Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

IBG YBG

Mér sýnist samkomulagið í Kaupmannahöfn binda ekkert ríki til að binda eða losa minna af gróðurhúsalofttegundum. Talað er um að ríki muni beita margvíslegum leiðum.

Ef við gefum okkur að ógnin af hlýnun sé raunveruleg og af mannana völdum eins og staðfest er af þjóðarleiðtogunum sem tóku þátt í ráðstefnunni hlýtur að vera undarlegt að þeir hafi ekki getað ákveðið leiðir að markmiðum sínum. 

Markaðir og umhverfið hafa verið í brennidepli en samt breytast hlutirnir hægt. Thomas L. Friedman orðar mögulega ástæðu vel í bók sinni "Flat, hot and crowded" þegar hann segir að hugsunin hjá þeim sem ráða sé oft byggð á "IBG YBG" (I´ll be gone - you´ll be gone). Kjörtímabilin eru af þeirri lengd að hagvöxtur til meðallangs og skemmri tíma gengur framar langtímajafnvægi. Þetta á bæði við um fjármálamarkaði og umhverfið. 

Svo eru aðrir sem halda fast við þá skoðun að hlýnun og kólnun sé háð öðrum og öflugri öflum en vélum mannana. Snjókoman í Köben og snjóbylurinn sem tók á móti Obama þegar heim var komið var vatn á þá myllu. - Já og svo er Eurotunnel lokað vegna þess að lestarnar stöðvuðust vegna kulda!

Reyndar er það svo að desember hefur verið með hlýjasta móti á Íslandi en kuldahret og met hafa verið víða. 


mbl.is Samkomulagið vonbrigði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki batnar það

Í kvöld var samþykkt fjárhagsáætlun 2010 fyrir sveitarfélagið Árborg með 5 atkvæðum vinstri meirihlutans gegn 4 atkvæðum okkar. Áætlunin gerir ráð fyrir 629 milljóna króna tapi af rekstri árið 2010. Tapið er svipað og á yfirstandandi ári en það er áætlað 640 milljónir.

Samkvæmt áætluninni verður eigið fé neikvætt um 264 milljónir. Í raun er því lögð fram hér áætlun þar sem stefnir í tæknilegt gjaldþrot bæjarsjóðs um mitt næsta ár þegar eigið fé bæjarsjóðs verður upp urið. Það sem gerir málið enn verra er að ekki hefur tekist að stöðva tap fyrir fjármagnsliði en það eykst um 58% og er nú áætlað 147 milljónir.

Uppsafnað tap fyrir árin 2008-2010 er samkvæmt þessari fjárhagsáætlun 2480 milljónir á þremur árum eða meira en 2 milljónir hvern einasta dag. 

Ekki er útlit fyrir greiðsluþrot á árinu 2010 miðað við að það takist að fá 530 milljónir í ný lán á árinu. Meiri óvissa er með 2011 og hvernig unnt verður að tryggja fjármagn og forðast greiðsluþrot bæjarsjóðs.

Síðasta haust hófum við sameiginlega vinnu við fjárhagsáætlun. Við bæjarfulltrúar D-listans lögðum strax fram nokkur lykilatriði eins og að ekki væri tap af rekstri fyrir fjármagnsliði. Það og margt annað hefur ekki náð fram að ganga og því gátum við engan veginn samþykkt áætlunina. Það verður svo að bíða nýrrar bæjarstjórnar að vinna sig úr skuldasöfnuninni.

Það verður hvorki auðvelt verk né öfundsvert.


Kosið um Icesave ríkisábyrgðina - í bönkunum...

Það verður að þakka Eyjunni(.is) fyrir lýðræðið en vefsvæðið stendur nú fyrir kosningu um Icesave-ríkisábyrgðina. Kosningin er rafræn og fer fram í heimabanka hvers og eins. Slíkt er nýjung og tryggir ákveðið öryggi. Reyndar er það viðeigandi að fólk kjósi um þetta mál í sínum heimabanka enda skuldin komin til vegna ólánlegrar bankastarfssemi og svo mun reyna á heimabudduna ef af ríkisábyrgðinni verður.

Að sjálfsögðu er þessi kosning ekki bindandi fyrir þingheim en ef þáttaka verður góð hlýtur niðurstaðan að vera leiðbeinandi eins og það er stundum orðað.

Frumvarp um þjóðaratkvæði er til meðferðar um þessar mundir en ólíklegt er að þjóðin fái að kjósa um mesta hitamál seinni tíma nema forsetinn synji ríkisábyrgðinni staðfestingar. Sem er ólíklegt.

Sem sagt: Nú fáum við að kjósa og það verður fróðlegt að sjá hvað kemur upp úr heimabönkunum...


Sérstaða Íslands

Á Íslandi er öll raforkunotkun byggð á endurnýjanlegri orku. Sama er ekki að segja um eitt einasta þróað ríki sem stendur að loftslagsráðstefnunni í Köben. Markmið ESB þjóðanna hafa verið ýmist þau að draga úr losun á gróðurhúsaloftegundum eða þá að ná hlutfalli endurnýjanlegra orkugjafa upp í ákveðið hlutfall. Þetta hlutfall hefur stundum verið 20% á ákveðnum árum inn í framtíðina.

Stóriðja á Íslandi er umhverfisvæn þar sem hún byggir á endurnýjanlegri orku. Ef Ísland nýtir ekki orku sína er í raun (og praxis) vegið að markmiðum þeirra sem vilja auka hlutfall endurnýjanlegrar orku. Mannkynið mun áfram nota málma og orkufreka þjónustu á borð við gagnaver. Það sem ekki verður sett upp hér verður líklegast knúið af kolum.


mbl.is Ban Ki-moon hæfilega bjartsýnn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

stjórnarráðið.is

Ekki er það gott ef starfsmenn stjórnarráðssins eru uppteknir í þessum leik. Getur verið að Icesave sé að taka tíma frá fleirum en þingmönnum? Eða er þessi undirskriftasöfnun orðin óþægileg?

Ekki veit ég hvaða reglur gilda hjá opinberum stafsmönnum eða þá starfsmönnum ohf. eins og RúV um netnotkun. Netat sem þetta getur varla talist sæmandi. Hvað þá lýðræðislegt.

prívatpóstur til IMF og svo þetta...ætli þetta verði frétt á RúV?


mbl.is Bullundirskriftir raktar til stjórnarráðsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

postur.stjr.is -

Þegar starfsmenn stjórnarráðsins eru á ferðalagi er t.d. hægt að nota vefpóstinn á postur.stjr.is

Sú kenning að ekki sé unnt að senda eða fá tölvupóst vegna starfa þegar viðkomandi er á ferðalagi stenst því ekki skoðun. Einhver önnur ástæða hlýtur því að vera fyrir þessu.
Samskipti ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hljóta að skipta máli. Ekki síst þegar um er að ræða Icesave. Þau geta ekki verið einkamál.

Hér er svo slóðin með https sem tryggir öryggi starfsmanna stjórnarráðsins í notkun vefpósts með dulkóðun:

https://postur.stjr.is/portalr.nsf


mbl.is Ekki æskilegt að nota persónuleg netföng
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég trúi Steingrími

Ekki eru nema 3 dagar síðan fjármálaráðherra sagði gildar ástæður vera fyrir flýtimeðferð ríkisábyrgðarinnar en þær þurfi að fara dult. Hann staðfesti hins vegar það sem marga hefur grunað að "aðilar innan Evrópusambandsins hefðu haft uppi grímulausar hótanir gagnvart Íslendingum vegna Icesave málsins. Að samstarfsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi verið í gíslingu vegna Icesave." eins og hermt var í fréttum Rúv í gær: http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item314835/

AGS segir annað.

Jóhanna segir annað.

 

Ég trúi Steingrími.


mbl.is Hótanir ekki frá ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verð á peningum lækkar hratt (í gulli mælt)

Nú er gullúnsan komin yfir 1212 USD. Gullverð er vísbending um væntingar um verðbólgu en stundum hefur gullið verið haldreipi í skelfingu. Þegar verð síðustu 20 ára er skoðað kemur í ljós að það hefur verið býsna stöðugt árin 1990 til 2005. Reyndar lækkar gullverð á árunum 1990-2000.

Það sem gerist frá 2007 til dagsins í dag er hins vegar hækkun um  100% á þremur árum. Síðast þegar gullverð hækkaði mikið var óðaverðbólga á Carter tímanum. Nú er nær engin verðbólga og því eðlilegt að spurt sé hvað veldur. 

Verð á gulli í íslenskum krónum hefur þó vaxið enn hraðar enda hefur gullverð hækkað úr 600 USD í 1200 á sama tíma og USD hefur hækkað úr 60 í 120. Verð á únsu hefur því farið úr 36 þúsund krónum í 144 þúsund á þremur árum. Þetta er 400% hækkun. 

Þessar breytingar gerast á sama tíma og fjölmargar eignir svo sem fasteignir, skuldabréf og hlutabréf hafa lækkað í verði. Verð á eign sem hefur fallið í verði um 50% í íslenskum krónum hefur því lækkað enn frekar í gulli talið.

Tökum dæmi: Maður kaupir lóð á 36 milljónir króna í upphafi árs 2007. Verðið á gulli er um 600 USD og dalurinn kostar um 60 krónur. Verðið er því um þúsund únsur. Ef lóðin er nú metin á 18 milljónir króna er verðmætið aðeins 1/8 talið í gullúnsum eða 125 únsur gulls. Nú er spurningin: Hvaða gjaldmiðill endurspeglar rauverulegt virði eignarinnar.  

Hér er svo graf sem sýnir þetta ágætlega mælt í USD -  (Oft segir mynt meira en 1000 orð.)

Gullverð síðustu 20 ára í USD


2. fullveldisdagur eftir hrun

Fullveldinu er víða fagnað í dag. Lengi var fyrir því barist og það varð grunnur að mikilli uppbyggingu Íslands eftir langvinnt hnignunarskeið.

Fyrst var Þjóðveldið, svo fullveldið og svo lýðveldið Ísland. Nú er að fullveldisrétti okkar vegið með efnahagslegum þvingunum. Því miður er ekki sama samstaða og náðist í þorskastríðunum. Án samstöðu verður aldrei sigur í alþjóðlegum deilum. Allra síst þegar við erum einangruð. Icesave ríkisábyrgð er nú lofað af ríkisstjórn fyrir jól eins og sjá má á Bloomberg í morgunn. Með því að samþykkja ríkisábyrgð á þessum lánum verður ríkissjóður veikburða. Því miður hefur Ísland gengið allt of langt í að taka á sig þessar skuldbindingar.

Á sama tíma er unnið hratt í umsókn Íslands að ESB en innganga á að tryggja okkur velsæld. Ekki er að sjá hjá Spánverjum, Írum og Lettum að ESB bjargi þeim frá vesældinni. Það er næsta víst að þetta A-plan ríkisstjórnarinnar um inngöngu Ísland í ESB er dæmt til að misheppnast.

Það sorglega er að það er ekkert B-plan.

Hér er svo Morgunblaðið 1. des 1918:

http://timarit.is/view_page_init.jsp?pubId=58&lang=is


Stokkseyri

Falleg er fjaran við Stokkseyri. Vandfundinn er betri staður til að skoða samspil sjávar og fjöru. Sérstaklega með börnunum sínum.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband