Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Styrmir

Styrmir Gunnarsson fv. ritstjóri Morgunblaðsins var sannfærandi í Kastljósi eins og hans er von og vísa. Styrmir er afburðamaður á sínu sviði og hefur yfirgripsmikla þekkingu á málefnum Íslands. Styrmir hefur alltaf verið óhræddur við að hafa sínar skoðanir hvort sem um er að ræða á umhverfismálum, viðskiptum, bankarekstri eða lýðræði. Icesave er hér ekki undanskilið og þar telur Styrmir að Íslandi hafi ekki borið nein skylda til að taka á sig þessa ábyrgð á innlánsreikningum Landsbankans. Þar hafi stjórnvöld brugðist.

Það verður fróðlegt að lesa bókina hans.


Lög um að falla frá lögum

Lög um tryggingarsjóð innistæðueigenda voru sett til að uppfylla skilyrði ESB samningsins. Þar er kveðið á um takmarkaða ábyrgð á innistæðum.

Fyrr á árinu voru samþykkt sérstök lög um sérstaka ríkisábyrgð á lánum vegna taps einkabanka. Lögin voru þó með einhverjum fyrirvörum um efnahagsástand á Íslandi og að íslenska ríkið gæti leitað réttar síns.

Nú á að setja þrjðju lögin um ábyrgð á innistæðum. Og nú á að falla frá fyrirvörunum.

Allt er þetta gert í skjóli þess að þá muni Íslandi vegna betur. Undarleg lógík þegar haft er í huga að stórskuldug þjóð sem býr við gjaldeyrishöft (sem verið er að herða) mun með þessum gjörningi taka á sig hundruð milljarða erlend lán.

Lísa hvað?


mbl.is Icesave afgreitt út úr nefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2 af hverjum 3 krónum eigin fjár tapast hjá Árborg

Enn hallar á verri veginn í rekstri sveitarfélagsins Árborgar. Við sem skipum minnihlutann höfum bent á að í óefni kunni að fara og því miður er sú raunin. Eigið fé sveitarfélagsins er að verða uppurið þrátt fyrir að hlutabréf í Hitaveitu Suðurnesja hafi verið seld árið 2007. Í dag var lögð fram þriðja fjárhagsáætlun vegna ársins 2009 til samþykktar en mikið hefur breyst frá fyrstu (samþykkt 12. janúar 2009) og líka talsvert frá endurskoðaðri áætlun (samþykkt í maí 2009). Gert er nú ráð fyrir að 2 af hverjum 3 krónum eigin fjár tapist en þó ber að gæta þess að hér er áætlun og 7 vikur eftir af árinu. Eigið fé fer úr 1.007 milljónum niður í 364 milljónir og er augljóst að viðvarandi taprekstur mun brenna það upp á næstu mánuðum að óbreyttu. 

Við lögðum fram eftirfarandi bókun vegna þessarar (þriðju) fjárhagsáætlunar meirihlutans: 

"Nú liggur fyrir önnur endurskoðun fjárhagsáætlunar vegna yfirstandandi árs. Sú fyrsta var samþykkt 12. janúar  síðastliðinn en endurskoðuð áætlun var síðan samþykkt í maí. Frávik frá endurskoðaðri áætlun eru talsverð og þótt tekjur séu áætlaðar um fimmtíu milljónum hærri í fyrirliggjandi endurskoðun er afkoman 118 milljónum lakari nú en talið var í maí. Ef forsendur uppfærðrar fjárhagsáætlunar ganga eftir verður eigið fé komið niður í 364 milljónir í árslok. Í útkomuspá fyrir síðasta ár sem birt var í upphaflegri fjárhagsáætlun fyrir árið 2009 og dagsett er þann 12. janúar er gert ráð fyrir að eigið fé sé 1.904 milljónir um síðustu áramót. Sú reyndist ekki raunin og stóð eigið fé sveitarfélagsins í 1.007 milljónum um síðustu áramót. Nú er gert ráð fyrir að eigið fé bæjarsjóðs fari niður í 364 milljónir í árslok og verður þá komið undir 5%. Lætur því nærri að skuldir og skuldbindingar séu hátt í milljón á íbúa en eigið fé 44 þúsund krónur. Nú bendir flest til áframhaldandi tapreksturs á næsta ári og því stefnir í að eigið fé bæjarsjóðs verði uppurið um mitt næsta ár að óbreyttu. Í nýrri endurskoðaðri fjárhagsáætlun kemur í ljós að handbært fé frá rekstri er neikvætt og er það breyting frá maí áætlunarinnar þegar gert var ráð fyrir 54 milljón króna jákvæðri stöðu. Hér er frávik upp á 92 milljónir á þeim lið sem hvað mikilvægast er að sé jákvæður. Þessi breyting hlýtur að kalla á að tekið sé fullt tillit til þessarar spár í fjárhagsáætlun fyrir árið 2010." Bæjarfulltrúar D-lista.


20 ára afmæli

Fáir spáðu fyrir um fall Berlínarmúrsins og síðar Sovétríkjanna. Ég var reyndar svo heppinn að hafa upplifað austur-Berlín þegar ég fór í leikhópi Þjóðleikhússins undir forystu Brynju Benediktsdóttur 1987 og við lékum í Karl Marx leikhúsinu. Leikritið var "Hvar er hamarinn" eftir Njörð P. Njarðvík og fjallar um baráttu Þórs og Loka. Þessi upplifun í höfuðstað kommúnismans var holl og eftirminnileg. Ég held að Örn Árnason eigi videotökur af ferðinni sem gaman væri að sjá við tækifæri en þar sáum við meðal annars gæsagang hermanna sem gættu "öryggis borgaranna" og upplifðum við ótrúlega hluti sem lifa í minningunni. Eitt af því sem að var áberandi var mikil mengun enda hef ég aldrei skilið hvernig vinstri og grænt eigi samleið. Fáir hafa leikið náttúruna og andrúmsloftið verr en kommúnistaríkin. 

Í dag eru 20 ár síðan múrinn féll og reyndar er líka 20 ár í þessum mánuði frá því að hljómsveitin Todmobile spilaði fyrst opinberlega. Þó Todmobile hafi ekki haft heimssöguleg áhrif þá fannst okkur samt sem áður vera tilefni til að halda upp á afmælið og halda tónleika.

Það er umhugsunarvert að rifja upp á afmælum hvert afmælisbarninu hefur miðað. Hvað varðar Berlínarmúrinn eru enn þó nokkrir sem sakna hans en þrátt fyrir mikla galla á frjálsum markaði eru samt flestir sammála því að hann sé betri en höft og ógnarstjórn. Það er út af fyrir sig sérkennilegt að við séum hér á Fróni með gjaldeyrishöft og ríkisvæðingu á flestum sviðum þegar 20 ára afmælis múrsins er minnst. Vonandi verður gott að búa á Íslandi þegar 20 ára afmæli bankahrunsins verður minnst árið 2028. 


Í eldi eða ís?

Sumir segja að framundan sé tími heimsverðbólgunnar í kjölfar seðlaprentunar. Aðrir sjá öll merki þess að nú verði kreppan mesta og vitna þá í "kreppuna miklu". Þá eins og nú stukku hlutabréfavísitölur upp um 50% eftir 50% fall. Stærðfræðingar hafa bent á að algengt sé að markaðir nái aftur helmingi af stóru hrapi en ekkert tryggi framhaldið.

Munurinn á kreppunni miklu og skuldakreppunni 2008 er sá að seðlabankar hafa velflestir ausið peningum á helfrosinn markaðinn. Það ásamt miklum miðstýrðum hagvexti í Kína kann að koma málum af stað. Misgengi í verslun er enn til staðar og svo er það spurningin um eldinn. . .


Af vöxtunum skulið þér þekkja þá...

Mikið hefur verið látið með að mögulega falli bara 75 milljarðar á íslenska ríkið. Finnst mér það þó há tala. Hitt er verra að áætlað er að 300 milljarðar eru áætlaðir í vexti og falla þeir á ríkissjóð (sem tekur lánin) en ekki á þrotabú Landsbankans.

Nú er enn á ný verið að knýja í gegn ríkisábyrgð vegna þessara ólánlegu innlánsreikninga. Ég hef alltaf verið á móti því að ríkið gangist á ábyrgð þessa enda hef ég ekki séð skýr lagarök. Engu skiptir hver er í ríkissjórn: Einkaábyrgð á ekki að ríkisvæða. Hvað þá hundruði milljarða af gjaldeyri.

Sumir hafa haldið neyðarlögunum frammi sem rökum fyrir Breta og Hollendinga en í lögunum eru innlán reyndar gerð að forgangskröfum sem er Bretum og Hollendingum í vil umfram almenna kröfuhafa. Þá hafa Bretar sjálfir verið með skilyrta vernd á innlánsreikningum eftir landsvæðum og ábyrgjast ekki innlán í Guernsey svo dæmi séu tekin.

Samningurinn getur aldrei verið góður enda fyrirséð að vextirnir einir verða myllusteinn um háls Íslendinga sem þó bera miklar byrðar fyrir. Vaxtakostnaðurinn er óskiptur á Íslandi hvernig sem lagaleg staða okkar er. Það getur ekki verið líðandi fyrir löggjafaþingið að samþykkja slíkt.


Allt tekið með í reikninginn?

Nú hafa menn heyrt margar niðurstöður varðandi Icesave skuldina. Sumar hafa verið slæmar, aðrar afarvondar. Engin niðurstaða getur þó kallast glæsileg í þessu erfiða máli. Ekki einu sinni dómstólaleiðin.

Eins og samningar hafa verið gerðir þarf íslenska ríkið að greiða vexti á meðan eignir hafa ekki verið seldar. Ég geri ráð fyrir að það sé hér undanskilið. Vextirnir geta verið mjög háir og þá verður að taka (bókstaflega) með í reikninginn. Tímasetningar geta hér skipt miklu máli enda er talað um að vaxtakostnaður geti verið hundruðir milljarða á sjö árunum góðu.

Eitt er víst: Engin niðurstaða í þessu máli getur talist góð en vonandi fæst sem mest fyrir eignasafn Landsbankans sáluga.


mbl.is 90% upp í forgangskröfur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Nýtt normal"

Hagfræðingar keppast víða um heim við að spá um hvað tekur við eftir að skuldakreppunni lýkur. Eitt hugtak hefur skotið upp kollinum og er það "new normal" eins og það hefur verið kallað. Hér eiga menn við að hlutirnir verði ekki eins og þeir hafi verið og spá sumir því að hagvöxtur verði viðvarandi minni en áður.

Svo eru aðrir sem horfa á hamslausa seðlaprentun sem ávísun á verðbólgu.

Dollarinn er sagður verða áfram á fallandi fæti og þá er líklegt svar þeirra sem ráða yfir Jeni og Evru að veikja sína gjaldmiðla til mótvægis. Slík keðjuverkun myndi kalla á verulega verðbólgu og hratt hækkandi vexti. Libor sem nú er 0,28% á USD gæti þá farið yfir 10% líkt og gerst hefur í sögunni. New normal þar fyrir marga.

Svo er það hlutverk ríkisins. Þrátt fyrir sívaxandi útþenslu ríkisumsvifa má skilja á mörgum að ríkið hafi ekki sinnt almannaþjónustu. Samt er það svo að á Íslandi hefur velferðarþjónusta vaxið um 79% á tíu árum þegar tekið er tillit til verðlagsbreytinga. Í dag á ríkið nær allar fjármálastofnanir á Íslandi og stóran skerf í öðrum löndum. Ríkið er á fullu að "skapa störf" víða um heim í mótvægisaðgerðum og eru þær nær undantekningalaust fjármagnaðar með lánum. Stærra ríki og veikari atvinnuvegir geta því orðið afsprengi skuldakreppunnar og verið hluti af nýju normi.

Eitt er víst að þegar miklar hremmingar verða getur það leitt til ófyrirséðrar stöðu. Nýtt norm er ekkert nýtt í sjálfu sér enda er óðaverðbólga og ríkisvæðing þekkt úr sögu 20. aldar. Það er bara nýtt fyrir nýja kynslóð.


Ögmundur nýtur mikils stuðnings

Það er ljóst að Ögmundur Jónasson nýtur víðtæks stuðnings meðal flokksmanna sinna auk þess sem hann hefur verið öflugur málsvari stórs hóps í mikilvægum málum.

Spurningin er hvort ríkisstjórnin getur tekið Ögmund aftur inn eftir það sem á undan er gengið eða hvort ríkisstjórnin þarf að breytast. Kannski dálítíð mikið.

Ef fjallið vill ekki koma til Múhameðs þá verður Múhameð að fara til fjallsins


mbl.is Ögmundur verði aftur ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Megum við kíkja í (tölvu)-póstinn?

Það er ekki á hverjum degi sem forsætisráðherra biður kollega sinn um lán.

Hvað þá 2.000.000.000.000 króna lán. 20 Kárahnjúkar eða svo.

Það væri fróðlegt að sjá hvernig svona lánsumsóknarpóstur lítur út.

Annars er það sérstakt rannsóknarefni að orðið lán skuli vera notað yfir skuldir.


mbl.is Hærra lán ekki í boði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband