11.5.2008 | 21:37
Blátt áfram
Á Stöð 2 var viðtal við stofnendur samtakana "Blátt áfram" en það eru systurnar Svava og Sigríður Björnsdætur. Samtökin vinna að forvörnum meðal annars með námskeiðum fyrir fullorðna til að fyrirbyggja, þekkja og bregðast við kynferðislegri misnotkun barna. Hveragerðisbær ákvað síðasta haust að taka upp samstarf við samtökin. Sambærileg tillaga var borin upp af minnihlutanum í Árborg nýverið, en var því miður felld af meirihlutanum.
Málefni samtakan varða afar viðkvæm mál, en þau mega þó aldrei liggja í þagnargildi.
11.5.2008 | 11:30
Egill Bjarnason kominn langa leið frá Selfossi...
Egill Bjarnason blaðamaður hefur að undanförnu leyft okkur á Fróni að fylgjast með ferðum sínum um austurlönd. Frásögn hans í morgun er vægast sagt athyglisverð en þar segir meðal annars:
"Hún var fyrr um daginn búinn að vara mig við. Siðgæðisverðir ríkisins gætu verið á sveimi á fjölförnum stöðum. Við yrðum handtekin fyrir að vera - ógift - á labbitúr. Hún þyrfti í kjölfarið að gangast undir læknisskoðun og ef það kæmi á daginn að hún væri spjölluð mey, yrðu mér settir afarkostir. Annað hvort að giftast dömunni eða láta höggva af mér aðra höndina og annan fótinn. Góðu fréttirnar eru að ég fengi að velja hvort það yrði hægri eða vinstri limir."
Mæli með þessu.
10.5.2008 | 16:59
Vor í Árborg III: barnaskór á Gónhóli...
Fórum á Eyrarbakka í hádeginu þar sem temað var "Vorskipið kemur", en lengi vel var Eyrarbakki ein helsta miðstöð viðskipta á Íslandi.
Hittum síungan frumkvöðulinn Árna Valdimarsson af Sigtúnum, en hann hefur haft veg og vanda að því að gera gallerý með meiru við sjávarkambinn í gömlu fiskverkunarstöðinni við Gónhól.
Á Gónhóli stóð fólk áður fyr til að fylgjast með skipakomum, en nú sem fyrr þurfum við margt að sækja yfir hafið. Pósturinn berst talsvert hraðar í dag. . .
Ung stúlka sýndi og seldi haganlega gerða barnaskó með kennimarkinu Tin:a. Listamenn sýndu málverk sem tengdust náttúrunni. Tunnur og varningur setti mark sitt á margt.
Vor í lofti og hátíðin rétt hafin. - Hafið þökk.
10.5.2008 | 16:18
Innbú úr Pakkhúsinu til sýnis (og sölu)
Sveitarfélagið Árborg keypti "Pakkhúsið" til niðurrifs, en það hýsti Pizza 67 og bar. Nú er verið að sýna innbúið og hægt að bjóða í það.
Þessi sýning er ekki á dagskrá hátíðarinnar "Vor í Árborg", en ber þó upp á sama tíma:
8.5.2008 |
Til sölu innbú úr Pakkhúsinu Selfossi/Pizza 67 |
Til sölu innbú úr Pakkhúsinu Selfossi og Pizza 67 Um er að ræða m.a. bar sem áður var á Hard Rock í Reykjavík; pizzaofn, uppþvottavél, ýmis eldunartæki, húsgögn, kæliklefa o.fl. Innbúið verður til sýnis að Austurvegi 2b (Pakkhúsið) föstudaginn 9. maí og laugardaginn 10. maí kl. 14:00 - 16:00 báða dagana. Hægt er að bjóða í staka hluti eða alla í einu. |
Sjá á heimasíðu Árborgar hér
10.5.2008 | 15:14
Joseph Stiglitz og verðbólgumarkmið seðlabanka
Í grein eftir nóbelsverðlaunahafann Stiglitz birtist í Fréttablaðinu í dag, en þar deilir hann í verðbólgumarkmið seðlabanka hemsins.
Eins og menn vita hefur Seðlabanki Íslands verðbólgumarkmið sem lögfest var af Alþingi. Sama á við um margar aðrar þjóðir.
Verðbólga hefur verið lítil síðustu árin í heiminum, en nú er að verða á því mikil breyting. Nú fyrst reynir á verðbólgumarkmið sem aðferð.
Stiglitz vill greina á milli verðbólgu eftir eðli hennar. Í dag er verðbólga helst vegna hækkunar á hrávörum sem margar hverjar eru nauðsynjar. Þeim verður seint stjórnað með stýrivöxtum.
Hvað segir íslenski seðlabankinn um þetta sjónarmið?
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 16:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.5.2008 | 23:18
Vor í Árborg II: Faldarnir lyftust og síðpilsin sviftust
Vor í Árborg fer frábærlega vel af stað og er öllum aðstandendum til mikils sóma. Mikið hefur verið lagt í dagskránna og er eitthvað fyrir alla. Í dag fórum við Dagmar Una með litla-Jón Starkað á sýningu í Húsinu á Eyrarbakka sem nefnist "Faldarnir lyftust og síðpilsin sviftust" og er þar að finna "fágætt safn millipilsa". Hönnuðir sýningarinnar þær Ásthildur Magnúsdóttir og Hildur Hákonardóttir hafa unnið bráðskemmtilega og fræðandi sýningu um óvenjulegt viðfangsefni. Lýður Pálsson safnsstjóri hafði formála að sýningunni og upplýsti gesti um að krónprinspar hafi fengið að skoða hana fyrr í vikunni.
Mæli með þessu.
9.5.2008 | 11:20
Evran í 123 krónur - olían komin í 126 USD!
Krónan er veik í dag. Verðbólguhiti og niðurgangur hlutabréfa fylgja með.
Dísel kostar kannski 200kr á líter síðar á þessu ári.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.5.2008 | 09:31
Rice in Iceland
Ísland stendur landfræðilega á mótum Evrópu og Ameríku. Menningarlega erum við um margt lík báðum álfum. Í utanríkismálum hafa tveir samningar staðið upp úr; EES samningurinn og svo samningur við Bandaríkin um varnir. Við brottför herliðs frá Keflavík hafa menn horft meira til Evrópu varðandi varnir og raunar margir vilja ganga í ESB alfarið.
En hvaða möguleika höfum við?
Sem frjálst haflukt ríki í miðju norður-Atlantshafinu höfum við alla möguleika á að nýta okkur sjálfstæði okkar á mörgum sviðum. Siglingar um norðurhöf, olíuvinnsla í hafinu og fleiri þættir varða legu landsins. Jafnframt getum við tekið upp viðræður um fríverslun við Ameríku í gegn um NAFTA. Það myndi skapa okkur möguleika til framtíðar að selja vörur og kaupa án hafta við báðar stóru blokkirnar sitt hvorum megin við Atlantshafið.
Condoleezza Rice er farsæll ráðherra í umdeildu ráðuneyti George W. Bush. Það er ánægjulegt að fá hana hingað heim.
![]() |
Rice kemur til Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.5.2008 | 00:42
Nargis í Burma verri en jóla-tsunami?
Sífellt berast verri og verri fréttir frá hinu einangraða Burma (Myanmar) sem stjórnað er af herforingjastjórn sem nýtur stuðnings Kínverja. Landið er um 6 sinnum stærra en Ísland, en þarna búa um 47 milljónir manna.
Fyrst voru örfáir taldir af, en mat vestrænna fjölmiðla hefur farið úr hundruðum í þúsundir og tugþúsundir. Nú síðast er óttast að hálf milljón geti farist í þessum miklu náttúruhamförum.
Mikið er rætt um ábyrgð stjórnvalda; einkum tvennt: Aðvarana- og aðgerðarleysi.
Engar aðvaranir voru gefnar út vegna stormsins, en hann myndaði um 6-7m flóðbylgju.
Erlend ríki hafa átt erfitt með að koma hjálpargögnum til Burma vegna herforingjastjórnarinnar.
Ef þetta fer á þann versta veg sem sumir halda, verður þetta enn meira mannfall en af "boxing day" Tsunami sem talinn er hafa tekið með sér kvartmilljón manns. Stór hluti landsins sem er "delta" er horfinn í sæ:
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.5.2008 | 21:38
Vor í Árborg - mannlíf, jaðrakan og hrossagaukar
Hátíðin Vor í Árborg fór glimrandi vel af stað í blíðskaparveðri þar sem gengið var fylktu liði frá Vallaskóla að Sunnuleikjaskóla þar sem hátíðin var sett. Börn og unglingar settu svip sinn á opnunarhátíðina með ljóðalestri, tónlist og fimleikum. Óhætt er að óska öllum aðstandendum til hamingju með upphafði af þessari löngu hátíð. Víst er að bæjarstjóri hefði verið stoltur af hefði hún ekki verið í önnum. Aðstaða til fimleikaiðkunar í Sunnulækjarskóla var formlega tekin í notkun og er til mikils sóma. Þetta var falleg stund.
Þegar heim er komið er vorið fagurt í Tjarnabyggð; jaðrakan í bakgarðinum í tjörn og hrossagaukur sér um tónlistina.
Hátíðin, mannlífið og náttúran iðar af lífi: Það er komið vor í Árborg.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.5.2008 | 13:38
Lúðrasveit verkalýðsins?
7.5.2008 | 09:38
Öld hrávörunnar?
Síðustu ár hafa hrávörur þótt minna mikilvægar en þjónusta og tækni hjá mörgum. Orðið "commodity" hefur gjarnan verið notað víðar en sem hefðbundið samheiti hrávöru.
Dæmi: "...this service is now a commodity". Hér er átt við að viðkomandi þjónusta sé þess eðlis að aðrir geti leyst hana af hólmi án vandkvæða. Hún sé "substitute" þjónusta. "this service has been commoditisised". Vörumerki hafa náð að verða aðalverðmæti sumra fyrirtækja en hráefnið verið minniháttar kostnaðarliður. Þetta kann sumstaðar að breytast.
Nú hefur það gerst að hrávaran hefur snarhækkað í heiminum. Þetta á við um matarhrávöru, málma og olíu, en jafnframt fisk, kol sem og velflest önnur hráefni.
Hvað veldur?
Aðalástæðan sem nefnd er hér í fréttinni er stóraukin eftirspurn.
Hin ástæðan er sú að lágt verð á hrávörum hefur skilað sér í minni framleiðslu og því minna framboði.
Nú er spurningin hvort hrávöruframleiðendur haldi þessari stöðu á næstu árum. Það myndi hafa mikil áhrif á valdajafvægi, auð og fátækt ríkja.
21. öldin hefur oft verið nefnd "Öld Asíu".
Kannski verður hún líka "Öld hrávörunnar"
![]() |
Þriðja olíukreppan komin til að vera |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.5.2008 | 17:20
ESB óskalandið...
Af mörgum má skilja að innganga í Evrópusambandið sé lausn allra mála. Gott ef við megum ekki búast við "Evrópuveðri". Að minnsta kosti er mikið talað um "Evrópuverð" hvað sem það nú þýðir í reynd.
Þegar grannt er skoðað hefur sjálfstætt Ísland öll tækifæri til að lækka tolla.
Ríkið getur lækkað virðisaukaskatt og gjöld.
Krónuna getum við bundið við aðra gjaldmiðla eins og við gerðum á árum áður.
Vexti getum við lækkað eða hækkað.
Þetta getum við gert sjálf. - Hér er valið okkar.
Á hinn bóginn myndum við afsala okkur ákvarðanarétti á auðlindum okkar og gerast aðilar að dómsvaldi og herafla Evrópu.
Vandi okkar leysist ekki með pennastriki - þó það komi frá Brussel.
------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Það er merkilegt að hugsa til þess að fyrir ári síðan sögðu viðskiptamenn að stjórnmálamenn ættu að halda sig frá afskiptum. Nú er ljóst að mikil eftirspurn er eftir úrræðum.
Aðild að ESB er líklegri til þess að takmarka úrræði okkar sem sjálfstæðrar þjóðar.
Er aðild þá lausnin?
1.5.2008 | 23:11
1. maí á Selfossi
Góðum og fallegum degi var að ljúka, en hann byrjaði í Selfosskirkju þar sem ég tók þátt í guðsþjónustunni þennan Uppstigningadag. Um hádegið hitti ég félaga mína í bæjarstjórn og klukkan 2 héldum við óformlegan borgarafund í Tryggvaskála. Deginum lauk svo með kvöldverðarfundi með Illuga Gunnarssyni alþingismanni á efri hæð Kaffi Krúsar. Þar var aðalumræðuefnið efnahagsmálin enda hvíla þau þungt á öllum þessa dagana.
Lítið var um aðra viðburði þennan 1. maí á Selfossi, en þessi dagskrá var bæði hressandi og fræðandi. Hreint ekki slæmt í tilefni dagsins.
Mæli með þesssu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.5.2008 kl. 17:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.4.2008 | 09:55
Grafalvarlegt mál
Þessi hækkun er meiri en árs skammtur á landsins vonda fjanda. Það gagnast lítið að menn bendi hver á annan því í þessari stöðu þurfa allir aðilar að taka höndum saman sem allra fyrst. Keðjuverkun verðbólgunnar þrífst á því að menn standi ekki saman en hækki hver "sem svar" við hinum.
Verðbólgan á Íslandi er nú í tveggja stafa tölu. Þetta er veruleiki sem við verðum að horfast í augu við og bregðast við með öllum ráðum. Verslunarmenn, stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins eiga erfitt verkefni fyrir höndum en ef allir leggjast á eitt er hægt að vinna á þessu.
Verðbólgan á Íslandi er óviðunandi enda grefur hún undan stoðum rekstur fyrirtækja og heimila.
Það sem gerir málið erfiðara er að á sama tíma er lausafjárkreppa og því þarf að fara varlega í að "skrúfa fyrir alla krana".
Það sem hefur líka breyst er að nú er það ekki lengur húsnæðið sem veldur verðbólgu heldur eldsneyti, matur og innflutt vara.
Veiking krónunnar vegur hér þyngst.
![]() |
Mesta verðbólga í tæp 18 ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.4.2008 | 08:20
Haarde og Brown - Bear Stearns mælir með krónunni...
Það er viðeigandi að Geir H. Haarde hitti kollega sinn Gordon Brown, enda eru báðir forsætiráðherrar með sterkan bakgrunn í fjármálum sem farsælir fjármálaráðherrar.
Geir hefur þó vinningin þar sem kemur að menntun þar sem hann er velmenntaður hagfræðingur, en Brown er með doktorsgráðu í sagnfræði.
Umfang fjármálafyrirtækja og banka er mikið í hagkerfum beggja eyjanna.
Báðar halda út sínum gjaldmiðli þó íslenska krónan sé lítil í samanburði.
Báðar þjóðir starfa innan vébanda ESB; við erum í EES og Schengen, en höldum okkar mynt. Bretar eru í ESB, en hafa ekki tekið upp evru og eru utan Schengen.
Breski Seðlabankinn tók talsverða áhættu þegar hann þjóðnýtti Northern Rock. Vonandi kemur ekki að slíkri aðgerð á Íslandi.
Breski Seðlabankinn ákvað nýverið að leggja fram 7500 milljarða í formi skuldabréfa til að greiða fyrir fjárflæði fjármálastofnanna. Þetta hefur sá íslenski gert að einhverju leyti - en í krónum.
Lækkandi skuldatryggingarálag ætti að greiða fyrir auknu fjárflæði, en bankarnir hafa sjálfir verið öflugir að afla sér lausafjár á erfiðum tímum.
Já - og svo er Íslandsvinirnir í Bear Stearns að spá styrkingu krónunnar. . .
21.4.2008 | 10:03
Bloggið og málfrelsið
Netið hefur opnað flóðgáttir fróðleiks og skoðanaskipta. Ekki eru allir ánægðir með það. Alræðisríki takmarka aðgang að netinu, enda er einfaldara að stjórna nokkrum fjölmiðlum en að þurfa að eiga við almenning og skoðanir fólks.
Sem betur fer er málfrelsið almennt virt á Íslandi og mikið um skoðanaskipti.
Höldum því þannig.
19.4.2008 | 20:35
Um forgangsröðun hlutanna..
Í síðustu viku felldi meirihluti bæjarstjórnar Árborgar tillögur minnihlutans um að ræða við kennara um álagsgreiðslur, skoða hagstæða leið með menningarsal og valkost fyrir starfsmenn sveitarfélagsins í heilsueflingu. Allt var fellt af meirihluta V, S og B lista.
Svo lögðum við fram tillögu um að börn og unglingar undir 16 ára fengju ókeypis aðgang að sundlaugum sveitarfélagsins. Það var líka fellt. Loks lögðum við til að haldinn væri opinn fundur með íbúum þar sem bæjarfulltrúar væru fyrir svörum. Tillagan fór veg allrar veraldar. Á sama fundi lögðum við til að salerni barna við Vallaskóla yrðu löguð í samræmi við kröfur velsæmis og ábendingar kennara. Því var hafnað.
Hvað leggur þá meirihlutinn til?
Jú eina tillaga meirihlutans á síðasta bæjarráðsfundi var svo þessi: Að kaupa og reka 2 stykki "ráðhúsreiðhjól" fyrir starfsmenn ráðhússins. Nú hef ég ekkert á móti reiðhjólum, en finnst forgangsröðunin nokkuð undarleg svo ekki sé meira sagt.
Eða hvernig á að útskýra þetta fyrir kennrum sem fá ekki álagsgreiðslur né fund til skýringa, foreldrum barna í Vallaskóla eða af hverju enn sé hækkað gjald í sund.
![]() |
Ráðhúshjól keypt á Selfosi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)