+6 C

Þessi mynd segir meira en mörg orð. Ég á góðar minningar af Snæfellsjökli til dæmis þegar við tefldum nokkrir saman fjöltefli við Garrí Kasparov í snjónum um síðustu aldamót. Útsýnið á miðnætti í Júní er einstakt af toppi Snæfellsjökuls.

En talandi um hlýnun þá var ég að ljúka við nokkuð magnaða bók; "6 degrees" eftir Mark Lynas (gefin út á vegum National Geographic). Í bókinni eru 6 kaflar sem vísa hver í einnar gráðu hækkun á meðalhita jarðar. Ein gráða hefur einhver áhrif, en allt umfram 2 er talið vera ástand sem við ráðum ekki lengur við. Ástæðan fyrir nafninu "6 degrees" er sú að í líkönum hefur því verið spáð að hitastig kunni að hækka um 2-6 gráður á næstu 100 árum.

Ekki laust við að kuldahrollur læðist um mann við lesninguna....


mbl.is Snæfellsjökull hopar hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfram Selfoss

Það er búið að vera aðdáunarvert að fylgjast með strákunum í 1. deild. Í fyrra unnu þeir sig upp um deild og eru nú fastir fyrir í 2. sæti. Það er greinilegt á spilamennskunni að þeir vilja vinna. Frábær liðsandi og jákvæður.

Í gær var svo Sumar á Selfossi með frábærri stemmningu við varðeldinn. Ég held að fjöldinn hafi aldrei verið jafn mikill enda var veðrið dásamlegt. Þessi hógværa hátíð er einhver sú besta á landinu enda í takt við grasrótina í bæjarfélaginu allt frá morgunverðinum til flugeldasýningar. Mæli með henni.


Ótrúleg seigla

Það er mikil seigla í fasteignamarkaðnum við erfiðar aðstæður. Í Bandaríkjunum hefur fasteignaverð lækkað verulega þrátt fyrir að stýrivextir séu afar lágir. Hér á Íslandi hefur nafnverð fasteigna ekki lækkað þrátt fyrir mjög háa vexti. Það er ljóst að eðli fasteignamarkaðar er nokkuð ólíkt hlutabréfamarkaðnum.

Kannski er það vegna þess að fólk býr í húsunum?


mbl.is Fasteignaverð hækkaði í júlí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ójafnvægi í vöruskiptum - styrkja þarf undirstöður

Vöruskiptahallinn var jákvæður um 2.3 milljarða í júní en nú eru þessar tölur vísbending um verulegan halla upp á 18.2 milljarða í einum mánuði. Þótt vel megi vera að þetta sé ekki viðvarandi tala þá er hún bæði óvænt og veruleg. 


 Vöruskiptajöfnuður 2008
Útflutningur alls fob  41.423206.841
Innflutningur alls fob 39.091231.248
Vöruskiptajöfnuður    2.332-24.407

 

Hallinn á fyrri helmingi ársins var um 24 milljarðar og slagar því þessi hallabúskapur í júlí upp í allan halla ársins hingað til.

Hér eru að togast á ólíkir kraftar þar sem hrávöruverð hefur hækkað og olían ein er að valda miklum búsifjum annars vegar og svo aukinn útflutningur vegna stóriðju. Án þess útflutnings væri hallinn mun meiri.

Það er alveg sama hvort við verðum með íslenska krónu, Evru, bandarískan dal eða norska krónu; alltaf þurfa undirstöðurnar að vera í lagi í hagkerfinu okkar. Vöruskiptahallinn þarf einfaldlega að hverfa og verða okkur í vil. Þetta gerist með því að auka framleiðslu Íslands á ýmsum sviðum. Til þess höfum við alla burði; orku, ungt fólk og vel menntað og litlar skuldir ríkis og lífeyrisgreiðenda.

Nú þarf að ná þjóðarsátt um aukna framleiðslu og bætta framleiðni. Það er eina leiðin til að varðveita og endurheimta kaupmátt fólksins í landinu.  


mbl.is Óhagstæð vöruskipti í júlí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Ragnar, McCain, Obama, Britney og....Móse

Umræða um nýjan forseta hafa verið miklar undanfarið í fjölmiðlum hérlendis. Þó ekki forseta Íslands Ólaf Ragnar Grímsson sem nú var settur í embætti í fjórða sinn heldur kosningabaráttunnar í BNA, en 100 dagar eru í kjördag.

Sumir hafa sagt að ef forsetakosningarnar snúist um McCain, þá muni Barack Obama hljóta sigur. Þeir sömu halda því fram að ef valið verði um Obama verði John McCain næsti forseti BNA. Mikið hefur verið fjallað um auglýsingar McCain sem líkir Obama við Paris Hilton og Britney Spears. Það er ekki síður athyglisvert að sjá auglýsingar McCain þar sem hann líkir Obama við Móse (og jafnvel Messías).

Auglýsingarnar eru ekki birtar í sjónvarpi heldur aðeins á netinu: 


http://johnmccain.com/#tab1
 
Fréttir af þeim rata hins vegar á besta stað í sjónvarp: í fréttirnar.
 
Og svo að sjálfsögðu á youtube.com 

 http://www.youtube.com/watch?v=Id1IKJGVkvg

mbl.is Frambjóðendur hnífjafnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vafamál

Óhætt er að segja að ákvörðun Umhverfisráðherra hafi komið mörgum á óvart. Ófáum hefur þótt Skipulagsstofnun "passa vel upp á vafann" eins og það er orðað, en í þessu máli er ráðherra að snúa ákvörðun Skipulagsstofnunar við og taka ansi viðamikla ákvörðun sem kann að draga dilk á eftir sér.

 Skipulagsstofnun ákvað í febrúar að ekki þyrfti að meta heildstætt umhverfisáhrif af fyrirhuguðum framkvæmdum vegna álvers á Bakka við Húsavík. 

Nú ákveður Umhverfisráðherra að snúa þeirri ákvörðun stofnunarinnar við.

Aðstandendur verkefnisins á Húsavík hafa farið varlega í yfirlýsingar og kosið að vinna verkið faglega. Þeir hafa ekki tekið neinar skóflustungur heldur náð góðri samstöðu heima í héraði. Sveitarfélögin standa saman um þetta mál svo eftir er tekið. Það virðist af þessari frétt að það sé ekki metið þeim til tekna nema síður sé. Það er mikilvægt að alþjóðasamfélagið viti að hverju menn ganga hér á Fróni og ekki sé óvissa um stjórnsýsluákvarðanir.   

Nú er vafinn við völd og óvíst hvenær, hvernig og hvort þessi áform á Húsavík verði.  

Hvað segja þingmenn og sveitarstjórnarmenn Samfylkingarinnar á Norðurlandi? 


mbl.is Undirbúningur skemmra kominn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandi sveitarfélaga

Heimilin í landinu finna illilega fyrir verðhækkunum og kjaraskerðingu um þessar mundir.
Þetta finnum við öll á eigin skinni.

Sveitarfélögin búa við svipaðan vanda þó hann fari hægar.
Þau sveitarfélög sem hafa skuldsett sig í erlendri mynt finna vel fyrir gengislækkun.
Þau sveitarfélög sem eru skuldug í íslenskum krónum verða vel vör við háa vexti og verðtryggingu lána.

Launakostnaður fer ört hækkandi.
Kostnaður við framkvæmdir hefur þegar hækkað mikið enda er vísitala byggingarkostnaðar á hraðri siglingu upp á við.

Og þá erum við ekki farin að tala um mögulega tekjuskerðingu. . .

Hvernig bregðast sveitarfélögin við?

Fyrsta skrefið hlýtur að vera að endurskoða áætlanir.
Forgangsraða svo lögbundnum þáttum og fresta gæluverkefnum.

Eða hvað?


Krónan, Ísland og ESB

Gallar við sjálfstæðan og örsmáan gjaldmiðil hafa komið við marga síðustu mánuði. Krónan hefur tekið mikla dýfu á sama tíma og lánsfjárkreppan og heimsverðbólga skekja undirstöður viðskiptalífsins.

Sveigjanleiki krónunnar er eins og hjá litlu birkitré sem beygir sig undan vindi.
"Sterkur" gjaldmiðill eins og evran er nú er líkara gömlu eikartré.
Með öðrum orðum sagt; Sveigjanleiki eða stöðugleiki.

Lengi vel þóttumst við heppin að hafa náð stöðugleika á Íslandi. Ekki síst eftir þjóðarsáttarsamninga þegar tökum var náð á verðbólgunni. Það kann vel að vera að það sé kominn tími til að endurskoða myntstefnu Íslands og er evran þar einn kosta. Flotgengi krónu er frekar nýlegt eða um 7 ára. Flotgengið hefur tryggt mikinn sveigjanleika, en jafnframt miklar sveiflur á gengi upp og niður. Fyrir daga flotgengis var svokölluð fastgengisstefna sem í raun byggðist á reglubundnum gengisfellingum ríkisins.

Eitt er gjaldmiðill og annað er aðild að ríkjasambandi.

ESB sinnar hafa viljað spyrða gjaldmiðilmálin við Evrópusambandsaðild. Það er ansi sérkennilegt þar sem allar helstu fjármálastofnanir heims sem skoðað hafa Ísland eru sammála um tvennt:

a) Ísland er í vanda til skemmri tíma litið.
b) Ísland er í öfundsverðri stöðu til lengri tíma litið.

Aðild að ESB er langtímamál og eru allir reyndar sammála um að Ísland uppfylli ekki skilyrði myntbandalagsins og ESB uppfyllir ekki kröfur Íslands um yfirráð yfir náttúruauðlindum.
Þá veit enginn hvert ESB stefnir eftir að stjórnarskrá og Lisbon útgáfa hennar voru felldar í af íbúum ESB.

Vandi Íslands verður því ekki leystur með því að fara í ára eða áratugalangt samningaferli.
Vandi Íslands verður reyndar heldur ekki leystur með einu pennastriki þar sem tekin er upp stærri mynt en krónan.
Lausn á efnahagsvanda Íslands verður aðeins unnin með því að jafnvægi náist í öflun fjár og eyðslu.
Ef við ætlum að halda okkar stöðu með kaupmátt, menntunarstig, heilbrigðiskerfi, hagvöxt og lífeyrisstyrk verðum við að halda áfram að byggja upp undirstöður atvinnulífsins.

Kaup og sala á fyrirtækjum eins og bensínsstöðvum og flugfélögum getur ekki verið undirstaða hagvaxtar.

Hagvöxtur næstu áratuga á Íslandi getur byggt á náttúrauðlindum okkar eins og raforkuvinnslu á landi og síðar olíuvinnslu á hafi. Ferðamennsku má þróa á næsta stig. Bankastarfssemi má styrkja með enn betra starfsumhverfi fjármálastofnanna. Orkufrekur iðnaður þarf ekki allur að vera álbræðsla. Þá er enn sóknarfæri að auka framleiðni okkar meðal annars með menntun. Ekki er þetta lítið og þætti mörgum þjóðum sjálfsagt hluti þessa lista vera nóg von og sóknarfæri. Ekkert af þessu fæst með inngöngu í ESB, en krónan mun áfram skapa vandamál fyrir sumar starfsgreinar. Það er því rétt að skoða tækifæri okkar og veikleika með opnum huga í þeirri viðkvæmu stöðu sem upp er komin í efnahagsmálum.

Þau lönd sem standa best í Evrópu eru utan ESB. Ekki veit ég hvort það er orsök eða afleiðing en hvort um sig ætti að vekja okkur til umhugsunar.


Veiðimannaþjóðfélagið

Íslendingar eru sagðir vera veiðimenn - frekar en safnarar. Við erum fljótir að koma auga á tækifærin og svo er róið á miðin.

Ræktendur þurfa að temja sér þolinmæði og forðast miklar sveiflur.

Krónunni er kennt um sveiflur í okkar samfélagi - og vissulega er hún smá og veik - en engu að síður er það morgunljóst að margt fleira sveiflast hjá okkur.

Kannski væri best ef við hefðum aðeins meiri ræktanda í okkur og minni veiðimennsku?


Lán í óláni?

Sjaldan er full samstaða á Alþingi. Þó kemur slíkt fyrir eins og þegar 640. mál 135. löggjafarþingsins var samþykkt með 50 samhljóða atkvæðum í lok maí. 

Um er að ræða eftirsótta heimild ríkisins til að taka erlent lán fyrir 500.000.000.000 kr. Enginn greiddi atkvæði á móti og allir þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu sem voru á staðnum stóðu saman að þessari heimild. - Einhverntíman sögðu ungir SUSarar "skuld í dag eru skattar á morgun".  

Nú hefur verið spurning hvenær lánið verður tekið.

En kannski er réttara að spyrja; hvort lánið verði tekið? 

Kannski er það lán í óláni? 

 

http://www.althingi.is/dba-bin/atkvgr.pl?nnafnak=39288 

  


Sókn er besta vörnin

Ríkisstjórnin hefur boðað sértækar aðgerðir í efnahagsmálum sem snúa að fasteignamarkaðnum. Þessar aðgerðir munu létta undir með fólki til íbúðakaupa og minnka hættu á hruni.

Eins og ég hef margoft nefnt hér moggabloggi er nauðsynlegt að huga að því að stækka kökuna samhliða björgunaraðgerðum í fjármálaheiminum. Lán þarf að borga. Meira að segja þau lán sem eru tekin til að borga eldri lán.

Þessi frétt um djúpboranir er mjög jákvæð. Nú þarf að tryggja frekari undirstöður undir efnahagslífið og þessar fréttir eru hluti af þeirri mynd.


mbl.is 3,5 milljarðar í djúpborun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ávísun á aukna verðbólgu

Hver sem ástæðan er fyrir þessu gengisfalli er ljóst að lækkandi gengi hefur mikil áhrif á verðbólguna. Við flytjum einfaldlega svo margt inn.

Til að styrkja krónuna til langframa - og íslenskt þjóðarbú - þarf að auka útflutningstekjur. Án þeirra dugar skammt að taka lán til að borga lán.


mbl.is Gengi krónunnar aldrei lægra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hann á afmæli í dag - hvað með 200 ára afmælið?

Jón Sigurðsson fæddist árið 1811 á þessum degi og vantar þá aðeins þrjú ár í tvöhundruð ára afmæli hans.
Lýðveldið var eins og allir vita stofnað á fæðingardegi Jóns og í dag höldum við upp á hvoru tveggja.
Jón Sigurðsson var boðberi frelsis og sjálfstæðis. Viðskiptafrelsis sem stjórnmálafrelsis Íslendinga.

Hvernig ætli líði undirbúningi að veglegu 200 ára afmæli Jóns 2011?


Svangur ferðalangur

Það er greinilegt að Ísland er vinsælt um þessar mundir. Ís-birnir fjölmenna og þjóðin fylgist með. Reyndar má búast við enn fleiri heimsóknum á næstunni ef hlýnun eykst. En þetta er víst sá tími árs sem líklegast er að fá þá í heimsókn.

Nú er spurning hvernig móttökur hann fær.
-------------------------
Var ekki umhverfisráðherra að tala um einhverja aðgerðaráætlun?


mbl.is Ísbjörn í æðarvarpi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dularfulla gagnahvarfið

Sífellt berast fréttir af töpuðum gögnum í Bretlandi. Heilbrigðisupplýsingar á diskum hafa týnst á milli stofnanna og svo eru það öryggisskjöl sem núna fundust í lest.

Þegar svo upplýsingar um 25 milljón barnabætur týndust í fyrra baðst Gordon Brown afsökunar. 

http://news.bbc.co.uk/1/hi/uk_politics/7104945.stm 


Nú er það svo að breskir fjölmiðlar er oft vægðarlausir og kannski týnist ekkert minna hjá öðrum ríkjum. Hver veit?
 
Eitt er víst að þetta eru erfiðir tímar hjá Gordon Brown og ekki er dularfulla gagnahvarfið að hjálpa honum.  

mbl.is Fleiri bresk leyniskjöl finnast í lest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sambúð manna og dýra

Það er ekki bara á Íslandi sem sambúð ísbjarna og manna er viðkvæm.

Nú hafa Bandaríkjamenn gert tvennt:

a) Sett ísbirni á lista yfir dýr í hættu vegna lofslagsbreytinga (sem taldar eru vegna CO2)

b) Gefið út heimild til undanþágu vegna olíuvinnslu (sem losar CO2)  

Nú er að sjá hvernig væntanleg aðgerðaáætlun umhverfisráðherra verður hér á Fróni.


mbl.is Mega hrekja ísbirni á brott
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eðli íbúðarhúsnæðis

Þessi hækkun hefur vakið athygli, enda flestir spámenn búnir að spá "kólnun húsnæðismarkaðar" undanfarið.
Reyndar man ég ekki annað síðustu árin en að spádeildir hafi spáð einhverskonar "kólnun".

Hlutabréf stærstu félaga Ísland hafa lækkað sum hver um 3/4 síðustu 12 mánuði.
Á sama tíma hefur vísitala íbúðaverðs hækkað um 3,8%.
Veltan hefur hins vegar snarminnkað. Fólk heldur að sér höndum.

Það sem gerir íbúðarhúsnæði ólíkt mörgum öðrum eignum (eins og hrávöru og hlutabréfum) er að fólk býr í húsunum. Þetta gerir það að verkum að markaðurinn hægir fyrst á sér áður en hann fellur.

Sagan hefur sýnt að fasteignir eru sú tegund eigna sem er hvað tregust til að falla, en það sem gerist er að seljanleikinn verður mikið minni.

Öllum ber saman um að ástandið á húsnæðismarkaðnum er óviðunandi.
Nú reynir á að koma hjólunum af stað á eðlilegan og fumlausan hátt.


mbl.is Fjársterkir menn að kaupa húsnæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SET 30 ára

Í dag er 30 ára afmæli á Selfossi. Afmælisbarnið er SET er einn helsti burðarstólpinn í atvinnulífinu á Suðurlandi og jafnframt eitt merkasta iðnfyrirtæki landsins.

Til að samfagna afmælinu með íbúum og viðskiptavinum var opið hús í gær og svo er vegleg veisla í kvöld.

Ti lukku með afmælið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband