru á að neyðarástand kunni að skapast vegna mikils útflæðis á gjaldeyri.
    Takmarkanir á fjármagnshreyfingum eru neyðarúrræði sem hafa talsverð neikvæð áhrif og því er mikilvægt að ef gripið er til slíkra takmarkana að afnema þau svo fljótt sem auðið er. Er því lagt til að heimild Seðlabankans til að takmarka eða stöðva tiltekna flokka fjármagnshreyfinga verði tímabundin til 30. nóvember 2010, sem er sama tímabil og áætlun Íslands um efnahagsstöðugleika vegna lánsumsóknar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum tekur til. Gert er ráð fyrir að viðskiptaráðherra samþykki reglurnar áður en þær eru settar.
    Þeir flokkar fjármagnshreyfinga sem lagt er til að heimilt verði að stöðva eða takmarka taka mið af því að nauðsynlegt er talið að unnt sé að loka öllum mögulegum leiðum sem innlendir og erlendir aðilar hafa til að loka krónustöðum sínum fyrr en ella. Slíkt hefði annars vegar í för með sér ójöfnuð meðal aðila og mundi hins vegar leiða til þess að uppbygging gjaldeyrisforða landsins sem nýta þarf til að vinna á áðurnefnum krónustöðum tæki lengri tíma. Með takmörkunum á fjármagnsflutningum er geta aðila til að stofna til nýrra gjörninga takmörkuð.
    Horfur eru á að vöru- og þjónustuviðskipti verði hagstæð á næstu missirum, bæði vegna aukinnar framleiðslugetu útflutningsfyrirtækja og vegna þess að einkaneysla mun dragast saman sem leiðir til minni innflutnings. Miklar stöðutökur erlendra aðila eru hins vegar áhyggjuefni sem fyrr segir. Höft á fjármagnshreyfingar hafa því aðeins gildi að erlendur gjaldeyrir sem aflað er vegna útflutnings skili sér til landsins. Án slíkra takmarkana munu útflutningsfyrirtæki hafa hag af því að selja gjaldeyri til fjárfesta á hærra gengi en fæst á innlendum gjaldeyrismarkaði. Að byggja upp gjaldeyrisforða sem hægt er að nýta til að greiða niður krónulán og verðbréf mun taka tíma. Því er lagt til að Seðlabankinn fái heimild til að setja reglur að fengnu samþykki viðskiptaráðherra um skilaskyldu erlends gjaldeyris sem innlendir aðilar eignast fyrir seldar vörur og þjónustu eða á annan hátt. Ekki er gert ráð fyrir að gerð verði krafa um sölu á erlendum gjaldeyri heldur geti eigendur lagt hann inn á innlenda gjaldeyrisreikninga og þannig haft óheftan aðgang að þeim gjaldeyri vegna vöru- og þjónustuviðskipta.
    Þar sem um verulega íþyngjandi takmarkanir er um að ræða, sem æskilegt er að standi eins stutt og mögulegt er, er lagt til að reglurnar komi til reglulegrar endurskoðunar a.m.k. á sex mánaða fresti.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 87/1992,
um gjaldeyrismál, með síðari breytingum.

    Samkvæmt frumvarpinu verður Seðlabanka Íslands heimilt fram til 30. nóvember 2010 að takmarka eða stöðva tímabundið tiltekna flokka fjármagnshreyfinga og gjaldeyrisviðskipti sem þeim tengjast, ef metið er að slíkar hreyfingar fjármagns til og frá landinu valdi alvarlegum og verulegum óstöðugleika í gengis- og peningamálum. Frumvarpinu er ætlað að fylgja eftir 19. lið aðgerðaráætlunar Íslands um efnahagsstöðugleika sem send var til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 3. nóvember sl. Seðlabankinn mun annast um eftirlit með ákvörðunum um þessar takmarkanir með atbeina Fjármálaeftirlitsins, auk beitingar viðurlaga sem felast í stjórnvaaldssektum. Samkvæmt frumvarpinu geta sektir sem lagðar eru á einstaklinga numið frá 10 þús. kr. til 20 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 50 þús. kr. til 75 millj. kr. Ekki er hægt að sjá fyrir í hvaða mæli gæti komið til slíkra sekta sem renna í ríkissjóð og raunar varla hægt að gera ráð fyrir því fyrir fram að til þess komi. Er því einnig erfitt að sjá fyrir hversu mikil þörf verður fyrir eftirlit með því að ekki hafi verið brotið í bága við ákvæði laganna. Að svo stöddu er talið að kostnaður við það ætti að rúmast innan fjárheimilda þeirra aðila sem eiga annast um það, einkum Fjármálaeftirlitið og hugsanlega lögregluyfirvöld og ákæruvaldið.


mbl.is Geta stöðvað gjaldeyrisflutninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðirnar út úr vandanum

Fyrsta skrefið hlýtur að vera það að viðurkenna vandann.

Næst er að gera ekki illt verra. Í því sambandi verður að gæta þess að þjóðin sé ekki skuldsett frekar en þörf er á. Icesave "lausnin" er eitt stórt spurningarmerki og veit ég ekki hvað við verðum skuldsett vegna þess til lengri tíma. Kannski veit það enginn?

Næsta mál er svo gjaldmiðillinn en þar er nú stefnt að því að setja krónuna á flot og að því manni heyrist að verja gengið með einhverjum hætti og nota í það lán IMF og co. Þetta er örugglega hættuleg aðgerð enda eru háir vextir á láninu og auk þess er hætta á að krónukaupin verði ekki arðbær! Af þessum sökum er brýnt að aðrir kostir séu skoðaðir í kjölin og er upptaka annars gjaldmiðils þar ofarlega á blaði. Í raun þarf að spyrja sig í dag hvort við viljum taka upp krónuna sem gjaldmiðil því í dag er hún innanlandsmynt og ekki gjaldgeng á föstu gengi milli markaða.

Loks þarf að tryggja að útflutningsverðmæti Íslands vaxi en það er ekki nema ca 3 milljarðar USD í dag. Vextir af lánunum fara langt með þá tölu. Lánin þarf að greiða (en það eru víst ný sannindi fyrir marga) og svo geta orðið frekari töp. Sóknarfærin verður því að nýta af krafti.

Þetta eru ekki auðveldar leiðir og er fyrsta skrefið sjálfsagt erfiðast. Eitt er víst að þjóðir sem hafa orðið fyrir miklum skaða eins og eftir stríð hafa iðulega geta náð sér á strik ef skýr stefna er fyrir hendi og stjórnmálamenn einbeita sér að henni en fara ekki í skotgrafirnar. Þá er ég líka viss um að almenningur er tilbúinn að leggja sig fram. En annars ekki.


mbl.is Hið fullkomna fárviðri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Volcker snýr aftur - hækka stýrivextir hjá Obama?

Það hafa verið háir stýrivextir víðar en hér og er Paul Volcker holdgervingur hárra vaxta. Carter skipaði Volcker 1979 og Reagan endurnýjaði starfsumboð hans allt til 1987 þegar Greenspan tók við. Volcker er þekktastur fyrir háa stýrivexti sem voru afar óvinsælir. Mestu mótmæli gegn efnahagsráðstöfunum síðan í kreppunni fylgdu í kjölfarið.

Sagt er að stýrivextir SÍ séu þeir hæstu sem sést hafi síðan Paul Volcker var við stýrið en nú hefur Barack Obama (change we can believe in!) Fengið Volcker til að leiða lykilnefnd um efnahagsmál. Volcker hefur gagnrýnt bandaríska efnahagsstjórnun og slaka peningamálastjórn. Nú er að sjá hvernig stjórn peningamála verða hjá Obama. 

 

Hér að neðan er svo línurit yfir stýrivexti í Bandaríkjunum síðustu 24 árin - takið eftir kúfnum undir Volcker: fed rate


mbl.is Volcker stýrir nýrri nefnd Obamas
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkefna er þörf

Nýting auðlinda er lykilatriði í þeirri uppbyggingu sem nauðsynleg er á Íslandi. Það er ekkert að því að hafa trú á framtíðinni og þeim tækifærum sem þar geta falist. Olían er slíkt tækifæri. Útlitið er nógu dökkt þó við séum ekki að tala niður þau sóknarfæri sem við höfum eða kunnum að fá.

Öflun gjaldeyris hefur sjaldan verið mikilvægari og því hljóta slík verkefni að vera forgangsverkefni fyrir Ísland. Grunnatvinnuvegirnir eru besta undirstaðan undir þjónustu hvort sem um er að ræða almenna þjónustu og velferðarþjónustu.

Vöxtur er í Asíu og í Kína takast menn á við efnahagssamdrátt með fjárfestingu í innviðum eins og þjóðvegum og flugvöllum. Verkefni á borð við virkjanir og þjóðvegi eiga vel við á Íslandi þar sem þau eru innviðir uppbyggingar og gjaldeyrissköpunar eins og iðnaðar og ferðamennsku. Nú er mikilvægt að við tökumst á við vandann með sókn í nýsköpun og undirstöðu.


mbl.is Í draumi sérhvers manns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr gjaldmiðill án ESB

Olli Rehn sem fer með stækkunarmál ESB hefur sagt að Ísland geti gengið í Sambandið á fyrri hluta næsta áratugar. Eins og við vitum flest eru íslensk fyrirtæki og heimili í þeirri stöðu að svo löng bið eftir lausn í peningamálum dugar ekki.

Umræða um nýjan gjaldmiðil í stað krónunnar hefur farið vaxandi og skal engan undra eftir fall bankanna. Einhliða upptaka hefur verið rædd af nokkrum fræðimönnum og dæmi um slíkt gefa von um að þetta sé raunhæf leið. Reyndar má jafnframt segja þá leið að vera með eigin gjaldmiðil (300 þúsund manns) í opnu alþjóðlegu hagkerfi bjartsýna. Í þeirri stöðu sem við erum í nú er nauðsynlegt að skoða kostina yfirvegað áður en hundruðir milljarða fara í að verja gengi krónunnar. 

Evran virðist vera nær útilokuð miðað við það sem ESB hefur sagt. Við höfum fengið að kenna á samtakamætti ESB varðandi Icesave málið og nú hefur verið fullyrt að einhliða upptaka evrunnar færi ekki vel í ESB. ERGO: Við getum varla hætt EES samningum með því að skipta krónum út fyrir evrur. 

Þá er það norska krónan, svissneski frankinn og dollarinn. Af þessum gjaldmiðlum erum við með langmest viðskipti í dollar en olían, álið, orkan og hluti ferðamennsku og sjávarútvegs er í dollar. Kostnaður heimilanna og fyrirtækjanna við lán í krónum er gríðarlegur. Gengistap og gengisáhættan er það sömuleiðis. Þá er verðtrygging ill nauðsyn sem nú gengur af mörgum efnahagslega dauðum. Þetta eru allt ástæður til að skoða málin með opnum huga og fordómalaust. 

Íslendingar hafa áður tekið stórar ákvarðanir í efnahagsmálum. Upptaka verðtryggingar er ein þeirra en mér er hugleikin önnur ákvörðun sem var útfærsla landhelginnar og efnahagslögsögunnar sem var einmitt ákveðin og framkvæmd einhliða. Í framhaldi af því og á vettvangi SÞ fylgdu svo aðrar þjóðir á eftir. 


mbl.is Minnkandi áhugi á ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krónukast til styrktar Samfylkingu - þorskurinn á förum?

Ungliðahreyfing stjórnarflokksins Samfylkingarinnar stendur fyrir því að fá fólk til að kasta krónunni í dag. Þó ekki á glæ því að ungir jafnaðarmenn munu taka að sér að hirða upp krónurnar. Hún er sem sagt nógu góð til þess!.

Ekki kemur fram hverjir leggja til evrurnar sem fólk er hvatt til að "taka upp" en varla ætlast Samfylkingin til þess að fólk hendi krónunum í ungliðana og komi svo sjálft með evrurnar?

Það hefði verið meiri reisn yfir því að bjóðast til að kaupa krónurnar fyrir evrur frekar en að bjóðast til að hirða þær af fólki.

Það er táknrænt að sjá þorskinn á einnar krónu myntinni sem lögð er á MONOPOLY spil í fréttinni. Nú þegar búið er að leggja orðstí þjóðarinnar undir og fjárhag er röðin komin að auðlindunum. Því eigum við að taka með miklum varhug. Það er eitt að skipta út gjaldmiðlinum en annað að henda náttúruauðlindum okkar á glæ. Bankakerfið er hrunið en eftir stendur fámenn þjóð með miklar náttúruauðlindir. Viljum við missa forræði yfir þeim í bráðræði? Vonandi ekki.

krónan


mbl.is Boðið að kasta krónunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt eftirlaunafrumvarp - lækkun launa stjórmálamanna

Það er gott að nú eigi að gera breytingar á lögum um eftirlaun þingmanna og ráðherra. Þetta mál hefur farið illa í fólk en nú eftir efnahagshrunið hefur þó keyrt um þverbak.

Ákvörðun um tímabundna lækkun launa stjórnmálamanna er líka af hinu góða enda erfitt að réttlæta annað á sama tíma og verið er að segja upp starfsfólki á sjúkrastofnunum.

Réttast væri að afnema nýjan sið um aðstoðarmenn alþingismanna líka.

Í Árborg lögðum við fulltrúar D-listans til 25% lækkun launa bæjarfulltrúa, 20% lækkun nefndarlauna og að bæjarstjóri verði ekki á bæjarfulltrúalaunum ofan á bæjarstjóralaunin. Þessu var vísað til fjárhagsáætlunar og verður vonandi samþykkt samhljóða.  


mbl.is Óska eftir launalækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband