Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Sigurbjörn Einarsson

Fyrir mér var Sigurbjörn Einarsson alltaf Biskup þjóðarinnar. Frá því ég var strákur og fram á fullorðinsár mín var Sigurbjörn Biskup Íslands. Ræður hans og predikanir voru innihaldsríkar og manneskjulegar. Alla tíð fram á þennan dag var hann afkastamikill og áhrifamikill. Það er sjónarsviptir fyrir íslenska þjóð að missa hann, en ævistarfið lifir; mikið, margþætt og merkilegt.

Ég votta aðstandendum samúð mína. Blessuð sé minning Sigurbjörns Einarssonar.


Kirkjuturninn

Selfosskirkja fór ekki varhluta af stóra skjálftanum.
Stóri kirkjuturninn er með stórar sprungur og ljóst að verulega þarf að styrkja hann.

Séra Kristinn messaði í morgun.
Læt lexíu og pistil dagsins fylgja hér:

Lexía: Mík 7.18-19

Hver er slíkur Guð sem þú,
sem fyrirgefur misgjörðir
og sýknar af syndum
þá sem eftir eru af arfleifð þinni?
Reiði Guðs varir ekki að eilífu
því að hann hefur unun af að sýna mildi.
Og enn sýnir hann oss miskunnsemi,
hann fótumtreður sök vora.
Já, þú varpar öllum syndum vorum
í djúp hafsins.

Pistill: Ef 2.4-10

En Guð er auðugur að miskunn. Svo mikil var elska hans til okkar að þótt við værum dauð vegna misgjörða okkar endurlífgaði hann okkur með Kristi - af náð eruð þið hólpin orðin - og reisti okkur upp með Kristi Jesú og bjó okkur stað hjá honum í himinhæðum. Þannig vildi hann sýna á komandi öldum ómælanlega auðlegð náðar sinnar og gæsku við okkur í Kristi Jesú, því að af náð eruð þið hólpin orðin fyrir trú. Þetta er ekki ykkur að þakka. Það er Guðs gjöf. Ekki byggt á verkum, enginn skal geta miklast af því. Við erum smíð Guðs, sköpuð í Kristi Jesú til góðra verka sem hann hefur áður fyrirbúið til þess að við skyldum leggja stund á þau.


mbl.is Stöðugir eftirskjálftar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fitna Íslamistar?

Geert Wilders er nokkuð hugrakkur að setja heimildarmynd sína "Fitna" á netið. Morðið á Theo van Gogh er mörgum í fersku minni og Geert hefur þegar fengið margar morðhótanir.

Ég skoðaði myndina áðan. Uppistaðan eru myndbrot af hryðjuverkum öfgafullra íslamista og talsmönnum þeirra. Þó myndin sé einföld er hún áhrifarík: Boðskapur þeirra er óverjandi með öllu.

Við verðum að gæta þess að vera umburðarlynd, án þess að fórna þó frelsinu. Þar liggur línan. Hryðjuverkamenn líta á lýðræði og umburðarlyndi sem veikleika.

Lýðræðið og frelsið sigraði einræðið í heimstyrjöldinni 1939-1945 (World War II) 
- sem við Íslendingar nefnum í bjartsýni okkar "Seinni Heimstyrjöldina".  

Það er þess virði að kíkja á myndina - hún er um korterslöng og hana má skoða hér


Dagur í lífi Ívans Denisovitsj - Píslarsaga Krists

Sumum finnast Passíusálmarnir og píslarsagan vera niðurdrepandi. Ég er ekki sammála því. Við megum alveg minna okkur á hvað við höfum það í raun gott og hve lítilvæg mörg dægurmálin eru í raun.

Einu sinni þegar ég var í menntaskólanum lá ég veikur fannst ég eiga ósköp bágt. Þá var ég svo heppinn að fá í hendur bókina Dagur í lífi Ívans Denisovitsj eftir Solzhenitsyn. Sagan gerist í Gúlaginu í Síberíu. Af lestrinum varð mér ljóst að veikindin mín voru ekkert vandamál miðað við venjulegan dag hjá Ívan og félögum hans.

Passían minnir okkur á hvað við höfum það gott. Og það er gott.


Passíusálmar séra Hallgríms

Ég mæli með lestri Passíusálmanna fyrir trúaða sem vantrú-aða. Séra Gunnar Björnsson í Selfosskirkju hefur haft veg og vanda að árlegum lestri þessara lykilsálma íslenskrar tungu á Föstudaginn langa ár hvert. Nú í ár fékk að vera með sem lesari og fékk í minn hlut 8.  - 10. sálminn, en margir góðir lesarar voru í dag svo sem eins og Árni Valdimarsson, Ólafur Helgi sýslumaður og svo Séra Gunnar sjálfur.

Læt 9. sálminn fylgja í tilefni dagsins:

9. sálmur: Um flótta lærisveinanna

1
Þá lærisveinarnir sáu þar
sinn herra gripinn höndum
og hann af fólki verstu var
vægðarlaust reyrður böndum,
allir senn honum flýðu frá,
forlétu drottin hreinan
í háska einan.
Að svoddan skulum við, sál mín, gá.
Sjáum hér lærdóm beinan.

 

2
Án drottins ráða er aðstoð manns
í öngu minnsta gildi.
Fánýtt reynist oft fylgið hans,
sem frekast hjálpa skyldi.
Hver einn vill bjarga sjálfum sér,
ef sýnist háskinn búinn
að hendi snúinn.
Far því varlega, að fallvölt er
frænda og vina trúin.

 

3
Í sama máta sér þú hér,
sál mín, í spegli hreinum,
að hryggilegar sé háttað þér
en herrans lærisveinum.
Þeir höfðu leyfi lausnarans
lífi að forða sínu
frá sárri pínu,
nauðugir misstu návist hans.
Nú gæt að ráði þínu.

 

4
Hvað oft, Jesú, þér flúði eg frá
frekt á mót vilja þínum,
þá glæpaveginn gekk ég á,
girndum fylgjandi mínum?
Forskuldað hafði eg fyrir það
flóttamaður að heita
til heljar reita.
En þú virtist mér aumum að
aftur í miskunn leita.

 

5
Einn varstu, Jesú, eftir því
í óvina látinn höndum,
einn svo ég væri aldrei í
eymd og freistingum vöndum.
Allir forlétu einan þig,
allt svo mig hugga kynni
í mannraun minni.
Ég bið: Drottinn, lát aldrei mig
einsamlan nokkru sinni.

 

6
Lærisvein, sál mín, sjá þú þann,
sem Jesú eftir fylgdi.
Ranglát ungmenni ræntu hann,
rétt nakinn við þá skildi.
Bersnöggur flótti betri er
en bræðralag óréttinda
í selskap synda.
Ávinning lát þig öngvan hér
í þeirra flokki binda.

 

7
Burt þaðan Jesúm færði fljótt
flokkur illræðismanna.
Lamb guðs saklaust, þá leið að nótt,
leiddu þeir til kvalanna.
Miskunnarlaus sú meðferð bráð
mér virðist eftir vonum;
í náttmyrkrunum
þeir hafa bæði hrakt og hrjáð,
hrundið og þrúgað honum.

 

8
Í dauðans myrkrum ég, dæmdur þræll,
dragast átti til pínu,
en þú tókst, Jesú, son guðs sæll,
saklaus við straffi mínu.
Þanninn til bjóstu ljóssins leið
ljómandi sálu minni,
þó líf hér linni.
Andlátskvölum og kaldri neyð
kvíði eg því öngu sinni.

 

9
Hröktu því svo og hrjáðu þig,
herra minn, illskuþjóðir,
hér svo nú bæru á höndum mig
heilagir englar góðir.
Mæðusöm urðu myrkrin þér,
mæta létu þig hörðu
og hindran gjörðu,
guðs dýrðar ljós svo lýsi mér
á lifandi manna jörðu.

 

10
Kvalaför, Jesú, þessi þín,
sem þá gekkstu einu sinni,
veri kraftur og verndin mín,
svo veginn lífsins ég finni.
Lát ekki djöful draga mig
í dofinleik holdsins blinda
til sekta og synda.
Ég bið af ást og alúð þig
ákefð hans burt að hrinda.

mbl.is Vantrúaðir spila bingó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

CCTV á RÚVTV

Sá í kvöld myndskeið frá ríkssjónvarpi Kína þar sem yfirvöld telja sig sanna sekt Tíbeta í Tíbet.

Ríkissjónvarpið í Kína heitir "China Central Television" skammstafað CCTV.
Þar er boðið upp á ýmsar sjónvarpsrásir eins og CCTV1, CCTV2, CCTV3 og fleiri.

CCTV er skammstöfun á vesturlöndum og merkir "Closed Circuit TV" eða eftirlitsmyndavélakerfi á venjulegri íslensku.

Tilviljun eða hvað?


Boðskapur Palla - boðskapur jólanna

Vinsælasta lagið fyrir jólin 2007 er sennilega "Betra líf" eftir Pál Óskar Hjálmtýsson. Textinn vakti hjá mér sterkar tilfinningar enda er ég viss um að hann er einlægur.
Mér finnst boðskapurinn í þessu lagi eiga vel við rétt fyrir jólin þegar efnishyggjan og boðskapur frelsarans takast á um athyglina. - Leyfi mér að birta textabrot hér á Þorláksmessu:

Svo lít ég bara í kringum mig og sé
alla þessa fegurð nærri mér
Ég tók því sem gefnu
en staldraði aðeins við

Ég er á réttum tíma á réttum stað
Hverjum get ég þakkað fyrir það ?
Ég opnaði augun
og hjartað

Fann á ný betra líf
af því ég fór loks að trúa því
að það væri eitthvað annað
eitthvað meir og miklu stærra

en allt sem er

Hvort sem það er stórt eða agnarsmátt
ég skynja einhvern meiriháttar mátt

Ég þarf enga sönnun
ég finn og veit og sé
Með allri sinni þekkingu og fé

aldrei gæti maður skapað tré
ég opnaði augun og hjartað

Fann á ný...
...betra líf


Styrkir sögulegan bakgrunn Krists

Þetta er afar merkur fundur og vonandi byggður á traustum grunni. Það er með ólíkindum að þetta geti fundist svona 2070+ árum síðar. Það er út af fyrir sig merkilegt þegar sögulegar minjar varðveitast en Jerúsalem hefur verið í brennidepli síðustu 2000 árin og því með nokkrum ólíkindum að þetta hafi uppgötvast núna. Verður fróðlegt að heyra hvernig þetta hefur sannast. Margir efast um tilvist Jesú Krists, en fjölmargt í Nýja Testamentinu samræmist sagnfræðiskoðunum og fornleifafundum. Vísindum. Tómas efaðist þar til hann fann. Sama er að segja um margan manninn.

Í Biblíunni er einna oftast talað um Jerúsalemborg en ef mér skjátlast ekki er Babýlon næst oftast nefnd af borgum þar á eftir. Bagdad er í raun arftaki hinnar fornu Babýlon. Það er svo undarlegt að nú á 21. öldinni eftir Kristburð eru þessar borgir enn þær tvær sem mest er um ritað. Nú í dagblöðum og á Netinu.

Þetta sýnir kannski hvað er erfitt stundum að finna það sem er fyrir framan fólk alla daga.


mbl.is Gröf Heródesar fundin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

GSM ritskoðun í Íran: Netlöggan komin í farsímana...

Stjórnvöld í Íran hafa fyrirskipað ráðuneyti fjarskiptamála að kaupa búnað til ritskoðunar á MMS skeytum. Tilgangurinn er að fólk geti ekki "misnotað MMS með ósiðlegum hætti og til að forðast félagsleg vandamál" eins og það er orðað.

Ekki fæst uppgefið hvað átt er við með "ósiðlegt" en ætla má að þessi tilkynning eigi jafnframt að hafa fælingarmátt svo fólk sé fullmeðvitað um ritskoðunina á farsímum og þori síður að segja skoðanir sínar á stjórnvöldum með skilaboðum. - Svona er nú það.

Reuters sagði frá þessu í gær.

Vetur og sumar frusu saman - á ári gullsvínsins

Vetur og sumar frusu saman og veit það á gott sumar samkvæmt þjóðtrúnni. Persónulega legst sumarið afar vel í mig, en samkvæmt kínverskri talnaspeki erum við á ári Gullsvínsins. Dulspekingar hafa miklar skoðanir á tölum og í sumum fræðum er 7 happatala í öðrum varasöm. 007 hefur verið lygilega heppinn í gegn um tíðina, en 8 og sérstaklega 888 eru happatölur Kínverja. Dagurinn lofar góðu enda fallegur. Á eftir opna kosningaskrifstofur í Árborg og víðar og viðrar vel til opnunar í Tryggvaskála, en það er klukkan 3 í dag sem formleg opnun er.

Þá er 07.07.07 dagsetning sem margir horfa á, en slíkar dagsetningar eru eðli máls samkvæmt aðeins 12 á öld

01.01.. 2001
02.02. 2002
03.03. 2003
04.04. 2004
05.05. 2005
06.06. 2006
07.07. 2007
08.08. 2008
09.09. 2009
10.10. 2010
11.11. 2011
12.12. 2012


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband