Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Skynsamleg forgangröðun

Auðvitað á að ræða um efnahagsmál. Þau eru mál málanna en ekki áfengissala í matvöruverslunum eða ESB stefnumótun. Það er jákvætt skref að ákveða þessa forgangsröðun í samráði við formenn allra flokka. Nú reynir á að menn standi saman í að verja hagsmuni Íslands og ekki síst fjölskyldnanna. Efnahagsmálin eru jú meira en meðaltalstölur því á bak við hverja tölu er saga og fólk. Mótmælin eru orðin mjög mikil og almenn og það er mikilvægt að fólk hafi von. Ofbeldi leysir ekkert.

Ríkið hefur heljarmikið hlutverk í dag og það fær bestan vinnufrið með réttri forgangsröðun. Það verður fróðlegt að fylgjast með áhersluatriðum í endurreisnarstarfinu. . .


mbl.is Rætt um efnahagsmál á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Suðupottur

Ísland er orðið suðupottur átaka í mörgum skilningi þess orðs. Margir eru að upplifa á eigin skinni efnahagshremmingarnar. Nýjar fréttir af furðulegum viðskiptum þar sem milljarðatugir hafa farið út úr bönkunum rétt fyrir hrun þeirra vekur reiði. Í raun er kominn stabbi af eldsmat og farið að loga bál. Litlu má muna að upp úr sjóði og það er nauðsynlegt að almenningur finni farveg fyrir réttlætiskennd sína.

Kosningar eru mikið nefndar af mótmælendum og eru vissulega leið lýðræðisins en fleira þarf að skoða. Stjórnarskráin hefur staðið lítið breytt í meira en hundrað ár enda reynst okkur vel um margt. Stjórnlagaþing kemur vel til greina til að fara yfir þann grunn sem lýðveldið byggir á. Þá finnst mörgum undarlegt að enginn hefur hætt störfum hjá stofnunum eða í pólítíkinni nema Bjarni Harðarsson og þá fyrir óskyldar sakir. Allt þetta hefur byggt upp mikinn þrýsting og má litlu muna að ekki sjóði upp úr. Helst er bent á ESB sem heildarlausn þótt sú innganga feli í sér langa bið eftir óljósu marki. Eitt er víst að ESB aðild er engin syndaaflausn fyrir Ísland. Það er rétt hjá nýkjörnum formanni Framsóknar að önnur mál eru meira aðkallandi en aðildarumsókn. Ég heyri heldur ekki mikið hrópað á ESB utandyra á Austurvelli þótt margir óski þess innandyra. Endurmat og endurnýjun hlýtur að skipta hér miklu máli svo við getum unnið okkur upp úr öldudalnum sem þjóð.


Obama og Alþingi

Í dag kemur Alþingi saman að nýju eftir jólafrí. Þá verður nýr forseti Bandaríkjanna settur í embætti í dag. Í báðum löndum eru efnahagsmálin efst á baugi og eru gríðarlegar væntingar í garð Obama svo ekki sé meira sagt. Spurningin sem margir spyrja sig er; "stendur hann undir væntingunum?" Önnur spurning er hvort væntingarnar sjálfar geti veitt þá trú á efnahagslífið sem nú þarf frá almenningi og viðskiptalífinu.

Alþingi hefur lækkað í áliti að undanförnu og þarf núna að endurheimta traust. Eitt stærsta verkefnið framundan er einmitt að auka von og trú fólks á landi og þjóð. Nákvæmlega eins og í Bandaríkjunum en kannski enn frekar hér á Fróni.

Það verður spennandi að fylgjast með Obama....og Alþingi.


Endurnýjun stjórnmálanna

Bankahrunið er eitthvert mesta áfall í sögu lýðveldisins og því eðlilegt að farið sé yfir leikreglurnar og stjórmálin séu tekin til endurskoðunar.  Á sama tíma er umræða um endurskoðun stjórnarskrár og endurmat viðskiptahátta. Eftir áfallið þarf að endurmeta það sem aflaga hefur farið og meta betur það sem verðmætast er í lífinu.

Framsóknarflokkurinn hefur í langan tíma verið í kröppum dansi en hefur nú tekið af skarið og endurnýjað forystusveit sína. Samfylkingin er nokkuð föst í umræðu um ESB sem lausn án þess að gangast við ábyrgð á stöðu mála. Sjálfstæðisflokkurinn heldur landsfund síðar í mánuðinum þar sem afrakstur Evrópunefndarinnar verða rædd. Flokkurinn mun sjálfsagt horfa til uppruna síns og sjálfsstæðisstefnunar og endurskoða það sem aflaga hefur farið. Á erfiðum tímum er kraftur lýðræðisins mikill og er ég viss um að sjálfstæðismenn munu nýta þann kraft til góðs.


Söguleg umskipti

Margir hafa viljað afskrifa Framsóknarflokkinn að undanförnu en þá gerist það að hann gengur í mikla endurnýjun með kjöri Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Allir stjórnmálaflokkar eru um þessar mundir að skoða framtíðina í nýju ljósi eftir bankahrunið enda nauðsynlegt að endurskoða Ísland nú sem aldrei fyrr. Þessi niðurstaða framsóknarmanna gefur tóninn um breytingar og verður fróðlegt að fylgjast með hvernig þróunin verður í stjórnmálunum á næstu vikum og mánuðum.

Ekki er langt síðan að stjórnmálamenn voru taldir óþarfir og frekar fyrir hinum öflugu athafnaskáldum og stóru bönkum. Nú er hins vegar þörf fyrir réttsýni og dug svo við náum okkur upp úr öldudalnum. Kjör Sigmundar vekur von um áhugaverð stjórnmál á næstunni.


mbl.is Sigmundur kjörinn formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stím, Q Iceland Finance og Imon ehf.

Nú er að birtast ákveðið mynstur í öllum gömlu viðskiptabönkunum þar sem einkahlutafélög keyptu grimmt í viðkomandi banka meira og minna með lánum frá bankanum sem keypt var í. Stímið var sett á Glitni, Q Iceland keypti í Kaupþingi og svo tók Imon 4% hlut í Landsbankanum rétt fyrir lok. Einhverjir hafa verið seljandamegin og því losað mikla fjármuni en jafnframt héldu þessi viðskipti gengi og tiltrú markaðarins á háu verði hlutabréfa í bönkunum allt fram á síðustu daga. Hér virðast ekki vera eiginleg eignarhaldsfélög (eins og Samson, Exista og Fl Group) heldur einhverskonar millistykki.

Mörgum spurningum er enn ósvarað varðandi þessi stórkaup í bönkunum þrátt fyrir að þeir hafi allir verið skráðir á markaði og því með mikla upplýsingaskyldu. Þá eru liðnir meira en 100 dagar frá því að bankahrunið varð en samt er ekki upplýst hverjir voru raunverulega að hagnast á þessum viðskiptum en nú liggur fyrir að gömlu bankarnir hafa tapað milljarðatugum á þessum þremur félögum.

Voru þetta eðlileg viðskipti?
Voru þetta kannski leikrit?


Tillaga um að taka yfir rekstur HSu

Á síðasta bæjarstjórnarfundi lögðum við bæjarfulltrúar D-listans til að skoðað yrði hvort Árborg gæti tekið yfir rekstur Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Ástæðurnar eru fyrst og fremst þær að þá sé hægt að samþætta þjónustuna betur, en auk þess er vilji til þess að heimamenn fái forræði yfir þessari mikilvægu þjónustu og geti þá forgangsraðað betur. Því miður var ekki vilji V, S og B lista til að skoða þetta frekar þó ljóst sé að hætta sé á enn frekari niðurskurði hjá ríkinu. Yfirfærsla grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga hefur í aðalatriðum gengið vel og er eðlilegt að skoðað sé hvernig heilbrigðismálin geti verið í auknum mæli heima í héraði. Þetta eru mörg sveitarfélög að skoða og hefur verið samstaða um það.

Hér er svo tillagan sem verður ekki að veruleika fyrsta kastið:

"Bæjarstjórn samþykkir að kanna möguleika á yfirtöku reksturs Heilbrigðisstofnunnar Suðurlands og verði bæjarstjóra og bæjarritara falið að óska eftir viðræðum við heilbrigðisráðuneytið, forsvarsmenn Heilbrigðisstofnunar og aðra hagsmunaaðila."  

Greinargerð:

"Mikilvægi Heilbrigðisstofnunnar Suðurlands fyrir íbúa sveitarfélagsins og nærsveita er mjög mikið. Á tímum niðurskurðar og óvissu er rétt að skoða þann kost að sveitarfélagið taki yfir rekstur stofnunarinnar frá ríkinu sem jafnframt myndi tryggja framlög til rekstursins. Um væri að ræða sjálfseignastofnun en sambærilegar hugmyndir hafa nú verið ræddar hjá öðrum sveitarfélögum. Fjögur sveitarfélög hafa nú þegar óskað eftir viðræðum við heilbrigðisráðuneytið um að taka við verkefnum í heilbrigðisgeiranum. Þetta eru Reykjanesbær, Hafnarfjörður, Mosfellsbær og Skagafjörður. Reykjanesbær hefur óskað eftir viðræðum við að taka yfir rekstur Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og auk þess hefur Vestmannaeyjabær leitast eftir sambærilegri yfirfærslu. Af viðbrögðum ríkisins að dæma er nú tækifæri til þess að sveitarfélög taki yfir þennan rekstur og geti þannig betur samþætt þjónustu varðandi hjúkrun og aðhlynningu en nú er; þegar tveir rekstraraðilar sinna oft sama einstaklingnum."


Guðjón Ægir Sigurjónsson

Skyndilegt fráfall sómadrengsins Guðjóns Ægis var áfall fyrir Selfoss og illskiljanleg sorgartíðindi fyrir alla þá sem þekktu hann. Allir bera honum góða sögu og ótal margir þekktu hann af góðu. Þau samskipti sem ég átti við Guðjón Ægi voru öll góð. Hann bar sannleikanum og drengskap gott og göfugt vitni og sá sem átti hann að vini var ríkur. Guðjón var réttlátur og sanngjarn, raunagóður og drífandi í öllu félagsstarfi. Menn eins og hann þarf einmitt nú sem aldrei fyrr en þá er hann burtu numinn úr þessum heimi. Í dag var hann jarðsettur. Vegir Guðs eru illrannsakanlegir.

Ég votta fjölskyldu Guðjóns samúð mína.


úps....það var þá ekki Guðlaugur Þór?

Að hefur verið látið liggja að heilbrigðisráðherra hafi komið þessum skilaboðum til Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur. Margir fundarmanna sem hlýddu á orð hennar skyldu orð hennar þannig. Ekki var það leiðrétt fyrr en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra sendi nú frá sér yfirlýsingum um að það hafi verið hún sem kom þessum umtöluðu skilaboðum til Sigurbjargar.

Það var sem sagt ekki Guðlaugur Þór Þórðarson?

Og er það þá í lagi?


mbl.is Ingibjörg Sólrún kom boðum til Sigurbjargar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB sem lausn

Ef ESB væri allra meina bót þyrftum við ekki að hugsa okkur frekar um. Nú þegar hér eru háir stýrivextir og mikil verðbólga þætti okkur flestum betra að vera með lágvaxtamynt og lága verðbólgu. Gjaldmiðilsmálið er því ofarlega í huga. Kostirnir eru þrír; Krónan, erlend mynt eða að ganga í myntbandalagið um Evruna. Innganga í ESB virðist mörgum besta leiðin til að fá erlenda mynt, en 2 spurningar eru samt stórar:

a) Hvað kostar innganga okkur Íslendinga?

b) Hvenær fengjum við Evruna í ESB?

Fréttin hér að ofan fjallar um einn stóran annmarka á inngöngu fyrir Íslendinga sem nú þurfa sjávarútveginn sem aldrei fyrr.

Seinni spurningin er áleitin þegar litið er til viðvarandi sveiflna í íslenskum þjóðarbúskap, en miðað við söguna hefðum við aldrei uppfyllt Maastricht skilyrði EMU. Eitt "scenario" væri því innganga í ESB en áfram með krónuna. Ekki er víst að það þætti spennandi staða.

Fleiri atriði til lengri og skemmri tíma þarf að skoða í kjölinn og vona ég að það verði gert rækilega nú á næstu vikumEinhliða upptaka erlendra myntar hlýtur að vera skoðuð fordómalaust.

 


mbl.is ESB myndi stjórna hafsvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband